mánudagur, október 31, 2005

Verkið lofar meistarann


Góð fram-kvæmdahelgi að baki á R39. Gólfdúkur rifinn af eldhúsi, baðið málað og raflagnir hafnar. Þess ber að geta að raflagnir í nýja eldhúsinu munu verða fyrsta flokks og fjölgar tenglum um 300%, úr einum í fjóra.

Góð skemmtanahelgi að baki. Smá innlit á stofu ölsins á föstudag að fagna afmæli Guðmundar þar sem um leið var tilkynnt um að lífsviðurværi hans undanfarna mánuði hafi verið aflagt. Hann er þó brattur kallurinn og ætlar að njóta uppsagnarfrestsins.

Á laugardagskvöldið var snætt á hinum nýja veitingastað Vín og skel og bragðaðist það bara bráðvel. Fínn skelfiskur og meðlæti, sérstaklega kartöflurnar. Síðan voru fagnaðarfundir á 101 þar sem 2 erlendir gestir, Rabbi og Gauti, voru á landinu á sama tíma. En einn helst hápunkturinn var síðan á Þjóðleikhúskjallaranum þar sem Pörupiltar, 5 leikkonur í karlmannsgervum, tróðu upp. Ég hló svo mikið að mig verkjaði í nárann, sérstaklega þegar „karlakórinn“ tók Hraustir menn eftir Sigmund Romberg. Svo aftur á 101, síðan á Næsta bar, en samt tiltölulega snemma heim.

Hún er ekkert sérstaklega góð myndin af Möggu Stínu aftan á Mogganum í dag.

fimmtudagur, október 27, 2005

Verðvernd geðvernd

Jæja hvað finnst mönnum um Verðverndina í Húsasmiðjunni og BYKO? Er verið að stela? Hvað er málið? Þetta er nú meira ruglið: Húsasmiðjan talar um harða samkeppni en samt er samkeppnin ekki meiri en svo að þeir segjast hafa undirbúið málið í fyrra en ekki farið af stað. Hmmmm. Svo er það málið með auglýsingarnar: Efnislega samhljóða undirritaðar yfirlýsingar frá forstjóra. Maður spyr sig. Mál manna er að Ásdís Halla hafi rúllað yfir forstjóra Húsasmiðjunnar í Kastljósinu, en verður eitthvað framhald af málinu? Ætti Húsasmiðjan ekki að biðjast afsökunar?

Svo er líka skemmtileg grein í New York Times um geitur sem klifra í trjám í Marokkó.

miðvikudagur, október 26, 2005

Þraut dagsins



Aðrir vefir eru fyndnari en þessi. Baggalútar eru snillingar.

þriðjudagur, október 25, 2005

Halldór Baldursson er snillingur


...og jafnframt eina ástæðan til þess að sumir lesa Blaðið og Viðskiptablaðið.

mánudagur, október 24, 2005

Af hverju ekki á Hafnarbakkanum?


Ótrúleg þátttaka. Ef myndin prentast vel má sjá leyniskyttur á Morgunblaðshöllinni. En voru það einhverjir illgjarnir karldurgar sem úthlutuðu stúlkunum Ingólfstorgi til fundahalda?

Til hamingju konur



Til hamingju með frábæra þátttöku!

Búðir

Fórum á Hótel Búðir um helgina í árshátíðarferð með vinnunni. Ég hef aldrei áður gist á hótelinu en í einhver skipti kúldrast í tjaldi og oft stoppað þarna á leið annað. En ég mæli algjörlega með þessu hóteli. Og matarveislan var stórkostlega, 7 réttir eftir kenjum kokksins og svo 30 ára gamalt viskí á eftir. Gerist ekki betra.

Sjálfstæðisflokks fólk

Sá einhver þáttinn í gær? Hvernig líst lesendum á baráttuna um hægri atkvæðin í borginni?

Að eyða í óþarfa

Ég get ekki séð að konur þurfi sömu laun og karlar. Mundu þær ekki bara eyða þessu öllu í skó?

fimmtudagur, október 20, 2005

KRingar að opna vaxmyndasafn?

Misskilningur

Óperan Tökin hert verður frumsýnd í Íslensku óperunni á föstudaginn. Ég sem hélt að þessi gamanópera hefði verið frumsýnd síðustu helgi í Laugardalshöll.

miðvikudagur, október 19, 2005

GÖNGUM YFIR BRÚNA

Sagt er að sumir vilji verksmiðjur
út við sérhvern tanga og fjörð.
Sagt er að aðrir vilji stóriðju
út um sína fósturjörð.

Göngum yfir brúna
milli lífs og dauða,
gín á báðar hendur
gjáin dauðadjúpa

Landið okkar sem var laust við skít
verður leigt gegn gulli í hönd.
Af græðgi gerumst við svo einskisnýt
að okkur gleypa önnur lönd.

Göngum yfir brúna
milli lífs og dauða,
gín á báðar hendur
gjáin dauðadjúpa

Af öllu sem við gerum rangt og rétt
við reyndar lærum aldrei neitt.
Og eftir dauðann hef ég nýskeð frétt
að aurum enginn geti eytt.

Höfundur: Magnús Eiríksson

Frí á mánudaginn

Er ekki eitthvað bogið við það að hver karlkyns stjórnandinn stígur fram á fætur öðrum og gefur konum frí eftir hádegi á mánudaginn? Er þá ekki búið að draga tennurnar úr kvennafrídeginum? Ég hélt að trixið væri að konur ættu að standa upp frá vinnu kl. 14:08 og arka út óforvarendis. Þetta er orðið alltof gúddí fíling mál finnst mér. Meira að segja Geiri í Goldfinger búinn að gefa sínum konum frí. En hvað? Eiga karlarnir á Goldfinger þá að vinna áfram.

þriðjudagur, október 18, 2005

Netleysi

Ég sit á Hressó sem er gegnt vinnustað mínum en á þeim stað er nú tilfinnanlegur og áþreifanlegur skortur á netsambandi. Svolítið eins og að fara aftur í tímann. Og þó.

Góða frétt dagsins er að vinkona mín Una Sólveig er komin af spítala og er á hóteli í Boston með foreldrum sínum. Lítil börn eru alveg ótrúleg fyrirbæri. Og læknavísindin reyndar líka.

Íbúðin mikla er á framfaraskeiði. Spartl stendur yfir og til stendur að rífa eldhúsgólfdúk. Þó verður ekki horft framhjá Meistaradeild Evrópu sem blasir við á Sýn í kvöld auk þess sem til stendur að hitta Gyrði Elíasson. Hvort ætli Gyrðir haldi með Manchester United eða Chelsea?

Stóra spurningin er þó: Smeg ískápur eða innfelldur?

mánudagur, október 17, 2005

Stórhækkuð laun bankastjóra

Hún var stórmerkileg aðför Davíðs Oddssonar þegar hann tók vasapeningana sína út í KB banka með skömmum vegna þess að honum ofbuðu launakjör bankastjóranna. Nú er hann sjálfur að verða bankastjóri á stórhækkuðum launum og stórhækkuðum eftirlaunum. Ætli KB banki taki ekki bara út sína innistæðu í Seðlabankanum?

Og ætlar virkilega enginn að fylgja eftir fréttum af því að eftirlaunafrumvarp Davíðs er líklega hundruðum milljóna króna dýrara en kynnt var í þinginu þegar það var samþykkt? Þarf enginn að svara fyrir þetta stólparugl?

Helgin nýttist vel eldhúsinnréttingin gamla er farin á haugana og spartl hafið. Skemmtilegt orð, spartl.

föstudagur, október 14, 2005

SKE leikur fyrir dansi

Á gleðihúsi Karls Hjaltesteds, Grand Rokki, í kvöld.

Rúbín og Demantur

Eðalsteinarnir Rick Rubin og Neil Diamond ætla að vinna saman. Kannski nær Rick að gera það sama fyrir Neil og hann gerði fyrir Johnny Cash. Mér finnst að William Saffire ætti að skrifa grein um málið.

Ekkert og Lortur




Breaking News: Davíð er ekki hættur, hann býður sig fram í nýju gervi. Og Geir fattaði það og bauð sig líka fram í gervi. Já þeir eru hressir, forystumenn sjallanna. Þetta er bara skemmtiatriði á landsfundinum. Sjáið þið ekki í gegnum þetta? Eggert og Loftur standa auðvitað fyrir Ekkert og Lortur, dulnefni GH og DO.

Symsveit? Samsveit?

Upp hefur komið hugmynd um að finna íslenskt orð fyrir það sem Englendingar kalla Symphonic Orchestra, en hefur til skamms tíma verið kallað sinfóníuhljómsveit á íslensku. Lýst er eftir styttra og þjálla orði.

Sleipur í skák

Veselin Topalov er nýr heimsmeistari. Hann rennir skákmönnunum um borðið eins og tígrísdýr. Fráfarandi heimsmeistari heitir því óþjála nafni Kasimdzhanov

fimmtudagur, október 13, 2005

50 ár síðan

Ætli Harold Pinter fái svona höfðinglegar móttökur? Hann hefur nú sagt ýmislegt athyglisvert gegnum tíðina.

Slökkviliðið

er núna að slökkva eld á skemmtistaðnum Palace hér beint fyrir neðan gluggann hjá mér. En hvar er Brunaliðið?

miðvikudagur, október 12, 2005

Zombo?

Nú er verið að tala um að samlokufyrirtækin Sómi og Júmbó ætli að rugla saman sneiðum sínum. Samkeppnisstofnun gerir væntanlega ekkert í málinu þótt það varði hagsmuni þúsunda stúdenta og iðnaðarmanna á hverjum degi. Hér er heimasíða nýja fyrirtækisins.

Ríkislögreglu-slóri

Nú ættu embættismenn Ríkislögreglustjóra að taka á sig rögg og dúndra fram ákærum í olíusvindlinu til að afsanna það að Kristinn Björnsson njóti þess á einhvern hátt að vera æskuvinur Haraldar Johannesen. Mannlíf segir að það hafi liðið þrír dagar frá því að Jón Gerald mætti á svæði þar til Tryggvi Jónsson, þáverandi forstjóri þurfti að dúsa í fangelsi yfir nótt. Nú er liðið meira en ár frá því að olíuskýrslan var lögð fram, var réttlætinu kannski bara alveg fullnægt þegar Þórólfur sagði af sér í byrjun nóvember í fyrra?!? Nú er kominn tími til að hætta að slóra og koma í veg fyrir að sakir fyrnist. Eða skiptir kannski meira máli hverjir léku sér saman á Reynimelnum fyrir fjörutíu árum?

Þarf sjálfur að gera svo margt, en enginn tími til neins. Lentum í svaka hasar í gær þegar ég ætlaði að tappa lofti af ofninum í svefnherberginu. Skrúfan hrökk úr og vatnið gusaðist út um allt. Gríðarlegt vatnstjón var í uppsiglingu því ekki tókst að koma skrúfunni á sinn stað og stoppa gusandi sjóðheitt vatnið. Sem betur fer dugði að skrúfa fyrir og smám saman minnkaði þrýstingurinn þannig að hægt var að þjösna skrúfunni á sinn stað. Akkúrat þá mætti píparinn á svæðið og lét sér fátt um finnast. Benti þó á að ofnarnir okkar væru vitlaust tengdir og þess vegna sé svo ári kalt í íbúðinni. Þurfum að skoða þetta nánar.

þriðjudagur, október 11, 2005

Popppunktur

Hlotnaðist sá heiður í gær að koma fram í raunveruleikasjónvarpsþættinum Popppunkti. Þar var mér tjaldað til sem aðdáanda Ske, einmitt hljómsveitarinnar úr Kraganum sem hefur náð betri árangri í Popppunkti en plötusölu. Þeir öttu kappi við stórveldið Í svörtum fötum en þeir höfðu með sér aðdáanda sem er á aðdáendaaldrinum og hafði unnið þátttökuréttinn í víðtækri getraun á einhverri af 18 heimasíðum sveitarinnar. Þetta er náttúrlega alvöru fanbeis, hlutur sem Ske á ekki sem stendur og því treysta þeir á vinargreiða. Held að það séu núna einmitt 5 mánuðir síðan einhver fór inn á heimasíðuna þeirra, greyjanna.

Núna er hugur minn hins vegar mest hjá lítilli vinkonu minni sem er á leið til Boston.

mánudagur, október 10, 2005

Nýr vinur minn



Þetta er hann Steinar Gauti Örnuson Dagsson.

föstudagur, október 07, 2005

Íslenski batsjelorinn

Tugir stúlkna eru nú í sjónvarpinu að eltast við smið. Ég vissi að það erfitt að ná sér í iðnaðarmann en er þetta ekki einum of mikið?

Rosa partí

„Hér fór allt í háaloft. Menn gengu fagnandi um ganga, haldnir voru skyndifundir, símtól tekin upp..." segir Magnús Ólafsson framkvæmdastjóri hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni. Þar kunna menn greinilega að fagna....Taka upp símtólin bara.

Rosa partí

„Hér fór allt í háaloft. Menn gengu fagnandi um ganga, haldnir voru skyndifundir, símtól tekin upp..." segir Magnús Ólafsson framkvæmdastjóri hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni. Þar kunna menn greinilega að fagna....

It's the puppets that pull the strings

Strings er snilld. Og hvaðan er fyrirsögnin fengin?

fimmtudagur, október 06, 2005

Ríkislögreglustjóri verst frétta

Það má skilja þessa fyrirsögn á tvo vegu.

Listræn kvikmyndahátíð

Jæja, nú stendur semsagt yfir mikil kvikmyndahátíð og afhjúpast þá svokallaðir sjálfnefndir kvikmyndaáhugamenn sem Hollywoodhórur. Til dæmis ég, því ég þykist hafa áhuga á bíó en svo þegar þessi hátíð byrjaði þá nennti ég eiginlega ekkert að leggja hana niður fyrir mig, ergo Hollywoodhórkarl.

En svo rak ég augun í það í gær að síðasta sýning á pólsku myndinni Nikifor minn átti að vera klukkan 7 í gærkveldi og ákvað að skella mér nú á hana og fór í Tjarnarbíó 2 tímum fyrir sýningu til að tryggja mér miða. Þar var þá allt harðlæst og á plakati stóð að miðasala væri í Iðu. Ég lét mig hafa það að skröltast fyrir Tjarnarhornið inn í Lækjargötu og viti menn þar voru tveir starfsmenn að selja miða á hátíðina. Ég bað um 2 miða á Nikifor minn klukkan 7 takk.

En þá var ekki hægt að kaupa miða: „Við erum búin að senda frá okkur listann fyrir daginn í dag" var mér sagt. „En það er allt í lagi, þú getur mætt hálftíma fyrir sýningu og kannski eru til miðar“. Ég átti semsagt að fara heim og koma aftur niður í bæ og stilla mér upp við Tjarnarbíó og fá KANNSKI miða??

Ég vissi að myndirnar á þessari kvikmyndahátíð væru listrænar, en er ekki óþarfi að hafa miðasölukerfi sem lítur út eins og listrænn gjörningur?

Góðu fréttirnar eru þær að ég á frátekna 2 miða á Strings í kvöld. Vona ég.

þriðjudagur, október 04, 2005

Tyrkland og ESB

Nú reynir á Evrópusambandið. Það væri gríðarlegt afrek að ná Tyrkjum þar inn í sæmilegri sátt. Mér sýnist þó Evrópa varla vera tilbúin fyrir Tyrki, og öfugt. En ef ESB á að vera friðarbandalag, eins og upphaflega hugmyndin var, þá er mikilvægt að halda þeirri stefnu til streitu að fá Tyrki þarna inn, held ég.

Annars bara gaman, horfðum á Melinda & Melinda efitr W. Allen í gær og það voru ágætis sprettir í henni, síðan ágætt kvöldspjall í góðra vina hópi á 101.

mánudagur, október 03, 2005

Innlegg í hugmyndasamkeppni fyrir Vatnsmýrina

Meira svona. Fórum reyndar í Listasafnið og gerðum uppkast að því hvernig Vatnsmýrin mun líta út í framtíðinni. Ég vil láta gera risastóran hól sem væri um leið risastórt bílastæðahús og niður hólinn mundi renna foss/gosbrunnur. Utan í hólnum væru byggð skemmtileg hús og útivistarsvæði með sviði og áhorfendastæðum eins og grísku leikhúsi. Ég sé fyrir mér að helv. Hringbrautin væri grafin í jörð (ásamt þeim sem áttu hugmyndina að henni kannski?) og Sóleyjargatan væri tenging við Vatnsmýrina ásamt götu sem lægi frá Bústaðavegi. Svo væri góð sundlaug sem væri í tengslum við Nauthólsvíkina og endurreistan Heita lækinn. Byggð væri í 3-4 hæða húsum og öll bílastæði neðanjarðar - mikill hluti þeirra í áðurnefndum hól.
Og fullt af gosbrunnum og líka veglegt menningarhús við sjávarsíðuna sem mótvægi við tónlistarhúsið - en í Vatnsmýrinni væri það hugsanlega tengt lágmenningu...