fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Höfuðdagur

Í gær var höfuðdagur og samkvæmt þjóðtrúnni verður veðrið næstu þrjár vikur eins og það var í gær - grár suddi. En hvað er höfuðdagur? Lítum á Almanak Þjóðvinafélgsins frá 1884:
29. Augustus er kallaður höfuðdagur; hann var fyrrum haldinn heilagur í minningu þess, að þann dag átti Heródes konungur Antipas að hafa látið hálshöggva Jón skírara, árið 31. e. Kr.

Þess má geta að ég hef séð þetta höfuð, eða hluta af hauskúpunni öllu heldur. Hún er í demantskreyttu skríni í Topkapi höllinni í Istanbúl. Hauskúpubúturinn er númer eitt á meðfylgjandi mynd. Hönd Jóns skírara er þarna einnig.



Þetta hygg ég að hafi altso verið varðveitt í kirkunni Ægissif (Hagia Sophia, Ayasofia) í Istanbúl (Miklagarði, Konstantínópel)

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Rán á sjó


Þegar ég var lítill þá ætlaði ég að verða sjóræningi með svart skegg og gulltönn.
Það er svosem ekkert útliokað að maður fari út í það einhvern tímann ef maður breytir til. Reyndar væri auðveldara fyrir mig að fá gulltönn heldur en skegg, en það er önnur saga. Já, kannski maður leiðist út í sjórán?

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

20 LEGEND

Borði með áletruninni 20LEGEND á sér heiðursess á Old Trafford. Helmingurinn af ástæðunni er hér:



Þetta mark var skorað á Týsgötu 1, 101 Reykjavík 26. maí 1999. En nú hefur Ole Gunnar látið af störfum fyrir félagið. Fari hann vel.

föstudagur, ágúst 24, 2007

Bull á El Bulli?

Á besta veitingastað í heimi, El Bulli á Spáni, var, alla vega til skamms tíma, hægt að panta sér einn mjög léttan rétt: Frosið parmesanloft. Þetta er það eftirsóknarverður staður að aðeins er opið fyrir borðapantanir einn dag á ári, þann dag fullbókast staðurinn út árið. Reyndar starfar staðurinn bara hálft árið, hinn helming ársins notar kokkurinn og aðstoðarmenn hans til að þróa nýjar rétti og ferðast um heiminn til að uppgötva ný brögð og hráefni. Kokkurinn á staðnum, Ferran Adríá, var einn af fáum Spánverjum sem var boðið að taka þátt í hinni mögnuðu Documenta 12 listasýningu í Kassel. Meira um El Bulli hér.

Kannski ég fái mér frosið parmesanloft í kvöldmat?

Af Landsfundi

„Landsfundur leggur áherslu á að einkarétti ríkisins á verslun með áfengi verði aflétt. Eðlilegt er að hægt sé að kaupa bjór og léttvín utan sérstakra áfengisverslana, t.d. í matvöruverslunum. Lagt er til að áfengiskaupaaldur verði lækkaður í 18 ár.“

Á næsta Landsfundi sjálfstæðisflokksins verður þessu bætt við: „Landsfundur leggur þó áherslu á að bjór og léttvín sé aðeins selt við stofuhita, til að tryggja öryggi gesta í miðborginni.“

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Hvað er róni?

Róni er maður eða kona sem hefur misst allt sitt vegna óstjórnlegrar löngunar í kælda drykki.

Hvað er róni?

Róni er maður eða kona sem hefur misst allt sitt vegna óstjórnlegrar löngunar í bjór sem er kaldur.

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Frítt?

Ef Landsvirkjun þarf að borga miklu meira fyrir vatnsréttindi en áður var talið, er þá ekki ljóst að tap verður á virkjuninni sem selur orkuna á verði sem ekki má nefna?

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Góðverk dagsins

Í gær var ég á gangi í hádeginu og rakst þá á þær stöllur Ölmu í Nylon sem var að aðstoða vinkonu sína hana Freyju. Alma hóaði í mig og bað mig að halda hurðinni á bílnum meðan hún kæmi hjólastól vinkonu sinnar í bílinn og gekk það vel. Þetta var góðverk dagsins. Hjá þeim. Gekk ég á brott glaður í bragði.

Ég lofaði mömmu að kaupa ekki handboltalið

Tek þetta fram í tilefni af þessu.

mánudagur, ágúst 20, 2007

Myndi það verða góð drápa...

...sem bóndinn aldurhnigni myndi kveða kaupakonu sinni? Ekki samkvæmt þessum kveðskap, sem sannar að ekki var allt betur ort í gamla daga:


Svo ástarheitó, er ekki nein í Mývatnssveitó
og heyrðu, mig vantar kaupakonó
kannski hef ég vonó
ef þú heldur heim með mér,
þá heila drápu kveð ég þér.

Bankabrölt 2007 - úrslitin eru ljós

Í kringum Menningar(ofg)nótt fór fram hið árlega Bankabrölt þar sem stóru bankarnir standa fyrir uppákomum til að vekja á sér athygli. Úrslitin voru sem hér segir:

Fyrsta sæti:
Landsbankinn, 30 þús manns á Miklatúni

2. sæti
Kaupþing, 20 þús manns (skv. lögreglu og reyndum tónleikahöldurum, 45 þús skv. Einari Bárðar) á Laugardalsvelli.

3. sæti
Glitnir, 11 þús manns, Reykjavíkurmaraþon.

Ég hygg að niðurstaðan sé í öfugu hlutfalli við auglýsingakostnað. Glitnir hefur auglýst langmest og Landsbankinn langminnst.

Hér geta menn svo bara ímyndað sér niðurlag færslunnar um þjónustugjöld, seðilgjöld, vildarpunkta bla bla bla.

föstudagur, ágúst 17, 2007

Glitnismaraþon þreytt

Ég bara varð að nota þessa fyrirsögn. Þetta verður samt þreytt á morgun.

Kóngurinn lifir

Sjónvarpsstöðin TCM (Turner Classic Movies) fékk stóran plús í kladdann í gær þegar sýnd var tónleikamyndin The Way it Is, með Elvis Presley. Það var gæsahúð par excellans að sjá kónginn í sínu besta formi á sviði með 20-30 manna hljómsveit og meðsöngvara. Á tónleikunum sýnir Elvis allar sínar bestu hliðar, gerir hlé til að kyssa stelpurnar og labbar um salinn. Hér er eitt af mínum uppáhalds atriðum þegar hann gerir hlé á tónleikunum til að árita mynd fyrir aðdáanda, fær sjálfur eintak af myndinni og fer svo og skilar pennanum aftur....Þú sæir ekki Bono, jafnvel ekki Bubba, gera þetta í dag. Það er enginn eins og Elvis. Svo er þetta líka frábært lag sem heyrist allt of sjaldan. Ef þú varst ekki á þessum tónleikum.....þá just pretend:

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Menningargnótt

Allt á fleygiferð í menningunni. Elvis tribjút í kvöld, Kaupþings bolatónleikar á morgun og svo Menningarnóttin mikla, frá morgni fram á kvöld. Mann sundlar. Ætli það sé ekki best að drulla sér úr bænum?

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Útlendingur sem hafði búið hér lengi fékk ekki ríkisborgararétt. Hefur áhuga á bókmenntum. Hér er viðtalið

Með fiskum


Synt var í sjónum í gær í góðum hópi, eða vöðu...Farið var ofan í hina fornu Seltjörn og gargaði ég úr mér annað lungað þegar ég fór ofan í. Við það snögghitnaði sjórinn....djók, það tók örfáar mínútur að venjast þessu en gargið hjálpaði sálrænt. Svo var svamlað um í 25 mínútur og að því loknu brunað beint í Neslaugina. Merkileg tilfinning og ljúf vanlíðan sem fylgir því að skríða hrollkaldur ofan í heitasta pottinn. Mér leið eins og frosnu fiskfarsi í örbylgjuofni.



Magnað.

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

Sjósund


Í dag mun ég gera mína fyrstu tilraun til að synda í sjónum umhverfis Ísland. Kemur þá ýmislegt sér vel sem annars er frekar illa séð.

mánudagur, ágúst 13, 2007

Gudjohnsen fyrir Rooney

Why not? Ef Wayne er meiddur og Guddy á ekki séns í liðið hjá Barca, þá er þetta alveg sjálfsagt mál.

fimmtudagur, ágúst 09, 2007

Háklassaeitís

Félagi Sanktípétur

Er að glugga í hina helgu bók þessa dagana en þar eru margir stórkostlegir kaflar. Eftirfarandi kafli úr Postulasögunni gæti alveg eins verið úr Félagi Napóleon eftir Orwell eða bara ævisögu Stalíns.

En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt. Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti, og mikil náð var yfir þeim öllum. Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.

Jósef levíti, frá Kýpur, sem postularnir kölluðu Barnabas, það þýðir huggunar sonur, átti sáðland og seldi, kom með verðið og lagði fyrir fætur postulanna.

En maður nokkur, Ananías að nafni, seldi ásamt Saffíru, konu sinni, eign og dró undan af verðinu með vitund konu sinnar, en kom með nokkuð af því og lagði fyrir fætur postulanna. En Pétur mælti: "Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns? Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði." Þegar Ananías heyrði þetta, féll hann niður og gaf upp öndina, og miklum ótta sló á alla þá, sem heyrðu. En ungu mennirnir stóðu upp og bjuggu um hann, báru hann út og jörðuðu.

Að liðnum svo sem þrem stundum kom kona hans inn og vissi ekki, hvað við hafði borið. Þá spurði Pétur hana: "Seg mér, selduð þið jörðina fyrir þetta verð?"

En hún svaraði: "Já, fyrir þetta verð."

Pétur mælti þá við hana: "Hvernig gátuð þið orðið samþykk um að freista anda Drottins? Þú heyrir við dyrnar fótatak þeirra, sem greftruðu mann þinn. Þeir munu bera þig út." Jafnskjótt féll hún niður við fætur hans og gaf upp öndina. Ungu mennirnir komu inn, fundu hana dauða, báru út og jörðuðu hjá manni hennar. Og miklum ótta sló á allan söfnuðinn og alla, sem heyrðu þetta.


Postularnir viðhöfðu greinilega ákveðna ógnarstjórn...



Pétur er hér við síðustu kvöldmáltíðina með hníf í hendi. Júdas Ískaríot horfir forviða á.

miðvikudagur, ágúst 08, 2007

Bergman

Á föstudag gaf ég mér tíma til að setjast fyrir framan sjónvarpið. Á norrænu stöðvunum var hver Bergman myndin á fætur annarri, Fanny og Alexander og fleira.

Ég horfði á Jackass á RÚV.

Viðtal við Jesú í Tekjublaði Frjálsrar verslunar:



Viðtalið fer hér á eftir orðrétt:

"Enn sagði hann við lærisveina sína: "Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: ,Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.' Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ,Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.'

Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: ,Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?' Hann svaraði: ,Hundrað kvartil viðsmjörs.' Hann mælti þá við hann: ,Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.' Síðan sagði hann við annan: ,En hvað skuldar þú?' Hann svaraði: ,Hundrað tunnur hveitis.' Og hann sagði honum: ,Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.'

Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.

Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir."

Jesú bætir við:

Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði.En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: ,Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.'

Abraham sagði: ,Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.' En hann sagði: ,Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.' En Abraham segir: ,Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.' Hinn svaraði: ,Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.' En Abraham sagði við hann: ,Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum.'"

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Klettur og Brekka

Ekki eru öll nöfn sumarbústaða jafn blátt áfram. Þannig er ákveðinn sumarbústaður bara kallaður Búsó. Sá var þó ekki sóttur heim þessa helgina, heldur bíður næstu helgar. Klettur og Brekka voru áfangastaðir Verslunarmannahelgarinnar 2007 og var glatt á hjalla bæða sunnanlands og vestan.

Þegar ég vann við auglýsingagerð þá leið júlímánuður einatt við ýmist dund en þriðjudag eftir verslunarmannahelgi fór allt í gang og ringlaðir kúnnar vöknuðu til lífsins og horfðu óundirbúnir og óttaslegnir fram á haustið. Liðinn júlímánuður var hins vegar mjög annasamur hjá mér og spennandi að sjá hvernig ágúst springur út.

föstudagur, ágúst 03, 2007

Ný upplifun í lágvöruverslun

Ég þarf einmitt að ná mér í lágvörur fyrir helgina.