miðvikudagur, desember 20, 2006

Meiddur leikmaður - meiddur þulur?

Hörður Magnússon: "Hann hefur ekki leikið með liðinu frá því á gamlársdag á þessu ári".

RÚV

Var að hlusta á útvarpið í bílnum í morgun. Á Rás 2 var verið að ræða við Jóhönnu Vigdísi fréttamann Sjónvarpsins um nýja bók hennar. Skipti yfir á Rás 1 en þar var verið að ræða við Eirík Guðmundsson, Víðsjármann, um nýja bók hans. Mér heyrðust allir vera á inniskóm.

Meðan þessu vindur fram bíðum við enn eftir að dómur um bókina birtist í Fréttablaðinu.

þriðjudagur, desember 19, 2006

Jólagjöfin í ár?

föstudagur, desember 15, 2006

Halldór á Hyundai

Meira af Framsóknarmönnum: Ég sá Halldór Ásgrímsson á Austurvelli. Hann var á Hyundai bifreið. Halldór varð í öðru sæti í baráttunni um titilinn Maður ársins 2006 í grófum dráttum, en laut í lægra haldi fyrir Geir Haarde. Sjá myndir hér.

Fréttastjóri í kosningabaráttu?

Tek eftir því að Pétur Gunnarsson bregður skjöldu fyrir Björn Inga Hrafnsson í kjölfarið á makalausri framgöngu Binga í Kastljósinu um daginn. Til að verja ráðningar Framsóknarmanna á Framsóknarmönnum, sérstaklega galinni ráðningu á Óskari Bergssyni, formanni Framkvæmdaráðs til að gæta hagsmuna gagnvart Framkvæmdaráði, brá Bingi á það ráð að reyna að gera bæði viðmælanda og stjórnanda umræðnanna tortryggilega í stað þess að svara efnislega. Þessu hefur Gummi gert ágæt skil og verður engu við það bætt hérna.

Mér þótti hins vegar athyglisvert á bloggi Péturs Gunnarssonar að þar kemur fram að Pétur var ritstjóri kosningavefs Framsóknarmanna, Hriflunnar allt þangað til tveir mánuðir voru til síðustu borgarstjórnarkosninga. Þá var hann ráðinn fréttastjóri Fréttablaðsins.

En hversu heilbrigt er að ráða innanbúðarmann í kosningabaráttu eins flokks til að stýra fréttaflutningi blaðs sem á að segja hlutlaust og rétt frá þeim málum sem til umræðu í kosningabaráttunni og ráða miklu um sýnileika frambjóðenda? Ef ég man rétt þá entist Pétur svo ekki í þessari stöðu og hætti stuttu eftir kosningarnar. Skrýtinn leikur hjá Fréttablaðinu.

Nú er reyndar komin upp sú staða að það vantar fréttastjóra á Fréttablaðið og stutt í kosningar. Hver ætli hreppi hnossið?

Við þetta má bæta að á hriflu.is stendur: „Hrifla.is er að fá allt að 4000 heimsóknir og þaðan af meira mánaðarlega sem gerir hana að öflugasta málgagni framsóknarmanna um allt land“. Ætli það þurfi ekki að leiðrétta enda eru Bingi, Pétur og Denni að fá miklu fleiri heimsóknir enda pennaliprir og útsjónarsamir skúbbarar.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Air er að koma?

Hafið þið heyrt að Air og Nouvelle Vague séu að koma til Íslands í mars? Þið hafið heyrt það núna.

laugardagur, desember 09, 2006

Fyndnasta bók ársins


Þegar ég vaknaði í morgun í sigurvímu eftir glæsilegasta útgáfupartí Íslands þá opnaði ég Morgunblaðið og sá þessa fyrirsögn: FYNDNASTA BÓK ÁRSINS. Þvílíkur bókadómur! Mér skilst að svona dómur sé ómetanlegur í bókabransanum. Sendið mér endilega hugmyndir um hvernig er hægt að nota þetta.

Takk fyrir það.

Mig langar að þakka öllum þeim sem komu í útgáfupartíið í gær. Því miður var ég kannski of stressaður við partíhald til að spjalla nógu mikið við alla sem komu en þetta var hrikalega skemmtilegt. Forsætisráðherra, borgarstjóri, tveir fyrrverandi borgarstjórar, tveir risabankastjórar og fullt af öðrum skemmtilegum. Takk fyrir komuna. Þeir sem ekki komust - kaupið bókina, hún fæst í Bóksölu stúdenta, Eymundsson og Hagkaup. Verandi í sigurvímu ennþá, þá býð ég lesendum þessarar síðu að hafa samband og fá bókina á sérstökum vildarkjörum ef þeir koma og sækja í Austurstræti 17. Það gildir fyrir ykkur öll þrjú!

föstudagur, desember 08, 2006

Hvað eru 208 milljónir milli vina?

Vilhjálmur borgarstjóri selur hlut borgarinar í Landsvirkjun á útsöluverði og kaupir jarðarskika af Kjartani Gunnarssyni á uppsprengdu verði. Ég þarf greinilega að ná í hann sem fyrst og selja honum nokkrar bækur! Reyndar sýnist mér öruggara að ganga í flokkinn fyrst.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Neyðarkall eða ekki

Skip sendir frá sér neyðarkall. Björgunarsveitir bruna af stað og bjarga, kannski á elleftu stundu, og allt kátt í höllinni. Þegar Blóðbankinn sendir út neyðarkall, þá er lokað á slaginu þrjú og brjóstgóðum blóðgjöfum vísað á braut, þótt þeir komi kl. 15:03. Lok lok og læs. Neyðarkallinn vant við látinn kannski?

Þetta fannst mér...ja...blóðugt.

Annars hitti ég Guðberg Bergsson í gær og það fannst mér merkilegt, enda merkilegasti núlifandi rithöfundur Íslands, þ.e. Guðbergur. Ég er ekki rithöfundur, heldur forleggjari.

föstudagur, desember 01, 2006

Góður dagur fyrir góð málefni

Í kvöld nær söfnunarátakið sem tengist Rauða nefinu hápunkti. Vonandi gengur það allt saman vel, enda held ég að Íslandsdeild Unicef sé að gera rosalega fína hluti í Gíneu Bissau.

Annað frábært framtak er hjá Sparisjóðnum fyrir merkileg verkefni á sviði geðheilbrigðismála, og í þeirri söfnun kostar ekkert að gefa! Eina sem viðskiptavinir Sparisjóðsins þurfa að gera er að fara á heimasíðuna þeirra og smella við eitt málefni af átta. Þá gefur Sparisjóðurinn þúsundkall til þess málefnis. Svo má maður auðvitað gefa meira, til dæmis með því að hringja í síma 901 1000. Vonandi safnast geðveikt mikið!!