mánudagur, október 30, 2006
Hinir síðustu munu verða fyrstir
http://www.icelandexpress.is/um_okkur/bloggid/
Kíkið á þetta. Iceland Express heldur úti dágóðu bloggi og skjóta nett á Brimborgara, sem héldu því fram að þeir væru fyrsta fyrirtækið til að nota bloggið. Iceland Express er reyndar ekki með eitt heldur tvö blogg, annað fyrir útlendinga.
Uppgjörið í prófkjörinu
Ég vil halda því fram að úrslitin í prófkjöri sjallans um helgina séu þessi að menn vilja ekki lengur menn sem eru óvinir andstæðinga sinna og vilja gera allt þveröfugt við þá. Sjáið Guðlaug Þór, hann hefur lengi gagnrýnt Alfreð fyrir hitt og þetta í Orkuveitunni, og þegar hann kemst að sjálfur þá gerir hann allt alveg eins. Fyrir hvað stendur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík núna? Guðfinna veit varla í hvaða flokki hún er, Illugi er hægri grænn og svo er Ásta Möller.
Örninn settist og enginn tók eftir því
Já, eitthvað er bogið við kynningardeild RÚV. Í gær rak ég augun í það að ný sería af Erninum danska væri að hefjast. Líklega eitt vinsælasta sjónvarpsefni síðasta árs. En var sagt frá því einhvers staðar? Nei. Ekki frekar en því að ný sería af Little Britain væri að hefjast. Örninn fór ágætlega af stað og miklar intrígur...
...ekki ósvipað og í Sjálfstæðisflokknum þar sem óprúttnir aðilar hindruðu dómsmálaráðherrann í að fá sitt útvalda 2. sæti. Ráðherra neitaði að tjá sig um úrslitin við fjölmiðla. Sár og reiður ráðherra. Er það ekki bara ástæðan til þess að honum var hafnað?
fimmtudagur, október 26, 2006
miðvikudagur, október 25, 2006
Allt í (bindis)hnút hjá West Ham
Á einhvern dularfullan hátt tókst Alan Pardew hjá West Ham að fá tvo eftirsótta Argentínumenn Tevez og Mascherano til liðsins fyrir 0 pund í haust. Síðan þá hefur liðið nánast tapað öllum leikjum, nú síðast gegn Chesterfield. (Hvernig maður tapar fótboltaleik gegn sófasettum er stúdía út af fyrir sig.)
Nú er talað um að Eggert Magnússon, formaður KSÍ, kaupi liðið. Aðdáendur Hammers verða líklega mjög ánægðir með....nema þeir hafi kynnt sér hvaða árangri Eggert hefur náð með íslenska landsliðið.
þriðjudagur, október 24, 2006
Níu hvalir keisarans
Af hverju eru hvalirnir 9?
Af hverju ekki 10, 20 eða 30? Til að hafa one digit number?
Svo tókst þeim hið ómögulega: Að veiða súran hval.
Og halda menn virkilega að það sé hægt að nota einhver skynsemisrök í öðru eins tilfinningamáli? Í gegnum árin hafa Íslendingar magnað upp sérstöðu sína á mýtum og tilfinningarökum. Álfatrú og óspillt náttúra allt eru þetta mýtur. Svo verðum við voða fúl þegar fólk trúir mýtunni um hvali frekar en að hlýða á skynsemisrökin að það sé nóg af þessari skepnu í sjónum og hún geti verið býsna góð á bragðið. Ráðuneytið virðist ekkert hafa hugsað út í þetta. Skammsýni þeirra nær aðeins að næsta prófkjöri.
Nýjustu fréttir herma að hvalveiðar séu farnar að skemma fyrir annarri smáskífu Nylon flokksins. Hvort er betra fyrir ásýnd Íslands: Nylon eða súr hvalur?.
mánudagur, október 23, 2006
Tvær bækur, tveir leikir, þrjú leikrit
Sá merkilegt leikrit um helgina. Nei, ég er ekki að tala um verkið 'Samstaða' sem sýnt var í Valhöll, né heldur verkið 'Virkjunin' sem sýnt var á Hellisheiði við húsfylli. Báðar þær sýningar hafa fengið nægt rými í fjölmiðlum.
Ég sá Pétur Gaut.
Pétur Gautur fjallar um samnefndann mann sem í ævilok lítur yfir farinn veg og leitar svara við því hvort lífi hans var vel eða illa varið. Hann var ekki hann sjálfur. Hann lét stjórnast af beyg sem fékk hann til að sigla framhjá hverri áskorun í stað þess að takast á við hana. Sýningin er stórkostleg að mínu mati. Vel leikin (Ólafía Hrönn 5 stjörnur) og veisla fyrir augað. Þessi sýning verðskuldar öll þau verðlaun sem hún hefur hlotið og fleiri til.
Að sýningunni lokinni var sagt að venju: „Við verðum að fara oftar í leikhús“.
Lauk við bókina 'Saturday' eftir Ian McEwan.
Bókin fjallar um einn dag í lífi taugaskurðlæknisins í Lundúnum. Kafað er í hugarheim hans (í heila heilaskurðlæknisins) og fylgst með honum takast á við óvænta atburði. Bókin gerist sama dag og mótmælin miklu voru í London gegn stríðinu í Írak. Hugtakið innrás er reyndar lykilhugtak í bókinni, og unnið með það á ýmsum stigum: innrás í land, innrás á heimili, innrás í einkalíf, innrás í líkama. Þegar skurðlæknir gerir innrás í líkamann er það til góðs, rétt eins og innrás í Írak átti að vera til góðs. Mein er fjarlægt, skurðurinn saumaður og allt í góðu lagi. Eða hvað? Það má gleyma sér í þessu, nú væri gaman að vera í skóla og skrifa ritgerð...
Vildi punkta niður líka að um daginn lauk ég við Cloud Atlas eftir David Mitchell. Það var gæðabiti, skáldsaga sem er í forminu eins og laukur þar sem lesandinn flettir hverjum kafla sögunnar ofan af þeim næsta og flakkar gegnum ólík, en samhangandi, skeið mannkynssögunnar, séð frá sjónarhóli mismunandi persóna, sem fylgjast með framþróun 'mannsandans'. Allt frá kristinboði í þrælanýlendum til frelsisbaráttu genabreytts þrælakyns í ekkert of fjarlægri framtíð. Meginþráðurinn er að sá kraftur sem drífur mannkynið áfram mun að lokum eyða því. Græðgi er góð, en þegar á öllu er á botninn hvolft þá er græðgi líka barbarismi. Og samfélag sem er reist á grunni græðginnar tortímir sjálfu sér. Barbararnir eru ekki 'at the gates' heldur 'behind the gates'. Spennandi bók, afburðavel skrifuð og stórskemmtileg. Er byrjaður á þriðju bókinni eftir Mitchell (hans fyrsta bók reyndar) en hún heitir Ghostwritten og fer mjög vel af stað. Áður var ég búinn að lesa Black Swan Green sem líka er stórkostleg. (Skemmtilegt að ein persónan úr Cloud Atlas gengur aftur í Black Swan Green).
Til að kæla þetta aðeins niður í lokin þá vil ég nefna það að í gær voru tveir fótboltaleikir og ég sá þá báða. Það má eiginlega segja að þeir kanselleri hvorn annan út, því ég var nokkuð kátur með þann fyrri en hundfúll með þann síðari. Reyndar komst ég að því að í mínum huga er Liverpool ekki lengur erkifjandi Man Utd. Ég hef miklu meira gaman af því þegar United vinnur Arsenal eða Chelsea, þá fúlu hrokagikki.
Góðar stundir
fimmtudagur, október 19, 2006
Þorsteinn snýr á haus
Vefþjóðviljinn: „Þegar sjávarútvegsráðherra tók ákvörðun um að heimila hvalveiðar lá fyrir að sú ákvörðun væri bæði rétt, eðlileg og sjálfsögð. Hvalir eru meðal þeirra auðlinda sem mönnum er rétt að nýta og það var löngu kominn tími til að hætta að láta ómálefnaleg sjónarmið eða öfga- og æsingamenn ráða því hvaða auðlindir eru nýttar hér á landi“.
Hér er sniðugur, en fáránlegur snúningur á ferðinni, enda hafa hvalir verið mjög ábatasöm auðlind fyrir Ísland frá því hvalveiðum var hætt á sínum tíma. Ákvörðunin nú er því bæði illa ígrunduð, óeðlileg og tekin út frá þröngum sérhagsmunum og alls ekki sjálfsögð. Og hvorn hópinn má kalla æsingamenn, þá sem drepa hvali eða þá sýna hvali?
Ballið byrjað
Spútnikk-fréttabloggarinn Steingrímur Sævarr Ólafsson leggur víða við hlustir og er fyrstur með fréttirnar að þessu sinni sem oftar! Allt að gerast!
miðvikudagur, október 18, 2006
Spennið beltin, Little Britain er að hefjast
Í kvöld byrjar þriðja syrpan af Andy og félögum í Little Britain. "Tha one!".
Týpiskt RÚV að lauma þessu inn þegjandi og hljóðalaust svo menn missi örugglega af þessu. But now your cover's blown!
Allir að horfa. Allir að hlæja.
Frambjóðandi haslar sér bloggvöll
gummisteingrims.blog.is
Fyrsti pistillinn er um hvalveiðar og Epla-Jóga.
þriðjudagur, október 17, 2006
Hvalveiðar
Það má ýmislegt segja um hvalveiðar. Mér finnst aflétting bannsins koma all snögglega. Hefði ekki mátt gefa hvalnum smá fyrirvara svo hann geti til dæmis synt burt af svæðinu hérna rétt fyrir utan Reykjavík þar sem er búið að venja hann á hvalaskoðun?
Má veiða hval hvar sem er? Getur hvalur til dæmis átt von á því að vera skoðaður og skotinn sama dag?
Moby Dick um sæinn svamm
með silalegri hægð
sunnudagur, október 15, 2006
Gerðarsafn hápunktur helgarinnar
Geta listamenn breytt heiminum? Já, segir Ann Beam, ekkja listamannsins Carls Beam. Hún tók reyndar svo djúpt í árinni að segja að Carl Beam hefði gert það sama fyrir frumbyggja Norður-Ameríku og Michaelangelo gerði fyrir Ítala. Hann gaf þeim sjálfsmynd, spegil þar sem þeir gátu séð sig í samhengi þjóðanna og samhengi menningarinnar.
Carl Beam fæddist árið 1943 en lést í fyrra. Hann var Ojibwe indjáni og bjó á verndarsvæðum þjóðar sinnar. Hlaut hefðbundna vestræna listmenntun en sótti sér efnivið í menningu þjóðar sinnar. Eftir hann liggja mögnuð verk þar sem hann tengir menningararf indjána við ímyndir vestrænnar menningu á húmorískan hátt. Dæmi um þetta er verkið hér fyrir neðan.
Myndin sýnir þá Sitjandi tarf og Albert Einstein, en Tarfur var veginn þegar Albert var um 10 ára gamall.
Önnur spurning: Hvaða erindi á list inúíta Kanada við okkur í dag? Þessi hugsun leitaði á mig í Gerðarsafni um helgina. Fyrir utan ægifagra skúlptúra og margslungið handverk þá felst svarið líklega í þeirri heimsmynd sem birtist í þessum verkum. Þau sýna okkur inn í heim þar sem maðurinn er ekki herra náttúrunnar. Í þessum listaverkum sem unnin eru af afkomendum flökkuþjóða sem þurftu að laga sig að mismunandi landsvæðum sést að hið mannlega rennur saman við seiðmagnaða náttúru og verður ekki frá henni skilið. Verkin sýna djúpa virðingu fyrir náttúrunni og gjöfum hennar sem eru ágætis skilaboð til Íslendinga í dag. Nútímalist inúítanna er að mörgu leyti enn ókunn á 'Vesturlöndum', en vegur þeirra fer vaxandi og má hrósa Gerðarsafni fyrir að sýna þetta frumkvæði að fá þessa dýrgripi hingað. Sem dæmi um verðmæti þessara verka er að eitt minnsta verkið á sýningunni, ca 4 sm há, útskorin mynd af ýlfrandi skógarbirni, er metin á sirka tvöþúsund kanadadollara, um 120.000 íslenskar krónur.
Ég var semsagt í Gerðarsafni um helgina. Hvet alla til að sjá það sem þar ber fyrir augu.
Annars var helgin róleg og góð. Ákveðin verkefni þokast í rétta átt, landslýð til heilla og skemmtunar um jólin.
miðvikudagur, október 11, 2006
Keflvíkingur í París
Keflvíkingur í París, Keflvíkingur í París er vinsamlegast beðinn um að gefa sig fram við upplýsingar.
Lagnafréttir
Vanmetnasti pistlahöfundur landsins skrifar dálk undir heitinu Lagnafréttir í Fasteignablað Moggans og hleyp ég út á náttfötunum á hverjum mánudagsmorgni til að góma blaðið. Út frá hinu sértæka sjónarhorni pípulagningameistarans nálgast Sigurður Grétar mörg helstu álitaefni samtímans og bendir á leiðir til úrbóta, til dæmis í síðasta pistli þegar hann bendir á fjöldamörg rök sem hníga að því að karlmenn eigi frekar að pissa sitjandi en standandi. Ég segi nú fyrir mig að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja, en samt: Sigurður bendir á rannsókn sem sýnir að ákveðið hlutfall af pissinu leysist upp á leiðinni ofan í skálina og sest á það sem fyrir verður. Þeir sem pissa standandi ofan í venjulegt klósett (Sigurður leggur til þvagskálar) eru því í raun að pissa í (eða á) buxurnar. Nú er að sjá hvort gamli hundurinn tylli sér eða bara lokar augunum og hleypir af.
þriðjudagur, október 10, 2006
Jón Baldvin hleraður
Það eru stórfréttir. En ætli Björn vilji ekki láta sagnfræðinga um þær eins og annað sem tengist þessari blessuðu leyniþjónustu sem enginn vissi af nema Valhöll. Ætli Steingrímur Hermannsson hafi þá ekki verið hleraður líka? Til dæmis í kringum þegar hann var að hitta Arafat og alla þá i andstöðu við Þorstein Pálsson og Valhöll? Hvað þá með Ólaf Ragnar Grímsson þegar hann var fjármálaráðherra? Ætla menn virkilega að hunsa allt velsæmi og fela sig á bak við það að láta sagnfræðinga framtíðarinnar leiða sannleikann í ljós?
Talandi um sagnfræðinga, þá er Antony Beevor í heimsókn á Íslandi. Ég hef lesið 2 bækur eftir hann, um fall Berlínar og orrustuna um Stalíngrad. Þetta er alveg magnaður sögumaður og ég hlakka til að lesa bókina hans um spænsku borgarastyrjöldina. Verst að ég hafði ekki tök á að sjá manninn með eigin augum á fyrirlestri í Háskólanum í dag. En ætli hann verði ekki í Kastljósinu í kvöld? Nema þeir séu með fleiri brennandi fréttir af týndum köttum?
sunnudagur, október 08, 2006
föstudagur, október 06, 2006
Guðmundur fram í Kraganum
Jæja, þá hefur verið sagt frá því opinberlega að Guðmundur Steingrímsson bjóði sig fram í 4. sætið hjá Samfylkingunni í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ og -sveit. Nú er tækifæri fyrir flokkinn að gefa listanum góða vítamínsprautu og sýna vilja í verki til endurnýjast og eflast í samstöðunni um fjölbreyttari atvinnutækifæri, umhverfisvernd og aukinnar áherslu á menntamál, sem Garðbæingurinn Gummi leggur áherslu á.
Framsóknarmenn velta örugglega fyrir sér hvernig standi á því hvers vegna Guðmundi rennur ekki framsóknarblóðið til skyldunnar, en það eru kannski ekki miklar fréttir fyrir okkur sem þekkjum hann og vitum hvaða mál brenna á honum, en þar skilur í milli, enda Framsókn fjarlægst alla skynsemi í þeim málaflokkum sem hér að ofan voru nefndir í skiptum fyrir pólitíska skammtímahagsmuni kjördæmanna.
Kannski mun nafnlaus framsóknarmaður kommenta hér um þetta, það væri gaman!
fimmtudagur, október 05, 2006
Vodagaman
Nú er ég orðinn viðskiptavinur hjá Vodafone á Íslandi, var áður hjá Og Vodafone. Þar áður hjá Tali. Ég hef hins vegar aldrei verið í viðskiptum hjá Símanum ótilneyddur. Greiddi þeim þó þúsundir króna um árabil fyrir að nota ekki koparvírinn sem lagður var inn á heimili mitt snemma á liðinni öld. Jæja.
Afleysingavíkverji?
„Sláturtíð er hafin og Víkverji ætlar að fylla frystirinn af blóðmör og lifrarpylsu...“ segir í Morgunblaðinu í dag. Morgunblaðið er oftast til fyrirmyndar í málfari og starfa þar margir málsins menn, kannski ósanngjarnt að henda svona á lofti, en þetta er einfaldlega svo ljótt málfar. Skamm.
Hvað ætli líði langur tími þangað til nafnlausi maðurinn setur inn skammir fyrir uppnefningar?
miðvikudagur, október 04, 2006
Bangsímon?
Nú er talað um að tilvonandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sé mjúkur maður að nafni Ban Ki-moon.
þriðjudagur, október 03, 2006
Lognið á undan storminum
Þreyta í kalli eftir mikla vinnu um helgina. Skemmtileg verkefni fram undan sem vonandi verður hægt að greina frá á næstu dögum. Ekkert að segja. Jú annars. Kjartan Gunnarsson hættur hjá íhaldinu og ungliði settur í staðinn. Jahérna. Svo var reyndar skemmtilegt að herinn fór á afmælisdaginn hans Pabba en þegar ég var lítill lét hann mig læra þulu utan að og fara með hana upphátt fyrir allla þá sem urðu á vegi barnsins: Ísland úr Nató. Herinn burt.