Guð hjálpi eigendum Glitnis
Þeir sem voru að tapa stórfé á Glitni geta etv tekið smá gleði með því að horfa á þetta skemmtilega myndband:
Þeir sem voru að tapa stórfé á Glitni geta etv tekið smá gleði með því að horfa á þetta skemmtilega myndband:
Orðið pilsfaldakapítalismi kemur óneitanlega upp í hugann á þessum tímamótum sem marka algjört skipbrot hólmsteinskunnar á Íslandi. Kaldhæðnislegt að forsætisráðherrann fyrrverandi sem gumaði sig af því að hafa 'tæmt biðstofurnar í stjórnarráðinu' skuli þurfa að sópa upp leifunum af spilaborg græðgisvæðingarinnar. Minnir mig ekki rétt að hinum ýmsu sjóðum ríkisins var steypt saman í FBA sem var seldur Orca hópnum og rann svo inn í Íslandsbanka sem síðar varð Glitnir. Nú eru sjóðirnir komnir aftur heim! Það má því alveg segja að þetta hafi verið enn ein misheppnaða einkavæðingin.
Nú barma sér allir sem eru með lán í erlendri mynt. Sama fólkið og hefur gengið brosandi í bankann undanfarin ár meðan krónan var í háflugi. Núna hækka afborganir hratt. En er þá betra að vera með íslensk verðtryggð lán? Varla. Gengishruni fylgir ávallt verðbólga þannig að verðtryggðu lánin hækka líka.
Fítonblaðið í ár snýst um markalínurnar í auglýsingalandi. Hversu langt er hægt að ganga. Ef lesendur muna eftir einhverju sem hefur alveg farið yfir strikið og vakið deilur, endilega setjið komment.
Aldrei hélt ég að ég myndi vera sammála Ómari Stefánssyni og Gunnari I. Birgissyni. Mér finnst þessi ályktun geng 10% hækkun Orkuveitunnar bara nokkuð flott hjá þeim Kópavogsbræðrum.
,,Hækkunin er sem olía á verðbólgubál og kemur því á versta tíma. Þá skjóti það skökku við að hækkunin skuli rökstudd með vísan til fjárfestinga Orkuveitunnar en það geti vart hafa verið ætlunin að þær myndu leiða til slíkra verðhækkana hjá almenningi," segir í ályktuninni.
Helgi Hjörvar er í stuði þessa dagana. Í gær náði hann að hrista upp í umræðunni um orkumál með hugmynd um að bjóða út rekstur virkjana. Í dag birtir hann snjalla grein í Morgunblaðinu 'Tímar mikilla tækifæra'. Þar tætir hann í sig peningastefnuna og skipulag Seðlabanka og viðrar ýmsar leiðir til úrbóta í bráð og lengd. Einnig hvetur hann forsvarsmenn atvinnulífsins til að nota erlendar eignir sínar til að afla lausafjár í útlöndum til fjárfestingar á Íslandi.
Það er rangt að aðildarviðræður [við ESB] gagnist ekki í vanda dagsins. Hún leysir hann ekki en er mikilvægur hluti þess trúverðugleika sem við verðum að efla. Nú þegar hjarðhegðun markaðarins er í hámarki er mikilvægt að stefna okkar verði skýr og aðgerðir ákveðnar. Umbrotatímar í efnahagsmálum eru jafnan tímar mikilla tækifæra. Grípum þau.
Hjólreiðamenn hafa fullan rétt til að hjóla á umferðargötum. Hjólreiðamenn eiga að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda á göngustígum og gangstéttum. Bílstjórar eiga að taka fullt tillit til hjólreiðamanna á götum borgarinnar.
Ritstjóri Fréttablaðsins setur upp silkihanskana áður en hann lætur svipuna dynja á Seðlabankastjóranum í leiðara í dag. Í þessum kurteislegu svívirðingum rekur Þorsteinn þá gagnrýni sem komið hefur fram úr innstu efnahagslegu myrkviðum Sjálfstæðisflokksins á krónustefnu Davíð - gagnrýni Jónasar Haralz og Einars Benediktssonar. Þorsteinn minnir á að þeir félagar hafi óskað eftir því að Seðlabankinn gerði ítarlega grein fyrir árangri peningamálastefnunnar sem fylgt hefur verið frá aldamótum.
Fallast verður á að slíkur málefnalegur rökstuðningur af hálfu Seðlabankans væri gagnlegur fyrir áframhald umræðunnar.
Svar bankastjórnarinnar sem nú liggur fyrir í nefndu sjónvarpsviðtali var einkar skýrt og afdráttarlaust. Bankastjórarnir, einn fyrir alla og allir fyrir einn, líta einfaldlega svo á að slíkur málflutningur sé „lýðskrum" og á honum hafi menn á þeim bæ bæði „skömm" og „fyrirlitningu". Sannarlega er ekki unnt að kvarta yfir því að svör hafi ekki fengist við hógværri beiðni.
Þegar þetta svar liggur fyrir af hálfu bankastjórnarinnar vaknar hins vegar upp sú spurning hvort það byggi á mati hagsviðs bankans.
Rétt er að minna á að aðalhagfræðingur Seðlabankans hefur í blöðum heima og erlendis í rúm tvö ár lýst þeirri skoðun að ávinningur þess að halda uppi sjálfstæðum gjaldmiðli sé minni en enginn og auki fremur á sveiflur í þjóðarbúskapnum en að draga úr þeim. Hvernig sem undirbúningi að svari bankastjórnarinnar var háttað bendir efni þess ótvírætt til að bankinn þurfi að taka á innri málum. Það er spurning um traust og trúverðugleika í bráð og lengd.