miðvikudagur, febrúar 28, 2007

34


Nú styttist í þrítugasta og fjórða sumarið. Vonandi verður það það allra besta hingað til, alla vega öll teikn á lofti um það. Þakka þeim sem hafa átt einhvern hlut að málum þau þrjátíu og þrjú sem liðin eru.

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Listamenn sem standa jafnfætis þekktari nöfnum í tónlistarmönnum á landinu.

Tony's County býður upp á 'Ekta country undir Ingolfsfjalli'. Frábært að upplifa villta vestrið á Suðurlandi. Um daginn spilaði Sveitasöngva tvenna Suðurlands og „stóðu svo sannarlega undir nafni“. Á heimasíðu Tony's segir enn fremur: „Án efa heyrði ég það alfallegasta lag og texta sem ég hef heyrt, fallegt ljóð um vináttu og ekki skemmdi lagið sem var samið af Ómari.
Þeir félagar spiluðu bæði eigin tónlist sem og lög eftir aðra listamenn. Ég leyfi mér að fullyrð að þessir tveir listamenn standa jafnfætis þekktari nöfnum í tónlistarmönnum á landinu.“

Geri aðrir betur!

Úlfaknús

Var að ljúka við bókina The Tenderness of Wolves eftir Stef Penney sem ég varð mér út um i Cambridge um daginn. Bókin fjallar um landnema í Kanada og snýst um ákveðna morðgátu og tilveruna í landi þar sem fólk af ólíku bergi brotið reynir að lifa af án alls infrastrúktúrs. Heldur fannst mér bókin laus í reipunum, þótt hún hafi unnið Costa verðlaunin (gömlu Whitbread verðlaunin) sem besta frumraun höfundar í fyrra. Morðgátan og lausn hennar bauð ekki upp á mikla spennu og ýmislegt annað veldur vonbrigðum, til dæmis mikið umtöluð beinvala sem á að vera lykill að miklum leyndardómi. Kosturinn við bókin er þessi stúdía um fólk sem er að reyna að koma sér fyrir í nýju landi þar sem villidýrið er alltaf á næsta leyti. Vonaði ég alveg fram á síðustu blaðsíðu að Íslendingar kæmu við sögu en varð að láta mér norskan sértrúarsöfnuð duga.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Ronaldo á leið til Barcelona


Þessi mynd staðfestir að Ronaldo hefur hug á að ganga til liðs við Barcelona. Hún sýnir Portúgalann dansa svokallaðan elgsdans (e. Moose Dance) sem fer nú eins og eldur í sinu um höfuðstað Katalóníu. Uppruna dansins má rekja til helgarinnar 9.-12. febrúar.

Bændur gegn klámi

Stjórn Bændasamtaka Íslands, sem eiga Hótel Sögu, hefur ákveðið að vísa frá hópi fólks sem bókað hafði gistingu á Radisson SAS Hótel Sögu dagana 7.-11. mars. Ákvörðun þessi er studd af Rezidor Hotel Group sem er rekstraraðili Radisson SAS hótelkeðjunnar.

Nú er mér spurn hvort þessir ágætu hótelrekendur þurfi ekki að gera gangskör að því að tryggja að ekki sé sýnt klám á sjónvarpsrásum þeim sem í boði eru á herbergjum þeirra. Allir vita að hægt hefur verið að kaupa klám á herbergjum hótela hér og þar.

Hvað segja bændur um það? Ekki er þetta tvískinnungur?

mánudagur, febrúar 19, 2007

Helgin

Þessi helgi var svona: Árshátíð Krumma, tvö grímuböll, þynnka, blaðamannaverðlaun, kálfakjöt með shitakesveppum, konudagurinn, bollukaffi, eldsmiðjan, Dreamgirls.

Ég var gæsluvarðhaldsfangi á grímuböllunum, með tattú, handjárn og DV fyrir andlitinu. Ég var líka með úlpu yfir hausnum, þess vegna man ég ekki alveg allt sem gerðist....

Í dag er bolludagur. Í tilefni þess vil ég nefna að mér finnst sulta alls ekki eiga heima á bollum. Ég hef lengi átt í útistöðum við sultur, og rek það til leikskólaáranna þegar ég tók sultu einu sinni í misgripum fyrir tómatsósu og hrúgaði henni ótæpilega á diskinn og var í kjölfarið látinn klára gegn vilja mínum. Brennt barn forðast eldinn.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Æfingin skapar meistarinn

Já, ekki varð mér kápan úr því klæðinu að gera atlögu að meistaratitli. Verð að viðurkenna að mér þótti nokkuð súrt í broti að tapa, ég meina hver hefur heyrt talað um vinatölur? Ekki ég, og þó stúdent af stærðfræðideild, reyndar með afleita stærðfræðieinkunn....og Lúðvík Möller...einhver heiði við Vopnafjörð?

Það sem ég átti að vita var auðvitað Andrómeda og Sam Spade og í tvígang ruglaði ég mig frá réttu svari, elstu konu Íslandssögunnar og leikstjóra Blóðbanda.

Tæknileg mistök? Stöngin út.

###
Viðbót
###
Gleymdi að nefna það að strax eftir upptökuna á þættinum var leikur Dana og Íslendinga á HM. Stöngin út.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

AIR og Nouvelle Vague

Það reyndist rétt sem haldið var fram hér á síðunni að frönsku sveitirnar AIR og Nouvelle Vague komi til landsins í ár. Nouvelle Vague verður á NASA 26. apríl og AIR í Laugardalshöll í júlí 2007.

Þökk sé frönsku vori.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Kominn heim

Maður er ekki kominn heim til Íslands fyrr en maður er búinn að lesa Bændablaðið, sem er líklega einn besti fjölmiðillinn í dag.

Hér er brot af því besta:

Fréttir:
Bílafyrirtæki hannar búnað sem skynjar kýr.

Hvað er vodka?

Grunnskólinn Tjarnarlundi gefur út vandað skólablað.

Auglýsingar:
Gotneskar jötugrindur - Kálfarnir komast ekki í gegn. VÉLAVAL, Varmahlíð (velaval.is)

Það er gaman að gegna - í húsunum frá Límtré-Vírneti

VERTU SKAPANDI, Á heimasíðu okkar, www.sbi.is, getur þú hannað þitt eigið hús á nokkrum mínútum og fengið verðútreikninga á 7 sekúndum.

Veldur súrdoði afurðatjóni? Hefur geldstöðufóðrun áhrif? Almennir fundir fyrir mjólkurframleiðendur. agro.

Fjós eru okkar fag. Landstólpi.

Til sölu ættbókarfærðir íslenskir hvolpar, fæddir 7. jan. Fjórir rakkar og fjórar tíkur. Fallegir hundar og traustir vinir sem ættu að prýða bústofninn á öllum íslenskum sveitaheimilum. Nánari uppýsingar í síma 894-9696.

Er selurinn til vandræða? Tek að mér að fækka sel. Hirði skinnin. Snyrtileg umgengni.

Þýskur 44 ára kvenmaður óskar eftir starfi í íslenskri sveit. Er með reynslu sem bóndi og 20 ára kynni af nautgripum. FJölhæfur vinnukraftur - engin eldabuska! Nánari uppl. gegnum netfangið Naturfreundin@t-online.de.

Barcelona 2007









Annað er trúnaðarmál.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Munstur?

Árið er 2006, borgarstjórnarkosningar í nánd. Pétur Gunnarsson, innanbúðarmaður í kosningabaráttu Framsóknarflokksins, ráðinn til 365 sem fréttastjóri Fréttablaðsins. (Hættir í starfinu stuttu eftir kosningar)

Árið er 2007, þingkosningar í nánd. Steingrímur Sævarr Ólafsson, fyrrum upplýsingafulltrúi í forsætisráðuneyti Framsóknarflokksins, ráðinn til 365 sem yfirmaður þjóðmálaumfjöllunar Stöðvar 2, Íslands i dag.

Nei fjandakornið. Þetta er of langsótt.

Ég óska Steingrím og hans fólkii alls hins besta og vona að hann verði farsæll og langlífur stjórnandi Íslands í dag takist að fá að þættinum það áhorf sem honum ber. Ég hef unnið með honum og finnst hann skemmtilegur, auk þess sem hann var naskur og góður fréttamaður á sínum tíma. Eini gallinn við hann er að hann er Frammari.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Rifjum upp Eið

Geir á endemi

Helst var það að heyra á Geir forsætisráðherra að stjórnarandstaðan væri höfuðpaurinn í Byrgismálinu, að þingmenn hennar ættu að skammast sín fyrir að hafa lagt hart að stjórninni að styðja þessa starfsemi fjárhagslega.

Ekkert minntist æðsti ráðamaður framkvæmdavaldsins á þær liðleskjur sem lágu á skýrslum og minnisblöðum um þann sóðaskap sem gekk á bak við luktar dyr Byrgisins, erfðaprinsa og flokksgæðinga stjórnarflokkanna sem vissu nánast allt en gerðu ekkert. En stjórnarandstaðan á að skammast sín. Geir á endemi!

mánudagur, febrúar 05, 2007

Gullaldarkveðskapur

Af einhverjum ástæðum þá sækir þetta ljóðabrot á meðvitund mína í dag:

...Þá keyri ég með ýtu á stálið og opna það fyrir Páli

Þú kannt nú ekkert að keyra ýtu. Lok lok og læs og allt í stáli lokað fyrir Páli

Þá læt ég Tarzan taka stálið og opna það fyrir Páli

Þú kannt nú ekkert að tala við Tarzan. Lok lok og læs og allt í stáli lokað fyrir Páli

Ég læt þá pabba minn tala við Tarzan og opna fyrir Páli

Ég læt þá Bítlana baula á Tarzan. Lok lok og læs og allt í stáli, lokað fyrir Páli...

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

DiCaprio fyrirgefið

Allt slæmt sem ég hef sagt um Leonardi DiCaprio er hér með dregið til baka. Sjáið Blóðdemantinn sem fyrst!