Food and fun (betri þýðing en Matur og menning óskast) er svo sannarlega komin til að vera. Hún er reyndar búin í bili en mér sýnist á öllu að þetta sé æ betur heppnað með hverju árinu. Ég hef hitt fjölda manns sem komst ekki að á hátíðinni þannig að greinilegt er að konseptið sem slíkt skorar víða.
Með ótrúlegri forsjálni tryggði ég mér tækifæri til að upplifa matreiðsluna á tveimur stöðum í þetta skiptið, Sjávarkjallaranum og Grillinu. Með því að liggja veikur heima um síðustu helgi tókst betur að finna þessu stað í heimilisbókhaldinu og var hér um frábæra skemmtun að ræða. Fyrst fórum við bara tvö en svo í góðum hópi. Ég legg ekki út í að útlista nákvæmlega hvern rétt fyrir sig en læt nægja að segja að ég hef ákveðið að milda alla afstöðu mína til ansjósna. (Alveg er ég viss um að þú, lesandi góður, hefur aldrei áður lesið orðið ansjósa fallbeygt í fleirtölu!)
Laugardagskvöldinu var svo slúttað með bravúr á Hótel Nordica þar sem hljómsveit allra landsmanna og menn stuðsins héldu uppi, jú, stuðinu. Maður var svolítið mið-þungur eftir veisluhöldin en þegar ég komst loksins í gang á dansgólfinu þá breyttist Foodið í rosalegt Fun. Það var reyndar mjög athyglisvert að sjá mannsöfnuðinn þarna því viðskiptalífið var allt á staðnum, forstjórar, eigendur, framkvæmdastjórar, aðstoðarframkvæmdastjórar, starfandi stjórnarformenn og allt heila galleríið. Þetta var eins og að vera staddur inni í Íslenska efnahagsspilinu.
Í gær var svo konudagurinn haldinn hátíðlegur á mínu heimili með því að horfa ekki alveg á allan Chelsea leikinn og ekki alveg allan Celtic-Rangers leikinn heldur. Nú er komin ný vinnuvika og þótt ofangreind læti ættu að duga venjulegum manni í mánuð eða tvo þá stefnir allt í rosa fjör næstu helgi líka með matarboði og einhverri vitleysu í bland við auglýsingaverðlaun og forspil afmælis (hljómar næstum eins og fordyr helvítis....:)
Af þjóðfélagsmálum vil ég bara segja það að ég vil fá að sjá hvað á að koma í staðinn fyrir þessi niðurrifnu hús á Laugaveginum áður en ég kveð upp úr um það hversu arfavitlaus sú hugmynd er. Takk fyrir.
ps.
Mér skilst að Food and fun matseðillinn verði jafnvel keyrður á einhverjum stöðum um næstu helgi þannig að þeir sem misstu af gætu ennþá krækt sér í góðan bita.