föstudagur, janúar 30, 2009

Minnihlutastjórnin stendur í Framsókn

Það er ljóst að Framsóknarflokkurinn er að heykjast á loforði um að verja minnihlutastjórnina, heimta ákveðna hluti og setja strangari skilyrði en áður var heitið. Mín skoðun er þessi: Ef Framsóknarflokkurinn ætlar að ráða svona miklu þá á hann einfaldlega að vera í stjórninni - og axla þá um leið fulla ábyrgð á því sem verður gert.

Ef Framsókn ver stjórnina fram á vor gegn almennum fyrirheitum í stað tölusetts aðgerðaplans eru þeir góði gæinn hvernig sem fer; geta þvegið hendur sínar af því sem fer úrskeiðis og verður óvinsælt. Ef þeir setja of ströng skilyrði gætu þeir setið uppi með svartapétur í vor - svona svipað og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem mörgum er ekkert allt of vel við akkúrat núna.

Sjáum hvað setur.

fimmtudagur, janúar 29, 2009

Sparnaður með nýrri ríkisstjórn

Það er augljós sparnaður að fá Vinstri græn í ríkisstjórn - þau þurfa ekki ráðherrabíla og bílstjóra, því þau eru alltaf í strætó!

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Verður Katrín eini hvíti ráðherrann?

Það er fyrirsjáanlegt að Ingvi Hrafn bölsótist út í þá ríkisstjórn sem er í burðarliðnum. En að hann kalli Katrínu Jakobsdóttur „einu hvítu manneskjuna“ í ráðherrahópi VG, kemur á óvart. Maður spyr sig.

mánudagur, janúar 26, 2009

Jóhannu sem forsætisráðherra?

Það hefði verið sterkur leikur að sýna þá samstöðu með heimilunum í landinu að gera Jóhönnu Sigurðardóttur að verkstjóra í ríkisstjórn Íslands á þeim erfiðu tímum sem fram undan eru....Fylgjumst vel með í dag.

föstudagur, janúar 23, 2009

Spádómur dagsins

Að í dag verði boðað verði til kosninga í júní og stjórnin sitji þangað til. Verður það nóg til að lægja öldurnar. Varla.

---
Uppfært kl 13:06. Fyrri hluti spádómsins hefur nú ræst af óvæntum ástæðum. Óska Geir Haarde góðs og skjóts bata.

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Breyttar áherslur á Stöð 2

Þessi mynd sýnir glögglega breyttar áherslur á Stöð 2. Þjóðmálabloggið hans Sigmundar Ernis er farið og í staðinn koma Simmi og Jói hressir inn.

miðvikudagur, janúar 21, 2009

Virðing alþingis

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Haarde og Obama

Mótmælt er við alþingi, piparúða beitt til að halda aftur af réttlátri reiði. Í Bandaríkjunum safnast milljónir saman til að hylla nýjan forseta.

Ástandið í Bandaríkjunum er ekki svo beysið, en þeir fagna, því þeir eru að taka við leiðtoga sem hefur fyllt þá von með sterkum málflutningi og nýjum hugmyndum.

Það er kominn tími á viðlíka breytingar hér.

The end of the beginning and the beginning of the end


The end of the beginning...

and the beginning of the end

Kaka fer ekki til spilltu milljarðamæringanna hjá City...

...því hann vill vinna áfram fyrir Berlusconi. Ehemm.

Reyndar virðist Kaka vera býsna einangrað tilfelli í fótboltaheimum þar sem hann lætur peninga ekki slá sig út af laginu - er ekki leiksoppur gráðugs umboðsmanns. Merkilegt að sjá þessa tilvitnun í Guardian:
I have never asked for a raise in my salary and I will never do. Milan were always nice to me raising my salary whenever they felt it was fair to do it. I can only thank them for this.


Það hefði alveg verið gaman að sjá Kaka í ensku deildinni - en er þessi flugeldainnspýting hjá City ekki að breytast í einhvers konar Frankenstein-Chelsea? Guardian segir:
It will be of little consolation to the City faithful that West Ham striker Craig Bellamy joined the club yesterday for £14m and that an offer for the midfielder Nigel de Jong has been accepted by Hamburg. Of further concern will be reports last night that Robinho had walked out of City's training camp in Tenerife after a row with manager Mark Hughes. One report claimed the pair had fallen out over Robinho's desire to return to Brazil to celebrate his 25th birthday, which falls this Sunday, with family.

mánudagur, janúar 19, 2009

Þreytt Fólk í blokkinni

Á einum þekktasta veitingastað heims er hægt að fá rétt sem heitir Parmesanloft. Sem er eiginlega bara lykt. Það rifjaðist upp fyrir mér á leiksýningunni Fólkið í blokkinni í gær. Miklar umbúðir um lítið innihald. Lykt af góðu leikriti. Það byrjar nógu skemmtilega, umgjörðin og leikmyndin og fyrsta lagið lofa góðu en svo fjarar undan þessu með endurtekningum og bragðdaufum persónum í fyrirsjáanlegum aðstæðum, engli og einhverju. Hallgrímur sem lék þroskahefta strákinn fannst mér bestur af leikurunum og besta atriðið var þegar faðir hans söng hann í svefn.

Ég hafði, sem gamall aðdáandi, mest gaman af Geirfuglunum og gaman að sjá Þorkel og Frey spreyta sig í leikarahlutverkum. Stjarna verksins: Ragnar Helgi Ólafsson í hlutverki þöglu hugsandi bassatýpunnar!

föstudagur, janúar 16, 2009

Hannes hrósar Wade og Þorvaldi Gylfasyni

Í níðgrein sinni um Robert Wadeí Fréttablaðinu í júlí, áður en frjálshyggjuhrunið brast á, líkir HHG honum við Ditmar Blefken sem rægði Íslendinga á 17. öld. Hannes minnir einnig á að Þorvaldur Gylfason var duglegur í því að vara við ástandinu. Ekki er minnst á það að Davíð hafi varað við neinu.


Nú er nýr Blefken kominn til sögunnar, þótt hann láti sér nægja stutta grein í breska blaðinu Financial Times 1. júlí. Þar heldur Robert Wade, stjórnmálafræðiprófessor í Hagfræðiskóla Lundúna, því fram, að íslenska hagkerfið standi á brauðfótum. Bankarnir hafi verið seldir óreyndum aðilum, tengdum „íhaldsmönnum“, eins og hann orðar það. Líklega muni ríkisstjórnin brátt springa, þegar Samfylkingin slíti samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Væntanlegur kosningasigur Samfylkingarinnar sé kærkominn, því að þá muni Ísland aftur hverfa í röð norrænna velferðarríkja, sem leyfi ekki fjármagninu að vaða uppi óheftu, eins og verið hafi.

Grein Wades er tímasett, svo að hún komi íslenskum bönkum sem verst í þeim vanda, sem þeir hafa ratað í á lánamörkuðum erlendis (og sést best á háum skuldatryggingarálögum), en auk hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu gjalda íslensku bankarnir þess, hversu hratt þeir hafa vaxið og hversu marga öfundarmenn þeir eiga meðal erlendra keppinauta. Ekki þarf hins vegar að leita lengi að íslenskum heimildarmanni hins nýja Blefkens. Wade endurtekur í meginatriðum það, sem Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor hefur skrifað vikulega hér í blaðið síðustu árin.


Hannes bætir við:


Ég er líka sammála þeim Friðrik Má og Portes um það, að íslenska hagkerfið standi traustum fótum, þegar til langs tíma er litið.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Ofsi [***1/2]

Ofsi stendur ekki alveg undir hæpinu. Í fyrsta lagi er hún eiginlega bara nóvella - örstutt. Það er hins vegar líka kostur bókarinnar. Hún er þrusuþétt og mjög dramatísk og skartar fjölda áhugaverðra persóna. Mér finnst þó titilpersónan ekki ná nógu góðu flugi, vantar aðeins haldbærari skýringu á voðaverki hans finnst mér. Mér finnst Gissur standa upp úr í sögunni sem vel mótaður og áhugaverður karakter af hendi höfundar. Hann kemur heim með glýju í augum eftir hirðsetur ytra. Þreyttur á stríðinu og veseninu sér hann möguleika á að koma á friði í landinu með aðferðum stríðskonunga Evrópu, með mægðum. En svo fer sem fer og það kemur í ljós að aðferðin hentar ekki til heimabrúks, óvild andstæðinga er of djúp, voðaverk fortíðarinnar of stór auk þess sem minnstu smámunir verða rót mestu andstyggðarverka eins og í tilfelli Þorsteins grenju. Góð nóvella og maður bíður eftir meiru frá Einari úr þessari átt og mest væri gaman að kjamsa á stórri bók um Snorra og ævintýri hans.

miðvikudagur, janúar 14, 2009

Bókrýni - Vatn handa fílum (***)

Skemmtileg bók þar sem senílt gamalmenni rifjar upp eftirminnilega, oft grimmdarlega, sýningarferð með afdönkaðri sirkuslest á kreppuárunum.

miðvikudagur, janúar 07, 2009

Þannig

Er ég einn um að hafa áhyggjur af ofnotkun orðsins þannig?

Sjá hér í nýrri frétt:

Á einu ári hefur Evran þannig farið úr 90 krónum í 167 og japanskt jen úr 50 aurum í 1,3 krónur samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans.

Myntkörfulán hafa þannig tvöfaldast á aðeins skömmum tíma.

Obama Gaza

Hefur eitthvað spurst til þess hvað Barack Obama finnst um árásir Ísraela á Gaza?

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Orð skulu standa - glæsilegur áramótaþáttur

Verð að hrósa Karli Th. og félögum fyrir stórbrotinn áramótaþátt. Þátturinn var eins konar stjörnustríð þar sem menn á borð við Jakob Frímann, Megas, Bubbi, Björn Jörundur, Egill Ólafs og fleiri komu við sögu.

föstudagur, janúar 02, 2009

Jólabókarýni

Hef lesið þrjár úr flóðinu. Dimmar rósir, Land tækifæranna og Gott á pakkið, ævisögu Dags Sigurðarsonar.

Dimmar rósir er vel gerð skáldsaga um merkilegt fólk á áhugaverðum tímum, gerist kringum 1970. Bókin hefur að geyma litríkar og eftirminnilegar lýsingar á samfélagi þess tíma.(****)

Land tækifæranna eftir Ævar Örn Jósepsson er ágætur krimmi og nýtur þess að vera skrifaður inn í hrun íslenska efnhagsundursins. Plottið er svona la la en mér finnst stíllinn skemmtilegur. Sjónvarpsþættirnir Svartir englar höfðu áhrif á það hvernig maður les söguna. Maður sér Sólveigu Arnarsdóttur fyrir sér í hlutverki Katrínar og svo framvegis.(***1/2)

Gott á pakkið er lipurlega samansett ævisaga hins umdeilda, jafnvel goðsagnakennda, Dags Sigurðarsonar. Bókin er frumlega skrifuð og oft hreinn skemmtilestur og sýnir glögglega þá blöndu af skítseyði og ljúflingi sem Dagur hefur verið. Las hana í einum rykk og er margs vísari. (****)