miðvikudagur, janúar 31, 2007

Skotskór á takteinum?

Nú þarf Eiður að fara að reima skotskóna fastar á, ekki fyrir langveik óskabörn þjóðarinnar heldur MIG. Ætlunin er að fara í piltaferð þarnæstu helgi og sjá stórleik Barcelona og Racing Santander. Mér hefur lengi þótt Racing Santander vera eitt flottasta nafnið í boltanum, þótt liðið sé ekki neitt sérstakt. +

Eto'o Brute?

Að tapa

Hvort er verra að tapa naumt eða vera rassskelltur? Það virðist erfiðara að taka því að bíða ósigur í jöfnum leik. Er ekki aðalatriðið er að menn geti verið stoltir af sinni framgöngu?

Breytir því þó ekki að það er betra að vinna....jafnvel með bolabrögðum.

Friðjón flýgur

Það er gaman að fylgjast með baráttu Friðjóns gegn okri Icelandair

http://fridjon.blog.is/blog/fridjon/

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Vista?

föstudagur, janúar 26, 2007

Smáauglýsingar

Á fjörur mínar rak gamalt blaðsnifsi, líklega úr Vísi. Þar eru þessar auglýsingar:


Sólríkt herbergi til leigu fyrir reglusaman ungan mann. Sími 15100

Stór stofa á jarðhæð til leigu. Húsgögn, sérsnyrtiherbergi. Sími 16398

Herbergi óskast í Vesturbænum. Einhver eldhúsaðgangur æskilegur. Sími 10734

Bifreiðakennsla. Aðstoð við Kalkofnsveg. Sími 15312

Hjólbarða viðgerðir. Opið öll kvöld og helgar. Fljót og góð afgreiðsla. Bræðraborgarstígur 21. Sími 13921

BRÝNSLA. Fagskæri og heimilisskæri. Móttaka: Rakarastofan Snorrabraut 22

GÓÐ smurbrauðsdama óskast strax á Björninn Njálsgötu 49.

Röskur strákur 14-16 ára, helst eitthvað vanur veiðum, óskast til silungsveiða í sumar. Uppl í síma 16334 kl 7-8 í kvöld.

Stúlka, vön kjólasaumi, óskast strax. Kjólasaumastofan Hólatorgi 2

GUFUBAÐSSTOFAN Kvisthaga 23. Sími 18976, er opin í dag fyrir karlmenn kl. 2-3. Fyrir konur 8-9.

KOPARFITTINGS fyrir olíukynditæki. Eldfastur steinn: létti ameríski eldfasti steinninn kominn aftur. Pantana óskast vitjað sem allra fyrst. SMYRILL, Húsi sameinaða - Sími 1-22-60

10 daga ferð um austur og suðausturland hefst 4. júlí. 7 daga ferð um austur og suðausturland, hefst 4. júlí. Þórsmerkurferð laugardaginn 4. júlí. kl. 2. Ferðaskrifstofa Páls Arasonar, Hafnarstræti 8.


Þetta er bara yndislegt.


Svo er ein örstutt frétt úr þessu blaðsnifsi í lokin:

Enn berja Bretar fanga

Brezkir hermenn hafa enn gert sig bera að villimannlegri meðferð á blökkumönnum í Afríku. Eru það að þessu sinni varð menn í fangabúðum í Kanjezda í Njassalandi, sem eru bornir þeim sökum að þeir hafi haldið föngum í hlekkjum, barið þá og svelt.

Guantanamo hvað?

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Auglýsing

Málið er að Esso við Geirsgötu er að loka, og nú er þar allt á 50% afslætti, alls konar gúmmelaði á verði sem maður átti að venjast í bernsku.

Svona ætti auglýsingin að hljóma: Viltu fara aftur í tímann? Hálftómar hillur og allt helmingi ódýrara - Esso Geirsgötu.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Hlutdrægir fréttamenn

Er að horfa á handboltaleikinn. Hefur hlutleysiskrafa fréttamanna alveg verið dregin til baka? Mér heyrist lýsendur draga taum annars liðsins og skammast sín ekkert. Það lið er reyndar undir núna gegn Túnis.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Gaaarg

mánudagur, janúar 22, 2007

Erfiður Man U dagur

Já fjandakornið. Leikurinn tapaðist í gær og maður sér stuðningsmenn út um allt gráta og tala um að lykilmenn hafi brugðist. Jú svo tapaði landsliðið líka.

sunnudagur, janúar 21, 2007

Vopnabúrið

Nú er að vinna Arsenal. Takk Bítlbæingar.

föstudagur, janúar 19, 2007

Verðið bólgnar

Fyndið að það er sama hvert maður fer að borða þessa dagana. Allir eru staðirnir með nýprentaða matseðla - og hærra verð. Argh.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Þorri

Bílfarmar af gráum mat skríða í átt að borginni. Grátt malbikið gægist upp úr snjónum. Grár himinn.

En það er bjart fram undan. Tvö áhugaverð verkefni sem nánar verður sagt frá síðar.

Sáum Stranger than fiction. Will Ferrel bregður út af vananum og skiptir fíflaganginum út fyrir nokkuð góðan leik.

Sem betur fer er stutt í fíflaganginn.

Horfðu á þetta:




Svo er þarna gaurinn úr Napoleon Dynamite. Sprengja!

mánudagur, janúar 15, 2007

Herbalife

Ég held að Herbalife sé nú alveg skaðlaust fyrir lifrina, en það gerir einhvern fjandann við málstöðvarnar

föstudagur, janúar 12, 2007

Hafið þið hugsað um það hvernig ljósvakinn í kringum okkur er hlaðinn af útvarpsefni. Eru þetta ekki einhverjar 15-20 stöðvar sem eru sendar út á ýmsum tíðnisviðum en þjóta allar eins og vindur um eyru okkar. Ríkisútvarpið ber, að mínu mati, höfuð, herðar og búk yfir annað sem er í gangi og þar er á dagskrá eini útvarpsþátturinn sem ég sækist sérstaklega eftir að hlusta á: Orð skulu standa. Þar var ég einu sinni gestur meira að segja en stóð mig ekkert sérstaklega vel. Eitt af því fáu sem ég gat svarað sæmilega skammlaust var að botna vers eftir Megas. Megas þessi hefur sjálfur nýlokið þáttasyrpu sinni um rokkkónginn Elvis Aron Presley. Ég man eftir því þegar ég var í menntaskóla þá bauð Megas upp á aðra slíka seríu um annan kóng, verslunarerfingjann Robert Allan Zimmermann. Mér til óvæntrar og ómældrar gleði hefur Ríkisútvarp allra landsmanna hafið endurflutning á þessum stórbrotnu þáttum sem heita Slægur fer gaur með gígju. Smelltu til að hlusta á fyrsta þáttinn sem var í Útvarpinu á sunnudag.

(Sem gamall þulur hef ég leyfi til að kalla Útvarpið Útvarpið, læt öðrum eftir að nota orðskrípið Rás eitt).

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Efnavopna Ali

Það er ekki sama Ali og Efnavopna Ali Mig grunar að þessi nafngift sé upprunnin í Bandaríkjunum og sé hluti af þessu áróðursstríði - WMD og allt það. Alltént væri gaman ef duglegur blaðamaður myndir grennslast fyrir um uppruna uppnefnis skúrksins Chemical Ali.

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Fallandi stjarna Liverpool

Fylgismenn Liverpool eiga ekki sjö dagana sæla - ekki það að ég sé í þeim hópi. SJálfur á ég sjö dagana sæla. Ég tengi slæman árangur Liverpool við birtingu halastjörnunnar. Og þá á ég við Halleys halastjörnuna sem birtist á síðari hluta níunda áratugnum, um svipað leyti og síðasti enski meistaratitill Bítlbæinga.

Jólin á ný!!

Svei mér þá ef jólin komu ekki aftur í dag. Jólagjöfin líka, nema ég er ekki kominn með hana í hendur. Ég flissaði eins og smástelpa við að hlusta á Steve Jobs lýsa iPhone! Nýr iPod, brilljant farsími og netskoðari í einu tæki. Einn takki!

iPhone - jólagjöfin í ár! Sjá www.apple.com

þriðjudagur, janúar 09, 2007

9/9?

Í frétt á mbl.is segist Will Smith ætla að flytja til Afríku. "Þegar tökur á kvikmyndinni um Muhamed Ali stóðu yfir í Suður Afríku ákvað aðalleikari myndarinnar, Will Smith, að flytja þangað. „Ég fann hús í Suður Afríku en það var fyrir árásirnar 9. september og okkur fannst sem Bandaríkjamönnum að við þyrftum að vera heima í Bandaríkjunum eftir þær, en ég dýrka Afríku,” sagði Smith."

9. september?

Kannski er þetta aðeins of "cheap shot" á mbl.is?

sunnudagur, janúar 07, 2007

Overkill

John Cleese í auglýsingunum. Duran Duran í áramótapartíinu. Mér sýnist vera kominn tími til að skipta um banka.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Gleðilegt hár

Var að horfa aftur á skaupið. Það var skratti gott. Hápunktar: Sæmi rokk dansar jive, Árni Tryggvason deyjandi kaupmaður á horninu í faðmi Jóns Ásgeirs, leiknum af Gísla Erni, Dvergurinn í Orkuveituauglýsingunni og myndbandið sem Andri Snær sýnir um einhyrninginn og blómálfinn á Kárahnjúkum. Ekki held ég að framsóknarmenn hafi glaðst yfir því að rifjaðar voru upp ásakanir um að þeir hefðu keypt atkvæði í kosningunum í vor.

Annars var 2006 gott ár. Hápunktar: Rolling Stones, Kárahnjúkaferðin, bókarútgáfa, prófkjörsbarátta og Andalúsía. Besta platan: Modern Times. Besta bókin: 2006 í grófum dráttum. Besta myndin: A Praire Home Companion, Casino Royale og Börn. Kona ársins: Ásta mín.