fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Ríkið - er það ekki ég?

Hvað finnst fólki um það fordæmi sem ÁTVR sýnir með hraðhækkunum á vörum sínum í dag? Á ekki Ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi og reyna að halda aftur af hækkunum? Fjandakornið. Allt hækkar þetta vísitölu neysluverðs og lánin okkar um leið.Hvers konar rugl er þetta?

mánudagur, nóvember 24, 2008

Mæli með Gilligill

Það er óhætt að mæla með tónleikunum Gilligill í Salnum Kópavogi fyrir börn sem fullorðna. Pælið í því næsta sunnudag.

laugardagur, nóvember 22, 2008

Föstudagsfundir

Ég veit ekki með ykkur, örfáu lesendur, en ég hef fengið mig fullsaddan af blaðamannfundum á föstudögum þar sem tillkynnt er um hina og þess smá dúsu fyrir almenning til að dempa reiðina í þjóðfélaginu. Eins og allar aðgerðir okkar háu herra séu einungis miðaðar við að draga úr fjölda mótmælenda á laugardögum. Fjandakornið. Nú er bara kominn tími á að stokkað sé upp í stjórninni, embættismenn axli ábyrgð og boðað verði til kosninga ekki síðar en í haust. Þannig geta stjórnmálamenn, nýir sem gamlir, haldið uppboð á þeim hugmyndu sem uppi eru um það hverni þjóðfélaginu verði aftur komið á gott ról. Ég styð Samfylkinguna almennt séð. Þess vegna hvet ég hana til að leggja sitt á vogarskálarnar til að almenningur á Íslandi fái að fella dóma yfir þeim leiðum sem í boði eru til endurreisnar íslensks þjóðlífs. Ég styð Samfylkinguna meðal annars af því hún er þannig flokkur.

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Bjarni dómsmálaráðherra DV?



Er verið að gera grín? Líklega ekki. Líklega metnaðarleysi, enda Bjarna-villan á tveimur stöðum í fréttinni.

mánudagur, nóvember 17, 2008

PubQuiz 14. nóv 2008

Hallgrímur Jökull og Gummi Erlings báru sigurbjór úr býtum í spurningakeppni drykkjurúta á föstudaginn. Hér eru spurningarnar - spreyttu þig! Svörin eru í athugasemdakerfinu


1
Fyrir um ári síðan lögðu níu þingmenn úr öllum flokkum fram þingsályktunartillögu um prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson - með vörn og sókn fyrir íslenska tungu og ljóðrækt að meginmarkmiði.

Í greinargerð með ályktuninni segir:
Íslensk tunga er ankeri íslenskrar þjóðar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni. Íslensk tunga hefur alltaf átt undir högg að sækja, en hún er lífsseig með eindæmum og ber þannig spegilmyndina af eðli þjóðarinnar og virðingu fyrir tungunni þótt stundum pusi í þræsingum.

Nefnið einn af flutningsmönnum tillögunnar

2
Hvaða sérstöðu hafa Aðaldælahreppur og Öxarfjarðarhreppur meðal íslenskra sveitarfélaga?


3
Blóðsúthellingar, metnaðargirni höfðingja og raunir minni bænda eru Einari Kárasyni kært umfjöllunarefni í sögum hans sem eru byggðar á Sturlungu
Bok hans Ofsi er nýkomin út, framhald Óvinafagnaðar og væntanlega undanfari þriðju bókarinnar sem verður til að loka sögunni. Líkt og í Óvinafögnuði og Stormi fer Einar þá leið að láta hverja og eina persónu segja sína sögu og upplifun sína af mönnum og atburðum. Titill bókarinnar er sóttur í viðurnefni einnar af aðalpersónunum. Hvað heitir sá karakter sem er kallaður ofsi í Sturlungu....og Ofsa. Föðurnafn dugir.


4
Mikill fjöldi ferðamanna leggur leið sína í Vatíkanið og flestir freista þess að sjá dýrðina í Sistínsku kapellunni.

Þeir sem eru svo heppnir að fá að upplifa stemmninguna þar verða vitni að því að með reglulegu millibili kalla starfsmenn Vatíkansins eitt ákveðið orð til gestanna.

Hvaða eina orð er það sem gestir Sistínsku kapellunnar heyra frá starfsmönnum Vatíkansins?

5
Hér er tilvitnun
Í bók þessi lét eg rita fornar frásagnir um höfðingja þá er ríki hafa haft á Norðurlöndum og á danska tungu hafa mælt, svo sem eg hefi heyrt fróða menn segja, svo og nokkurar kynkvíslir þeirra eftir því sem mér hefir kennt verið.
Upphaf hvaða bókar er þetta?

6
Íslendiingasögurnar eru eitt dýrasta djásnið kórónu íslenskra bókmennta, þekktustu miðaldabókmenntir Íslendinga. Þær fjalla um Íslendinga á tímabilinu frá landnámsöld til fyrri hluta 11. aldar og gerast að mestu á Íslandi. Sem betur fer hefur töluverður fjöldi sagna varðveist í heild sinni og eru þær misjafnlega vel þekktar. Enginn veit hversu margar hafa glatast. Hver eftirtalinna Íslendingasagna er til dæmis ekki til.

Hænsna Þóris saga
Þórðar saga Hreðu
Tóftar-Sveins saga
Valla-Ljóts saga
Gunnar saga Keldugnúpsfífls


7
Páfarnir feta í fótspor Péturs postula. Hversu margir sporgöngumenn Péturs hafa tekið nafn hans?

8
Matthías Jochumsson orti um íslenska tungu:

Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elztu þjóðum.
Heiftareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum - geymir í sjóði.

En um hvern orti Mattias Jochumsson kvæðið sem í eru þessi erindi

„Hækkið þið seglin!“ hetjan kvað,
en Helja skjótari varð.
Boðinn skall yfir bárumar -
í búlkann var komið skarð.

Ef þrútið er loftið, þungur sjór
og þokudrungað vor,
þú heyrir enn þá harmaljóð,
sem hljóma frá kaldri Skor.

9
Hvaða eina orð getur þýtt þetta þrennt
Keppnisgrein, meira rennsli og hluti af vopni


10
Hreintungustefna er það kallað þegar menn forðast að taka erlend orð inn í tungumálið. Mörgum kann að virðast það forvitnilegt að Adolf Hitler lagðist mjög gegn hreintungustefnu. Hér á Íslandi hafa menn fylgt henni í orði kveðnu og er oft talað um orðið tölva í því samhengi. Áður en orðið tölva kom til var computerinn til dæmis kallaður rafmagnsheili. En hverjum er eignað orðið tölva sem er samsett úr orðunum tala og völva.


11
Hver er ‘Renegade’? Forverar hans voru meðal annars ‘Searchlight’, ‘Eagle’, ‘Trailblazer’, ‘Lancer’ og ‘ Deacon’

Til vísbendingar má geta þess að Renegade er reykingamaður sem hefur gaman af því að spila póker þótt fáir viti um það.


12
Ég hef haft það fyrir reglu að spyrja um Megas og engin ástæða til að bregða út af þeim vana. Hvað er Megas í samnefndum þáttum á sjónvarsstöðinni Cartoon Networks?

13
Á Íslandi er starfrækt fyrirtæki sem heitir Vatíkanið. Hvers konar fyrirtæki er það?

14
Þá er komið að vísnagátunni. Hver lína í vísunni gefur vísbendingu um lausnarorðið.

Bæjardyrum bjó það skjól.
Best er skín í heiði sól.
Fáum gefin sú er sjón.
Sjá má bera lögguþjón.


15
Tvö ríki sem hafa aldalanga reynslu af kúgun nýlendna standa nú í deilum við Ísland. Þetta eru Bretland og Holland. Bæði hafa líka miklu reynslu af veiðum við Ísland þar sem haft var að sporti að koma í land og snuða Íslendinga. Í annálum segir að þeir þykja viðsjálir í varplöndum og fuglabjörgum og eiga stundum til að hremma fé á afskekktum stöðum við sjó. Þar að auki er talið að helstu foringjar ræningjanna í Tyrkjaráninu hafi verið Hollendingar. Hvorki þeir né Bretar vilja nú verða við þeirri sanngjörnu kröfu okkar knésettu þjóðar að þeir skili peningunum sem við stálum af þeim. Reyndar er talið að Hollendingar, sem reyndar hálfpartinn fundu upp bankaviðskipti, gefist ekki upp fyrr en þeir hafi fengið alla Icesave innistæðurnar til baka og líka andvirði gullskipsins Het Wapen van Amsterdam sem strandaði á Skeiðarársandi og fórust á annað hundrað manna en fimmtíu til sextíu björguðust. Skip þetta var á heimleið frá Jövu með verðmætan farm gull, silfur og perlur, silki, pell, skarlat, léreft og dýra dúka, dýrmætar jurtir og desmerketti. Reyndar segja Hollendingar að við megum eiga desmerkettina. Á hvaða öld strandaði gullskipið?


16

Bretar heimta greiðslur fyrir Icesave upp á ótalrosahriklega marga milljarða Sterlingspunda. Þeir vilja þó ekki heyra á það minnst að fá greitt með hlutabréfum í flugfélaginu Sterling. Í byrjun ársins réðst Sterling í umfangsmikla markaðsherferð og náði að snúa áralöngum taprekstri við. Hvaða íslenskri tónlistarmaður samdi lagið sem var notað í sjónvarpsauglýsingunum fyrir Sterling?

17
Í gömlum sögum er talað um að Hollenskir veiðimenn við Ísland hafi verið mjög hrifnir af því að nota íslenska drengi til beitu. Ekki fylgir sögunni hvaða fiskar voru svo sólgnir í íslenskt drengjakjöt. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir einnig frá manni einum er Guðbrandur hét og var Jónsson. Hann var „miðlungi góðgjarn, illur viðfangs og ójafnaðarmaður og fégjarn“. Svo fégjarn var Guðbrandur að hann seldi hollenskum sjómönnum einkason sinn, rauðhærðan, tíu eða tólf ára gamlan, en sjómennirnir hugðust nota blóð hans til lækninga og greiddu vel fyrir. Sagan segir að þegar Hollendingarnir komu út í fjarðarmynnið hafi þeir hengt drenginn upp á fótunum og tappað úr honum blóðinu og hafi óhljóð hans heyrst í land.

Samkvæmt sögunum þurftu strákarnir sem notaðir voru í beitu og til lækninga að hafa eitt útlitseinkenni sameiginlegt. Hvernig stráka vilja Hollendingar helst nota til þessara verka samkvæmt sögunni?

18.

Þeir sem svara þessari spurningu rétt fá flösku af hollenska bjórnum Heineken, sem er eðalmjöður, þótt hann komi frá næstmestu fávitaþjóð heims.
En þegar þú flettir upp orðinu mjöður í orðabók kemur fram að það er dálítið sértækt. Skv. Bókinni er Mjöður áfengur drykkur úr soðinni og gerjaðri blöndu af vatni og einu öðru hráefni. Hvaða nauðsynlega hráefni er það?


19
Heimildir eru um fjölmarga Íslenska pílagríma á miðöldum, má þar nefna Nikulás ábóta á Munkaþverá (dáinn 1159) sem skrifaði leiðarlýsingu fyrir pílagríma; Sturla Sighvatsson gekk suður til Rómar fyrir mótgerðir sínar við Guðmund biskup góða og var leiddur berfættur milli höfuðkirkna í Rómaborg og flengdur. Í Grænlendinga sögu er frá því sagt að Guðríður Þorbjarnardóttir kona Þorfinns karlsefnis, fór í pílagrímaferð til Rómar og gerðist síðan einsetukona þegar heim kom. Einnig er sagt frá því í Gísla sögu Súrssonar að Auður Vésteinsdóttir kona Gísla hafi farið til Rómar að honum látnum og aldrei snúið aftur. Einna frægastur er Björn Jónsson Jórsalafari sem fór til Jerúsalem árið 1406. Eitt ákveðið orð var notað til að lýsa þessum ferðum Íslendinga. Hvað voru voru pílagrímaferðir Íslendinga jöfnum höndum nefndar?

20
Skrilljarðagæludýrsfótboltafjöllistahópurinn Chelsea tapaði í vikunni fyrir Burnley í ensku deildarbikarkeppninni í knattspyrnu. Hvaða Íslendingur leikur með Burnley?

21

Málhljóðunum í íslensku er skipt í tvo meginflokka, sérhljóð og samhljóð. Samhljóðin flokkast meðal annars í önghljóð, hliðarhljóð, lokhljóð eins og p - t - k og nefhljóð M og N.

En hvert er eina sveifluhljóðið í íslensku? Ef ég lýsi þessu aðeins nánar; Þegar sveifluhljóðið er borið fram titrar tungubroddurinn svolítið við tannbergið á meðan loftið streymir framhjá

22
Páll Óskar Hjálmtýsson hefur nýgefið út safn af sínum bestu og vinsælustu lögum. Hér eru saman komin öll bestu lögin af öllum plötum Páls Óskars, bæði sólóplötum og samstarfsverkefnum, frá árunum 1991 til 2008. Þar á meðal er lagið þú komst við hjartað í mér sem Hljómsveitin Hjaltalín sló í gegn með í sumar. En hver samdi lagið Þú komst við hjartað í mér?


23
Forseti Íslands komst í fréttirnar í vikunni fyrir að segja útlendum sendimönnum hvað Íslendingum finnst um þá. Ólafur Ragnar hefur átt fundir með, að eigin sögn, þúsundum Íslendinga að undanförnu og freistað þess að stappa stálinu í þjóð sína og sannfæra hana um að búandi verði í þessu landi áfram. Mamoun Abdul Gayoom var kjörinn forseti í álíka fjölmennu ríki og Ísland er á dögunum en skilaboð hans til þjóðarinnar voru akkúrat öfug. Landsmenn, 370 þúsund talsins, eigi að búa sig undir að flytjast burt og setjast að annars staðar vegna hlýnunar jarðar.

Í hvaða landi á þjóðin að búa sig til brottfarar samkvæmt nýkjörnum forseta sínum?



24
Á degi íslenskrar tungu eru jafnan veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar til þess manns sem talinn er hafa unnið tungunni mikið gagn.
Í rökstuðningi ráðgjafanefndar verðlaunanna í fyrra var sagt um þann sem verðlaunin hlaut að viðkomandi hafi um áratuga skeið lagt fram drjúgan skerf til viðgangs íslenskrar tungu og íslenskrar hugsunar með ritstörfum og kennimennsku. Verðlaunahafinn sagðist hafa miklar áhyggjur af þróun íslenskrar tungu, og taldi enskuslettur alltof áberandi í málinu.

Hver hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í fyrra?


25
Rithöfundur nokkur gefur út tvær bækur fyrir þessi jól. Önnur er sagnfræðileg spennusaga sem sækir í víkingafortíð Íslendinga. Hún er byggð á kenningum um fyrstu landnámsmennina sem leiða lesandann í eltingaleik um týnd hof, norræna goðafræði, horfna kirkjugrunna og sífellt nær elsta leyndarmáli þjóðarinnar. Hin bókin er fjörug teiknimyndasaga, þar sem útrásarvíkingarnir bregða á leik eins og þeim einum er lagið. Í þessari smellnu sögu eru örlög þeirra rakin og stólpagrín gert að útrásinni margfrægu.

Hvað heitir rithöfundurinn og hvað heita bækurnar?

26
Það hefur ekki fari framhjá neinum að Ísland er haft fyrir misskilningi, rangfærslum og níði í erlendum fjölmiðlum. Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi en þegar við vorum í sömu sporum á 16. öld greip spekingur til nokkur aðgerða og skrifaði bók til að bæta orðspor þjóðarinnar á erlendri grundu. Hét hún Brevis commentarius de Islandia. Bókin er tilraun til að nota bókaútgáfuna og prentið, sem þá var helsti fjölmiðill heims og helsta samskiptamiðilinn innan fjölmiðlunarinnar, latínuna, til að koma á framfæri hugmyndum um hvernig bæri að skilja ímynd Íslands og þar með sjálfmynd íslensku valdastéttarinnar. Hugmyndir hans um að Íslendingar séu frjálsbornir menn sem ekki láti kúga sig, hljóma kunnuglega ekki satt. Höfundurinn sat á Hólum í nærri 30 ár og sinnti landkynningu meðfram öðrum störfum. Þessi fína gamla bók kemur út aftur núna fyrir jólin og er jólagjöfin í ár fyrir vini og kunningja erlendis. Höfundur Brevis commentarius de Islandia var Arngrímur Jónsson lærði, en hver hefur haft yfirumsjón með markaðssetningu íslensks lambakjöts og fleiri íslenskra vara í Bandaríkjunum undanfarin ár, síðustu ár sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins Áform?

27
Síðan kreppan reið yfir hafa menn kvartað yfir ónógri upplýsingagjöf. Geir Haarde, sem er þekktur fyrir skjót viðbrögð og fádæma röggsemi, hefur nú, meira en mánuði eftir frjálshyggjuhrunið ráðið upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytið, Kristján Kristjánsson – sem áður starfaði á Fréttastofum RÚV og í Kastljósinu. Síðan hann yfirgaf Efstaleitið hefur hann starfað hjá tveimur fyrirtækjum þar sem hann hefur öðlast reynslu sem mun nýtast honum vel við að vinna fyrir Geir. Hverjir eru tveir síðustu vinnustaðir Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa Geirs Haarde.


28
Elsku litli engillinn
það er enginn ríkari en pabbi þinn.
Ég á milljarða í massavís
og marmarahöll í paradís.
Er með hagstæða afkomu eigin fjár
og arðsemi fjármagns var góð í ár.
Ég á átján skip á sjó
og eyjuna Borneó.

Elsku hjartans anginn minn
það er enginn ríkari en pabbi þinn.
Ég á kampavín og kavíar
og flestar karabísku eyjarnar.
Ég á ofgnótt af allskonar listmunum.
Ég á egypskan faraó í frystinum.
Ég á Beta-vídeó
og borpall í Norðursjó.

Hver er höfundur laga og texta á nýútkomnu barnaplötunni Gilligill sem hefur verið að fá frábæra dóma að undanförnu?


29
Nú er James Bond á hvers manns vörum og því við hæfi að spyrja:
Titillag hvaða James Bond myndar sat í 5 vikur á toppi vinsældalista Rásar 2 sumarið 1985 en var að lokum velt úr sessi með laginu Frankie með Sister Sledge.

30
Herferð Íslandspósts um póstmanninn sem hefur þráhyggju fyrir vinnu sinni hefur verið mikið keyrð að undanförnu. Póstmaðurinn býr til bréf úr hrökkbrauði og gúrku. Pósturinn sem heitir Patrekur Gunnar Patreksson þykist þekkja hvaðan bréf eru send af lyktinni einni saman. Þá finnst ákveðin kvikmynd frá árinu 1997 vera meistaraverk og segir að hún byggi á sönnum atburðum í framtíðinni. Hvaða mynd er það og hver lék aðalhlutverkið?

laugardagur, nóvember 15, 2008

Lágvörur

Eftir ferð mína í tvær lágvöruverslanir í dag skil ég loksins þetta orð 'lágvörur'. Það eru vörur sem eru seldar með því að leggjast lágt. Sjáum hér tvö dæmi, hvort úr sinni búðinni



Verðmerkingin höfð á hvolfi svo varan virðist ódýrari



Torkennileg vatnsblanda seld á 2.200 kr. kílóið. Lystugur kjúklingur? Nei.

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Exit Bjarni

Nú hefur Bjarni brotið ísinn. Geta þá ekki fleiri axlað ábyrgð? Það er af nógu að taka.

(X-)Bjarni

Hvar fékk Bjarni bréfið sem tveir framsóknarmenn sendu á Valgerði með gagnrýni fyrir tómlæti gagnvart fífldirfsku útrásarjöfra? Ég giska á að þeir hafi sent afrit á formanninn og Bjarna hafi verið falið að koma því á fjölmiðla.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Quantum of Bond

Sáum Bond um helgina. Myndin virkaði á mig sem eins konar millispil - þar sem JB er að grennslast fyrir um risavaxin glæpasamtök - Quantum. Hressileg þeysireið milli heimsálfa og vel útfærð átök og eltingaleikir. Það vantaði kannski aðeins upp á alvöru ógn - sem er líklega það sé á við með orðinu millispil - það er miklu meira í vændum.

föstudagur, nóvember 07, 2008

Viltu mótmæla?

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Stjórnmálamenn! Hættið þessu rugli og komið með sannleikann upp á borðið!