þriðjudagur, júlí 31, 2007

Nýr þjálfari í Vesturbæinn

Allir rosa ánægðir með Teit þjálfara en samt er hann rekinn. Nú tekur Logi við og þetta verður án efa eins og svart og hvítt.

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Loksins ókeypis?

"Í dag, fimmtudaginn 26. júlí, heldur Edward C. Prescott fyrirlestur á ráðstefnu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í Þjóðminjasafninu kl. 16. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis."
Svo mælir Hannes Hólmsteinn Gissurarson á bráðfjörugu bloggi sínu. Er höfundur bókarinnar Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis farinn að meyrna á seinni árum? Ég vitna í Hannes sjálfan (úr minningargrein um Milton Friedman)
Friedman [...] kvaðst vilja mótmæla þessari notkun orðsins „ókeypis“. Auðvitað hefðu fyrirlestrar annarra ekki verið ókeypis. Greiða hefði þurft fargjald þeirra, jafnvel einhverja þóknun, leigja fundarsal, auglýsa fyrirlesturinn. Spurningin væri sú, hverjir ættu að greiða fyrir þetta, áheyrendur sjálfir eða hinir, sem ekki sæktu fyrirlesturinn. Sjálfur væri hann þeirrar skoðunar, að þeir ættu að greiða, sem nytu. Þetta er gamalkunnugt stef í fræðum Friedmans: Ókeypis fyrirlestur er ekki til frekar en ókeypis hádegisverður. Spurningin er aðeins, hver á að greiða reikninginn. Friedman hafði raunar stundum á orði, að einn helsti gallinn á sósíalistum væri, hversu góðir þeir vildu ætíð vera fyrir annarra manna fé. Ellefta boðorðið ætti að vera: „Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra.


Svona eru hægri menn alltaf staðfastir.

Nú er talað um að að leikarinn Fred Thompson, sem iðulega leikur lögreglustjóra, sé líklegur frambjóðandi fílanna í Repúblíkanaflokknum til forseta BNA. Þetta minnir mig á hinn geðþekka fyrrum ríkisstjóra Louisiana, Jimmy Davis. Hann var vinsæll söngvari og í hundrað ára afmælinu sínu steig hann á stokk og flutti fjögur lög, þar á meðal sitt vinsælasta númer: You are my sunshine. Kannski hefði hann átt að verða forseti, svona bjartsýnn og glaðsinna. Svo var einhver bavíani frá Kaliforníu sem var leikari og forseti er það ekki? Reyndar eina verkalýðshetjan sem hefur komist til þeirra metorða að mér skilst.

Bölvað þrugl er þetta.....

Trophy Wife

Sá að einhvers staðar var verið að leita að þýðingu á þessu hugtaki. Er það ekki 'kvenlaunagripur'?

Fasteignafréttir dagsins

Ingunn Wernersdóttir búin að kaupa gamla Borgarbókasafnið. Guðjón í Oz svarar fyrir sig með því að kaupa neðri hæðina í Næpunni. Ætli Frumkvöðlasetrið komi þar þá?

miðvikudagur, júlí 25, 2007

Landslið i að leika sér að matnum

Ég tók eftir því að þegar landsliðið í hestaíþróttum var kynnt að það voru engir hestar í liðinu. Þeir sem voru valdir hljóta því að vera þeim mun hæfileikaríkari.

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Eftir Harry



Þessi snilld er væntanleg í bíó. Lesningin var að mínu skapi og verður fróðlegt að sjá á hvíta tjaldinu. Nördalegt? Já, mjöööög.

föstudagur, júlí 20, 2007

Náttúruníðingar að hefna árásar á sendiráð?




sjá á visir.is

Íslenskum glæp stolið

Er það bara ég eða hefur ekki verið óvenju lítið um tilkynningar um humarþjófnað í sumar? Ég sem er með í smíðum glæpasagnaflokk um lögregluforingjann Steindór sem eltist við bíræfna humarþjófa. Leitt ef þessi séríslenski glæpur hverfur alveg.

Kolvetnisjöfnun nýjasta trendið?

"Við verðum fyrsta vatnsverksmiðjan í heiminum sem verður kolvetnisjöfnuð" sagði Jón Ólafsson vatnssali í viðtali rétt í þessu. Hér er skemmtilegt andsvar við hinni svokölluðu kolefnisjöfnun sem er mjög í tísku þessa dagana. Væntanlega er Jón að tala um samruna viðskipta við hinn svokallaða Atkins kúr sem gengur út á að borða ekki brauð og kartöflur og þannig svelta líkamann um kolvetni. Ljóst er að fleiri fyrirtæki munu kolvetnisjafna starfsemi sína á næstunni, þetta verður til dæmis alveg bráðsnjallt fyrir McDonalds.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Stór spurning

Er?
Ja
...a medan er
Nei
  
pollcode.com free polls

Hverju á maður að treysta?



Eru húðkrabbamein til bóta eður ei? Það væri gott ef Mogginn gæti gefið aðeins afdráttarlausara svar! Mér er málið skylt. Kemur kannski frétt á morgun um að Kókómjólk sé versti orkudrykkurinn eða að engum áfanga hafi verið náð í rannsóknum ÍE á fótaóeirð?

Engir englar



Það er ekki oft sem maður gjóar glyrnunum í átt að sjónvarpsstöðinni ARTE sem hangir frekar ofarlega á Digital Ísland trénu. Þegar ég var að ganga til náða í gær varð mér þó litið á stöðina og var þá langt komin hin merkilega heimildamynd Gimme Shelter. Myndin fjallar um hina rosalegu tónleika Rolling Stones og fleiri hljómsveita á ónotaðri hraðbraut Altamont. Tónleikanna er einkum minnst fyrir öryggisgæslu Hells Angels. Var magnað að fylgjast með framgöngu þessara gæslumanna á tónleikunum. Hópur af þeim stóð uppi á sviðinu og skyggðu á hljómsveitirnar og athugasemdum um starfsaðferðir svarað með gassagangi og ofbeldi. Til dæmis var Martin Balin söngvari Jefferson Airplane sleginn í rot af einum englanna.
Það var svo undir lok lagsins Under My Thumb að engill nokkur tekur sig til og drepur mann rétt fyrir framan sviðið og náðist það á mynd. Svo virtist sem maðurinn, Meredith Hunter, hefði dregið upp byssu og Hells Angels brugðust svona snaggaralega við. Meira um þessa tónleika og myndina.

Kirkjusókn með besta móti

Undanfarnar 2 vikur hef ég verið einkar öflugur í kirkjusókn. Eitt brúðkaup, ein skírn og tvær jarðarfarir, þar af önnur tvöföld.

þriðjudagur, júlí 17, 2007

Einn lélegur


Það er víst orðin svo mikil eftirspurn eftir vinnuafli að þeir eru farnir að ráða Pólverja í unglingavinnuna.

mánudagur, júlí 16, 2007

æfón

Styttist í að maður fái svona tryllitæki í hendurnar? Hver veit? Alla vega sniðugir notkunarmöguleikar. Smella til að horfa.

föstudagur, júlí 13, 2007

Gargandi snilld

Stundum er talað um gargandi snilld. Það orðfæri á uppruna sinn í þessu lagi.

Golazzo!


Langar að halda þessu marki til haga. Ég veit að íslenskir knattspyrnumenn geta ekki leikið þetta eftir, en hvað með íslensku íþróttafréttamennina? Mættu þeir ekki aðeins slaka á málbeininu í leikjum þegar ekkert er að gerast og spara óþörfu upplýsingarnar en sýna þeim mun meiri æsing þegar eitthvað gerist í raun og veru.

fimmtudagur, júlí 12, 2007

Nýi svartur

Sá hlutur sem endurvarpar ekki neinum sýnilegum ljósbylgjum er svartur. Strangt til tekið er svartur því ekki litur. Svartur hlutur gleypir í sig alla liti litrófsins og er því á vissan hátt yfir þá hafinn. Sá hlutur sem endurvarpar öllum ljósbylgjum er hins vegar hvítur - og jafnan ljótur líka. Svart er fallegt.

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Ísland

Hjólaði í vinnuna í morgun, framhjá Hólavallakirkjugarði. Þar sátu tveir rónar og lásu Viðskiptablaðið.

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Astrópía


Ég sá myndbrot úr kvikmyndinni Astrópíu um daginn og er bara orðinn býsna spenntur að sjá þessa mynd. Mér fannst Ragnhildur Steinunn virka vel í því sem ég sá og svo eru nokkrir óborganlegir nördar á svæðinu. Davíð Þór lofar góðu heltanaður með upplitað hár. Þetta verður gaman að sjá.

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Minni kvenna

Nú styttist í tíma árshátíða og þorrablóta. Þá er góður siður að standa á fætur og skjalla og lofa kvenkynið. Misdrukknir heiðursmenn rísa á fætur undir dagskrárliðnum ‘Minni kvennað og brestur þá á með lofræðum um kvenkynið og sem enda á kvæði eftir Matthías Jochumsson:

Fósturlandsins freyja,
fagra Vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
Blessað sé þitt blíða
bros og gullin tár.
Þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár.

Takið eftir því að höfundur þjóðsöngsins, þarf að biðja konuna sérstaklega um að meðtaka lof og prís. Matthías vissi nefnilega að konur eru kúnstugar skepnur sem heyra það sem þær vilja heyra og ekki sjálfgefið að þær muni hvað sem er. Í þessum pistli ætla ég að fjalla stuttlega um minni kvenna.
Sérstaða minnis kvenna rann upp fyrir mér síðasta bóndadag þegar konan mín bauð mér út að borða. Við það ljúfa tækifæri barst næsti bóndadagur þar undan í tal. Ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvað konan mín bauð mér upp á daginn þann fyrr en hún gaf mér þá vísbendingu að ég hefði borðað lambakjöt með bláberjum. Um leið varð kvöldstundin hjá Sigga Hall á Óðinsvéum árið áður ljóslifandi í huga mér. Í framhaldinu barst talið að því að konan mín mundi í hvaða fötum ég var, og ekki síður í hvaða fötum hún var sjálf í á fyrsta stefnumótinu okkar (og reyndar líka fólkið á næsta borði!). Það sem ég mundi var að við fórum á Ban Thai, fengum okkur kjúkling og það var gaman. Lykillinn að mínu minni virðist því liggja gegnum magann. En hvernig virkar minni kvenna?
Athuganir mínar benda til að helsti styrkleiki kvenheilans felist í því að muna einhverjum eitthvað. Sé stigið lítillega út af beinu brautinni og fjaðrir kvennanna ýfðar gleymist það aldrei og viðkomandi getur átt það á hættu að vera fordæmdur um aldir alda, jafnvel þótt allir aðrir hlutaðeigandi hafi lokað viðkomandi máli. Þekktasta dæmið um þetta er atburðarásin sem í gegnum tíðina hefur fengið marga konuna til að kinka samþykkjandi kolli yfir síðum Njálu:

Hann mælti til Hallgerðar: „Fá mér leppa tvo úr hári þínu og snúið þið móðir mín saman til bogastrengs mér.“
„Liggur þér nokkuð við?“ segir hún.
„Líf mitt liggur við,“ svarar hann, „því þeir munu aldrei fá mig sóttan meðan ég kem boganum við.“
„Þá skal eg nú,“ segir hún, „muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur.“

Og Gunnar er veginn. Kinnhestinn fékk Hallgerður að launum fyrir að bera á borð fyrir Gunnar matvæli sem hún hafði látið stela, en líklega var hún alveg búin að gleyma þeirri staðreynd. En kinnhestinn sjálfan mundi hún og íslenska þjóðin allar götur síðan.

Þá er konum einum lagið að muna eftir hlutum sem karlar lofa. Í huganum halda konur bókhald yfir hvert einasta handtak sem karlinn hefur sagst munu inna af hendi á heimilinu, tengja ljós, slá garðinn og svo framvegis. Þegar þetta frestast af góðum og gildum ástæðum þá er það geymt en ekki gleymt og oft minnst á það, jafnvel hvæsandi röddu, þegar síst varir. Svo sérkennilega vill til að oft koma áminningarhvæsin á sama tíma og merkilegir íþróttaviðburðir sem mætustu menn telja brýnt að sjónvarpa um gervalla heimsbyggðina í beinni útsendingu.
Móðir mín man alla afmælisdaga fyrir hönd fjölskyldunnar, sem er ekki lítið afrek því hún giftist inn í káta 10 systkina fjölskyldu sem öll hafa verið dugleg við barneignir og reyndar börnin þeirra og barnabörnin líka! Nú styttist í að afmælisdagar fjölskyldunnar verði fleiri en dagarnir í árinu. (Var mamma kannski að reyna að senda einhver skilaboð með því að fæða systur mína á afmælisdaginn hans pabba?). Svona minni er veikleiki okkar karlmanna. Til að bæta sér þetta upp velja karlarnir sér þess vegna tölvur með eins miklu geymsluminni og vinnsluminni og hægt er. Konur hafa engar áhyggjur af minninu í tölvunni heldur hvort hún passi í nýju fínu tölvutöskuna.
Til að draga saman rannsóknarniðurstöður um minni kynjanna þá virðist sem minni karlmanna virðist nýtast best til að halda utan um sem mest af gagnslausum staðreyndum. Þannig þekki ég menn sem nafngreint hvern einasta ráðherra allt til lýðveldisstofnunar og alla leikmenn í enska boltanum árið 1982. Sömu menn muna hins vegar ekki hver er gjaldkeri húsfélagsins eða hvað kílóið af ýsu kostar. Þetta er ástæðan til þess að það eru bara strákar sem keppa í Spurningakeppni framhaldsskólanna. Á sama tíma er stelpuheilinn einfaldlega upptekinn við eitthvað sem getur nýst síðar, til dæmis við að læra eitthvað sem færir þeim hærri einkunnir í skólanum.
Samt er það svo skrýtið að konur virðast nota menntun sína allt öðruvísi en karlar. Til dæmis kunna konur umferðarreglurnar miklu betur en eru karlar ekki betri bílstjórar? Hversu margar konur hafa keppt í Formúlu eitt?
Sé þetta dregið saman sýnist mér minni karla virka svipað og internetið þar sem úir og grúir af alls konar hlutum í öllum stærðum og gerðum. Minni kvenna er hins vegar skipuleg spjaldskrá þar sem sérvaldir hlutir eru punktaðir niður með nettri blokkskrift og haldið til haga, sérstaklega allt sem sýnir viðkomandi konu í fallegu ljósi. Annað gleymist. Hafðu því ekki áhyggjur kæri kvenkyns lesandi, eftir nokkrar mínútur verður þessi pistill einfaldlega ekki til!

ÞESSI PISTILL BIRTIST Í NÝJU LÍFI Í JANÚAR

mánudagur, júlí 02, 2007

Síungur silungur


Man ekki hvort ég var búinn að blaðra frá einu best geymda leyndarmáli Suðurlands: Silungabúðinni í Útey við Laugarvatn/Apavatn. Þar er ávallt hægt að fá nýveidda bleikju og urriða og rennum við oft þar við, einkum á leiðinni heim því ekki borðar maður annað en kjöt í sveitinni.

Silungur í rauðvínslauk frá því í gær

Nokkrir skalottulaukar steiktir í vel vænni smjörklípu, slatta af saxaðri steinselju hent út í og slettu af rauðvíni. Látið sjóða niður þangað til laukurinn er orðinn rauður. Ferskt silungsflök lögð ofan í jukkið með roðið niður. Piprað (jafnvel saltað) að smekk og sítrónusneiðar lagðar yfir ef vill. Tilvalið að drissla smá af góðri ólífuolíu yfir. Steikt í hæfilega skamman tíma (án þess að snúa), silungsflökin færð af pönnunni (m. sítrónunum) og heitu lauksmjörjukkinu hellt yfir. Saxaðri steinselju stráð yfir. Úr þessu verður skemmtilega litríkur réttur, gulur, rauður og grænn.

Kolefnisójöfnuður

Ég er ringlaður. Um helgina réðst ég til atlögu við ófrýnilegt og illa hirt grasið kringum sumarbústaðinn á Laugarvatni. Var það mikið magn af grængresi fellt að velli með aðstoð vélknúins orfs. Hvað þarf ég að gera til að kolefnisjafna þennan gjörning. Og hvað með bílferðina upp eftir? Er ég að vinna umhverfishryðjuverk með því að grisja skóginn? Á ég að vera með samviskubit eða ekki?