fimmtudagur, júlí 31, 2008

Tveir heimar mætast

Bloggheimar skiptast í tvennt að mér sýnist varðandi viðtal Helga Seljan við Borgarstjóra í gær. Einhverjum finnst að Borgarstjóra vegið en öðrum finnst lítill dónaskapur að krefjast svara í stað þvaðurs.

Þetta blogg tekur afstöðu með Helga Seljan og Kastljósinu. Auðvitað á stjórnmálamaður í viðtali að svara þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Fari menn undan í flæmingi ber fjölmiðlamanni að ganga eftir efnislegum svörum. Borgarstjóri skilur þetta ekki og virðist búa í eigin heimi.

þriðjudagur, júlí 29, 2008

DO!HA!

Fór sem mig grunaði að Doha viðræðum væri slitið án ásættanlegrar niðurstöðu. Hefði þetta ekki verið kjörið tækifæri til að lækka vöruverð og hjálpa fátæku löndunum í leiðinni. Tvískinnungi vesturveldanna er um að kenna. Hvar eru boðberar frjálsra viðskipta þegar á reynir?

föstudagur, júlí 25, 2008

Verndum Faxaskála

Margir hafa haft samband og verið uggandi yfir stöðu samtakann Verndum Faxaskála. Rétt er að það komi skýrt fram að við í stjórn samtakanna höfum ekki gefið upp von okkar um að Faxaskáli verði reistur í upprunalegri mynd þar sem nú er unnið að byggingu nýs Hljómskála.

Eins og allir vita fór byggingarefni Faxaskála í landfyllingu og það er okkar trú að með hóflegum tilkostnaði megi endurheimta það efni og nota til byggingar nýs Faxaskála. Okkar upprunalegu tillögur voru þó mun ódýrari og er rétt að minna á það. Að vernda Faxaskála á sínum upprunalega stað og reisa nýjan Hljómskála í Hljómskálagarðinum - því að skipta einu tónlistarhúsi út fyrir annað, en eins og menn muna voru frægir FM tónleikar haldnir í Faxaskála.

Menn hafa bent á að nú verði trauðla snúið við byggginu nýja glerskrýdda Hljómskálans og því höfum við kynnt málamiðlunartillögu sem felur í sér að áhugafólk um verndun götumyndar Miðbæjarins fallist á endurbyggingu Faxaskála á nýjum stað - í Hljómskálagarðinum. Þar verði skálinn reistur í upprunlegri mynd og hýsi margþætt mannlíf og jafnframt aðstöðu fyrir grunnatvinnuvegi þjóðarinnar - etv. sem heimild.

Hljómskálagarðurinn fengi þá að sjálfsögðu nýtt nafn - Faxaskálagarður.

Verndum Faxaskála!



Mikill söknuður ríkir víða í bænum eftir fráhvarf Faxaskála!

mánudagur, júlí 21, 2008

Eyjan flata



Þessi mynd lýsir stemmningu helgarinnar ágætlega. Ég þakka kærlega fyrir mig!

föstudagur, júlí 18, 2008

Þú komst við Hjaltalín í mér

Þú komst við hjartað í mér, Paul Oscar cover Hjaltalíns, hefur hljómað mikið undanfarna daga. Hér er skemmtileg samantekt hjá snillingunum í Medialux þar sem hægt er skoða hvernig lagið varð til.
Þess má geta að lagið er eftir Íslandsvininn Togga sem einnig samdi lagið sem við notuðum í heimagerða VW auglýsingu á dögunum.

þriðjudagur, júlí 15, 2008

Evrópureyksprengja Björns

Með því að endurvinna gamla hugmynd um upptöku evru án aðildar að ESB tókst Birni Bjarnasyni tvennt: Að birtast fólki sem sá hugmyndasmiður og hugsuður, sem hann ekki er og að draga athyglina frá máli Páls Ramsesar. Vel heppnuð reykbomba hjá kallinum að taka upp málið sem Sigurður Kári og Birgir Ármannsson töldu móðgun að minnast á fyrir viku.

miðvikudagur, júlí 09, 2008

Skitt með kerfið!

föstudagur, júlí 04, 2008

Ferðaþjónusta

Tvær litlar fréttir í gær gerðu mér ljóst að ég er að fá antípata á ferðaþjónustu. Önnur fréttin var um að landeigendur á Kerinu hefðu lokað því fyrir liði sem kemur þangað með þúsundir manna í atvinnuskyni. Atvinnumönnunum dettur að sjálfsögðu ekki í hug að greiða krónu í aðgangseyri frekar en fararstjóranum sem var brjálaður yfir þvi að japanskir ferðamenn hefðu þurft að pissa bak við stein við Dettifoss. Fararstjórinn fáraðist yfir því að klósettin væru biluð og komst með það í útvarpsfréttir. Enginn spurði þó hvers vegna honum þætti allt í lagi að japönsku pissi og kúk væri dreift út um allt á þessum merkilega stað.

Er þetta ferðaþjónustulið ekki bara frekjudósir?

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Varist Hulkinn

Hulk er ekki góð mynd. Það sem er skemmtilegt eru þrjú lítil cameo-hlutverk: Lou Ferrino, sem lék Hulk í gamla daga, leikur öryggisvörð, Stan Lee, skapari Hulk og fleiri hetja, drekkur gamma mengaðan brasilískan gosdrykk og Robert Downey Jr. í hlutverki Iron man bregður fyrir í lokin og boðar það sameiginlega framhaldsmynd sem verður vonandi jafn skemmtileg og Ironman.

Regn

Nú er skítaveðrið komið aftur, múrararnir farnir og búið að grafa upp gangstéttina fyrir framan heima. Farnir eru þeir fögru júnídagar - með vindlausu sólskini, múrúrum á vegg og tveimur fótboltaleikjum á dag.

Annars er allt gott að frétta og mikil eftirvænting eftir ágúst.

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Kastljósið

Ætli Kastljósið hafi sett nýtt met á mánudaginn? Maður hefði haldið að umsjónarmennirnir átta, Brynja Þorgeirsdóttir, Elsa María Jakobsdóttir, Friðrik Þór Guðmundsson, Sigmar Guðmundsson, Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Þóra Tómasdóttir og Þórhallur Gunnarsson auk pródúsenta og fjögurra aðstoðarmanna kæmu ferskir og sterkir inn eftir EM hléð, en það var öðru nær. Í þættinum var þrennt: Viðtal sem Héðinn Halldórsson í Danmörku tók við umdeildan hollenskan þingmann, úttekt fréttamanns í Vínarborg á stemmningunni eftir úrslitaleikinn og viðtal í setti: Jóhann ræðir við finnskan menntasérfræðing. Ekki sterk frammistaða hjá Kastljósliðinu á sama tíma og fækka þarf fólki vegna vanefnda menntamálaráðherra - og ekkert tónlistaratriði!

Kastljósið er oft ágætur þáttur, sá besti var í beinni frá Eyjum í tilefni goslokahátíðar. En það vantar aðeins meira Malt í þetta núna svo notast sé við orð Gunna i GK.

Wanted

Wanted kemur skemmtilega á óvart, neglir mann í sætið með flottum hasar og fær mann til að trúa því í smá stund að hægt sé að skjóta byssukúlu í boga.