þriðjudagur, ágúst 31, 2004

fram-KR í kvöld

Menn skulu fara sér rólega í að spá því að aðsóknarmetið á Laugardalsvelli verði slegið í kvöld, en þá mætast Fram (Fótboltafélag Reykjavíkur) og KR (Knattspyrnufélag Reykjavíkur). Staðan í deildinni er þannig að ef Fram vinnur þá er KR byrjað að blanda sér í fallbaráttuna af KRafti sem er nú ekki það sem lagt var upp með í Vesturbænum í vor. KRistján Sigurjónsson, stjórnarmaður í KRklúbbnum, metur stöðuna þannig að best sé að flýja af landi brott, grasið sé grænna í Víetnam og kveður kappinn í dag. Um ævintýri hans og Margrétar má lesa á veraldarvefur.blogspot.com.

mánudagur, ágúst 30, 2004

Sandkorn á strönd eilífðarinnar

Út er komin ljóðabókin Sandkorn á strönd eilífðarinnar - 35 rómantísk ljóð og kvæði eftir Úrn Ölfar Hafsson, rómönsufræðing og skáld. Að sögn útgefanda er að finna í bókinni stef úr öllum blæbrigðum tilfinninganna og harmrænar stemmingar frá fjölmörgum indælum stundum í lífi skáldsins.


Ljósmynd af höfundi
Originally uploaded by Adler.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Orri Kárason, verkalýðsleiðtogi framtíðarinnar

Látið ykkur ekki bregða þótt framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins eða formaður LÍÚ eða Dagsbrúnar eftir 40 ár heiti Orri Kárason. Sjáið hversu efnilega þessi drengur steytir hnefann framan í heiminn!


Orri verkalýðsleiðtogi framtíðarinnar
Originally uploaded by Adler.


Ok, samþykkt

Ég fyrir mitt leyti samþykki það að Manchester United leggi fram 25 milljón punda tilboð í Wayne Rooney + David Bellion. That's it then?!!

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Endurminning um lyng

Við járnrauðan stein
á stökum mel
var stór lyngkló sem ég þekkti vel.
Ég vó hana hægt
í hendi minni
hlaðna berjum hvert sumar.

Ég hrifsaði þar allt.
En aldrei fannst mér það nóg.
Og ætíð hvíslaði lyngklóin:
Ég er hönd.
Hönd þín er kló.


Hannes Pétursson - Eldhylur 1993


Picture0096
Originally uploaded by Adler.



Myndina tók Andri Snær Magnason af lyngbrekku við Kringilsá. Hún mun
sökkva hvert haust ef stíflan við Kárahnjúka fær að rísa óáreitt en birtast
okkur hvert vor sem aurug for eða fjúkandi leir, okkar kynslóð til ævarandi
skammar.

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

æææ

mbl.is kynnir:

Spænska stórliðið Real Madrid sendi frá sér tilkynningu í dag þess efnis að ekkert væri hægt í þeim fregnum enskra dagblaða í dag þess efnis að Luis Gigo væri á leið frá Real Madrid til Tottenham í Englandi.

Hver þarf Figo, þegar maður á Gigo.

Orri Kárason


IMG_0009
Originally uploaded by Adler.

Svona gerist Þetta. Orri Kárason. Fæddur í gær. Kominn á netið í dag.



þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Orri Kárason FAQ

Orri Kárason, uppáhaldsfrændi minn, er 53 sentímetrar og 15 merkur, með töluvert mikið og svart hár, ögn krullað og brúnleit augu. Skil ekki alveg þessar merkur-mælingar, ég hef ekki hugmynd um hvað ég er margar merkur, þótt ég hafi verið 16 merkur þegar ég fæddist. Eru þetta ekki bara einhverjar gamlar mælieiningar fyrir smjör?

Achtung Baby

Orri Kárason bróðursonur minn mætti í heiminn fyrir nokkrum mínútum. Meira siðar.

ZÝRÐUR RJÓMI - explore & enjoy

ZÝRÐUR RJÓMI - explore & enjoy

mánudagur, ágúst 23, 2004

New Gazza Anyone?

Athyglisverðar sögur af fótboltaundrinu Wayne Rooney í Sun í dag. Skv. heimildum blaðsins úr geiranum er strákurinn greinilega mikið fyrir það að borga fyrir kynlíf án vitundar hinnar viðkunnalegu heitkonu sinnar, Colleen. Hættir hún ekki með honum um leið og hún les t.d. þetta í Sun í dag:

Rooney paid £45 a time for sex and his conquests included a 48-year-old grandma in a rubber suit, a topless mum-of-six dressed as a cowgirl and a Caribbean girl in pink lingerie.
One of the girls he bedded was 37-year-old Gina McCarrick, who pleasured him in PVC boots and a mini-skirt.
Rooney said after, “Nice one!” and, “Thanks for that, girl.”
But Gina revealed her only thoughts as they had sex was what flavoured Pot Noodle she would have for supper.

Erum við að verða vitni að enn einum hæfileikapiltinum fara til spillis í Enska boltanum? Hverjum er reyndar ekki sama eftir að boltinn færðist á Skjá Einn - sem næst ekki í Norðurmýrinni.

Næsta kynslóð mætir til leiks í dag!!

Samkvæmt áreiðanlegum fréttum frá Danmörku mun ég verða föðurbróðir á næstu 18 klst.. Hólí mólí. Enn styrkist staða mín sem litla bróður, þótt Kári sé tæplega 20% yngri en ég. Sei sei.

Menningarnótt?

Segir kannski meira um mig en dagskrána á Menningarnótt að þar var ekkert við mitt hæfi, nema flugeldasýning Orkuveitunnar. Mikið að gerast vissulega og margir í bænum, og það var það besta við þetta. Sjá fullt af fólki, líf og fjör, já sei sei, en tilþrifalítil dagskrá. Hápunktur Menningarnætur: Egó að syngja á fullu blasti fyrir 100.000 manns, mest fjölskyldufólk: "Feður og mæður, börn ykkar munu stikna. Þið munuð öll (x3) deyja!". Hefði ekki verið sniðugra að taka frekar Hagkaupslagið hans Bubba?

föstudagur, ágúst 20, 2004

Lou Reed og kvennalandsliðið

Dagurinn í dag fer í að klára næsta auglýsingu kvennalandsliðsins. Þetta eru einhver þau skemmtilegustu auglýsingaverkefni sem hægt er að hugsa sér og vekja alltaf mikla athygli. Myndir voru teknar af stúlkunum í gær og skiluðu þau Ari Magg, Fríða og Silja frábærri vinnu, ljósmyndalega-, förðunarlega-, hárlega- og fleiralega séð. Úff. Þetta verður líklega flottasta auglýsingin hingað til - líklega þó sú umdeildasta í einhvern tíma. Þó ekki jafn umdeild og auglýsingin þar sem stelpurnar voru á bikiníi. Leikurinn á móti Rússum er á sunnudaginn kl. 14. Spurning um að bæta aðsóknarmetið! Ha? Nú? Rússar eru eitt besta liðið í bransanum og unnu England um daginn 2-1. Þess má geta að í rússneska liðinu er leikmaður sem heitir Olga Kremlova. Hún er nú samt ekkert miðað við Olgu Færseth!

Kvöldið í kvöld snýst um Lou Reed. Skemmtileg saga frá Dr. Gunna (http://www.this.is/drgunni/gerast.html) segir frá því að hann hafi verið að reyna að höstla Svanhildi í Kastljósinu. Hann hefur orð á sér fyrir að vera leiðinlegur á tónleikum, en hvað um það, aðalatriðið er að hann er og á eftir að vera flottur, spurning um að taka með sér kíki í stúkuna svo maður geti séð hrukkurnar á dýrinu.

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

iPod kominn i hús

Afhentur í gær. Konseptið er svolítið skemmtilegt, þ.e. aðalatriðið er að maður sé búinn að skapa skemmtilega play-lista í iTunes, ásmt því að maður hjóli það verkefni að taka alla geisladiskanna inn í þetta fagra 40Gb skrímsli. iTrip aukabúnaðurinn er algjört brill, líklega ólöglegur hér á landi, þannig að ég læt ekkert uppi um það hvort ég á svoleiðis. En sú græja býður upp á t.d. að maður geti haft iPodinn inni í stofu heima og hlustað á tónlistina í útvarpinu í eldhúsinu. Nú eða í bílnum. Nú er óskað eftir hugmyndum um góð nöfn og tónlist á play-lista sem ég gæti búið til.

Ítalían hans Lippi hrynur á frumsýningunni

VIðbrögð ítölsku pressunnar við leiknum í gær

L'Italia di Lippi crolla alla prima
19 08 2004

Ítalían hans Lippi hrynur á frumsýningunni

Lippi è amareggiato: "Non riesco mai a cominciare con un risultato positivo.
Adesso prendiamo questo schiaffo e lo portiamo a casa".

"Mér virðist aldrei ætla að takast að byrja með góðum árangri. Núna tökum við þessum
löðrungi og förum með hann heim"

Il pensiero è già alle qualificazioni per i Mondiali 2006 e al primo
avversario, la Norvegia: "Bisogna sempre essere preoccupati. Bisognerà
guardare con grande attenzione a chi è nelle migliori condizioni fisiche.
L'impegno c'è stato, ma in questo momento non siamo in grado di dare di
più".

Hugurinn er þegar á næsta leik, gegn Noregi, í undankeppni HM: "Við verðum alltaf að
vera áhyggjufullir. Við verðum að horfa með mikilli athygli á hver er í besta forminu. við
lögðum mikið í þetta, það er ekki spurning, en á þessari stundu höfum við einfaldlega ekki
meira til að gefa.”


Lame svör frá Lippi, ekki satt?

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Met á Laugardalsvelli

Menn í íþróttaforystunni hljóta að vera orðnir nokkuð öruggir um að íslenskir íþróttamenn muni ekki slá nein met á Laugardalsvelli. Eða finnst mönnum ekkert skrýtið að nú eigi áhorfendur að standa í því að slá metin? Hvað ætla íþróttamennirnir að gera? Standa og klappa fyrir methöfunum á pöllunum?

Er ekki bara verið að þrýsta á yfirvöld borgar og rikis að setja einhverjar stóreflis upphæðir í að byggja stúku kringum Laugardalsvöll. Stúku sem mundi standa auð allaf, nema einu sinni tvisvar á ári? Er ekki betri fjárfesting að setja pening í grasrótina frekar en stúkuna.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Mannsandinn á Hótel Holti ofl

Hann rís hátt mannsandinn á Hótel Holti. Sérstaklega í hádeginu þegar maður fær tvíréttað lostæti á verði venjulegs matar á Vegamótum. Svo eru öll málverkin og frábær þjónustan í kaupbæti. Auðvitað freistast menn til að fá sér rauðvín með brasseraða nautabrjóstinu og hvítvín með stökksteiktri bleikjunni og kaffi og desert á eftir. En til hvers eru annars freistingar? Maður getur spurt sig. Mér fannst samt reyndar betri bleikjan sem ég grillaði heima og heiman um síðustu helgi, en það er etv. ekki hlutlaust mat, og þó. Þetta var allt minn matur.

Á morgun Ísland - Ítalía. Ítalir mæta brjálaðir til leiks því þeir eru búnir að frétta hvað það kostar lítið inn á völlinn.
Svo á sunnudaginn: Ísland - kvenna - Rússland. Skyldumæting.

mánudagur, ágúst 16, 2004

Handboltinn sprunginn?

Mbl.is segir frá:

"Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, sagði á blaðamannafundi eftir leik Íslands og Sviss að hann væri afar vonsvikinn með úrslitin en Ísland tapaði leiknum 31:23. „Mér fannst við leika af festu og við áttum möguleika á sigri. Ég tel að liðið hafi staðið sig eins vel og hægt er," er haft eftir Guðmundi á vef ólympíuleikana í Aþenu."

Hvernig tekst mbl.is að breyta Spáni í Sviss? Það er auðvitað aldrei möguleiki á að vinna Sviss þegar leikið er gegn Spáni og í því ljósi skilur maður hvers vegna liðið tapar jafn stórt og raun bar vitni. Annars er það óskiljanlegt.

Frábærri helgi lýkur með vonbrigðum

Tók mér frí á föstudaginn og hélt upp að Kletti í Borgarfirði með Haffa, Gumma og þýskum vini hans frá námsárunum í Oxford, Malte. Þessi hópur snillinga náði vel saman í grilli og umræðum um náttúru, menningu og gagnrýni á fimmtudagskvöldið. Er hægt að ímynda sér náttúrugagnrýni, e. Nature Criticism? "Það mætti nú bæta við litlum fossi hérna. Þetta fjall fær ekki nema 8,5. Esjan fær þrjár stjörnur osfrv.". Á föstudeginum var Hallmundarhraun kannað og fékk það 3 stjörnur. Íshellirinn fær þó þrjár og hálfa, en hefði getað fengið fleiri ef við hefðum haft með okkur ljós til að sjá eitthvað. Við vitjuðum neta á heimleiðinni í landareign Guðmundar óðalsbónda á Kletti og fengum dágott af silungi og laxi. Við slepptum einum, en það á maður víst aldrei að gera því ef þeir eiga einhvern lífsneista eftir drepast þeir úr hjartaáfalli um leið og maður hendir þeim út í aftur. Einn silungurinn endaði í sushi rétti en annar á grillinu og þóttu báðir lostæti, þótt eflaust hafi þeir haft önnur plön um helgina.

Á laugardeginum héldum við í bæinn um Kaldadal og höfðum augun opin fyrir svokölluðu klukkutímafjallli, en Þjóðverjinn hafði óskað eftir klukkutímagöngu upp á fjall að okkar vali. Við völdum Ármannsfell, m.a. með það í huga að fá gott útsýni yfir Þingvelli. Gangan tók þó heila 2 tíma því fyrir hver þrjú skref á leiðinni upp rann maður tvö til baka í skriðunum. Um kvöldið grillaði ég silung sem ég fékk í minn hlut fyrir hana Ástu mína og féll það í kramið.

Við fórum síðan á sunnudeginum í magnaðan bíltúr um Suðurland. Byrjuðum í hádegismat í flottum stað milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka sem heitir Hafið bláa, síðan fengum við kaffi og risastóra súkkulaðiköku í Rauða húsinu á Eyrarbakka. Að því loknu létum við hræða úr okkur líftóruna í Draugasetrinu á Stokkseyri og er óhætt að mæla með heimsókn þangað! Svo var sund á Selfossi og heimsókn til ættingja þar sem hafa með dugnaði og einbeitingu náð að rækta 500 tegundir af blómum og jurtum í garðinum hjá sér. Ekkert ólöglegt var þó að finna í því úrvali.

Satt að segja frábær helgi. En hver voru vonbrigðin? Jú þau voru upptaka af leik Chelsea og Man Utd. Auðvitað er gaman ef Gudjohnsen gengur vel, en leitt að sjá hversu bitlausir mínir menn voru. Héldu boltanum ágætlega en voru þó fremur máttlausir fram á við og virtist hugmyndaleysi hrjá miðjuleikmenn, sérstaklega Djemba Djemba og O'Shea. Þarf ekki að bæta við mönnum þegar svona margir lykilmenn eru meiddir eða uppteknir við Ólympíu? Maður spyr sig.

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Rudy to the Rescue?

Rudolph W. Giuliani, fyrrum borgarstjóri New York, gæti verið lykilmaður í tryggja Bush lykilinn að Hvíta húsinu. (Þótt Bush verði líklega að hafa lykilinn í bandi um hálsinn til að týna honum ekki.) Giuliani er fulltrúi hófsamra repúblíkana og ávann sér virðingu langt út fyrir raðir flokksins með vasklegri framgöngu i eftirmála árásanna á New York. Hann gengur nú fram fyrir skjöldu og segist ætla að leggja sitt lóð á vogarskálarnar fyrir flokkinn. En hvað segir það okkur um þennan fjandans flokk að maður eins og Giuliani sé umdeildur innan hans. Hörðustu Repúblíkanarnir eru tortryggnir í garð Giulianis því í gegnum tíðina hefur hann sinnt málefnum og réttindabaráttu samkynhneigðra, hann hefur stutt réttinn til fóstureyðinga ásamt hertum reglum um byssueign. Rudy er augljóslega tromp á hendi repúblíkana því hann gæti riðið baggamuninn við að sannfæra örlítið fleiri kjósendur í svokölluðum Swing States (Sveifluríkjunum?) um að kjósa áframhaldandi afturhald í Bandaríkjunum.

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Afmælisdagurinn mikli

Ekki aðeins Aldís systir (f. 1985) og Pabbi í Keflavík (f. 1946) heldur einnig uppáhaldsknattspyrnumaðurinn minn Roy Keane (f. 1971). Til hamingju öll sömul.

Digital Fortress eftir Dan Brown á 60 sekundum

Dan Brown fagnar gríðarlegum vinsældum um þessar mundir. Þrillerar hans eru samtals fjórir og má segja að þeir eigi það sameiginlegt að vera það sem kalla mætti "Besserwisserþriller". Maður lærir mikið af því að lesa þá, í kristnum forspjallsvísindum í Da Vinci Code, listasögu Rómarborgar og Vatíkansins í Angels & Demons, um nýjstu tækni og njósnavísindií Deception Point og um ráðningar dulmála í Digital Fortress. Það er mikill gæðamunur á þessum bókum og í raun er potttið í þeim öllum nánast eins. Sá vondi er alltaf sá sem þú síst heldur (A.m.k. þegar þú ert að lesa Dan Brown í fyrsta skipti). Reyndir lesendur thrillera vita það að þegar sá vondi er alltaf einn af þeim persónum sem koma við sögu, en það er nauðsynlegt svo e.k. afhjúpun geti átt sér stað. Þetta verður því pínlegt þegar afar fáar persónur sem koma við sögu eins og í sögum Dan Brown og maður segir við sjálfan sig á fimmtu síðu: „Það er þessi....“

Fyrir þá sem höfðu gaman af The Da Vinci Code (sem er sú besta og skemmtilegasta af þeim fjórum) og hafa áhuga á Digital Fortress en nenna ekki að eyða heilu kvöldi er bent á niðursoðna útgáfu af bókinn í boði The Guardian.

http://books.guardian.co.uk/digestedread/story/0,6550,1279280,00.html

Vildi að ég hefði séð þessa síðu áður en ég las bókina. Auðvitað er lestur þessara bóka bara spurning um dægradvöl en ekki bókmenntir. En þá er nú hægt að benda á betri bækur sem eru alveg jafn spennandi.

Enn ein ástæðan fyrir því að ameríkanar eru klikk

Af Vísi:
Mest seldi bíllinn í Bandaríkjunum í júlímánuði er Ford F-Series pallbíll en sala hans jókst um tæplega níu prósent ef miðað er við sama mánuð í fyrra. Í öðru sæti er Chevy Silverado pallbíll og næst á eftir honum er Dodge Ram pallbíll. Alls seldust 3.384.222 bílar í mánuðinum og er það aukning um rétt rúmlega eitt prósent síðan á síðasta ári.

Hér vantar bara upplýsingar um mest seldu haglabyssurnar.

Boltinn að byrja. Man Utd. i vandræðum.

Góðgerðaskjöldurinn lofar góðu - fyrir arsenal. Manchester United liðið mætir hálf vængbrotið (hálfur vængur brotinn??) til leiks og eru nokkrir burðarásar liðsins meiddir auk minni spámanna. Ole Gunnar Solskjær verður ekki með okkur á tímabilinu, hann var áður meiddur á hné, byrjaði að spila en svo hjuggu meiðsli í sama knérunn (!) og þarf drengurinn líklega að fara í aðgerð í USA þar sem grætt er í hann brjósk í hnéð (brjósk úr látnum brjósk-gjafa!!!). Þá spillir ennfremur fyrir að langintesinn Ronaldo og nýliðinn Heinze munu ekki koma til liðs við okkur fyrr en að loknum Ólympíuleikunum.

Sjúkralistinn (eftir þvi sem ég best veit)
Ruud van Nistelrooy - kviðslit; Louis Saha - hné; Wes Brown - hásin; Liam Miller - nári; Kleberson - hné; Quinton Fortune - hné; Ole Gunnar Solskjaer - hné.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Tímamótahelgi

Eins árs afmæli, nýr bíll og fest kaup á 40Gb iPod (sem kemur ekki strax til landsins þó). Allt eru þetta tímamót. Fögnuðum afmæli með dinner í Sjávarkjallaranum í gærkvöldi. Ótrúlega fallegur veitingastaður með afbragðsgóðum mat.

Í morgun voru keyptir flugmiðar til Danmerkur (þó ekki á 18 kr. eins og kemur fram hér að neðan grrrrrr). Ætlunin er að skoða litla barnið hjá bróður mínum í Árósum, en það er væntanlegt í heiminn á næstunni ásamt því að slaka á í kóngsins Köbenhavn.

Eins og sést af þessum færslum hefur sparnaður ekki verið hafður í hávegum undanfarna daga.Fokkitt.

Kverulant snyr aftur

Hér er afrit af kvörtunar-hate-maili sem grautfúll ég sendi á Iceland Express í morgun. Ég hef hingað til vera mjög hliðhollur þessu fyrirtæki en nú gæti orðið breyting þar á ef ég fæ ekki viðunandi svör við neðangreindu bréfi.

"Mér leist vel á tilboð sem þið voruð með um 18 kr. flugsæti til Kaupmannahafnar og ætlaði að bóka slíkt sæti kl. 10 í morgun.
Það reyndist síðan uppselt en ég fann 2 sæti til Köben á uþb 4000 stk og keypti það og borgaði, af því að sætin á 18 krónur virtust uppseld.
Síðan kemur í ljós þegar ég fór aftur inn á vefinn kl 10:30 að það ERU TIL sæti á 18 kr. AF HVERJU GAT ÉG EKKI FENGIÐ ÞAÐ Á 18 kr.?? Þetta er eins og hvert annað rugl. Ég er virkilega fúll yfir þessu.

Vonsvikinn viðskiptavinur
Örn Úlfar Sævarsson"


Ég sé reyndar núna að bréfið er ekkert rosalega vel skrifað og greinilegt að bréfritari er of æstur til að vanda sig. Tja, reyndar er ég ennþá rosalega fúll yfir þessu.

föstudagur, ágúst 06, 2004

föstudagsmæðan

Kvöddum Dabba Magg í gær en hann heldur til Kanada á morgun með fjölskyldu sinni. Hann er svo heppinn að vera að flytja til Montreal en þangað kom ég 1997 minnir mig og fannst mjög gaman. Montreal er í frönskumælandi Kanada og ég man þegar ég var þarna á ferð var hávær umræða um það að frönskumælandi Kanadamenn ættu að fá sjállfstæði. Ríkisstjórn landsins var þessu mótfallinn og ég man eftir því að hluti af þeirra baráttu var að framleiða auglýsingar sem áttu að styrkja þjóðernisvitund landsmanna og auka samstöðu. Í auglýsingunum voru sviðsettir merkisatburðir úr sögu landsins með slagorðinu "Part of our Heritage". Kanada er órofa riki í dag þannig að greinilegt er að auglýsingar virka. Við sendum Davíð Magnússyni og fjölskyldu bestu kveðjur!

Kveðjuathöfnin tók sinn toll sem fól í sér hálgert andleysi og vitleysisgang í vinnunni. Fæ þó etv. nýjan bíl í kvöld. Þá get ég látið gera við brettið á gullvagninum og sett hann á markað.

TIL SÖLU
glæsilegur Renault Clio RN með geislaspilara
skráður 1999, ekinn aðeins 46 þús. km.
verð aðeins: 625 þúsund íkr.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

KR tapar - Fistful of Dollars

Súrt var það í Frostaskjólinu í gær. Ömurlegheitin byrjuðu í umferðarteppu á Hringbrautinni, héldu áfram í umferðarteppu í miðasölunni og svo í fullkominni knattspyrnuteppu inni á vellinum. fh-ingarnir voru einfaldlega miklu betri en KR og áttu sigurinn fyllilega skilið. Það segir okkur það að eitthvað er að. Þetta er eitthvað sem þarf að laga. Það virðist ekki vanta peninga, vandamálin liggja annars staðar.

Talandi um peninga þá sá ég snilldarverkið Fistful of Dollars í gær, þar sem Clint fer á kostum í hlutverki nafnlausa byssumannsins (sem mér heyrðist reyndar vera kallaður Joe í myndinni). Þetta er drullu vel skrifuð mynd. Dæmi: Þegar hann ríður inn í bæinn og fjórir gaurar úr annarri glæpaklíkunni ákveða að stríða honum og hræða fararskjótann með því að skjóta úr byssum. Clint labbar svalur til baka og les þeim pistilinn.

"I don't think it's nice, you laughin'. You see, my mule don't like people laughing. He gets the crazy idea you're laughin' at him. Now if you apologize, like I know you're gonna to, I might convince him that you really didn't mean it".

Siðan skýtur hann þessa fjóra áður en þeir ná að draga upp eigin byssur á ný. (Ég horfði á atriðið í slow motion og þá sér maður að í raun skýtur hann þá alla í einu skoti, því þeir deyja allir á sama augnablikinu!!)

Fyrir þennan gjörning fær hann hvorki meira né minna en $100 greiðslu frá hinum bófaflokknum í bænum, sirka sjöþúsundkall, ekki mikið fyrir fjögur mannslíf, og þó. Hvað ætli menn séu að taka fyrir þetta nú til dags?

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Vosbuð 2004. A Story of Survivors

Það var föngulegur hópur valmenna sem hittist á Ártúnsholti kl. 16 miðvikudaginn 28. júlí. Förinni var heitið í Skaftafell og þaðan eldsnemma á fimmtudagsmorgun yrði lagt upp í fjögurra daga leiðangur “Núpstaðaskógur Skaftafell”.

http://www.mountainguide.is/ISL/ferd/sumar/inupsk.htm

Eftir því sem austar dró þennan dag versnaði veðrið eins og sjá má á þessari mynd sem tekin er á Vík í Mýrdal.


IMG_1937
Originally uploaded by Adler.



Spáin hljóðaði upp á rigningu fyrstu daga ferðarinnar en síðan átti að létta til og vera prýðisveður í lokin. Menn settu því ekki fyrir sig rigningu fyrsta daginn en heldur þótti mönnum hún magnast eftir því sem leið á fyrstu dagleið. Fyrsta spölinn var keyrt með fjallarútu Hannesar Jónssonar á Hvoli inn eftir eyrunum (!) milli Núpsár og Súlu. Síðan var gengið inn eftir Núpsánni sem var farin að vaxa töluvert þannig að ekki var hinir venjulegu stígar meðfram ánni voru á kafi og því þurfti hópurinn að klöngrast gegnum blautan skóginn meðfram henni.

Svo var klifið upp eftir gríðarlegri keðju til að komast upp hamravegg nokkurn og var það skemmtileg þolraun, sérstaklega með 20 kg. poka á bakinu. Þegar þar var komið voru margir orðnir blautir í gegn. Við keðjuna getur að líta glæsilega fossamyndun þar sem tveir fossar renna saman í Núpsá, annar hvítur bergvatnsfoss, hinn mórauður jökulfoss.

Gangan hélt svo áfram um móa og mela og inn eftir mikilúðlegu gljúfri þaðan sem klifið var upp 100 m háa skriðu. Enn rigndi og bætti heldur í frekar en hitt.

Þegar við loksins komum á tjaldstæðið sem ávallt er notað í þessum ferðum var hópurinn örþreyttur og skreið beint ofan í svefnpokana meðan vindur og væta börðu tjöldin. Leiðsögumaðurinn eldaði handa okkur og svo liðu menn út af.

Svo fóru tjöldin að leka og þá kom í ljós að umhleypingaveðrið hafði breytt tjaldstæðinu í uppsprettulind.


IMG_1989
Originally uploaded by Adler.



Á þessum tímapunkti var augljóst að ekkert vit væri í því að halda áfram. Blautu fötin frá deginum áður voru ennþá blautari, auk þess sem skór og annað var blautt í gegn hjá flestum og nýjasta veðurspáin hótaði enn meiri bleytu eftir því sem liði á ferðina. Tilhugsunin um heilan dag í bleytu sem mundi enda á vist í blautu tjaldi áður en gengið yrði yfir jökul var ekki heillandi. Það var því ákveðið að snúa við og gera gott úr ferðinni með einhverju stuði í Skaftafelli. Til að gera langa sögu stutta þá gekk það vel eftir.

Eftir að hafa gengið til baka niður að ánni kom í ljós að hún var ófær vegna vatnavaxta og hafði hópur sem ætlaði að ganga sömu leið og við, degi síðar, þurft að snúa við. Þarna náðum við að þurrka tjöldin og fleira þannig að vistin var mjög góð. Daginn eftir komst Hannes yfir á rútunni og flutti okkur yfir í Skaftafell þar sem sumir slökuðu á meðan mestu garparnir fengu útrás fyrir gönguþörfina. Ég var í bjórhópnum. Þessum degi lauk með magnaðri flugeldasýningu við Jökulsárlón sem er ótrúleg upplifun.


IMG_2240
Originally uploaded by Adler.



Þeir sem vilja skoða fleiri myndir er bent á www.gottfolk.is/staff/vosbud20004

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Vosbuð 2004

Nú er lokið hinum stórmagnaða leiðangri Vosbúð 2004, formerly known as Núpstaðaskógur-Skaftafell 2004. Ferðasagan mun koma hér inn ásamt myndum. En hver veit hvað það er að hafa lifað sem hefur ekki séð flugeldasýningu við Jökulsárlón?