mánudagur, september 29, 2008

Guð hjálpi eigendum Glitnis

Þeir sem voru að tapa stórfé á Glitni geta etv tekið smá gleði með því að horfa á þetta skemmtilega myndband:

Davíð þjóðnýtir Glitni

Orðið pilsfaldakapítalismi kemur óneitanlega upp í hugann á þessum tímamótum sem marka algjört skipbrot hólmsteinskunnar á Íslandi. Kaldhæðnislegt að forsætisráðherrann fyrrverandi sem gumaði sig af því að hafa 'tæmt biðstofurnar í stjórnarráðinu' skuli þurfa að sópa upp leifunum af spilaborg græðgisvæðingarinnar. Minnir mig ekki rétt að hinum ýmsu sjóðum ríkisins var steypt saman í FBA sem var seldur Orca hópnum og rann svo inn í Íslandsbanka sem síðar varð Glitnir. Nú eru sjóðirnir komnir aftur heim! Það má því alveg segja að þetta hafi verið enn ein misheppnaða einkavæðingin.

Að þessu sögðu vona ég þó að þessi aðgerð heppnist enda liggur mikið undir fyrir fólkið í landinu, sem og starfsfólk bankans. Líklega verður hægt að selja hlut ríkisins aftur þegar um hægist á mörkuðum.

Meðfylgjandi mynd er úr herferð Glitnis til kynningar á nýju nafni

sunnudagur, september 28, 2008

Jólabókin í ár?

Simon Scarrow hefur kannski ekki verið minn uppáhaldshöfundur lengi, en þó verður að segjast að hann ber höfuð og herðar yfir aðra skáldsagnahöfunda nútímans. Nýjasta bók hans mun líklega slá öll met. Alla vega get ég varla beðið eftir að næla mér í eintak.

Er svo vont að vera með erlend lán?

Nú barma sér allir sem eru með lán í erlendri mynt. Sama fólkið og hefur gengið brosandi í bankann undanfarin ár meðan krónan var í háflugi. Núna hækka afborganir hratt. En er þá betra að vera með íslensk verðtryggð lán? Varla. Gengishruni fylgir ávallt verðbólga þannig að verðtryggðu lánin hækka líka.

Svo gerist það þegar krónan fer aftur á flug að brosið birtist aftur á þeim sem tóku erlendu lánin enda minnkar þá höfuðstóll lánsins og afborganirnar lækka aftur. Verðtryggingin gengur hins vegar aldrei til baka.

laugardagur, september 27, 2008

Innrásin í Reykjavík




Smellið hér til að skoða meira. Digital að gera góða hluti!

föstudagur, september 26, 2008

Yfir strikið

Fítonblaðið í ár snýst um markalínurnar í auglýsingalandi. Hversu langt er hægt að ganga. Ef lesendur muna eftir einhverju sem hefur alveg farið yfir strikið og vakið deilur, endilega setjið komment.

Og hvað finnst ykkur um þetta?


http://view.break.com/577249 - Watch more free videos

fimmtudagur, september 25, 2008

Kaldar kveðjur til hitaveitu og Hönnu Birnu

Aldrei hélt ég að ég myndi vera sammála Ómari Stefánssyni og Gunnari I. Birgissyni. Mér finnst þessi ályktun geng 10% hækkun Orkuveitunnar bara nokkuð flott hjá þeim Kópavogsbræðrum.

,,Hækkunin er sem olía á verðbólgubál og kemur því á versta tíma. Þá skjóti það skökku við að hækkunin skuli rökstudd með vísan til fjárfestinga Orkuveitunnar en það geti vart hafa verið ætlunin að þær myndu leiða til slíkra verðhækkana hjá almenningi," segir í ályktuninni.


Orkuveitan er opinbert fyrirtæki og hefði með réttu átt að leggjast á árarnar með þeim sem reyna að berjast gegn verðbólgunni, jafnvel þótt það hefði þýtt aðeins lægri arðgreiðslur til Hönnu Birnu.

Helgi

Helgi Hjörvar er í stuði þessa dagana. Í gær náði hann að hrista upp í umræðunni um orkumál með hugmynd um að bjóða út rekstur virkjana. Í dag birtir hann snjalla grein í Morgunblaðinu 'Tímar mikilla tækifæra'. Þar tætir hann í sig peningastefnuna og skipulag Seðlabanka og viðrar ýmsar leiðir til úrbóta í bráð og lengd. Einnig hvetur hann forsvarsmenn atvinnulífsins til að nota erlendar eignir sínar til að afla lausafjár í útlöndum til fjárfestingar á Íslandi.

Ég skil greinina að ákveðnu leyti sem óþreyjufullt ákall eftir því að ríkisstjórnin, í það minnsta Samfylkingin, standi í lappirnar og berjist fyrir breytingum og lausnum sem gagnast hinum almenna borgara. Lokaspretturinn er góður:

Það er rangt að aðildarviðræður [við ESB] gagnist ekki í vanda dagsins. Hún leysir hann ekki en er mikilvægur hluti þess trúverðugleika sem við verðum að efla. Nú þegar hjarðhegðun markaðarins er í hámarki er mikilvægt að stefna okkar verði skýr og aðgerðir ákveðnar. Umbrotatímar í efnahagsmálum eru jafnan tímar mikilla tækifæra. Grípum þau.

miðvikudagur, september 24, 2008

Af gefnu tilefni

Hjólreiðamenn hafa fullan rétt til að hjóla á umferðargötum. Hjólreiðamenn eiga að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda á göngustígum og gangstéttum. Bílstjórar eiga að taka fullt tillit til hjólreiðamanna á götum borgarinnar.

þriðjudagur, september 23, 2008

Ferðaskýrsla til Egils Helgasonar


Jú allt gekk heldur betur vel og takk fyrir góða leiðsögn. Skýrsla er svohljóðandi:

Við byrjuðum á að fljúga til Krítar og sigldum til Santorini. Mér fannst litið koma til Krítar við fyrstu sýn enda var ég lasinn og við byrjuðum á vondu hóteli í Hanía - við hliðina á einhverjum unglingaklúbbi þar sem vespurnar voru þandar frá miðnætti til morguns. Í Heraklion skoðuðum við Knossos og vorum reyndar bara ágætlega ánægð með þá borg, róleg og létt stemmning, þótt Hania sé fallegri.

Santorini var ósköp snotur en ég veit aðra eldfjalleyju sem er það líka stundum.

Brúðkaupsferðar-slökun hófst fyrir alvöru á sundlaugarbakka Aegalis hótelsins á Amorgos. Skoðuðum þó eyjuna eitthvað, þorpin, klaustrið og fleira og snorkluðum í tærum sjó. Horfðum á Big Blue á hótelinu - þá vondu mynd sem þarna var tekin.

Svo fórum við til Folegandros sem þú kannast lauslega við. Þar notuðum við ströndina óspart. Gistum á Kallisti hótelinu. Magnaðar strendur.

Næsti viðkomustaður var Mykonos, þá var krónan farin að gefa verulega eftir og peningaplokkið þar var því meira pirrandi en ella. Vorum á skemmtilega ódýru hóteli þó - hálfgerðu gistiheimili - hjá almennilegasta Grikkjanum sem við hittum í allri ferðinni.

Svo sigldum við til Syros og það var vel þegið að fá smá-borgarstemmningu. Mér fannst Ermopolis frábær, fórum upp á Ana Syros í leigubíl og gengum út um allt, skoðuðum kirkjurnar og fleira. Misstum reyndar alveg af litlu Scala óperunni, var búinn að gleyma að hún væri þarna.

Þrammið hélt áfram í Aþenu þar sem við skoðuðum rústir fyrir allan peninginn. Vorum þar í fimm daga. Aþena er ágæt en stenst ekki samanburð við Istanbúl að mínu mati. Sagan og töfrarnir eru áþreifanlegri í Istanbúl, en þar vorum við í fyrra.

Svo endaði þetta með þremur yndislegum dögum í Hania, þar sem við lágum m.a. á frábærri strönd í göngufæri frá hótelinu okkar við feneysku höfnina.

Bestu hótelin á Krít: Hótel Amphora í Hania og Hótel Atrion í Heraklio (100 m. frá hótel Kastro (sömu eigendur?), nýuppgerð herbergi, besta morgunverðarhlaðborð sem ég hef nokkru sinni séð á hóteli, m.a. alls konar jógúrt og val um egg soðin í 7 mín eða 11 mín. Skýringarseðill með hverjum rétti). Varist hótel Kriti (Hotel Creepy) í Hania.

Ágætt hótel á Santorini er Astir Thera, ekki dýrt en aðeins út úr, 5 mín gangur í miðbæ. Súpermarkaður rétt hjá til að fylla á kælinn.

Hótel á Amorgos og Folegandros þekkir þú. Kallisti var á mjög góðu verði m.v. önnur hótel en staðsetning ekki alveg eins frábær og hjá sumum öðrum.

Ódýrt hótel á Mykonos heitir Lefteris en það er...eh...ódýrt.

Gott hótel á Syros er Hermes, rótgróið eðalhótel en ekki svo dýrt við hafnarbakkann.

Í Aþenu vorum við á hóteli sem heitir Art Gallery. Það er ágætur kostur, 'hinum megin' við Akropolis en rétt hjá metrostöð sem gerir alla borgarkönnunina auðveldari - tókum líka t.d. metró mjög auðveldlega frá Pireus á hótelið og frá hóteli út á flugvöll fyrir brot af því sem leigubíll kostar.

Matur féll ekkert sérstaklega í kramið - svolítið einhæft nema náttúrlega í Aþenu.

Magnaður leiðari

Ritstjóri Fréttablaðsins setur upp silkihanskana áður en hann lætur svipuna dynja á Seðlabankastjóranum í leiðara í dag. Í þessum kurteislegu svívirðingum rekur Þorsteinn þá gagnrýni sem komið hefur fram úr innstu efnahagslegu myrkviðum Sjálfstæðisflokksins á krónustefnu Davíð - gagnrýni Jónasar Haralz og Einars Benediktssonar. Þorsteinn minnir á að þeir félagar hafi óskað eftir því að Seðlabankinn gerði ítarlega grein fyrir árangri peningamálastefnunnar sem fylgt hefur verið frá aldamótum.

Fallast verður á að slíkur málefnalegur rökstuðningur af hálfu Seðlabankans væri gagnlegur fyrir áframhald umræðunnar.

Svar bankastjórnarinnar sem nú liggur fyrir í nefndu sjónvarpsviðtali var einkar skýrt og afdráttarlaust. Bankastjórarnir, einn fyrir alla og allir fyrir einn, líta einfaldlega svo á að slíkur málflutningur sé „lýðskrum" og á honum hafi menn á þeim bæ bæði „skömm" og „fyrirlitningu". Sannarlega er ekki unnt að kvarta yfir því að svör hafi ekki fengist við hógværri beiðni.

Þegar þetta svar liggur fyrir af hálfu bankastjórnarinnar vaknar hins vegar upp sú spurning hvort það byggi á mati hagsviðs bankans.


Svo klikkir fyrrverandi formaður út með satínklæddri ábendingu um að hollast væri að reka Davíð:

Rétt er að minna á að aðalhagfræðingur Seðlabankans hefur í blöðum heima og erlendis í rúm tvö ár lýst þeirri skoðun að ávinningur þess að halda uppi sjálfstæðum gjaldmiðli sé minni en enginn og auki fremur á sveiflur í þjóðarbúskapnum en að draga úr þeim. Hvernig sem undirbúningi að svari bankastjórnarinnar var háttað bendir efni þess ótvírætt til að bankinn þurfi að taka á innri málum. Það er spurning um traust og trúverðugleika í bráð og lengd.


Smekklega gert.

föstudagur, september 19, 2008

Dýrðardagar

Þá er maður lentur eftir stórkostlega hveitbrauðsdaga við Miðjarðarhaf. Heimsóttum vel valdar grískar eyjar og höfðum það gott - þó alltaf með annað augað á gengisvísitölunni.