laugardagur, mars 31, 2007

Erfitt að velja?

Sumar ákvarðanir, þarf að taka, þótt þær séu erfiðar. Það geta verið rök með og á móti, en hver á að ákveða hvort rökin vegi þyngra? Þegar þetta er skrifað þá er búið að birta fyrstu tölur í kosningu meðal Hafnfirðinga um hvort þeir geti hugsað sér stórfellda stækkun álversins í Straumsvík. Eins og áður sagði þá eru rök með og á móti og hnífjafnar tölur upp úr kössunum. Á meðan ég öfunda ekki Hafnfirðinga af því að vera jafn klofinn í afstöðu sinni og raun ber vitni þá finnst mér aðdáunarvert að bæjaryfirvöld hafi látið ákvörðunarvaldið, í jafn umdeildu máli, í hendur almennings. Lúðvík Geirsson, Gunnar Svavarsson, Margrét Gauja og félagar hafa gert sér grein fyrir stöðunni og sýna hárrétt stöðumat, pólitískt séð, að framselja ákvörðunarvaldið til fólksins, ekki af fælni við ákvarðanatöku, heldur þvert á móti. Það er miklu kjarkaðri ákvörðun að gefa valdið frá sér heldur en að beita því í þessu máli. Þótt fermingarveislurnar muni krauma af deilum um lyktir kosninganna þá breytir það því ekki að niðurstöðurnar gilda. Hafnarfjarðarbær hefur gengið á undan með mjög erfiðu en góðu fordæmi - og að sjálfsögðu væla Sjálfstæðismenn og aðrir íhaldssinnar yfir því að íbúar hafi fengið í hendur aukið vald til að stýra þróun bæjarins. Annað hefði komið mér á óvart. Svo er að sjá hvernig þetta endar.....

fimmtudagur, mars 29, 2007

Fermingargjöfin í ár



Nei, líklega er þessi Philippe Starck lampi of dýr til fermingargjafa. En hann er flottur eins og margt annað sem er á frönsku hönnunarsýningunni í Gerðarsafni í Kópavogi. Mæli með þessu.

miðvikudagur, mars 28, 2007

Krúttstríð: Ísbjarnarhúnn vs. Pandabjörn

Óhugnanleg frétt á mbl.is um að ísbjarnarhúnninn Knútur sé valdur að dauða pandabirnunnar Yan Yan.

mánudagur, mars 26, 2007

Kvenpersónurnar



Jæja, þá er loksins búið að segja frá þessu. Þetta er eitt allra skemmtilegasta verkefni sem ég hef unnið að. Hugmyndin kviknaði út frá því að bókaútgáfan Helgafell gaf út verk Laxness. Það var svolítið strembið að koma þessu öllu heim og saman, en tókst að lokum.

Næst hlýtur að koma hverfi með götum sem eru nefndar eftir karlpersónum, er það ekki?

föstudagur, mars 23, 2007

Fréttir og auglýsingar

Greint var frá því í Útvarpsfréttum í hádeginu að auglýsingar geti haft áhrif. Einkum á þá sem ekki hvika frá skoðun sinni á á viðkomandi söluvöru (í þessu tilfelli stjórnmálaflokkum).

Þetta eru að sjálfsögðu merkilegt skúbb og verður örugglega tekið upp í öðrum miðlum og rætt í þaula í Kastljósinu.

fimmtudagur, mars 22, 2007

Dýr gerir dýrt kaffi



Þetta dýr, Luwak kötturinn á Jövu, býr til dýrasta kaffi í heimi. Það er dýrt af því það er sjaldgæft og einstaklega bragðgott kaffi. Nú styrkir þessi köttur langveik börn á Íslandi, því hægt er að kaupa bolla af þessu Luwak kaffi í Te og kaffi og rennur ágóðinn til Umhyggju. Smakkaði þetta áðan og sælkerinn komst í stuð.

Er byggð á landfyllingu málið?

Frétt mbl.is:
"Brimvarnargarðurinn við Ánanaust og Eiðsgranda í Reykjavík rofnaði í miklum öldugangi í gærkvöldi. Í morgun kom í ljós að mikið grjót hafði kastast á land og göngustígur meðfram varnargarðinum er nánast horfinn. Brimið á greiða leið á land í gegnum gatið og ljóst er að hækka þarf varnargarðinn.

Ólafur Bjarnason aðstoðarsviðsstjóri framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar sagði að verið væri að athuga hækkun og styrkingu varnargarðsins með tilliti til þess að hann væri farinn að rofna oftar en á fimm ára fresti"

Jamm og jæja.

Ágúst Ólafur rasskellir Sjálfstæðismenn

Hafi Sjálfstæðismenn einhvern tímann verið boðberar frelsis einstaklingsins, þá eru þeir það ekki lengur. Kannski má spyrða við þá nýtt hugtak: Frelsi fyrirtækisins. Ágúst Ólafur birtir athyglisverða greiningu á frelsisskerðingum Sjálfstæðisflokksins á valdatímanum undanfarin kjörtímabil. Mögnuð upprifjun, ekki síst bullið í XD um 24 ára regluna, tillögur um lífssýnagjöf til atvinnurekenda og fleira rugl úr Valhöll.

Hálendið verið eitt kjördæmi

Nei, ég segi svona....heh

miðvikudagur, mars 21, 2007

Besta kaffi í heimi

Sælkerum og áhugafólki um mat og drykk á heimsmælikvarða er bent á að horfa á Kastljósið í kvöld. Ath. þó að ekki er verið að fjalla um lasagne-ið sem ég bjó til í gær. Það hefði komist í heimsmetabók Guinness ef við hefðum ekki verið svona svöng, nenntum ekki að bíða eftir þessari dómnefnd.

Í kvöld verða afgangar. Ólíkt því sem gerist í leiksýningum þar sem 2. sýning er venjulega lélegust, þá eru lasagne-afgangar einhver sá magnaðasti matur sem um getur.

Drengir, sjáiði ekki veisluna?

þriðjudagur, mars 20, 2007

Leiksigur Starkaðar



Hér er myndaband með hljómsveitinni Menn ársins. Lagið er ágætt og vinur minn Starkaður lyftir því á hærra plan með vel útfærðum leik þar sem tilfinningarnar sjást ekki heldur krauma undir yfirborðinu í þessu einfalda en snjalla myndbandi.

mánudagur, mars 19, 2007

Lúður eða klúður?

Kók Zeró fékk á baukinn í öllum dagblöðunum um helgina og var kallað bæði djöfladjús og kók fyrir kjána. Í blöðunum, sem og í bloggheimum hafa konur sett stórt spurningamerki við markaðssetningu af því tagi sem notuð er fyrir þetta núllkók. Sundlaugar með zero kvennaklefum og svo framvegis. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé viljandi svona klúðurslega unnið, til að próvokera hugsandi fólk (les. konur). Getur það verið að einhverjum þyki það kúl að hafa æst upp feminínista?
Það held ég varla, því viðbrögð þeirra kvenna sem ég hef séð benda til þess að þær yfirgefi herbúðir Coca-Cola vörumerkisins fyrir fullt og allt og hvers virði eru þá nokkrir nýir neytendur sem eru að fá hvolpavitið? Hvor hópurinn kaupir meira?

Svo er það sjónarmið líka til að þetta auglýsingahjal skipti engu máli, fólk kaupi bara það sem því finnst best á bragðið.

Mín niðurstaða: Smekkur verður ekki rökræddur.

10 niðurstöður helgarinnar

1.
Alltaf jafn gaman að vinna pubquiz
2.
Lambafillé má vel steikja upp úr smjöri
3.
Orð skulu standa er besti útvarpsþátturinn, með fyrirvara um Óskastundina.
4.
Ríkisstjórnin klúðrar öllu, meira að segja auðlindaákvæði sem meirihluti var fyrir.
5.
Ríkisstjórnin kennir öðrum um eigið klúður, ekki sérfræðingunum sem mátu frumvarp hennar lögleysu, heldur stjórnarandstöðunni.
6.
Afmæli eru skemmtileg.
7.
Kvikmyndin 300 er flott á köflum, en illa leikin og leiðinleg.
8.
Vel meyrnað nauta ribeye má grilla á grillpönnu með góðum árangri.
9.
Erfitt er að þrífa alvöru grillpönnur
10.
United 93 er mögnuð bíómynd.

föstudagur, mars 16, 2007

Bílar geta dáið eins og venjulegt fólk

Ef þið eigið leið framhjá Gerðarsafni í Kópavogi þá er litli grái bíllinn sem húkir úti í horni á bílastæðinu ekki nýtt verk eftir japanskan rýmislistamann með meiningar. Það er einfaldlega bilaður bíll. Sem er ekki gott fyrir eigandann. Okkur Ástu.
Miðað við fyrstu viðbrögð frá bifvélavirkjum gæti jafnvel verið að viðgerð sé dýrari en bíllinn sjálfur. Þetta skýrist betur á mánudag.

Stefnir í rólega helgi og væntanlega missi ég enn og aftur af hinum ástsæla árlega Spaðaballi sem fram fer á Nasa í kvöld. Ég fer næst.

Lifið heil. Hugsið vel um bílana ykkar.

fimmtudagur, mars 15, 2007

Þjóðlendur - kvóti

Þessi misserin gengur fjármálaráðherra Árni Mathiesen hart fram í að sanka á eina hendi, nei ekki stofnbréfum í SPH, heldur ýmsum landspildum viðsvegar um landið. Það eru kallaðar þjóðlendur. Svo hart er fram gengið að meira að segja þinglýst sölugögn duga ekki til að slá á kröfur valdhafans, og heimtar Árni meðal annars landssvæði sem hann seldi Reykjavíkurborg fyrir ekki svo löngu á Hengilssvæðinu. Hver á þessar þjóðlendur ef ekki þjóðin? Er þetta hugsanlega mesta þjóðnýting í sögu Íslands?

Og hvað þá með fiskinn í sjónum? Gilda allt önnur lögmál um hann? Hvað gáfu menn í raun og veru með kvótanum? Og hvað seldu útgerðarmennirnir á milli sín í kjölfarið? Var það þjóðareign? Getum við þá ekki fengið hana til baka með sömu rökum og ráðherrann heimtar land af bændum án bóta.

Ef það geta verið til þjóðlendur, þá geta verið til þjóðarmið. Ef þjóðin getur átt land, þá getur hún líka átt fisk.

Svo vil ég láta setja í stjórnarskrána ákvæði um að menn taki hana alvarlega.

miðvikudagur, mars 14, 2007

Skipið

Festi kaup á Skipi Stefáns Mána á mánudag. Lauk við hana í gær þriðjudag. Mögnuð lesning en áður hef ég lesið bækur hans Svartur á leik og Túristi mér til mikillar ánægju. Það býr einhver frumkraftur í þessum sögum - orkurík söguleg og 'menningraðleg' tenging, jafnvel heimspekileg, sem ég fæ mikið út úr að upplifa í lestri. Og spennandi líka, og án þess væri hitt dautt. Ég hlakka til að lesa eldri bækur Stefáns Mána: Dyrnar að Svörtufjöllum, Myrkravél, Hótel Kalifornía og Ísrael, saga af manni.

þriðjudagur, mars 13, 2007

Bændablaðið - þjónusta við lesendur Röflsins

Einn vinsælasti þjónustuliður þessarar síðu er að miðla því besta úr Bændablaðinu hverju sinni. Nú verður stiklað á stóru yfir blað dagsins 13. mars, sem einnig er afmælisdagurinn hans afa, sem er fæddur 1930 eins og Clint Eastwood.

Fréttir:

Innflutt kjöt til Danmerkur bakteríumengað
Sjöunda hver sending af innfluttu fuglakjöti til Danmerkur er svo sýkt af bakteríum að hún er endursend til framleiðendanna. (Þessi frétt sýnir að við eigum sko bara ekki að láta okkur detta í hug að borða erlent kjöt)

Íslendingar vilja hafa landbúnað
Segja niðurstöður skoðanakönnunar. Var ekki spurt hvort við værum með eða á móti mat?

Bændur blogga
Þetta er frétt ársins...

Spennandi ungfolasýning hjá Sunnlendingum
Ný sending af hnökkum?

Engin ellimerki á Leikfélagi Hveragerðis sextugu: SÝNA ROKKÓPERUNA UM JESÚ KRIST VIÐ GÓÐAR UNDIRTEKTIR.
Engin ellimerki, ópera upp úr 2000 ára gömlu máli?? Spurning hvað Dúndurfréttir og Vesturport segja við þessu?

Hryllingsfrétt þessa eintaks:
Enginn veit í hve miklum mæli aliminkur sleppur úr eldisbúrum.
Obb obb obb.

EINFASA RAFMAGN HEMILL Á FRAMFARIR Í SVEITUM
Nú, ég hélt að það væri Framsóknarflokkurinn!

Knattspyrnumaður hefndi sín með traktor
Það eru ekki allir sem bregðast jafn vel við vonbrigðum. Til dæmis ákvað serbneski knattspyrnumaðurinn Slavomir Milnovich að hefna sín á félagi sínu FC Miramor þegar hann var settur út úr liðinu....Í stuttu máli þá plægði hann upp völl liðsins á dráttarvél fjölskyldunnar. Pæling fyrir Eið, ef hann kemst ekki í byrjunarliðið hjá Barcelona...


SMS skilaboð varar nágrannana við svínalykt.

Frétt um nýjasta framlag Dana í þessum iðnaði (þ.e. svínakjötsframleiðslu)

Sóknarpresturinn kemur á ADSL sambandi
Í fréttinni kemur reyndar fram að þetta er bara venjulegt ADSL, ekki netsamband við þá í efra. Vegir guðs eru ennþá órannsakanlegir.


Auglýsingar:
Lely Astronaut - MEST SELDI MJALTAÞJÓNNINN. (Eru astronaut á Íslandi? Er hægt að fá astronautagúllas?)

Landbúnaðarferð til Skotlands
Þar má sjá öll skosku búfjárkynin, vélar handverk, heimaframleiðslu og margt fleira. Verð 78.500

Kjarni málsins - Ekkert viðhald
Kjarnagluggar. (Þessa auglýsingu gæti Mogginn líka notað)

mánudagur, mars 12, 2007

Forsíðufrétt ársins

Þessi snilldarfrétt birtist á forsíðu Morgunblaðsins í gær, sunnudag. Það er eitthvað við þetta.....einhver hreinn, ljúfur og nauðsynlegur tónn....Regínutónn kannski?



Hér er textinn.

"Ólafsvík | Hvergi á guðsgrænni jörð er yndislegra lífríki en hér við Breiðafjörð. Það sannaðist nú eina nóttina, í rafmagnsleysi sem færði okkur ró og kyrrð, því logn var veðurs. Þá bárust okkur alveg inn að rúmi ómar frá söngleik sem árlega er „á fjölum“ í hlíðinni ofan við Bæjarfoss en nú er fengitími fjallarefsins. Hetjutenórar og prímadonnur játuðu hvert öðru ást sína háum tónum. Í hléinu skutust þau svo ofan Ennið að sjó en þar er nú góð matarvon fyrir dýrin því loðnan er að hrygna og deyja. Í sjónum er líka veisla, svo mikil að þorskurinn getur varla andað, hvað þá blístrað enda er hann þögla hetjan í leikriti þessa lands."


Í mínum augum er þetta skúbb ársins. Hef þó ekki séð aðra fjölmiðla taka þetta upp, dæmi um þann hráskinnaleik sem samkeppni á fjölmiðlamarkaði er.

föstudagur, mars 09, 2007

17 ár


Í dag eru 17 ár síðan ég fékk bílpróf. Ég man eftir því að ég fór í tíkallasímann á 1. hæð skólahúss MR og hringdi í Sumarliða frænda, ökukennarann minn, til að tékka hvort ég hefði náð prófinu daginn áður og hvort maður fengi þetta bleika og gæti farið á rúntinn um kvöldið. Sumarliði jánkaði því og bætti því við þeim fréttum að ég hefði eignast bróður þá fyrr um morguninn. Í morgun hringdi ég þann bróður og var hann þá staddur í MR, þó ekki í tíkallasíma. Svona breytast tímarnir - og samt breytist ekki neitt.

Til hamingju með afmælið Ívar!

fimmtudagur, mars 08, 2007

Jón fallinn?


Var ekki bannað að taka myndir af fólki í bílum?

miðvikudagur, mars 07, 2007

Ætt á haugana?

Sá í fréttum að matur var fluttur á haugana í stórum stíl frá Fjölskylduhjálp Íslands. Ástæðan var sú að hann var kominn fram yfir síðasta söludag. Var þetta gott eða vont athæfi? Ég hefði viljað að vöruflutningabíllinn hefði stoppað hjá mér á Reynimelnum því mér sýndist þetta mest vera þurrvara, hrísgrjón og fleira sem rennur ekki út fyrir en á efsta degi og er hægt að éta með góðri lyst miklu lengur en framleiðendurnir segja, en þeim er vorkunn því þeir þurfa að selja fleiri grjón og skiptir engu máli fyrir þá hvort maturinn hefur viðkomu í maga einhvers, svo lengi sem hann er keyptur.

Ég held að samsæriskenningasmiðir, kenndir við 9.11. ættu að skoða aðrar dagsetningar sem standa þeim nær. Síðasta sölu- og neysludagssamsærið er að mínu mati eitt stærsta samsæri gegn neytendum sem fundið hefur verið upp. Það væri verðugt verkefni að fá fyrirtækin til að upplýsa hvernig þessar dagsetningar eru fundnar út. Þetta er allt tómt #$(")$"(" kjaftæði.

mánudagur, mars 05, 2007

Casimir Pulaski dagurinn er i dag



Goldenrod and the 4H stone
The things I brought you
When I found out you had cancer of the bone

Your father cried on the telephone
And he drove his car into the Navy yard
Just to prove that he was sorry

In the morning, through the window shade
When the light pressed up against your shoulderblade
I could see what you were reading

All the glory that the Lord has made
And the complications you could do without
When I kissed you on the mouth

Tuesday night at the Bible study
We lift our hands and pray over your body
But nothing ever happens

I remember at Michael's house
In the living room when you kissed my neck
And I almost touched your blouse

In the morning at the top of the stairs
When your father found out what we did that night
And you told me you were scared

All the glory when you ran outside
With your shirt tucked in and your shoes untied
And you told me not to follow you

Sunday night when I cleaned the house
I found the card where you wrote it out
With the pictures of you mother

On the floor at the great divide
With my shirt tucked in and my shoes untied
I am crying in the bathroom

In the morning when you finally go
And the nurse runs in with her head hung low
And the cardinal hits the window

In the morning in the winter shade
On the first of March, on the holiday
I thought I saw you breathing

All the glory that the Lord has made
And the complications when I see His face
In the morning in the window

All the glory when He took our place
But He took my shoulders and He shook my face
And He takes and He takes and He takes

sunnudagur, mars 04, 2007

Bjartsýni og jafnrétti

Framsóknarflokkuriinn veitti tvenn verðlaun um helgina. Samtökin 78 fengu bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins, nokkuð gott og býsna glúrið. Svo veittu Framsókn jafnréttisverðlaun, og hver fékk þau? Jú, Framsókn sjálf.

Heldur flokkurinn að fólk sé algjört fífl?

Eftir á að hyggja: Hefði ekki Framsókn átt að fá bjartsýnisverðlaunin líka?