Embættismaðurinn sem segir nei vaknar klukkan 6:59. Hann rís upp við dogg, tekur af sér mjúka svefngrímuna og lítur í kringum sig. Um leið og hann hefur fullvissað sig um að fataskápurinn sé á sínum stað og rúllugardínan dregin fyrir þannig að neðsti kanturinn nemi við gluggakistuna stendur hann upp.
Embættismaðurinn sem segir nei burstar tennurnar vel. Ekkert er verra en andremma. Því næst rakar hann sig með rafmagnsrakvél og þvær sér vandlega í framan.
Embættismaðurinn sem segir nei fer inn í stílhreint eldhús og tínir út úr ísskápnum appelsínur, jarðarber, bita af engifer og sykurskert vanilluskyr. Þetta setur hann í réttum hlutföllum í blender og býr þannig til fitulítinn og vítamínríkan morgunverð. Á sínum tíma fékk hann sér alltaf hafragraut og kaffibolla á morgnana. Eftir að hann fékk leiðbeiningar um nýjan morgunverð hjá mikilvægum kollega sneri hann blaðinu við. Fyrir vikið líður honum betur í maganum og mætir til vinnu fullur orku. Að venju les embættismaðurinn blaðið meðan hann borðar.
Embættismaðurinn sem segir nei gengur síðan inn í svefnherbergið, velur skyrtu úr skápnum, tekur jakkaföt úr hlífðarpoka, klæðist þeim og hnýtir fastan hnút á svart bindi. Hann gengur því næst inn á baðherbergið og greiðir sér.
Embættismaðurinn sem segir nei klæðir sig í svarta skó og gengur út í nýlega bifreið sína og ekur á skrifstofuna. Hann opnar dyrnar með lykilkortinu og býður góðan dag. Hann hitar vatn í hraðsuðukatli og fær sé te. Earl Grey. Embættismaðurinn sest í stólinn sinn, fær sér sopa af te, ræskir sig og um leið og klukkan slær 8:15 byrjar hann að segja nei.