Tilnefningar í bókmenntum til DV menningarverðlauna
Það er býsna athyglisvert að engin bók sem tilnefnd er til bókmenntaverðlauna DV var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Höfðu Íslensku bókmenntaverðlaunin bein áhrif á þetta val hjá DV? Er þetta þá svona best of the loosers?
Tilnefningar DV:
Afleggjarinn eftir Auði Ólafsdóttur
Í Afleggjaranum skapar Auður Ólafsdóttir heim sem er handan raunveruleikans
en þó fullkomlega sannur. Líkt og aðalpersónan, sem er í stöðugri leit að
sjálfum sér, finnur lesandinn svör við mörgum áleitnum spurningum, svör sem
eru þó aldrei endanleg. Afleggjarinn rífur sig úr viðjum hins hefðbundna en
um leið er sagan uppfull af trúarlegum táknum, listfræðilegum vísunum og
heimspekilegum átökum um tilvist mannsins. Hér er sleginn nýr tónn í
íslensku samhengi. Þetta er nýstárleg og óvenjuleg saga en um leið
tímalaus.
Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson
Bréf til Maríu er uppgjör við einsýnan tíðaranda nútímans. Bókin vekur,
ögrar og skemmtir í senn. Einar Már Jónsson er ekki aðeins pennalipur
heldur á hann líka erindi og með þessu langa sendibréfi frá París hefur
honum tekist að vekja upp gagnrýna umræðu á Íslandi.
Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson
Himnaríki og helvíti er mögnuð saga frá einum helsta skáldsagnahöfundi
samtímans. Jón Kalman Stefánsson tekst á við hlutskipti mannsins í erfiðri
náttúru norðursins í upphafi síðustu aldar. Sagan er vægðarlaus, falleg og
áleitin og tök höfundarins á frásagnarstílnum eru einstaklega sterk.
Óraplágan eftir Slavoj Zizek
Þýðing: Haukur Már Helgason
Óraplágan hefur burði til að vekja þjóðina upp af værum vitsmunasvefni. Í
bókinni beitir Zizek sálgreiningu og heimspekilegri gagnrýni til að greina
samtímann. Hann fléttar fræðilegri orðræðu saman við dæmi úr dægurmenningu
og hversdagslífi og spyr áleitinna spurninga um langanir okkar og sjálfræði
í kapítalísku samfélagi. Þýðandi glímir við að yfirfæra og innleiða flókin
heimspekileg hugtök í íslenska umræðu. Textinn er aðgengilegur og torsóttur
í senn en vel hugsaður inngangur eftir Andra Fannar Ottósson og Steinar Örn
Atlason hjálpar lesandanum áleiðis.
Óreiða á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur
Óreiða á striga er litríkt verk um líf og list, sambönd og sambandsleysi á
síðari helmingi tuttugustu aldar. Í brennidepli eru sterkar persónur sem
takast á við örar samfélagsbreytingar með ólíkum hætti. Saga íslensku
þjóðarinnar er sögð út frá sjónarhorni konu sem tekst á við möguleika og
takmarkanir samfélagsins og leitast þannig við að skapa mótvægi við
hefðbundna karllæga sögutúlkun. Kristín Marja hefur skrifað lífssögu
kraftmikillar listakonu sem fer sínar eigin leiðir í lífinu.
Sekúndu nær dauðanum — vá tíminn líður eftir Ingólf Gíslason
Ögrandi ljóðabók, gáskafull og grafalvarleg í senn. Ingólfur Gíslason tekst
á við tungumál og tilfinningar með hressilegum hætti og varpar nýstárlegu
ljósi á hvunndaginn og samtímann.