fimmtudagur, desember 29, 2005

Lítið röfl um hátíðarnar

Vonandi haldið þið bara áfram að hafa það gott. Hafi eitthvað gerst verður vonandi sagt frá því. Nú árið er liðið í aldanna skaut og allt það.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Skoðanakannanir

Margar skemmtilegar kannanir í gangi, sérstaklega ein sem sýnir að aðeins 84% landsmanna telja Íbúðalánasjóð traustan. Þeir guma sig væntanlega af þessu þó segja megi að hér sé um afhroð að ræða fyrir fyrirtæki sem nýtur ríkisábyrgðar og ætti því að vera traustara en allt sem traust er. Væntanlega eru þau 16% sem treysta ekki Íbúðalánasjóð að lýsa þeirri skoðun sinni að Íbúðalánasjóður eigi ekkert erindi við fólk í dag, en um það hefur sjóðurinn ekki birt neina könnun. Hvaða traust er það?

mánudagur, desember 19, 2005

Nýja Reykjavík

Nú er að fylkja sér bak Degi B. Eggertssyni í prófkjöri Samfylkingarinnar 10.-11. febrúar. Prófkjörið er öllum opið.

föstudagur, desember 16, 2005

Chelsea Barcelonaaaaaaa

Úff.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Eldavélin er einmana

Uppþvottavél er gengin út til lesanda Röflsins, gaman að því. Enn er kostur á að eignast afburða Siemens eldavél en á henni hefur aðeins verið eldað úr úrvals hráefnum, íslensku grænmeti, smjöri og rjóma.

Lóðastemmningin í Kópavogi

Flosi nokkur EIríksson fékk góða lóð í nýjustu úthlutuninni í Kópavogi. Ekki má láta drenginn gjalda þess að hafa verið bæjarfulltrúi. Svo sé ég að gamall bekkjarbróðir minn fær lóð. Og fyrir skemmtilega tilviljun þá fá foreldrar hans lóðina við hliðina!

miðvikudagur, desember 14, 2005

Ég verslaði alltaf í stórmörkuðunum af því ég hélt að það væri svo ódýrt...

Hvers vegna var Griffill hæstur í verðkönnun ASÍ?
Vegna þess að þeir bjóða 3 fyrir 2 af ÖLLUM bókum.
Það þýðir að þrjár bækur sem kosta 5.000 krónur hver, kosta ekki 15. þúsund heldur 10. þúsund. Venjuleg verðkönnun tekur ekki tillit til þessa.

Stórmarkaðirnir taka bara metsölulistana, slátra verðinu á bókunum og leggja bara meira á snúðana í staðinn. Ég veit að allir þrír lesendur þessarar síðu vilja meira úrval en stórmarkaðirnir bjóða, og því er upplagt að plögga Griffil hér.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Enginn býður betur

Hver vill eiga Siemens eldavél og Siemens uppþvottavél? Báðir eru hlutirnir hvítir og lítið notaðir. Eina sem þarf að gera er að sækja góssið og stinga því í samband og byrja að njóta.

Veit ekki alveg...

...en það er eitthvað líkt með tveimur pirringum sem eru í gangi núna. Annars vegar eru femínistar pirraðir yfir því að Dóri foss sendi Unni Birnu hamingjuóskir frá allri þjóðinni. Hins vegar eru leikskólakennarar pirraðir yfir því að fólk sem vinnur á leikskólum og eru með öðru vísi menntun en leikskólakennslufræði hafi fengið sæmilega launaleiðréttingu.

Maður hefði haldið að í stað þess að missa sig í fúllyndum gætu báðir pirruðu hóparnir nýtt sér umræðuna á taktískari hátt og skolað þannig sínum eigin baráttumálum lengra. Í staðinn missir liðið sig í fýlu og pirringi og fjarlægist þorra þjóðarinnar sem finnst bara fínt að Unnur Birna sé ungfrú heimur og að lægstu launin hafi verið hækkuð.

Það er nefnilega mjög auðvelt að vera sammála grundvallarprinsippum pirruðu hópanna en mér finnst menn ekki hafa haldið nógu vel á spilunum sínum í þessum tveimur tilfellum.

mánudagur, desember 12, 2005

Hjálpum tveim

Á flatskjánum birtast myndir
við fáum gegnum heimabíóið fréttir
að hungursneyð ógni einhverri þjóð.
Svartir menn, brúnar konur, gul börn
bíði dauðans.

Án Einars Bárðar og íslenskra poppara eigi enga vo-o-o-on.

Búum til betri heim.
Sameinumst hjálpum tveim.

Hólf og gólf



Þetta verk er að baki. Berserkur nokkur mætti að sunnan og kláraði allt sem tengist orðinu flís. Punktur var settur aftan við gasvæðingu þjóðarinnar þegar hið fagra spansuðuborð var fest. Örlítil frágangsvinna eftir: Setja upp hillu, ganga frá gluggakistu og gerefti, herða eina ró.....

Til sölu, kostar lítið: Nýleg Siemens eldavél og uppþvottavél (60 sm) frá sama.

föstudagur, desember 09, 2005

Er ekki Tango bara enn bestur?

fimmtudagur, desember 08, 2005

Minnismerki um Tómas Guðmundsson

Ég legg fram eftirfarandi tillögu að minnismerki um Tómas Guðmundsson, borgarskáld: 6 grænir símastaurar á brúnni yfir Tjörnina. Ef einhver skilur ekki þessa tillögu þá er kannski bara engin ástæða til að minnast Tómasar sérstaklega. Hugsanlega væri hægt að búa svo um að símastaurarnir væru syngjandi.

Eru framsóknarmenn repúblíkanar Íslands?

Það komst í fréttirnar um daginn þegar Árni Magnússon, félagsmálaráðherra og krónprins, tók þátt í samkomu hjá Hvítasunnusöfnuðinum. Það minnir ekki lítið á þá taktík bandarísku repúblíkananna að hrífa með sér öflug trúfélög sem skila sér í kosningar til síðasta manns. Og allir kjósa „rétt“. Mér datt þetta í hug þegar ég las nýjan pistil annars krónprins B-listans, Björns Inga Hrafnssonar, þar sem hann lýsir stórbrotnum tónleikum Fíladelfíusafnaðarins. Björn bætir við: „Ég á góða vini í Fíladelfíusöfnuðinum og átti gott spjall við Vörð Traustason og hans fólk að loknum tónleikunum. Starf safnaðarins einkennist af einlægum tilfinningum, heitri trú og innlifun í tónlistinni sem auðvelt er að hrífast með.“

Það er ekki verra að hafa Fíldelfinga með sér í prófkjöri og finnst mér vera refslegur repúblíkanakeimur af þessu.

Dauði í riðlum

Mér finnst ég varla heill né hálfur maður.
Og heldur ósjálfbjarga því er ver.
Þeim hjá SÝN hlýtur að líða illa yfir þessu líka.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Flugstöðin


Það er skrýtin mynd sem fylgir öllum þessum löngu fréttum af fyrirhugaðri stækkun flugstöðvarinnar. Ég sé ekki betur en að það sé gert ráð fyrir bílastæði í miðri byggingunni. Nógu mikið rugl er á bílastæðunum þarna fyrir. Með nýju bílastæðagjöldunum þarna er verið að skattleggja fólk fyrir að sækja vini og ættingja. Gott að vita að í framtíðinni geti maður hins vegar lagt bílnum sínum inni í flugstöðinni. Hitt er annað mál að svo virðist sem Flugstöðin hafi verið of lítil frá fyrsta degi.

Getraun dagsins er þessi: Hvaða stjórnmálamaður hafði mest um það að segja að Flugstöð Leifs heppna var byggð miklu minni en upphaflegar áætlanir, og þörf, kváðu á um?

þriðjudagur, desember 06, 2005

Tilkynning um nýtt trend

Spansuðuhellur hafa tekið við af gashellum sem flottasta leiðin til að steikja sér beikon. Gasburður er gamaldags. Nefndin.

Jarvis Potter

Sá Harry Potter í gær og þar sýndist mér Jarvis Cocker bregða fyrir. Ég vissi ekki heldur að Sigurður Valgeirsson hefði leikið í myndinni. Ég hló í hvert einasta skipti sem dvergurinn sá birtist.

Alveg bit yfir Fréttablaðinu

Ég man ekki eftir að hafa séð orðið bit notað í fyrirsögn í dagblaði áður en fréttin: „Verkalýðsleiðtogi bit á sinnuleysi lögreglu“ birtist í Fréttablaðinu. Hvað kemur næst? „Stúdentsefni domm yfir reglugerð mennamálaráðherra“ eða „Ráðherra foj vegna gagnrýni stjórnarandstöðu.“

Skeið

Ásta fær rétt fyrir skeið.

En hvaða orð getur þýtt allt í senn: Listi, umræða og skákmaður?

mánudagur, desember 05, 2005

Þorri var svarið

Laufey Jens fær prik fyrir að vita að orðið sem getur allt í senn merkt: Mannsnafn, tímabil og meirihluti er þorri.

Enn spyr ég um íslenskt orð. Það getur þýtt allt í senn: Gangur, verkfæri og tímabil.

Mannréttindi léttvæg fundin

Ríkisstjórninni okkar er alveg sama þótt það sé líklegt að verið sé að flytja gegnum landið menn til pyntinga hingað og þangað um heiminn. Sama áhugaleysi um mannréttindi finnst mér skína í gegnum afnám fjárveitinga til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Staðan

Fyrir 2 vikum birti ég yfirlit yfir stöðuna á R39. Staðan hefur heldur betur breyst og nú eru komnar hurðar á skápana, nema ísskápinn en önnur hurðin á hann og ein lítil framhlið á skúffu er það eina sem okkur vantar frá IKEA. Borðplötur komnar á, úrfræsaðar og olíubornar, gufgleypir kominn upp, hellur og ofn tilbúin til tengingar. Allt að gerast. Reikna má með gólfefni go veggflísum næstu helgi en í vikunni verða græjur og blöndunartæki tengd, þó ekki saman.

Dagur B. íhugar framboð. Ég vil að hann verði borgarstjóri og skora á hann í hvert skipti sem við hittumst.

föstudagur, desember 02, 2005

Íslendingasögurnar kvikmyndaðar

Það hljómar vel. Raunar finnst mér að þjóðin ætti að gefa sjálfri sér sirka 5 kvikmyndir upp úr Íslendingasögum. Ríkið mundi velja 10-15 leikstjóra og láta þá vinna grunnhugmyndir og síðan styrkja þá sniðugustu myndarlega til að gera fimm góðar bíómyndir, til dæmis eftir Njálu, Grettlu, Eglu, Fóstbræðru og Bandamönnu? (Ganga þessar nafngiftir? Njah, varla).

Krónprins og Norðurlandameistari slyppir og snauðir

Ég hélt að Jón Hallur Stefánsson og Sjón væru öruggir um tilnefningu til bókmenntaverðlaunanna. Þeir hafa verið kynntir vel og bækurnar hlotið betri dóma en sumar þeirra tilnefndu. Gæti verið að það hafi unnið gegn þeim að þeir eru auglýstir sem "Krónprins íslensku glæpasögunnar" annars vegar og "Norðurlandameistarinn í bókmenntum" hins vegar? Bjartur getur nú ekki verið ánægður með þetta.

Hugraun fyrir lesendur

Datt þetta í hug á leiðinni í vinnuna og leyfi ykkur að spreyta ykur:
Hvaða íslenska orð getur verið allt þetta þrennt: Mannsnafn, ákveðið tímabil og meirihluti?

fimmtudagur, desember 01, 2005

HC Sendiherra


Ég vissi ekki að HC Andersen væri orðinn sendiherra Íslands í Svíþjóð.