föstudagur, apríl 28, 2006

Varist eftirlíkingar

Össur góður í dag.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Vændiskona DV

Hafið þið skoðað forsíðuna á DV í dag?



Og ef vel er að gáð?



Er þetta boðlegt?

Af hverju tapaði þessi maður?

http://video.google.com/videoplay?docid=-2365936237119418685&q=berlusconi&pl=true

Slappur ráðherra

Hvað amar að samgönguráðherra sem uppnefnir menn úr ræðustóli á alþingi? Er maðurinn sturlaður?

mánudagur, apríl 24, 2006

Vá, heil vinnuvika fram undan

Vakna snemma fimm morgna í röð eftir það sem á undan er gengið? Varla hægt. Ofurmannlegt eða loksins loksins? Kláraði Leiðina til Rómar um helgina, frábær bók. Langt kominn með Hina feigu skepnu eftir Roth í þýðingu verðlaunaþýðandans Rúnars Helga Vignissonar. Loksins var sett vegleg rós í hnappagat þess gæðapilts.

Allt í lagi að rifja upp páskaslátrunina: Túristi, Stefán Máni (***), Refskák, Ian Rankin (**1/2) og Sick Puppy, Carl Hiaasen (***).

föstudagur, apríl 21, 2006

Sumar hinnar opnu stillinga

Eftir að hafa hlustað á Blood on the tracks til óbóta ákvað ég að prófa að fikta aðeins í gítarnum mínum og prófa svokallaða opna E-stillingu, þannig að þegar allir strengir eru opnir þá hljómar E. Þetta gat ég dundað mér við tímunum saman, eins og að fá nýtt hljóðfæri í hendurnar. Opnuðust stórbrotnar veiðilendur í tónlistinni. Það er gaman að þessu og Blood on the Tracks er líklega besta plata í heimi.



Gleðilegt sumar.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

tvær vikur í þrjár vikur

Af Granada, Cordoba, Sevilla, Ronda, Costa de la Luz, Marokkó, Gíbraltar, Malaga, Almería, tapas, bjór, rauðvíni og loftkælingu.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Jafnar kosningar

Fyrst í Þýskalandi, svo á Ítalíu. Hvað verður næst? Reykjavík?

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Af gefnu tilefni

Það er auðvelt að segjast vera skemmtilegur. Það er hins vegar erfitt að vera skemmtilegur. Sérstaklega ef þú ert að upplagi leiðinlegur.

mánudagur, apríl 10, 2006

Bjössi á grímuballi?

Um helgina hófst auglýsingaflóð Framsóknarmanna í Reykjavík til að skrapa sig upp fyrir pilsnerfylgið í borginni. Hins vegar fannst mér skrýtið að hvergi í auglýsingunni var talað um Framsóknarflokkinn? Bara talað um B-listann. Er þetta ekki einhver aumkunarverðasta tilraun síðari áratuga til að villa um fyrir kjósendum? Halda þeir Björn Ingi og félagar virkilega að menn gleymi öllum klúðrum Framsóknarflokksins síðustu ár, bara ef þeir kalla sig B-listann? Þetta er eflaust útspekúleruð markaðsfræði. En herðakistilinn á Quasimodo hverfur samt ekki þótt hann breiði skikkjuna yfir hann. Þetta er dapurlegt fyrir einn elsta stjórnmálaflokk landsins. Hvernig stendur á því að Framsóknarmenn í Reykjavík treysta sér ekki til að heyja kosningabaráttuna undir eigin nafni?

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Meistaradeildin spennandi

Arsenal-Villareal og AC Milan-Barcelona

Mun Juventus maðurinn Tacchinardi, sem er í láni hjá Villareal hefna 'kellingarinnar'? Mun Rui Costa hefna fyrrum félaga sinna í Benfica? Spilast þetta þannig að unglingadeildin í Arsenal mæti ellismellunum í Milan í úrslitum? Eða verða tvö spænsk lið í úrslitum? Munu Börsungar naga sig í handabökin fyrir hafa selt Riquelme til Villareal?

Það var skemmtilegt að sjá Kuemann á Camp Nou í gær. Aðdáendur Barcelona eru ennþá að tala um MARKIÐ, sem hann skoraði á Wembley 1992.

Af ömurlegum ljóðakeppnum

Þá var mér bent á þetta
http://www.guardian.co.uk/euro/story/0,11306,634403,00.html
Þarna varð mér á að senda inn í einhverju bríaríi greinilega. Man nú ekki alveg hvað ég var að pæla, allt í lagi að halda þessu til haga þótt gamalt sé. Þess má geta að mitt framlag uppfyllir ekki fínustu blæbrigði reglna um hækur.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Bækur bókanna

Ó, allt sem ég á eftir að lesa.
Þá er gott að treysta á að allar góðar bækur komist til himna.

3 hlutir sem fara í taugarnar á mér

Maður getur væntanlega skilið við sáttur ef það eru bara þrír hlutir sem angra mann og plaga, sérstaklega ef það eru ómerkilegir hlutir. Nú er rétt að staldra við, þar sem vorið lætur á sér kræla, taka fram byssuna og plaffa niður þrjá hluti sem fara óendanlega í taugarnar á mér.

Nr 1.
Íþróttafréttir
Sumarið 2004 stóð mikill styrr um áhrif eigenda á fjölmiðla sína. Hvergi birtast þessi áhrif þó skýrar en í íþróttafréttum sjónvarpsstöðvanna. Hafið þið til dæmis tekið eftir því að á NFS/Stöð 2 er nær aldrei greint frá stöðunni eða úrslitunum í enska boltanum? Þó eru þetta þau úrslit sem flestir hafa einhvern áhuga, sem sést til dæmis ef skoðað er hvaða leikir eru á Lengjunni. En svo þegar ensku liðin mætast í bikarnum, eða ég tala nú ekki um í Meistaradeildinni, þá ætlar allt um koll að keyra og ensku liðin sett í forgang þegar leikir eru valdir til útsendingar, en stórliðum eins og Barcelona og AC Milan skóflað á Sýn Extra. En RÚV? Eru þeir ekki betri? Síður en svo, þar er allt kjaftfullt af einhverjum ekki-fréttum úr Formúlunni (sýnd á RÚV off kors og handboltanum í Danmörku. Ekki minnst á Meistaradeildina. Fréttamatið ræðst alfarið af hagsmunum eigendanna.

Svo er það málið. Sömu úldnu frasarnir og Bjarni Fel svitanaði við að finna upp fyrir 30 árum í öllum beinum útsendingum. 'Aukaspyrna á hættulegum stað', 'ná að bægja hættunni frá'. Það vantar alla skapandi hugsun í þetta. Svo er endalaust málæði á mönnum og þeim virðist líða illa ef þeir ná ekki að tala non-stop í 2x45 mínútur. Vitræn innlegg frá lýsendum mælast í sekúndum en samt vaða þeir á súðum. Menn hegða sér í alvörunni eins og þeir haldi að fólk sé að stilla á stöðina til að hlusta á þá, en ekki horfa á leikinn! Hvernig væri að hætta að umgangast þetta eins og menn séu að lýsa í útvarpi og þurfi að segja nákvæmlega frá 'hann gefur boltann aftur á markmanninn', 'sjáum að það er þremur mínútum bætt við'. Mitt ráð, haldið ykkur aðeins til hlés, komið frekar sterkari inn þegar eitthvað þarf að segja til að útskýra. Treystið myndmálinu og leyfið okkur frekar að heyra í áhorfendum og lifa okkur inn í leikinn. Stjörnurnar eru á fótboltavellinum, ekki í Lynghálsinum.

Einnig vil ég benda skrifandi íþróttafréttamönnum, ef hægt er að nota þá lýsingu, á að leggja aðeins meiri vinnu í skrifin, af hverju komið þið aldrei með tvíræðar og skemmtilegar fyrirsagnir? DV hefur aðeins verið að reyna þetta en mér sýnist allir aðrir miðlar afgreiða skrif um íþróttir á hundavaði. Skamm.


Nr 2.
Ókurteisi í bíó
Kannski er ég anal í þessum efnum, en mér finnst hrikalega gaman í bíó og ég þoli ekki það sem skemmir fyrir mér upplifunina. Þetta þarf ég að nálgast í nokkrum undirliðum:

a) Trailerar. Kvikmynd gengur út á það að segja manni áhugaverða sögu. Þess vegna þoli ég ekki trailera, því þeir 'stela' frá manni sögunni. Myndin sem þeir eru að lýsa getur vel verið áhugaverð, en mér finnst gengið freklega fram í því að segja manni nær alla söguna í trailernum, þannig að þegar maður mætir á myndina, þá er eiginlega ekkert eftir nema bíða eftir endinum. Mitt ráð, vinnið vinnuna ykkar betur. Gerið trailera sem segja ekki allan söguþráðinn 'Jack had a lovely family, when they took it away from him, and forced him to steal the diamonds, to get them back, they had no idea. One man, who would take on a band of terrorists. John Frankenheimir brings you the true story of what it takes to get back what belongs to you....'
Dæmi um góðan trailer er Big Lebowski, sem létt ekkert opinskátt um söguþráðinn, en fékk mann til að langa mikið á myndina. Lærið af því.

b) Tal í bíó. Ekki tala. Horfa. Allt í lagi að hvísla við og við. Og ég lem þig ef þú svarar aftur í símann, þú þarna ljóti með húfuna.

c) Nýtt trix fyrir íslenska textann. Veit ekki hvort þið hafið tekið eftir því en nú virðast þeir nota myndvarpa til að varpa íslenska textanum yfir myndina á taldinu, í stað gömlu aðferðarinnar, að brenna textann á filmuna. Þetta er vafalaust ódýrara fyrir þá, en skemmir fyrir okkur í salnum þegar eitthvað atriði gerist í myrkri og helmingurinn af tjaldinu lýsist upp til hálfs. Asnalegt. Finnið lausn á þessu sem fyrst.

d) Hlé. Eins og jafnréttislögin hans Björns, þá eru hlé barn síns tíma. Bíó er ekki lengur samkvæmisviðburður og það á að hætta þessu rugli strax.


Nr 3.
Rusl á almannafæri

Mér finnst alveg makalaust hvað það fýkur mikið af rusli um götur borgarinnar. Sælgætisbréf út um allt. Plastpokar í trjánum. Sígarettustubbar, tyggjóklessur. Mér finnst umgengnin vera til skammar. Er kannski kominn tími til að taka á þessu af fullri hörku? Þá á ég ekki við lamaðar auglýsingaherferðir með óskiljanlegum slagorðum. 'Virkjum okkur'??? Hvers lags þvæla er það? Er hægt að finna verra slagorð? Fyrsta skrefið væri að ráða fleiri menn í appelsínugulum göllum sem mundu taka til hendinni og rífa upp þetta rusl. Síðan finnst mér að það megi skoða það að sekta fólk, t.d. 2500 kall per sígarettustubb sem það hendir. Þúsundkall fyrir tyggjóklessuna og svo framvegis. Þetta gengur ekki lengur.

Nú er nóg sagt í bili. Byrja að safna upp í næsta skammt af pirringi. Góðar stundir.

mánudagur, apríl 03, 2006

Á bókasafninu



Ljóðin eru víðar en í ljóðabókunum

Ekki fyrir Gaupa



http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0349119864/203-8160653-3793531

Mig langar í þessa bók