mánudagur, maí 30, 2005

Um helgina

Áttum skemmtilega helgi, við gítarslátt og glaum, í bústaðnum á Laugarvatni. Við fengum óvæntan gest og þá þótti okkur upplagt að smella af eins og einni mynd.


gaman
Originally uploaded by Adler.

Fíflabani

Samstarfsmaður minn er í þessum töluðu orðum að hringja í alls konar búðir til að athuga hvort þeir eigi fíflabana. Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds. Ég ætla ekki vera svo mikið fífla að snúa baki í hann næstu daga.

Gott framtak hjá Fréttablaðinu að rannsaka bankasöluna. Sé að menn berja sér á brjóst og guma sig af því að hafa gefið blaðakonu nægilegt svigrúm, væntanlega nokkra daga, til að skrifa svona ítarlegan greinaflokk. Menn ættu að fara sparlega í að hrósa sér of mikið, ef metnaðurinn væri alveg í lagi þá hefðu menn átt að spandera einum degi í viðbót til að setja þetta almennilega upp. Það nennir voða fáir að lesa svona ítarlega langhlemma. Það vantar svolítið klárari digest í þetta, þrátt fyrir góða viðleitni og víðtæka efnisöflun. Fyrst það var búið að leggja svona mikla vinnu í þetta af hverju þá ekki að gefa sér ögn af tíma með grafíker til að gera þetta brilljant?

Var að kaupa miða á Anthony and the Johnsons. Kostaði 4500 kall stykkið: Ergo fíflabani?

föstudagur, maí 27, 2005

Þýðing dagsins

Lít kátur um öxl (Oasis)

Ef treðst þú inn hugar heima
Veistu að þeir hafa að geyma
Betri rólu-völl.

Þú hefur ei að þar sest
En hefur þó séð þau flest,
sem hægt nú hverfa öll

Í bæli starta uppreisn, held ég nú.
Því til höfuðs mér steig heilinn, segir þú.

Drullast’u út í sumargleði og grín
Rístu upp frá kamínunni
þurrkaðu glottið af grímunni
Því þú munt aldrei geta brætt mitt hjart....a

Sól Salvör er ein
hún bíður, of sein
er við göngum framhjá
Sál hennar svífur á braut
En líttu um öxl með gleði,
hún á mig skaut

Taktu mig með þér upp í sveit
þar sem enginn veit
mun á dag og nótt

Þinu lífi getur ei treyst
fyrir Oasis þú veist
þeir klúðra því mjög fljótt.

Í bæli starta uppreisn, held ég nú
Því til höfuðs mér steig heilinn, segir þú

Drullast’u út í sumargleði og grín
Rístu upp frá kamínunni
þurrkaðu glottið af grímunni
Því þú munt aldrei geta brætt mitt hjart....a

Hún Salvör er ein
bíður, of sein
er við göngum framhjá
Mín sál svífur á braut
En horfðu um öxl með gleði,
hún á mig skaut

Hún Salvör er ein
bíður, of sein
er við göngum framhjá
Mín sál svífur á braut
En horfðu um öxl með gleði,
Já, ekki með ógeði
Hún á mig skaut
Hún er vog en ég er naut.

Orri


20050510171415_2
Originally uploaded by Adler.

Tómt blogg

Ætlaði að blogga en er bara alveg tómur. Þegar ég fattaði það ákvað ég í staðinn að hella úr skálum reiði minnar, en viti menn. Þær voru tómar líka.

Upplifði athyglisvert móment í gær í samkvæmi þar sem ég var á spjalli með Jóni Ólafssyni og Gísla Marteini - fattaði að ég var að spjalla við atvinnumenn, vantaði bara Egil Helgason, það hefði nú verið spjall í lagi, nokkurs konar meta-spjall.

Sá svo Stefán Hilmarsson og Hildi Völu syngja Líf í dúett. Það var líka athyglisvert.

Nú er ég að hlusta á Fjólublátt ljós við barinn. Af hverju fjólublátt? Maður getur skilið að það sé fjólublátt ljós á klósettinu á Hlemmi, en af hverju vill Þorgeir Ástvaldsson fjólublátt ljós við barinn? Svo menn séu ekki að sprauta sig þar og kaupi frekar bjór?

Alveg tómur gaur að blogga hérna. Lifið heil um helgina og gangið um gleðinnar.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Íslensk myndlist

Þessi mynd lýsir ágætlega því ástandi sem sumir telja að einkenni íslenska myndlist


3cb5da7acc7fa5c
Originally uploaded by Adler.

miðvikudagur, maí 25, 2005

Úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni?

Í kvöld? Hverjum er ekki sama? Er þetta Meistaradeildin í borðtennis?

Allt á fullu. Allt að gerast. Allir á Listahátíð.

þriðjudagur, maí 24, 2005

Star Wars

Er ennþá að velta fyrir mér Star Wars. Revenge of the Sith. Veit ekki alveg hvað ég á að segja um þessa mynd. Sveiflast á milli. Líklega hefur þetta með tvíhyggju að gera. Ég sé þessa mynd bæði með augum barns og fullorðins. Ætli ég verði þá ekki að svara eins og unglingur. Ógissla góð.

Dylan dagurinn

Dylan dagurinn er í dag. Kappinn fæddist 24. maí 1941.

Af því tilefni er birt kvæðið "As I went out one morning" af plötunni John Wesley Harding frá árinu 1967.

As I went out one morning
To breathe the air around Tom Paine's,
I spied the fairest damsel
That ever did walk in chains.
I offer'd her my hand,
She took me by the arm.
I knew that very instant,
She meant to do me harm.

"Depart from me this moment,"
I told her with my voice.
Said she, "But I don't wish to,"
Said I, "But you have no choice."
"I beg you, sir," she pleaded
From the corners of her mouth,
"I will secretly accept you
And together we'll fly south."

Just then Tom Paine, himself,
Came running from across the field,
Shouting at this lovely girl
And commanding her to yield.
And as she was letting go her grip,
Up Tom Paine did run,
"I'm sorry, sir," he said to me,
"I'm sorry for what she's done.

mánudagur, maí 23, 2005

DVaggalútur?

Af baksíðunni á DV í dag má ráða að blaðið hafi sameinast Baggalúti. Það er ágætt, minnkar alla vega eitthvað vitleysuna í blaðinu.

Prentvilla eyðileggur frétt um flugvél

Frétt um CIA flugvél. Flugvélina notar CIA til að flytja hryðjuverkamenn frá heimalöndum sínum til þeirra staða í heiminum þar sem pyntingar eru leyfðar við yfirheyrslu á föngum.

Flugvélin er sögð hafa lent á velli í námunda við Stokkhólk í desember árið 2001. Var ætlunin að ná í tvo Egypta sem grunaðir voru um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk í Svíþjóð. Samkvæmt því sem fram kom í þætti á sjónvarpstöðinni TV4 handtók sænska leyniþjónustan mennina og framseldi hún þá í hendur CIA.

Fram kemur að flugmenn og farþegar í vélinni hafi hulið andlit sitt með grímum og klæðst samfestingum. Þeir klipptu fötin af föngunum og tróðu svefnlyfjum í endaþarm þeirra. Að því loknu voru fangarnir klæddir samfestingi með hettu sem huldi líkama þeirra.

Hálftíma síðar flaug vélin áleiðis til Egyptalands


Þetta er massafrétt, nema hvað þessi blessaði Stokkhólkur skemmir dramatíska effektinn.

Eurovision

Uppskrift að sigri í næstu keppni:
Vandamálin sem við þurfum að glíma við, þegar við ætlum að vinna næstu Eurovisionkeppni, er að ekki mega vera fleiri en 5 á sviðinu í einu.

Ég veit hvernig við vinnum þetta.

Sviðið er autt. Páll Óskar svífur inn á sviði í víragræju með klofið á undan og opnar íslenska framlagið með á elektrónískri ballöðu á ensku. Þrjár súperhott gellur í nánast engu, þar af einn kynskiptingur, berja á ruslafötur með sleifum. Mikilvægt er að áhorfendur sjái ekki strax hver bakraddasöngkvennanna er kynskiptingur, það eykur áhuga þeirra. Geir Ólafs kemur upp úr einni ruslafötunni og syngur tryllingslegan viðlagskafla á serbó-króatísku. Páll Óskar hleypur að Geir Ólafs og kippir honum úr jakkafötunum í einum rykk.
Um leið breytist lagið aftur í ballöðu og Páll Óskar syngur. Geir Ólafs hleypur að bakraddasöngvurunum og afhjúpar kynskiptinginn sem kveikir á blysi og flugeldum.

Jahérna

Hvað getur maður sagt. Ég hef aldrei séð Arsenal liðið spila svona lélegan fótbolta - en samt fannst mér allan tímann eins og þeir væru að fara að vinna þetta, og af hverju fékk ekki Van Nistelrooy bara að afhenda þeim bikarinn eins og hann langaði svo mikið til allan leikinn? Ég blæs á allt tal um að þetta sé Glazer að kenna. Sigur Arsenal var blanda af óheppni og hálfvitaskap minna manna. Nóg um ensku knattspyrnuna. Áfram KR.

föstudagur, maí 20, 2005

Að blogga eða ekki að blogga?

Það er efinn. Held ég bloggi bara ekkert í dag. Hafði rétt fyrir mér með gærdaginn. Auðvitað. En í dag hef ég ekki tíma til að velta ástandi heimsins mikið fyrir mér. Ég hef til dæmis engan tíma til að velta fyrir mér leiknum sem ég ætla að horfa á á morgun. Tvö risalið mætast í leik sem skiptir öllu máli, þeir sem tapa eru gjörsamlega búnir að klúðra leiktíðinni, hinir geta verið sæmilega sáttir við sinn hlut eftir veturinn. Þarna munar öllu. Gordon Strachan talar um að ef Man Utd getur lokað á Pires og Cole á vinstri kantinum þá séu þeir í góðum málum. Strachan veðjar heldur á United, sérstaklega ef Henry verður ekki með. Ég hef reyndar fulla trú á að Arsenal geti unnið, á góðum degi hjá þeim finnst mér þeir vera að spila besta fótbolta í heimi. Manchester United á þó hug minn og hjarta og bind ég vonir við að Rooney klári þetta. Í mínum villtustu draumum fer skorar Scholes eftir tilþrifamikið einstaklingsframtak hjá Rooney. En ég hef engan tíma til að velta þessu fyrir mér.

Formannsvalið í Samfylkingunni ræðst á morgun og tekur þá Ingibjörg Sólrún við stjórnartaumunum í flokknum. Össur átti að mörgu leyti snarpari og kraftmeiri kosningabaráttu að mínu mati, en Solla er of sterk fyrir hann held ég. Össur er góður náungi og hefur þrátt fyrir allt náð að styrkja stöðu sína vel og nýtur þess örugglega með einhverjum hætti þótt hann verði ekki formaður. Sollu þekki ég ekki og verður fróðlegt að sjá hvað hún gerir fyrir flokkinn, en ég hef engan tíma til að velta því fyrir mér. Verður Lúðvík varaformaður, eða Ágúst? Það verða aðrir að spá í. Ég held bara að Ágúst ætti að taka þetta. Finnst Lúðvík samt ágætur, styður hann nokkuð göng til Eyja? Göng til Eyja eru svo vitlaus að þau mundu enda í Nýfundnalandi ef af verður.

Eurovision? Kannski ætti ég að fjalla aðeins um það?

fimmtudagur, maí 19, 2005

Kenning

Ég held því fram að Eurovision keppnin verði haldin í Austur Evrópu næstu tíu árin. Þessi balkanvæddu lönd munu ekki láta hana auðveldlega af hendi. Mín spá er þessi: Líklega komumst við ekki upp úr undankeppninni, en ef það tekst þá munum við enda á topp fimm. Semsagt, Selmu mun ganga mjög vel eða mjög illa.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Tilkynning frá Mugison - tónleikar á föstudaginn

Í tilkynningu frá Mugison segir:

Svo spila ég á Föstudaginn í NASA hérna í Reykjavík, veit að þetta er illa
auglýst en það er við engan nema mig sjálfan að sakast, ég er að halda þessa
tónleika sjálfur, bókaði þá fyrir löngu síðan, en hef bara ekki haft tíma
til að massa þá almennilega, þannig að fólk viti af þessu, treysti á þína
hjálp, ertu ekki til í að segja vinum og vandamönnum frá þessu og koma á
föstudaginn, húsið opnar hálf níu og ég spila klukkan hálf tíu, á mínútunni,
lofa, enginn seinkun í þetta skiptið og ekkert upphitunar-atriði, bara
mugitónlist í rúman klukkutíma. Hlakka mikið til og ætla að reyna gera mitt
besta, það er slatti af nýju stuffu í gangi núna ef þú hefur séð mig áður, 2
birds verður tekið einsog það var tekið á túrnum - með myndvarpanum, rúna á
gítarnum og svo verður ný útgáfa af I want you, mun sennilega reyna að spila
murr murr sjálfur, sem er nú alltaf soldið fyndið.. og fleira og fleira, er
jafnvel að pæla að taka I´m on fire sem ég geri nú eiginlega aldrei lengur
af því að það eyðileggur í mér röddina og ég get eiginlega ekki sungið í
nokkra daga eftir það... humm, kannski ekki gáfulegt þar sem ég flýg til
London föstudags nóttina og spila þar Laugardag og Sunnudag. Jú ég tek I´m
on fire, láttu alla vita og mæta tímanlega, þetta verður massagaman. 500kr
inn. Forsala 12 Tónum og Nasa

Rán um hábjart kvöld

Þessi orð lýsa leiknum í gær vel. Mér fannst ég vera rændur 1200 krónum fyrir aðgöngumiða að einum lélegasta fótboltaleik sem háður hefur verið eftir að ákveðið var að hafa ellefu manns í liði og bannað að nota hendurnar. Svo rændi KR stigunum í lokin og var það eini ljósi punkturinn á þessu dæmi. Kasper, Jesper og Jónatan hefðu gert sér annað stigið af tveimur að góðu en að fara heim með öll þrjú í farteskinu var fáránleg upplifun og KR ætti að skammast sín fyrir þennan slaka leik. KR er dautt. Lengi lifi KR.

þriðjudagur, maí 17, 2005

Pistlakynslóðin

Allt í einu lifum við á tímum þar sem meira framboð er á pistlum en eftirspurn. Með pistli á ég við stuttar og gagnorðar umfjallanir um málefni dagsins þar sem þau, og þú, eru skoðuð frá einu ákveðnu sjónarhorni. Pislar hafa tíðkast gegnum tíðina í erlendum dagblöðum en eiga ákveðið blómaskeið hér og nú. Og vandinn er sá að greina skrautblómin frá arfanum. Netsprengjan með blogginu er að sönnu stórtækasta breytingin í þessum efnum, þar sem ég stend mig að því að lesa allt að 25 pistla á dag. Útvarpið kemur líka sterkt inn og veit ég fátt betra útvarpsefni en góðan pistil. Einhvers staðar sá ég pistil þar sem helstu pistlahöfundar voru bornir saman, en það var einhvern veginn ekki að gera sig. Það þyrfti góðan pistlahöfund til að gera þessari þróun skil, greina (bókmenna?)formið skipulegar en gert er hér að ofan. Svo mætti stofna heimasíðu, til dæmis pistill.is, þar sem einhver heldur utan um bestu pistlana hverju sinni, menn mundu, koma með komment, gefa einkunn etc. etc ad nauseam. Reyndar gerir netið þetta svolítið fyrir okkur því góðir pistlahöfundar vísa hver á annan. Þannig er netið eins kona meta-pistill, nema hvað Röflið vísar aldrei neitt. Ég er svo barnalegur að mér finnst vera einhver dónaskapur í að vísa fólki svona frá sér. Komi þeir sem koma vilja og svo framvegis. Nú er ég farinn að bulla.

Að myndlist:
Nú stendur yfir Listahátíð með áherslu á myndlist. Ég fletti Morgunblaðinu í morgun í leit að helstu tíðindum. Hvað finn ég? Jú á blaðsíðu 6 er fyrirsögnin „Algjört listaverk“. Var greinin um List-flug myndlistarelítunnar? Rúnk-verk Barneys fyrir norðan? Ælan hennar Gabríelu? Óreiðan hans Dieters? Nei. „Þetta er algjört listaverk“ segir Árni Halldórsson skipstjóri á hvalaskoðunarbátnum Níelsi Jónssyni um gríðarstóran borgarísjaka í mynni Eyjafjarðar. Þetta finnst mér svolítið fyndið. Meðan þjóðin hneykslast á óskiljanlegum gjörningum og gallsúrum myndverkum hringinn í kringum landið þá kemur náttúran sjálf með eitthvað sem menn eru til í að kalla „Algjört listaverk“. Listamennirnir sjálfir hljóta að staldra við og spyrja sig áleitinna spurninga. Kannski birtast svo svörin í myndverki, tja til dæmis ælandi sjómaður að rúnka sér á ísjaka?

Það skiptust á skin og skúrir í prýðisveðri í Arnarhreiðrinu um helgina. Góðar stundir áttar og ýmsu komið í verk. Meira er þó ógert og verður gert seinna. Eða þannig. Góðar stundir.

föstudagur, maí 13, 2005

Hvitasunnuhelgin

Nú fá menn frí á mánudaginn, trúaðir jafnt sem trúlausir, vegna þess að postularnir fylltust heilögum anda um árið. Ekki slæmt. Reyndar gerðist það á sunnudegi, en samt er frí á mánudegi, skrýtið. Ekki var frí á mánudegi t.d. þótt 1. maí hafi verið á sunnudegi. Reyndar verður 17. júní næst á föstudegi sem bætir ágætlega fyrir það.

Fór í gær og keypti mér verkfæri. Kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn sem það er gert. Nú á ég klaufhamar og risastóra bogasög úr Europris. Planið er að saga og smíða uppi í bústað um helgina og mála síðan. Sögin mun einnig koma sér vel þegar kemur að því að fella tré og gera þetta svolítið huggulegt. Trén verða svo söguð í búta og brennd. Ennfremur hefur verið keyptur gaskútur. Vonandi passar hann í gasofinn svo hægt sé að sitja úti á palli í vorkvöldssvalanum um helgina. Allt þetta, bara út af því að einhverjir jólasveinar fengu yfir sig heilagan anda og töluðu tungum fyrir næstum 2000 árum síðan. Að hugsa með sér....

miðvikudagur, maí 11, 2005

Veitingarýni - Fjólublái laukurinn

Það er hlýlega tekið á móti manni á nýja skyndibitastaðnum Purple Onion í Hafnarstrætinu. Vissulega ekki tauservíettur á borðum en samt fín stemmning í húsinu. Þetta er nýtt innlegg í skyndibitaflóru bæjarins og er það vel. Matseðillinn er fábrotinn en athyglisverður fyrir þær sakir að hann sameinar arabíska og rússneska matargerð. Vissulega ekki vodka og kavíar, en samt....Sá sem þetta ritar valdi sér Shawarma platta, sem er shawarma kjúklingur grillaður í þunnu brauði með mozzarella osti og sósu hússins. Brauðið er borið fram stökkt og brakandi með góðu salati og kostar 890 krónur með gosi að eigin vali. Féll þessi réttur vel í kramið ásamt skemmtilegu lesefni sem þar liggur frammi, fréttabréf verslunarinnar Nexus á Hverfisgötu. Var maður í þeim bleðli minntur óþyrmilega á hversu illa maður er úti að aka í fræðum myndasögubókmennta. Ég hlakka til að fara aftur á Purple Onion því þá ætla ég að fá mér rússneskt Pelimeni sem eru djúpsteiktir, eða soðnir, deigboltar með kjöti eða kartöflum. Einnig eru í boði rússneskar pönnukökur og arabískur Sheslhlek kjúklingur, ef ég man rétt. Borðapantanir eru í síma 551 5858.

Átti skemmtilega kvöldstund í gær í sögufrægum hægindastól að Gljúfrasteini í ágætum hópi. Missti af síðari hálfleik asnalegs fótboltaleiks. Hver hefur eiginlega áhuga á þessari ensku deildarkeppni. Það er FA bikarinn sem skiptir máli!

Ríkasta líkið í kirkjugarðinum

Af hverju safna menn auði? Allt í lagi að vera efnaður og hafa það gott, hætta að vinna um fimmtugt. En að deyja með einhverjar fúlgur, skrilljarða í skuldabréfum og hilljarða í hlutabréfum í vasanum er beinlínis kjánalegt, ekki satt? Nema maður ætli að kaupa sér svona: http://en.wikipedia.org/wiki/Video-Enhanced_Grave_Marker

mánudagur, maí 09, 2005

Arnarhreiðrið

Komandi hvítasunnuhelgi mun væntanlega fara í það að fegra Arnarhreiðrið og nánast umhverfi þess með málningu, trjáklippur og svarta ruslapoka að vopni. Húsið stendur altso enn, gengið var úr skugga um það í gær. Mikið verður gaman að vera þarna þegar gróðurinn fer að taka almennilega við sér. Ekki seinna vænna að grisja aðeins og leggja grunn að fellingu nokkurra aspartrjá sem gróðursett voru af miklu kappi hér á árum áður og hafa skotist upp eins og eldflaugar. Annar hápunktur helgarinnar var innflutningspartí hjá Tobba og Evu sem eru búin að gerbreyta íbúð í Álfheimunum. Aðrir hápunktar verða ekki gefnir upp að sinni.

Og svo styttist í Evróvisjón, en það orð finnst mér einhver fatlaðasta málverndartilraun íslenskrar málsögu. Það má ekki segja Euro-, heldur Evró-, en samt má segja -vision!?! Af hverju ekki að fara alla leið: Evrósjón. Vonandi gengur Selmu vel í undankeppni Evrósjón söngvakeppninnar í þarnæstu viku.

Útúrsnúningar

Grípum niður í viðtal við V-dags fólkið Þóreyju Vilhjálmsdóttur og Björn Inga Hilmarsson í Birtu:

"BIH: Ég var til dæmis eini karlmaðurinn á þessari ráðstefnu og er eini "Male Vagina Warrior", píkuhermaðurinn.
ÞV: Fyrir utan Ólaf Ragnar Grímsson sem alltaf hefur stutt samtökin dyggilega og mætt á alla okkar viðburði. Þegar Eve (Einsler) kom hingað bauð hann henni á Bessastaði og hún gaf honum bók með tileinkuninni "For the First Vagina Friendly President"."

Athyglisvert. En þarfnast þó ákveðinnar leiðréttingar við. Látum liggja milli hluta að hinn geðþekki leikari Björn Ingi sé orðinn gildur píkuhermaður, en er það ekki gróf sögufölsun að kalla Ólaf Ragnar fyrsta píkuvinsamlega forsetann? Þá er ég ekki að tala um Vigdísi - heldur Bill Clinton. Hann var meira að segja svo vinsamlegur að bjóða píkunni upp á vænan vindil.

En þetta eru auðvitað útúrsnúningar. V dagurinn lengi lifi. Húrra. Og píkur. Húrra. Og forsetar sem fíla þær. Húrra. Húrra! Húrra!!

miðvikudagur, maí 04, 2005

Frá Lifrarpolli ljót berast orð

Lýðurinn dansar um stræti og torg, eins og Ólafur Haukur orti um árið. Mourinho segir að línuvörðurinn hafi skorað markið en fylgismenn LIverpool segja að Chelsea hafi verið heppið að fá dæmt á sig mark, annars hefði verið víti og rautt spjald á Chech. Hlutlausu auga var lítt skemmt yfir ámáttlegum sóknartilburðum liðanna í flas ógnarsterkra varnarmanna. Það sem stendur upp úr eftir leikinn í gær var stemmningin á pöllunum. Magnað að sjá. Óska Liverpool mönnunum til hamingju með sigurinn.

Knattspyrnuheimurinn varð hins vegar af því sem hefði getað orðið ein dramatískasta stund knattspyrnusögunnar: Ef Eiður hefði skorað þarna í blálokin. Ef og hefði gott og vel, en á þessum stað, á þessum tíma fyrir framan þessa áhorfendur þá hefði það verið eitthvað algjörlega eldfimt. Sprengihætta jafnvel. Eftir á þá finnst mér að ef Eiður hefði skorað þá hefði Anfield sprungið í loft upp og skilið eftir sig djúpan gíg. Það var orðað þannig í morgun í mín eyru að það væri misskilningur að fótbolti væri upp á líf og dauða, hann væri svo miklu miklu meira.

þriðjudagur, maí 03, 2005

DV er Fazmo fjölmiðill

DV hefur þóst vera vel á verði gagnvart ofbeldismönnum sem ganga lausir á meðal okkar góðborgaranna. Blaðið birtir svo oft myndir af þessum útvöldu ofbeldismönnum að þetta er orðið eins og hluti af fjölskyldunni, Annþór móðurbróðir, Steini sonur hennar Lúllu afasystur á Akureyri og Andri frændi í Fazmo. Verst að þetta eru svo ljótar myndir yfirleitt, annars mundi maður klippa þær út og ramma inn á arinhillunni. DV stendur vaktina í ofbeldismálum. Ójá. Fazmo klíkan í prófum - allt um málið í DV. Steini fær sér pizzu á Bautanum - allt um málið í DV.

En eru DV eitthvað skárri sjálfir? Fyrsta Fazmo fréttin snérist um það að menn lömdu aðra menn í biðröð og bitu svo höfuðið af skömminni með því að guma sig af því á netinu. Undanfarnar vikur hefur DV einbeitt sér að öðru merkilegu fréttamáli: Stúlku sem er sögð kærasta KIefers Sutherland. Blaðið lagði forsíðuna undir þetta mál og kallaði Njarðvíkurmærina "heppnustu konu landsins". Gott og vel. Kiefer ástfanginn af íslenskri stúlku. En hvað gerist svo? Menn kafa dýpra. En þá kemur babb í bátinn. Umboðsmenn, vinir og talsmenn Kiefers kannast bara ekkert við málið. Nú jæja. Er þá ekki best að segja sorrí!?! Birta litla afsökunarbeiðni til stúlkunnar og almennings um að fréttin hefði verið röng. Auðvitað ekki. DV er Fazmo fjölmiðill. Þeir guma sig af því að fréttin hafi verið röng. "Einhverjir meiddu sig í röðinni á Hverfisbarnum" "Æ mig verkjar í hnúana eftir gærkvöldið." Einhver tenging?

En það gengur ekki að vera með tóm leiðindi í garð DV. Mér finnst þeir standa vaktina vel, gott að vita að mamma Hildar Völu skemmti sér vel, en ekki illa, á Stuðmannaballi og að Logi og Svanhildur ætli að ganga í heilagt hjónaband, og ekki sé hætta á satanísku blóðbrullaupi....

mánudagur, maí 02, 2005

Að líta betur út

Hef líklega aldrei litið betur út en einmitt núna eftir að hafa byrjað ljúga því að fólki að ég fari í ræktina 5 sinnum í viku. Innanhússboltar vetrarins eru að baki og nú tekur við árvisst streð við að koma upp hópi sæmilegra drengja til að spila fótbolta á grasbölum bæjarins með úlpur eða ruslatunnur fyrir mörk. Ekki er nóg að finna liðsmenn, heldur þarf einnig að finna rétta grasbalann. Túnið má ekki vera of þýfið eins og Klambratúnið er. Gallinn er sá að góðir vellir eru mikið umsetnir og því ekki á vísan að róa og vesen að koordinera 15 manns á óákveðnum tímum á óákveðna staði. Hátt upp í 50% starf. Spurning um að tala við atvinnumiðlun námsmanna og athuga hvort það er ekki einhver tölfræðistúdent sem getur tekið þetta að sér tvisvar í viku fyrir vinahópinn???

Allt í einu byrjaði að snjóa áðan, út í bláinn, inn í roðann.

sunnudagur, maí 01, 2005

Rúanda andvaka

Vorum að koma af Hótel Rúanda. Sláandi mynd. Ætti að vera skylduskoð. Lögboð. Allir eiga að skila skattframtali og fara síðan á Hótel Rúanda. Ertu búinn að sjá Hótel Rúanda? Ekki? 3500 króna sekt!

Mánudagur yfirvofandi. Skrýtið þetta með fyrsta maí. Sunnudagur. Það kallar maður ekki frídag verkalýðsins. Spandera þessum fína sunnudegi í að mótmæla og þurfa síðan að mæta í vinnuna morgun. Ekki góður díll. Betra að mótmæla í miðri viku. Hvíla sig svo á sunnudegi. Gera eitthvað með fjölskyldunni. Fara í bíó. Hótel Rúanda. Andvaka. Eitthvað.

Endurtek hollráð til þeirra sem vilja búa til gott lasagne. Byrja snemma á sósunni. Helst daginn áður. It's worth it baby. Á afgang. Læðist kannski í ísskápinn í nótt. Andvaka. Eitthvað...

Íþrótta-ræðumaður ársins?

Óska Chelskí aðdáendum til hamingju. Eiður, ef þú ert að lesa þetta, þá vil ég hrósa þér sérstaklega fyrir ræðuna sem þú hélst áður en leikurinn hófst:

'The manager told me before the warm-up that he wanted me to make a speech in the dressing room,' said Gudjohnsen. 'I did not rant and rave, I just kept it cool and calm. I said, "Look around the room, look at each other, today we can make history by winning the championship." 'We always believed we were going to do it and now we can go to Liverpool with confidence,' said Terry 'We were pretty much at full strength and the theory behind that was we wanted to go to Liverpool as champions. If that doesn't fill you with confidence, nothing will.'