fimmtudagur, mars 31, 2005

Stórmarkaður Framsóknarmanna - samkeppni um besta myndatextann

Tók þessa mynd á leið í vinnunna um daginn. Til að bæta fyrir dauflegt blogg að undanförnu býð ég til samkeppni um besta myndatextann við þessa mynd. Í verðlaun er fréttastjórastaða á Fréttastofu Útvarps.



Mynd009
Originally uploaded by Adler.

Líknarsvelti?

Ég fæ hroll þegar ég hugsa um þetta Terri Schiavo mál í Bandaríkjunum. Blessuð konan er sem betur fer dáin núna en leiðin að því markmiði finnst mér subbuleg, jafnvel viðbjóðsleg. Schiavo málið kristallar í mínum huga átökin milli frjálslyndra viðhorfa og kreddufullrar íhaldssemi. Auðvitað var konan ekki lifandi nema samkvæmt tækniskilgreiningum - en í tæknina, í þessu tilfelli lagatæknina, var sótt aðferðin til að leiða þetta mál til lykta. Í mínum huga hefði verið heppilegra að gera það ekki. Til að binda endi á líf hennar var fundin aðferð sem var mitt á milli frjálslyndi og íhaldssemi. Einfaldast hefði verið að taka allar vélarnar úr sambandi - eða fremja á konunni líknarmorð, en það er harðbannað. Í staðinn var konan svelt til dauða, sem er sérstaklega kaldhæðnislegt því hún fékk hjartaáfall á sínum tíma vegna búlemíu.

Auðvitað er ákveðið tilfinningaklám að rísa upp með harmkvælum þegar heiladauður ameríkani er sveltur til dauða meðan hungur fellir þúsundir manna á dag um víða veröld, en samt er þetta viðbjóður og ekkert annað. Svo sýnir þetta mál líka hvað Ameríkanar geta verið klikkaðir, víla ekki fyrir sér að senda óharðnaða unglinga í rafmagnsstólinn, myrða jafnvel lækna sem stunda fóstureyðingar og hamast síðan í mótmælum og dómssölum til að koma í veg fyrir að heiladauð kona fái að deyja, hvort sem það er rétt eða ekki út af fyrir sig. En að svelta manneskjuna til dauða finnst mér alveg síðasta sort.

miðvikudagur, mars 30, 2005

Leikur ekki sýndur

Hvaða vitleysa er það að sýna ekki Ítalíu-Ísland. Nú finnst mér menn ekki vera sjálfum sér samkvæmir, því nógu mikil voru nú lætin út af leiknum hér heima á sínum tíma: Nylon maður, Nylon og áhorfendamet. Í staðinn verður sýndur leikur með hinu landsliðinu okkar, Englendingum. Það finnst félögunum á Sýn alla vega. England, landslið Íslendingsins sem vill sjá árangur?

Annars fínt að frétta, er búinn að fá formlegt leyfi til að kaupa sumarbústað. Meira um það síðar.

föstudagur, mars 25, 2005

Rokkmúsir 2005

Árið 1995 var stofnaður félagsskapurinn Rokkmúsirnar. Þetta er hljómsveit, en þó ekki band. Hópur drengja sem hefur safnast saman á föstudaginn langa síðustu 10 áriin og tekið upp plötu. Ekki hefur verið fastur mannskapur undir merkjum Rokkmúsanna frá ári til árs. Mér hefur hlotnast sá heiður að taka þátt í starfi Rokkmúsanna síðustu 2 ár en því miður er svo komið að á 10. afmælisárinu féll starfsemin niður og því er ég ekki dauðadrukkinn í kvöl, föstudagskvöldið langa 2005 eins og ég átti kannski von á m.v. síðustu 2 ár. Meginástæðan er sú að burðarásar Rokkmúsanna eru erlendis og minni mýs ákváðu að halda að sér höndum. Menn vonast til að með vorinu verði þó bætt fyrir syndafallið og tekin upp vegleg afmælisplata. Er kannski pælingin frekar að gefa út safnplötu? Vonandi mundu þau lög sem ég hef samið að hluta eða í heild detta inn á safnpötuna: Kraftur í fjöldanum, Heima úti á sjó, Á ég að segja þér satt?, Þú ert með sætan rass eða Ég veit að enginn sér. Hver veit. ég er a.m.k. tilbúinn með næstu tvö lög: Sauður í úlfahjörð og Þessir sjúklegu leikir.

Annars bara heima um páskana til að eiga fyrir Reynimelnum og lánunum. Á morgun fer ég reyndar í trjáplöntunarleiðangur með föður mínum til að gera sumarbústaðalandið hans að Ytri-Skógum vistlegra. Ég ætti kannski frekar að láta pabba fá eitthvað af trjánum sem eru á mínu eigin sumarbústaðalandi á Laugarvatni. Ja, mínu eigin, það fer eftir því hvort stjórn Félags bókagerðamanna samþykki á mánudaginn sérstaka ályktun um að ég megi kaupa sumarbústað í þeirra landi. Það væri ekki amalegt ef maður keypti sér sumarbústað áður en maður keypti sér íbúð. Ekki slæmt.

Horfðum á Hemma Gunn í kvöld. Er Stöð 2 með karokí á heilanum? Idolið þeirra er afkáraleg útfærsla af meðalgóðu Ölveri á miðvikudagskvöldi og svo kemur þetta! Reyndar skemmtilegra en Idolið, því (amk núna) er fagfólk fengið til að syngja. Í Idolinu sitjum við uppi með wannabees frá Kópaskerum þjóðarinnar. Hemmi var flottur, en þarf hann virkilega að hlæja í öðru hverju orði. Hvernig væri hann ef hann væri að segja slæmar fréttir: Heyrðu Kris hihihi stín, hann hahah pah haha bi þi hihhihinn er með hví híhíhítblæði....

Elska ykkur öll. Gleðilega háska.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Franz Ferdinand kemur

Spurningin er hvort að ég verði tilbúinn! Hver ætlar að redda miðum? Ahrg. Hver sponsorerererar tónleikana? Munu snillingarnir í Jakobínarína hita upp? Það finnst mér amk. Gleðilega háska!

þriðjudagur, mars 22, 2005

Tvennt sem mig langar að röfla um

a) Draumleikur
Fórum á sunnudagskvöldið að sjá Draumleik hjá Nemendaleikhúsinu. Þetta er ein magnaðasta leikhúsupplifun í lengri tíma. Reyndar er verkið gamalt og flókið en tekið til nútímans á mjög áhrífaríkan hátt og sviðsmyndin er ein sú alskemmtilegasta sem ég man eftir.

aa) The Life Aquatic With Steve Zissou.
Var búinn að hlakka lengi til að sjá þessa mynd, jafnvel allt frá því að ég sá The Royal Tenenbaums á sínum tíma. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum í Stóra salnum í Háskólabíói. Myndin datt aðeins niður á stuttum kafla en í heildina séð er þetta eitt skemmtilegasta bíó sem ég hef séð lengi. Búningar, karakterar, tónlist og hugmyndaauðgi par exellans.

Annað var það ekki.
Góðar stundir.

mánudagur, mars 21, 2005

Evróvisjón?

Fróðir menn segja mér að Íslendingar ættu að teljast heppnir ef þeir komast upp úr undanrásunum í Eurovision með lagið hennar Selmu. Er ekki týpískt að mönnum finnist lagið fyrst ömurlegt, en síðan þegar nær dregur keppni þá fáum við þjóðernisblindu (þjóðernisheyrnarleysi?) og fílum lagið í botn. Minna má á að Ruslana þurfti að fara í undanrásir síðast og vann svo.

(Kannski mætti koma þessu þannig fyrir að ef við náum ekki góðum árangri í undankeppninni þá fengjum við að einn séns að lokum, og mundum mæta Makedóníumönnum í Kaplakrika eins og í handboltanum.)

Varðandi lagið hennar Selmu og hvort mér finnist það gott eða vont þá get ég ekki svarað því, því ég man ekki hvernig það er þótt ég hafi heyrt það áðan. Ég mundi líklega ekki hringja og gefa því stig ef það væri í einhverri keppni. Mér finnst raunar algjör metnaðarleysi hjá RÚV að hafa ekki almennilega forkeppni. Idol-hæpið sýnir eftirspurnina eftir sviðskeppnum, auk þess sem slík keppni mundi styðja við bakið á þeim sem vilja semja sjálfir og koma sér á framfæri. Við hliðina á þessu konsepti afhjúpast Idol-keppnin sem sykurlegin karókíkeppni á einum hundraðasta af heimsmælikvarða.

Ég hef ákveðið hvaða landi ég gef stig í næstu keppni: Molvaníu. Sjáið endilega þeirra frábæra framlag:

http://www.molvania.com/images/Elektronik_Supersonik.mpg

Lesið meira um þetta athyglisverða land hér: http://www.jetlagtravel.com/molvania/

dæmi: "Although there is no FM-band, pop music can be heard on the AM-band or
the more popular CB-band."

föstudagur, mars 18, 2005

Afnotanefskattur

Eitt sem ég velti fyrir mér með RÚV.

Væri það ekki mjög jafnaðarmannaleg og fín skattalækkun að sleppa þessari innheimtu bara og setja RÚVpakkann inn á fjárlög? Allir mundu sleppa við afnotagjöldin og allir græða jafnt. Það er of mikið af skattalækkunum þar sem þeir tekjumestu græða mest og of mikið af gjöldum þar sem allir greiða jafnt óháð efnahag.

Það verður líka fróðlegt að vita hvort starfsmenn RÚV og fjölskyldur þeirra þurfi að borga nefskattinn, ég er nokkuð viss um þessi hópur sleppi við afnotagjöld eins og það er núna.

Nokkrar hugmyndir varðandi RÚV.

Breyta RÁS 2 þannig að í almennum þáttum sé bara leikin íslensk tónlist. Áhersla á nýmeti aukin.
Breyta RÁS 1 þannig að meiri peningur sé til að gera menningarefni. Ég er samt ekki alveg að kaupa útvarpsleikhúsið, er það ekki svolítið barn síns tíma. Þetta er þó óumdeilanlega spennandi listform: Theatre of the mind. Kannski þarf að endurskilgreina þetta fyrirbæri og gera það framsæknara, en vera ekki að setja upp sígildu verkin og sakamálasögurnar. Hver hlustar annars á Útvarpsleikhúsið? Tja.
Breyta Sjónvarpinu þannig að það verði framsæknarar og styðji betur við bakið á innlendri framleiðslu á leiknu efni, menningarefni, heimildamyndagerð og fréttatengdu efni. Á móti þessu væri skorið niður sýningar á erlendum sápum og jafnvel væri dagskráin stytt.
Breyta yfirstjórninni þannig að þar komi inn nýtt fólk með vit á rekstri og reynslu af stjórnun. Auðun Georg væri örugglega góður útvarpsstjóri.

OK, þetta er kannski ekki fullmótað. Líklega mætti ganga svo langt að það væri bara ein fjölbreytt útvarpsrás og ein góð sjónvarpsrás án auglýsinga. Eða jafnvel sleppa RÚV yfirleitt og nota peningana til að búa til dagskrá sem væri svo útvarpað hjá öðrum miðlum. Þetta gæti skapað grundvöll fyrir meiri fjölbreytni og samkeppni á þessum markaði.

Ha?

Reynum við melinn

Örn Úlfar Sævarsson
Reynimel 39
Hvernig hljómar það?

miðvikudagur, mars 16, 2005

Ályktun!

Man einhver eftir því hver sagði þetta: „Ályktun!“ og síðan kom, jú, ályktun. Hér vildi ég nefna það að mér finnst hún skrýtin, og jafnvel barnaleg, ályktunin hjá félagi fréttamanna sem sögðu sem svo: Komi Auðun Georg Ólafsson til starfa hér sem fréttastjóri þá munum við ekki vinna með honum. Mér finnst vanta nánari útskýringu á þessu. Ætla þeir ekki að mæta? Ætla þeir að mæta en ekki tala við Auðun? Ætla þeir bara að halda sína eigin fréttafundi og ákveða bara sjálfir hvað verður í þeirra eigin fréttum eða hvað?

Það sem þeir eru auðvitað að reyna að er að nota samtakamáttinn til að knýja fram niðurstöðu sem fréttamenn geta almennt fellt sig við. Ef sú niðurstaða, sem nú er uppi, stendur munu einhverjir hætta. Líklegastir eru þeir sem metnir eru hæfastir af öllum nema útvarpsráði. En hinir? Ætla þeir að hætta líka eða bara taka Auðun Georg í silent treatment? Auðvitað væri lang effektívast að þeir sem ætla sér að leita á önnur mið eftir þessa niðurstöðu komi bara fram og leggi starfið að veði: This fréttastofa isn't big enough for the two of us! Þá væru menn bara með skýra valkosti. a) eða b)

Hvort mundi vera betra fyrir fréttastofu útvarpsins að hafa a) Auðun Georg eða b) Óðinn Jónsson, Arnar Pál Hauksson, Friðrik Pál Jónsson og Hjördísi Finnbogadóttur? Svari nú hver fyrir sig.

Vísbending við hinni spurningunni í upphafi röfls: Persónan var í barnabók.

Greind

Hér áðurfyrr var nú alltaf talað um að íslensk börn væru greind og þótt það ágætt. Nú eru hins vegar börn greind með eitthvað, helmingi fleiri börn greind með átröskun (framan á Fréttablaðinu), heimsmet í rítalínsnotkun (Stöð 2). Vandamálin virðast vera flókin, en á sama tíma eru þættir í gangi sem heita Supernanny, þar sem tryllt börn eru tekin og þeim er kenndur agi á einfaldan hátt og engin lyf gefin. Getur verið að tækniþjóðin Íslendingar nenni ekki lengur að díla við hluti sem dót og dóp geta leyst fyrir okkur. Getur verið að sú greining sé rétt að við séum með allt of flóknar lausnir við einföldum vandamálum?

þriðjudagur, mars 15, 2005

Ísfregn

Hafís hefur lagst upp að Röflinu. Með loppna fingur rita ég þessi örstuttu skilaboð til að halda lífsmarki. Hvað er að frétta? Ja, maður spyr sig. Fréttamenn Útvarpsins ætla ekki að vinna með Auðuni Georg og segja Markús Örn ljúga að þjóðinni. Hvað mundu franskir fréttamenn gera? Þeir mundu hneppa Markús í bönd og fara með hann á sendibílspalli niður í stjórnarráð og skila þessum draugi aftur til föðurhúsanna. Útvarpsráð væri grýtt með úldnu grænmeti, nema Pétur Gunnarsson, sem væri hengdur upp á tánum við hliðina á styttunni af óþekkta embættismanninum. Svo væri bara sest niður við hljóðnemann og sagt reyndri röddu: Í fréttum er þetta helst: Afli línubáta hefur verið lélegur, seiðatölur Hafrannsóknarstofnunar benda til þess að....

Nú ætla ég að fara í ræktina að bræða smjör. Af ástæðum sem ég mun kynna síðar var ég staddur í gömlu ræktinni minni í Austurstræti, sem nú stendur auð. Þar fann ég möppu sem allir meðlimir höfðu skrifað markmið sín í. Þetta var gert árið 2001. Þar fann ég mitt eigið nafn á blaði. Þá var markmið mitt að þyngjast. Það vottast hér með að því markmiði hefur verið náð. Og tími til kominn að setja sér nýtt. En mikið sakna ég gömlu gufunnar - í Austurstræti.

föstudagur, mars 11, 2005

Mislestur dagsins

Hjartað tók smá aukakipp þegar ég sá að Taxi Driver væri Disney mynd kvöldsins. Það reyndist mislestur. Myndin heitir bara Tex og ég ætla ekki að horfa á þetta. Einnig finnst mér skemmtilegt að RÚV ætlar í kvöld að sýna myndina söngvakeppnin meðan söngvakeppnin Idol verður á Stöð 2. Ætlar þú að horfa á Söngvakeppnina á RÚV í kvöld?

Mér finnst þetta fréttastjóramál ennþá jafn fáránlegt. Mér finnst fréttamennirnir sem mælt var með, en voru ekki ráðnir vera búnir að leggja töluvert mikið undir núna í þessum slag. Þeim verður því, að mínu mati, mjög illa stætt á því að vinna þarna áfram, nema Auðun Georg höggvi á hnútinn. Verða ekki bara sætaferðir frá RÚV og niður á Fréttablað, í faðm Kára?

miðvikudagur, mars 09, 2005

Blágrænt hjarta grætt í Fréttastofu Útvarpsins?

Stóra stjóramálið á fréttastofu Útvarpsins hefur aldeilis tekið óvænta stefnu. Ég hélt alltaf að það væri grín að framsóknarmenn „ættu“ þann stól, enda gersamlega fáránleg tilhugsun að flokkur með sama styrk og rauðvínsflaska geti valsað inn í þennan fína hóp sem fréttastofan er og skipað einum að setjast og hinum að standa. (Hugmynd að bók: Helmingaskiptin - (XB+XD)/2. Hálfvitagangur í sögu þjóðar.). Reyndar hefur enginn getað sýnt fram á að nýi fréttastjórinn sé framsóknarmaður, og ekki foreldrar hans. Það þurfti að fara upp í afa gamla. Reyndar held ég að það, út af fyrir sig, sé glæpur sem næstum allir séu sekir um. Að eiga afa eða ömmu í Framsóknarflokknum. Færri eiga þar þó vini.......... Jæja. Nú eru lesendur farnir að hugsa um skútu.

Update
Nú hafa grásprengdu fréttamennirnir sem 34 ára gamli markaðsstjórinn á að segja fyrir verkum skorað á hann að hafna starfinu. Hann gæti svosem gert það. Ég hef fyrir satt að þetta sé mjög klár og skynugur strákur en vont er að mæta til vinnu með svona áskorun á bakinu. Maður getur svo sem reynt að setja sig í hans spor. Sjáum hvað setur. Mig grunar nú helst að hann taki slaginn og muni síðan sanna sig ágætlega í starfi. En ég get alveg ímyndað mér að helstu harðhausarnir á fréttastofunni muni ekki láta bjóða sér þetta, heldur leiti annað. Á Talstöðina, Fréttablaðið, Stöð 2 jafnvel. Jájá. Þetta lagast.

Hvar vinna hinir?

Kvót dagsins
„Ég á marga vini. Einn þeirra vinnur þar sem hann vinnur“.
Auðun Georg Ólafsson, fréttastjóri í viðtali í Sjónvarpinu í kvöld.

PS
Athyglisverð auglýsing í Fréttablaðinu í dag. Læt mig hafa það að pikka hana inn.

ÓSÓTTAR BÚSLÓÐIR
Eigendur búslóða, sem leigðu geymslupláss hjá Baldri Þorleifssyni að Skeifunni 5, Reykjavík, eru hér með hvattir tilað sækja muni sína sem allra fyrst og eigi síðar en 10. apríl 2005.
Búslóðirnar hafa verið fluttar í annað húsnæði og eru hlutaðeigandi beðnir að hafa samband við Eik fasteignafélag hf. vegna afhendingar þeirra.
Eik fasteignafélag hf. ber ekki ábyrgð á búslóðunum og mun ekki bæta hugsanlegt tjón þeirra.
Eik fasteignafélag hf. áskilur sér allan rétt til að láta farga þeim munum sem ekki verða sóttir innan framangreinds frests eða láta selja þá fyrir geymslukostnaði.

Hér er athyglisvert mál í uppsiglingu. Fúlt að koma heim úr námi í sumar og ætla að tékka á búslóðinni hjá Baldri í Skeifunni og þá er EIK fasteignafélag hf. búið að farga öðrum helmingnum og selja hinn...

Stóra fréttastjóramálið

Það eru nokkrar leiðir til að tala um stóra fréttastjóramálið. Hefðbundna leiðin er sú að segja að hér sé klárlega um pólitísk afskipti að ræða, fulltrúar Sjalla og Frammara í útvarpsráði hafi komið sér saman um að mæla með manni sem sé þeim flokkum þóknanlegur. Þar með sé gengið gegn því sjónarmiði að fréttastjóri Útvarps eigi að hafa áralanga, helst áratuga, reynslu af fréttamennsku og eigi að þekkja innviði stofnunarinnar eins og eigin lófa. Flestir munu væntanlega ræða málið á þessum nótum og finnst harkalega gengið framhjá mönnum á borð við Óðin Jónsson, sem sameinar menntun, fréttamennsku- og stjórnunarreynslu auk þess sem hann hefur orðið uppvís að töluverðum metnaði fyrir hönd fréttastofunnar.

Annað sjónarmið er það að það skuli einmitt skipulega leitað að öðrum kandídötum, fersku fólki, sem væri til þess fallið að hrista upp í liðinu á RÚV. Og væri ekki ungur, vel menntaður maður með fjölbreytta reynslu sem hefur búið lengi í útlöndum eins og Auðun Georg Ólafsson akkúrat sá náungi? Færri munu ræða málið á þessum grundvelli.

En hvern á að ráða?

Ég held að hér vegi þungt að menn vilja líklega ekkert breyta neitt miklu hjá Fréttastofu Útvarpsins. Á hún ekki einmitt að vera þessi sígilda vandaða stofnun sem hún hefur verið allt frá stofnun. Ég held að engum hugnist kollsteypur í þessum efnum. Mér finnst einhvern veginn að hingað til hafi allt verið gert rétt þar, þar er hæfileg blanda af greddu og virðingu fyrir umfjöllunarefninu og fullt af mjög kláru fólki sem hefur markað sér sess í eyrum þjóðarinnar. Er þetta akkúrat sá bátur sem menn eiga að rugga?

Mín niðurstaða: Það getur verið gott að fá ferskt blóð inn á fréttastofuna en það þarf ekki að græða í hana nýtt hjarta.

mánudagur, mars 07, 2005

Veit einhver

Hvaða veitingastaðir voru terroríseraðir af okkar vinalega skattrannsóknarstjóra fyrir helgina? Ég man eftir því að ég fékk þennan mann einu sinni í útvarpsviðtal, átti von á stífvirðulegum embættismanni en þegar þessi góðlegi kall birtist í krumpugalla fékk ég hláturskast.

Erfitt ferðalag fram undan hjá félögum mínum í sameinaða Manchesterfélaginu í fótbolta. Ef þeim tekst ekki að skora gegn Crystal Palace, hvernig ætla þeir þá að skora hjá AC Milan? Hef lúmskan grun um að Liverpool verði eina enska liðið til að komast áfram. Væri þó alveg til í að þessu væri öfugt farið.

Allir sáttir annars?

föstudagur, mars 04, 2005

Og svarið er....

Já engin annar en Sverrir Stormsker. Og sá sem gat þetta hefur einmitt yfir að ráða síðustu vísbendingunni sem ég ætlaði að nota. Skoðið þessa

http://www.filmus.is/Apps/WebObjects/Filmus.woa/wa/dp?id=1000229&selectedPictureID=1001914

og fullt af frábærum 80's auglýsingum á www.filmus.is. Til hamingju Don Pedro!

Getraun

Ekki hefur enn borist rétt svar við getraun dagsins í gær. Reyndar benda undirtektir ekki til þess að margir hafi hugmynd um skáldið og því er hér gefin sú góða vísbending að viðkomandi höfundur er Eurovisionfari. Ljóðið er úr auglýsingu þar sem látið heljarmenni kemur er stór þáttakandi í atburðarásinni. Koma svo, þetta er ekkert mál.....fyrir....

Úrvals textagerð

Rakst á þennan textabút á makki.is. Þetta er fræbærlega orðað og lýsir ansi vel stemmningunni í Apple hópnum gagnvart hinum týndu sauðum sem eru þó í miklum meirihluta tölvunotenda. Njótið vel:

Þegar Apple hefur kynnt nýja afurð líður venjulega ekki á löngu áður en hugmyndasnauðir PC framleiðendur reyna að gera eftirlíkingar. Nú er það Mac mini hönnunin sem er að feta sig inn í myrkviði PC iðnaðarins. Komin er frumútgáfa frá Intel úr plasti sem er ekkert annað en dapurleg eftirlíking af hinni vinsælu tölvu frá Apple. Í náinni framtíð munum við væntanlega sjá eitthvað fyrirbrigði með t.d. heitinu Mini Dell. En þetta breytir engu. Slík tölva mun aldrei innihalda það eftirsóttasta, nefnilega Mac OS X stýrikerfið og önnur forrit frá Apple. Þeir sem munu láta glepjast og kaupa slíkar eftirlíkingar verða áfram í miðstýrðri myrkraveröld, veirusýkinga og almennra leiðinda þrátt fyrir umbúðirnar.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Menn drekk'ann úr bala

Hér getraun dagsins: Hver orti þetta á níunda áratugnum?

Einn er sá drykkur sem aldrei mun dala,
svo déskoti góður, menn drekk'ann úr bala.
Auðvitað vita allir um hvern ég tala.
Það er ekki um annan að ræða en Svala.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Pass á Passat

Bíllausi mánuðurinn er hafinn. Í dag skilaði ég inn bílnum sem ég hafði í gömlu vinnunni. Þar með hófst nýtt tímabil þar sem við ætlum að prófa að lifa af án einkabíls. Við reiknum með að gefa þessari tilraun í það minnsta mánuð. Kemur í ljós hvort við höldum þetta út. Passatinn var góður bíll, full stór, en afar góður. Ég mæli með Passat. En nú er ég laus við kvikindið og legg allt mitt traust á hægri, vinstri, strætó og Hreyfil-Bæjarleiðir. Á morgun fæ ég svo lánaðan bíl hjá Pabba í nokkra daga meðan þau renna sér niður ítalskar brekkur í átt að bjór og grappa.

Svo opnar Ólafur Ragnar bráðum nýju skíðalyftuna í Bláfjöllum. Þá verður nú aldeilis gaman að skella sér á skíði, hoppa upp í bílinn og bruna í Bláfj.........Hoppa upp í rútu og......Hringja á bíl og........Fjandakornið.

Nei góðir lesendur. Bíllausi mánuðurinn er ekkert grín. Þessu er tekið af mikilli alvöru og líklega mun öllum peningnum sem sparast verða eytt í einhvern klikksturlaðan sportbíl þann 1. apríl. Maður sparar svosem alveg nóga peninga til að bjóða konunnni á Stuðmannaballið í Konunglega Albertsinnganginum í Lundúnum. Fun fun fun fun, íslenskt fönn. Ekki slæmt.

Var að heyra góða hugmynd í dag, að byrja að framleiða sjónvarpsþætti þar sem búið væri að skrifa samtölin daginn áður eða eitthvað svo það væri ekki alveg svona mikið bull og vitleysa í gangi. Ég held ég sé raunverulega farinn að hata raunveruleikaþætti. Í gær var boðið upp á fólk að æla paprikusúpu annars vegar og hins vegar spikfeitt fólk að troða hvort öðru inn um glugga á bíl. Reyndar var líka boðið upp á mann í súrmjólkurbaði, sem var hilarious. Sami maður reyndi svo að hoppa af trampólíni ofan í ruslafötu.

Ég á síðasta Ørninn á spólu, ætla að treina mér hann örlítið lengur. Tók áðan á leigu spóluna The Corporation. Ætli ég smelli henni ekki snöggvast í tækið.

Hvenær ætli ég þurfi að vakna til að ná því að labba í vinnuna? Let's find out!

þriðjudagur, mars 01, 2005

Sé heimsfrægð í húfi...dægurlag dagsins

Þetta er spurning um stund og stað
og ég get fullvissað þig um það.
Ef við missum ei trúna
þá munum við núna
meika það!

Því sá sem leggur ei undir
Hann verður bara undir
og verður af frama og frægð
en hvað er til ráða?
Við kýlum bara á það,
með röggsemi, reynslu og slægð.

Þegar neyðin er stærst,
þá er hjálpin hendi næst,
og ef við leggjumst á eitt;
þá stöðvar okkur ekki neitt!

Allar alvöru grúbbur
Nota eingöngu loopur
Sé heimsfrægð í húfi
skal hugað að grúvi
og hugleiða þetta tvennt.

Vatnsmýrin

Fjallar glæpasagan Mýrin eftir Arnald Indriðason ekki um landsbyggðarfólkið sem stal Vatnsmýrinni í Reykjavík? Ef það er rétt að Vatnsmýrin sé 200 milljarða virði þá hljóta að vakna slíkar spurningar. Er einhver t.d. búinn að verðleggja landsbyggðina? Er hún e.t.v. minna en 200 milljarða virði? Það er hægt að gera ýmislegt fyrir 200 milljarða. Árni Johnsen gæti t.d. lagt 12 göng til Eyja, þótt aðrir gætu etv. bara lagt 6 eða 7. Hægt væri að kaupa Chelsea liðið eins og það leggur sig og hleypa smá lífi í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn. Upplagt væri að Chelsea deildi leikvangi með Val á Hlíðarenda.

En svo eru einhverjir sem vilja spandera þessum 200 milljarða verðmætum Vatnsmýrarinnar í byggingar. Sumir vilja byggja hátt, aðrir lágt. Sumir vilja skipuleggja byggðina í litlum sneiðum, aðrir alla í einu. Allt er þetta vitleysa. Það segir sig sjálft að ef Vatnsmýrin er 200 milljarða virði, þá hefur enginn efni á að búa þar.