miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Bókapólitík

Það er skemmtileg flétta í gangi í jólabókaflóðinu. Ein þeirra bóka sem mesta athygli hefur fengið er bókin um Jón Ólafsson, en nær engin athygli hefur beinst að Laxness eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Hvað er því snjallara en að hefja kynningu á Laxness með því að halda blaðamannafund um Jón Ólafsson. Þetta gerði Hannes og strategían er einföld, og gæti kannski virkað. Nú gengur nefnilega hægri maður undir hægri manns hönd um að kaupa bókina Laxness til að styrkja krossfarann Hannes eftir að ljóti kallinn fékk hann dæmdan í London. Sniðugt.

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Læknatívolí

Enn hefur enginn sagt mér til hvers hátæknisjúkrahús eru. Verður þetta ekki bara eitthvað tækjahús þar sem læknarnir leika sér. Það er nú hefð fyrir tívolístarfsemi í Vatnsmýrinni. Er ekki ódýrara að senda menn til útlanda í aðgerð þegar hátækni er þörf.

Þenslan i hnotskurn

Nú er verið að hlaða vörubíl úti í bæ með heimilistækjum ætluðum til notkunar á R39. Kemur hlassið í hús í dag og verður vonandi tekið til kostanna sem allra fyrst. Um er að ræða innfluttan varning: ísskáp, uppþvottavél, spansuðuborð, bakarofn og gufugleypi. Reyndar vildi ég frekar eldgleypi en hann fékkst ekki. Vonandi hefur þetta ekki í för með sér of mikla þenslu í þjóðfélaginu þótt greiðslugeta okkar sé þanin til hins ítrasta í bili.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Myndagáta


Ennþá er allt að gerast í eldhúsinu á R39. Á myndinni má sjá þá tvo iðnaðarmenn sem lyftu grettistaki um helgina. Finnið rafvirkjann!

Veisla


Íslandsvinirnir í hinni óspjölluðu og lífræntrokkræktuðu sveitinni Sykurrós buðu til gæsahúðaðrar veislu fyrir tíuþúsund augu og eyru í Höllinni í gær.

föstudagur, nóvember 25, 2005

1946-2005


I spent a lot of my money on booze, birds and fast cars - the rest I just squandered

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Hvað gerirðu?

Fæstir hafa hugmynd um hvað ég geri í vinnunni. Eitt get ég allavega sagt; ég geri ekki svona: „Okkar markmið í þjónustustigi við viðskiptavini er skýlaust að yfirstíga væntingar þeirra á hverjum tíma og það eru þeir sem setja viðmiðin gagnvart okkar markmiðum. Við erum á góðri leið með að ná því í dag að 30 manns séu á bið hjá okkur...Stjórnendur Símans hafa aukið fjármagn í þjónustumálin og hefur stöðugildum fjölgað umtalsvert á síðustu mánuðum."

Þetta eru ekki góð almannatengsl.

Il grand tenor

Er ekki landið sem fóstrar Bubba, Jónsa, Heiðu og Pál Óskar einu númeri of lítið fyrir tenórinn Cortes sem nú er auglýstur af svo miklum móð að undir tekur í fjöllunum?

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Íslensk kjötsúpa

Fékk mér íslenska kjötsúpu á Hressó, frábær kaup. Súpa dagsins er oft ágæt þar, á 550 kall.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Kominn út úr skápunum

Skápar voru rifnir úr umbúðunum, settir saman og skrúfaðir fastir við eldhúsveggina á R39 um helgina. Stórkostleg afköst og gleðilegt að sjá vettvang eldamennsku framtíðarinnar taka á sig svona fagra mynd. Það eina sem á eftir að gera er að fá restina af innréttingunni til landsins, setja klæðningar á skápana, skrúfa lamir og hurðar á, setja skúffur í, setja upp hillurnar, velja ofn, vask, gufugleypi og ísskáp, velja, panta, fá og setja á borðplötu, tengja rofa og innstungur, setja gólfefni, setja mósaíkflísar á veggina, tengja miðstöðvarofn, mála smá og svo bara setja upp eldhúsborðið og málið dautt! Þetta ætti að vera orðið mjög fínt fyrir jólin 2006.

föstudagur, nóvember 18, 2005

Ríkið fær eingreiðslu fyrir jólin

Nú eiga allir atvinnurekendur, þar með talið ríkið, að borga eingreiðslu upp á 26.500 krónur. Þessi eingreiðsla skipist þá væntanlega mili fólksins og ríkisins því þetta er að sjálfsögðu skattlagt upp í topp. Þannig fær ríkið drjúga búbót fyrir jólin og ætti að duga eitthvað upp í annan kostnað vegna samkomulagsins um að ekki fari allt í bál og brand á vinnumarkaði.

Jesús hættur í heilagri þrenningu

Jafn undarleg frétt og að Roy Keane sé hættur í Manchester United.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Iðnaðarmenn allra landa afsakið

Man ekki hvort ég sagði frá því hér en um daginn vann ég það afrek sem alla húsbyggjendur dreymir um, fékk múrara, rafvirkja og smið í sömu vikunni. Allir eiga þeir hrós skilið fyrir gott og óeigingjarnt starf. Þetta gildir á hinn bóginn ekki um þá iðnaðardemóna sem ásækja það ágæta húsnæði sem ég nú vinn mína daglauna vinnu í (þessi setning varð kannski óþarflega löng en ég þurfi að draga fram muninn á húsnæðinu sem ég vinn í almennt og húsnæðinu sem ég vinn í við endurbætur). Ekki nóg með að það sé verið að bæta og breyta hér á hæðinni okkar heldur er einnig flokkur tillærðra að hamast á hæðinni fyrir neðan og einnig á húsgaflinum hér bak við mig. Síðan eru OgVodafone menn að hamast við að setja loftnet á þakið. Nema hér sé um ofsjónir og ræða og þetta séu einhvers konar ímyndaðir iðnaðarmenn, geð-timburmenn, sem ásækja mig vegna þess mikla starfs sem óunnið er heima.

Sjálfur er ég auðvitað iðnaðarmaður, starfa í áróðursiðnaðinum. Er í ansi skemmtilegu verkefni núna sem tengist hugmyndavinnu um framtíð þúsunda manna, kvenna og barna og hangir að vissu leyti saman við ný einkunnarorð Röflsins. Veit einhver hvaðan þau koma? Hálfur pakki af Strepsils í verðlaun.

Á degi íslenskrar tungu

Úr viðtali Fréttablaðsins við Hallgrím Helgason: "Aðspurður að því hvort þörf sé á sérstökum degi íslenskrar tungu...." Er þá átt við hér á landi á?

The tounge


Today is the day of the Icelandic Tounge
When is the day of the Icelandic lung?

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Þabbaraþa

Af hverju hef ég á tilfinningunni að ný ísöld sé að hefjast? Hví þessi kuldi? Vinur, hví dregur þú mig inn í þetta skelfilega land?

mánudagur, nóvember 14, 2005

Fjör í Kaupinhafn

Já förinni var heitið til Kaupmannahafnar. Merkilegt að það séu Íslendingar sem eru mestu kaupmennirnir í Höfn, en er ekki kominn tími til að hefna fyrir maðkaða mjölið? Reyndar sýnist mér hefndin felast í því að Magasin er orðið alveg rosalega flott.

Gistum hjá heiðurshjónaleysunum Kristjáni og Margréti, þó ekki Kristjáni X og Margréti Þórhildi, enda búa þau ekki á Nørreport. Fengum þó konunglegar móttökur og var þetta allt mjög skemmtilegt. Kaupmannahefningar eru að komast í jólaskap, búnir að opna Tívolíið og juletallerken í boði á helstu krám. Því miður komumst við ekki að á Café Sorgenfri en jólamaturinn fær toppeinkunn bæði hjá Kronborg við Brolæggerstræde og hjá Skindbuksen við Lille Kongens Vej rétt hjá Magasin.

Reyndar er Kaupmannahöfn bara frábær og gott að komast í svona stutt síðbúið sumarfrí og gera ekki neitt.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Aðeins um óréttláta skattheimtu

Það eru til skattar og svo eru til óréttlátir skattar. Ég held að stimpilgjald hljóti að vera einn sá allra óréttlátasti. Hvers á fólk að gjalda sem er að taka sér lán til að koma þaki yfir höfuðið að ríkið hrifsi til sín 1,5%??? Þetta getur verið mjög há upphæð, sérstaklega fyrir þá sem þurfa stórt húsnæði. Ég nefni þetta samt bara af því ég áttaði mig á þeim svíðingsskap að fólk er í rauninni að taka lán fyrir þessum skatti. Það er, stimpilgjaldið er dregið af láninu þannig að fólk er í raun og veru að borga stimpilgjaldið á allt að fjörutíu árum, sem þýðir að gjaldið margfaldast í raun! Það mætti nú einhver taka þetta upp og afnema þennan óréttláta skatt eða færa hann til betri vegar.

Þá var ég að fá vegabréf og það kostar meira en Sjálfstætt fólk. Hvaða þvæla er það? Bölvuð dulda skattheimtan líka.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Niðurskurður náms til stúdentsprófs

Ég er fylgjandi því að fólk komist ljúki almennt stúdentsprófi ári fyrr en nú er raunin. Hins vegar finnst mér hugmyndir ráðherrann í menntamálaráðuneytinu, einnig kallað metnaðarlausa ráðuneytið, séu út í hött. Ef maður horfir á málið í samhengi þá er alveg morgunljóst að til að stytta námið um eitt ár er langlógískast að klípa það af grunnskólanáminu. Þannig gætu þeir sem vilja flýta sér eftir mætti lokið stúdentsprófi átján ár, ef þeir taka menntaskólann á þremur árum eins og víða er hægt. Á hinn bóginn mundu flestir áfram hafa fjögur ár til ráðstöfunar í mennta- eða fjölbrautaskóla að eigin vali til búa sig undir háskólanám eða aðra framtíð að eigin vali. Það má alls ekki vanmeta þann þroska sem menn taka út á þessum árum, sem er bara að hluta til námsefninu að þakka. Það væri afar slæmt að straumlínulaga námsframboðið á þessum árum það mikið að skólarnir verði enn líkari en orðið er.

Mér sýnist þessi stefna bera öll merki forherðingar undir merkjum sparnaðar hjá ríkinu, það er búið að ákveða þetta og búið að ákveða að keyra þetta í gegn. Það er stundað svokallað gervisamráð, eins og hjá Landsvirkjun, þar sem menn eru settir á endalausa fundi og hlustað á mótrökin en ekkert mark tekið á þeim og notað orðalag eins og "við munu skoða þetta sérstaklega". Gervisamráð er að mínu mati verra en ekkert samráð, því það er verið að gera grín að fólki ofan í valdþóttann og ofstopann sem einkennir þetta mál.

Surprise surprise

"Við verðum ekki mikið vör við þetta hér...." - Tómas Ingi Olrich íbúi í París, í hverfi þar sem er vissulega mikið af útlendingum en af einhverjum ástæðum eru þeir ekki að brenna bílana sína.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Sigurlið eða lúserar?

Fyndið að sjallarnir séu að tala um að það hafi verið stillt upp sigurliði í prófkjörinu því þar er engan að finna sem hefur nokkru sinni unnið kosningar. Þetta prófkjör er það eina sem þetta lið hefur unnið, en það er svipað og að vera rosa góður á æfingum en tapa svo alltaf sjálfum leikjunum.

Sigurlið eða lúserar?

Fyndið að einhverjir sjallar voru að segja að það hafi verið stillt upp sigurliði í prófkjörinu. Fátt er fjær sanni. Á listanum er ekki að finna neinn sem hefur nokkru sinni sigrað í kosningum. Þau hafa kannski sigrað í prófkjöri en það er svona svipað og að vera í vinningsliði á æfingum en tapa sjálfum leikjunum.

Hamingjan er eitt núll

föstudagur, nóvember 04, 2005

Málefnastaða

Er það annað orð yfir samvisku?

Maðurinn sem fann upp bloggið


Björn Bjarnason byrjaði að blogga í kalda stríðinu.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Spaslbasl

Flotun gólfs lauk í gær. Nú verður haldið heim og lokið við að sparsla bévítans vegginn. Ef allt fer að óskum verður eldhúsinnrétting reist um helgina. Þá verður nú aldeilis gaman. Dúddilídú.

Eina vandamálið er að ég get ekki lyft höndunum upp fyrir axlir eftir átökin í ræktinni í gær. Var enginn búinn að útskýra sáttmála SÞ gegn pyntingum fyrir þessum bansettu einkaþjálfurum?

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Allt á floti


Það gleður lesendur þessarar síðu örugglega að fá að heyra að ég fékk múrara í gær. Hann flotaði gólfið í eldhúsinu. Reyndar náðist ekki alveg að klára gólfið því hann tók bara með sér efni sem dugar í ca 120 fermetra. Það fóru sem sagt einhverjir sjö pokar af flotsementi og samt er gólfið ekki ennþá orðið rétt. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni og ég hlæ að sjálfum mér fyrir að hafa látið mér detta í hug að ég gæti alveg eins gert þetta sjálfur. Ha ha ha.

Auglýsingar og erótík

Á hverjum einasta degi gera bjórframleiðendur og innflytjendur grín að Alþingismönnum í fjölmiðlum. Þingmenn mættu gera betur og átta sig á því að það ástand sem lýsir sér í dulbúnum bjórauglýsingum þar sem orðið léttur eða 0,0% er falið með þriggja punkta letri neðst í vinstra horninu er hlægilegt. Hér þarf löggjafinn að bregðast við. Annað hvort er bannað að auglýsa áfengi eða ekki.

Einnig þurfa menn nú að láta til skarar skríða og ákveða hvort klám sé bannað eða ekki. Nýja Bleikt og blátt blaðið er hreinræktað klámblað, með úrklipptum myndaþáttum úr erlendum blöðum af fólki í hressilegum samförum. Að kalla það erótík eru hreinir útúrsnúningar. Svo senda tvö virðuleg fyrirtæki, Síminn og 365, út sitt hvora "fullorðins-rásina".

Auðvitað ganga menn á lagið og sveigja lagabókstafinn að sínum þörfum, en í þessum efnum þurfum við að hafa skýra stefnu, og þá þarf að færa lagatextana til nútímahorfs. Annað hvort eru áfengisauglýsingar bannaðar eða ekki. Annað hvort má gefa út klámblað eða ekki.

Hvar eru málfarsráðunautarnir?

Af ruv.is: Ekki er búið að ákveða hver ekur með Albers hjá Midland, en Nicky Pastorelli verður þróunarökumaður liðsins

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Enn ein tilviljunin?

Húsasmiðjan að auglýsa eftir grafískum hönnuði? Var staðan að losna? Ætli viðkomandi þurfi að hafa reynslu af því að vinna upp úr hugmyndum annarra? Hmmm.

Glæpur og refsing

Tvennt:

Nú eru allir að skrifa glæpasögur. Mesti glæpurinn er samt hvað þetta kostar allt mikið. Ég mundi fá mikið samviskubit ef ég keypti reyfara á fjögur þúsund krónur.

Er það satt að Keflavíkurflugvöllur sé fastur millilendingastaður fyrir flugvélar á leið með fanga í pyntingar þar sem það er leyft. Þetta er klassískt dæmi um tvískinnung ameríkana. Þeir eru auðvitað á móti pyntingum í orði, en það takmarkast við landsvæðið ekki fólkið. Þetta er svipað og ef við Íslendingar vildum láta taka einhvern af lífi og sendum hann bara til Texas af því dauðarefsingar eru ekki leyfðar hér. Danir virðast vera trítilóðir vegna þess að þessar flugvélar fari gegnum danska lofthelgi. Hvað ætlum við Íslendingar að segja ef satt er að þessar vélar lendi hérna? Ætlum við að sætta okkur við þetta? Ég heimta rannsókn!

Bévítans ryk af þessu sparsli öllu.