Meiddur leikmaður - meiddur þulur?
Hörður Magnússon: "Hann hefur ekki leikið með liðinu frá því á gamlársdag á þessu ári".
Hörður Magnússon: "Hann hefur ekki leikið með liðinu frá því á gamlársdag á þessu ári".
Var að hlusta á útvarpið í bílnum í morgun. Á Rás 2 var verið að ræða við Jóhönnu Vigdísi fréttamann Sjónvarpsins um nýja bók hennar. Skipti yfir á Rás 1 en þar var verið að ræða við Eirík Guðmundsson, Víðsjármann, um nýja bók hans. Mér heyrðust allir vera á inniskóm.
Meira af Framsóknarmönnum: Ég sá Halldór Ásgrímsson á Austurvelli. Hann var á Hyundai bifreið. Halldór varð í öðru sæti í baráttunni um titilinn Maður ársins 2006 í grófum dráttum, en laut í lægra haldi fyrir Geir Haarde. Sjá myndir hér.
Tek eftir því að Pétur Gunnarsson bregður skjöldu fyrir Björn Inga Hrafnsson í kjölfarið á makalausri framgöngu Binga í Kastljósinu um daginn. Til að verja ráðningar Framsóknarmanna á Framsóknarmönnum, sérstaklega galinni ráðningu á Óskari Bergssyni, formanni Framkvæmdaráðs til að gæta hagsmuna gagnvart Framkvæmdaráði, brá Bingi á það ráð að reyna að gera bæði viðmælanda og stjórnanda umræðnanna tortryggilega í stað þess að svara efnislega. Þessu hefur Gummi gert ágæt skil og verður engu við það bætt hérna.
Hafið þið heyrt að Air og Nouvelle Vague séu að koma til Íslands í mars? Þið hafið heyrt það núna.
Vilhjálmur borgarstjóri selur hlut borgarinar í Landsvirkjun á útsöluverði og kaupir jarðarskika af Kjartani Gunnarssyni á uppsprengdu verði. Ég þarf greinilega að ná í hann sem fyrst og selja honum nokkrar bækur! Reyndar sýnist mér öruggara að ganga í flokkinn fyrst.
Skip sendir frá sér neyðarkall. Björgunarsveitir bruna af stað og bjarga, kannski á elleftu stundu, og allt kátt í höllinni. Þegar Blóðbankinn sendir út neyðarkall, þá er lokað á slaginu þrjú og brjóstgóðum blóðgjöfum vísað á braut, þótt þeir komi kl. 15:03. Lok lok og læs. Neyðarkallinn vant við látinn kannski?
Í kvöld nær söfnunarátakið sem tengist Rauða nefinu hápunkti. Vonandi gengur það allt saman vel, enda held ég að Íslandsdeild Unicef sé að gera rosalega fína hluti í Gíneu Bissau.