föstudagur, apríl 29, 2005

Atonement

Gleymdi að minnast á það um daginn að ég lauk við lestur á bókinni Atonement (Yfirbót?) eftir McEwan. Allsber snilld sem sú bók er. Kannski ekki fyrir spennufíkla, og þó? Hún er býsna spennandi á köflum, ekki bara þegar breskir hermenn eru að reyna að flýja Frakkland í síðari heimstyrjöldinni heldur einnig innansálarátök persónanna, sem eru laðaðar fram á síður bókarinnar af næmum meistarahöndum. Frábær bók, fimm og hálf stjarna.

Tóm helgi fram undan

Oft er talað um tóma hamingju. Það er athyglisvert að hugsa sér hamingjuna sem tóman hlut. Ef einhverju er bætt tunnuna minnkar það svigrúm sem maður hefur - til að vera hamingjusamur. Best er því að geta lifað alveg galtómu lífi þar sem ekkert kemur á milli manns og manns sjálfs. Það er tóm hamingja. Ekkert sem abbast upp á það. Ætli þetta sé ekki svipað og þegar menn tala um að vera þeir sjálfir. Þá eru þeir strippaðir inn að beini, allar grímur og búningar eru á braut og hver getur verið um sig og ekkert annað. Tóm hamingja. Þess vegna tæma menn hugann og eru tómir í hausnum. Þess vegna eru vitleysingarnir alltaf glaðir og glottandi meðan íhugula fólkið springur úr harmi. Tóm hamingja.

En nú er tóm helgi fram undan. Ekkert planað. Tveir dagar fullir af tækifærum. En miðað við það sem á undan er ritað, væri líklega best að gera ekki neitt. Ástunda tóma helgarhamingju. Gera ekki rassgat. Er einhver góður leikur í sjónvarpinu? Varla, öll úrslit eru ráðin. Góðar myndir í bíó? Já, en of margar. Þarf að taka til hendinni heima? Næsta spurning....

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Varnarleikur og vitleysa

Í gær var varnarleikur í beinni á SÝN. Kannski varla við öðru að búast, öll skemmtilegu liðin dottin út úr Meistaradeildinni og fúleggin eftir. Það hefði verið skemmtilegra að horfa á Barca, Man Utd, Real og Lyon berjast um 5. sætið heldur en að horfa á tímann líða meðan beðið er eftir súrum varnarúrslitaleik Milan - Chelsea, og ekki væri Milan - Liverpool betri kostur. Nóg um það.

Ég var að fá tilboð í bílatryggingar og kostnaðurinn við að færa sjálfsábyrgð úr 20.000 kr. niður í 0 kr. er kr. 7.000. Á maður að gera það? Þetta er tilvistarleg spurning. Á maður að borga 7.000 kr. til að sleppa við kostnaðinn af því þegar einhver karl með hatt keyrir utan í bílinn fyrir utan IKEA eða ekki? 7.000 kr. fyrir algjör ábyrðgarleysi. Tja. Maður spyr sig. Hvers virði er ábyrgðarleysi.

Sting upp á því að Sjónvarpið fái Hrafn Gunnlaugsson til að gera þáttaröð um deilurnar í Menntaskólanum á Ísafirði. Myrkrahöfðinginn 2. Þetta er sama konseptið: Menntamaður að sunnan með einstrengingslegar skoðanir reynir að breyta til í vestfirsku plássi. Handritið hefur verið að skrifa sig sjálft á síðum Morgunblaðsins undanfarnar vikur. Hvað gerist næst? Verður enskukennarinn brenndur á báli fyrir utan Menntaskólann? Hvað gerir Mugison? Fer Ólína suður á fund Þorgerðar Katrínar (leikin af Kjartani Gunnarssyni) og fær lausn sinna mála? Hrafn í málið.

Nú styttist í sumardagskrá RÚV með tilheyrandi endursýningum og útþynningu. Ég sting upp á því að það verði endursýndir hinir stórbrotnu þættir sem voru á dagskrá á gullöld RÚV (hvenær var hún annars?) og hétu Sjónvarp næstu viku. Þá verður dagskráin betri en hún var hjá þeim síðasta sumar.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Chelsea Liverpool

Vona að Manchester United vinni. Reyndar ótrúlegt hvað Liverpool hafa verið góðir í Meistaradeildinni m.v. hvað þeir hafa verið slakir í deildinni. Líklegast er að Chelsea taki þetta, það segir tölfræðin. Þó gæti Liverpool alveg strítt þeim, mér fannst þeir fara illa með Juve, og því þá ekki Chelsea? Alveg er ég viss um að blóðið sýður í Steven Gerrard að bæta fyrir sjálfsmarkið í úrslitaleik deildarbikarins. Þá sögðu gárungarnir reyndar að hann væri búinn að skora sitt fyrsta mark fyrir Chelsea.

Hitti Robert Plant á dögunum. Tónleikarnir hans voru miklu skemmtilegri en ég átti von á. Ske voru líka góðir og sjálfur var ég ekki sem verstur. Ef ég heyrði rétt þá er Robert Plant næsti maður fyrir ofan Jón Ásgeir í Baugi á lista yfir ríkustu menn Bretlandseyja. Ætli maður mundi nenna á tónleika með Jóni Ásgeiri? Og þó.....Robert Plant fyllir Höllina, en Jón Ásgeir Royal Albert Hall. Gerum ekki lítið úr því.

Orri frændi minn tekur stakkaskiptum í Danmörku. Litli dökkhærði guðsonur minn frá því í janúar hefur samkvæmt myndum breyst í ljóshærðan ungling. Hratt gerist það. Svo er nýr ættingi á leiðinni í júní. Það er allt að fyllast af börnum. Í september október er svo von á barnasprengju í vinahópnum án þess að farið verði nánar út í það á þessum vettvangi.

föstudagur, apríl 22, 2005

Kvikmyndir

Ætlaði á kvikmyndahátíð í gærkvöldi, en þá brá svo við að engin áhugaverð mynd var kl 20. Því var brugðið á það ráð að halda litla kvikmyndahátíð heima í staðinn. Náði mér í Borg Guðs, Cidade de Deus, sem var, og er, snilld. Frábær myndvinnsla og úrvalsgóð tónlist, óhugnanlegt þema um vonleysi valdbeitingar-örbigðarinnar, ef svo stórt orð mætti nota. Íslensk textinn var þó asnalega þýddur úr ensku, þannig að að flestar persónurnar, flestar leiknar af óreyndum íbúum fátækrahverfa, hétu enskum nöfnum, Carrot, Knockout-Ned og svo framvegis. Góð mynd.

Í kvöld lýkur kvikmyndahátíðinni að mér skilst, en vonandi lifa einhverjar myndir hátíðina af í sölum bíóhúsanna. Ef einhver er að lesa þetta sem ræður einhverju um það þá á ég eftir að sjá Untergang. Hafið hana aðeins áfram. Lofa að kaupa fullt af popi þegar ég kemst.

Göng til Eyja

Ja því ekki það. Þessi hugmynd var mikið rædd á síðasta kvöldi vetrar. Lengstu neðansjávar-bílagöng í heimi liggja nú undir Tókíóflóa, og veit ég ekki betur en það hafi blessast ágætlega. Ekki þarf nema tæpa meðalgreind til að sjá að Íslendingar eru ekki minni menn en Japanir. Og eftir að Flugfélag Íslands gafst upp á fljúga reglulega til Heimaeyjar: Hvar er mesta þörfin fyrir lengstu neðansjávargöng í heimi? Jú í gosbeltinu milli lands og Eyja. Reyndar kom upp sá umræðupunktur að það væri ástæðulaust á láta staðar numið í Eyjum. Best væri bara að gera göng til Skotlands. Eða jafnvel bara frá Eyjum til Skotlands og búa þá til eitt atvinnusvæði sem næði frá Glasgow í suðri til Heimaeyjar í norðri.

Sumri var fagnað með könnunarleiðangri. Bústaðurinn á Laugarvatni reyndist í ágætu lagi, nema pallurinn sem er að hruni kominn. Denni Kragh tónleikahaldari er byrjaður að vinna í afgreiðslunni í Gamla gufubaðinu og er nýi Porsche-inn hans á bílastæðinu fyrir utan. Rómantísku hamborgararnir á Café Kiddi Rót í Hveragerði standa undir nafni.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Ekki gys, heldur alvara

http://www.americawestandasone.com/mov/America%20We%20Stand%20As%20One.mov

Legg til að Herbert Guðmundsson verði fenginn til að gera íslenska útgáfu af þessari pælingu, etv. væri gott að fá aðstoð frá Árna Johnsen?

mánudagur, apríl 18, 2005

Um hlýra, hinn lítt seðjandi fisk

Fiskur er góður matur, en ekki herramannsmatur. Af hverju ekki, kynnu sumir að spyrja? Ástæðan er sú að eftir venjubunda fiskmáltíð á veitingastað í hádeginu, hlýri í þetta skiptið, þá tekur það meðalkarlmann aðeins um 2,5 klst að verða aftur glorhungraður. Nú er klukkan hálf fimm og síðustu klukkustundir hefur belgurinn á mér gargað og gólað eftir mat. Þetta er náttúrlega frekja, en maginn á mér launar bara ekki ofeldið. Þyrfti að fara að taka á þessu aga-vandamáli. Aga maga.

Lukkulegur um helgina. Nálægt því að vinna pubkvissið, skemmtilegt sörpræspartí á laugardagskvöldinu. Kom töluverðu í verk, vinnulega séð. Auðmagnið er ánægt.

Ekkert gott veður fram undan og líkur á að sumardaginn frysta beri upp á fimmtudag að þessu sinni. Kannski maður geri eitthvað? Hunskist eitthvað? Fer eftir því hvernig samgönguáætlunin gengur eftur í vikunni.

föstudagur, apríl 15, 2005

Aukin framlög til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu

Stjórn Röflsins hefur ákveðið að auka framlög til samgöngumála, ekki síst til að tengja starfsmenn Röflsins betur við hinar dreifðu byggðir landsins. Bíllausu mánuðirnir 2 munu sem sagt brátt taka enda. Hafa samningar tekist um fjármögnun verkefnisins en er upphæðin trúnaðarmál, enn sem komið er. Þó skal þess getið að stjórn Röflsins lét bóka að bílar séu allt of dýrir í rekstri og eiginlega óskiljanlegt hver borgar fyrir öll þessi ferlíki sem þekja götur bæjarins og þyrla upp ryki. Bifreiðin sem um ræðir er af gerðinni Volkswagen Passat og er um 18 fermetrar að stærð - og hefur áður verið í umsjá ritstjórnar!

Uppþvottavél var sótt í gær og komið í geymslu. Við erum byrjuð að flytja inn á Reynimelinn í huganum og er næsta skref er að endurhanna innréttingarnar í eldhúsinu með tilliti til Siemens uppþvottavélar (og vonandi gas-eldunaraðstöðu!!!).

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Listin að vaska ekki upp

Ég hef um árabil verið meistari í listforminu sem felst í því að vaska ekki upp, heldur skola bara allt aðeins og raða því eins smekklega og unnt er kringum vaskinn. Haganleg uppstöflun er náðargjöf sem hlotnast ekki öllum. Þessi ástundun getur t.d. lýst sér í því að eftir stóra máltíð þá sést enginn munur á staflanum, sem var jú til staðar frá því daginn áður og þar áður og jafnvel þar þar þaráður.
Af hverju er ég að skrifa þetta niður? Jú, bara til að minna mig á þetta, nú þegar uppþvottavél er að bætast í eignasafnið.

Annars er tíðindalítið á vígstöðvunum. Það stefnir í vinnuhelgi, nema hvað miðar á kvikmynd Almadóvars "Stytting framhaldsskólanáms niður í þrjú ár" (La Mala Education) eru komnir í hús.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Radiance of the Sun

Vinir mínir eru að fara til Bandaríkjanna á morgun til móts við skemmtiferðaskip sem mun sigla um karabíska hafið, til Arúba, Mexíkó, gegnum Panamaskurðinn og eitthvað. Vonandi verður ekki síður gaman hjá þeim en okkur sem heima sitjum og fáum að fylgjast með sölu Símans, lóðaúthlutun í Lambaseli, formannskjöri Samfylkingarinnar og aðalmeðferð í Landsímamálinu svo eitthvað sé nefnt.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

12. april 1987 - 2005

Þennan dag árið 1987 lét ég blása háríð á mér síðast. Setti síðan plastpoka yfir það meðan ég hljóp inn í kirkjuna til að láta fermast. Þá var pálmasunnudagur. Nú er bara venjulegur þriðjudagur og hárið liggur ljósmúsabrúnt yfir síhækkandi kollvikum starfsmanns á skrifstofu.

Ég fékk fína Amstrad einkatölvu í fermingargjöf, með tveimur disklingadrifum og Brother rafmagnsritvél sem ég hefði getað notað sem prentara ef ég hefði einhvern tímann apaheilast til að kaupa einhvern kapal milli þessara tveggja undratækja. Svo fékk ég eitthvað af peningum og pennasettum en líklega var mest notaða fermingargjöfin veglegur svefnpoki ásamt orðabókum (t.d. 5 stk af Ensk-íslenskri skólaorðabók).

Hef ekki ennþá komist á kvikmyndahátíðina, fyrir utan opnunarmyndina. Sá reyndar ágæta mynd á VHS í gær, Mar Aldentro, sem fékk Óskarinn f. bestu erlendu myndina síðast. Skil ekki alveg þetta með bestu erlendu myndina. Mér sýnist þetta meira og minna allt vera erlendar myndir sem fá óskara...

Eftir mikla rannsóknarvinnu get ég deilt því með ykkur að besta umfjöllunin um afmæli Megasar er að finna á Baggalúti. Þar er einnig hægt að lesa mjög hjartnæma grein um konu sem átti í tilfinningaflækju og gat ekki orðin hrifin í strák fyrr en á sextugsaldri - því hún var bitin af lesbíu sem barn.

mánudagur, apríl 11, 2005

Dylan debuterar

Það var á þessum degi fyrir 44 árum síðan sem Bob Dylan steig fyrst á svið í New York City. Þá var Megas nýbúinn að halda upp á 16 ára afmælisdaginn sinn.

Kvikmyndahátíð í fullum gangi og er ég ekki búinn að sá eina einustu mynd. Þó er stefnt að því að sjá Hitlersmyndina Untergang, myndina um kólumbísku fátækraunglingana, Napoleon Dynamite, María full náðar, veit ekki með Moodyson og miklu fleiri myndir. Mig vantar að kvikmyndahátíðin búi til excel skjal þar sem maður slær inn nöfn þeirra mynda sem maður vill sjá og síðan er búin til dagskrá fyrir mann. Þvílíkt bull.

Ég geri hér með þá kröfu að RÚV endursýni þáttinn kvöldstund með listamanni, þar sem Megas tók viðtal við Bubba. Glefsurnar sem Gísli sýndi um helgina voru magnaðar. "Blúsað heimili, vondur skóli..."

sunnudagur, apríl 10, 2005

Enn af Megasi

Af hverju er þetta ekki í Skólaljóðum?


Eirab skipstjóri skutli sínum
skaut útá svartan sjá
stingurinn loptið með hvini klauf
svo komið varð auga vart á

Móbí Dikk um sæinn svam
með silalegri hægð
en í því að þiggja Eirabs gjöf
var engin dýrinu þægð

Skutullinn hæfði hafsins borð
á hol gekk hann Rán og Unni
en vikið hafði sér hyldýpisins burr
undan hárbeittri sendingunni.

föstudagur, apríl 08, 2005

Los diarios de Motocycletas

Eða eitthvað álíka hét myndin sem ég fór á í gær. Ákaflega myndrænt og skemmtilegt verk um Rómönsku-Ameríku og ferð tveggja félaga um álfuna. Annar þeirra er ljúfur læknanemi sem sárnar óréttlætið í álfunni en vekur þó gleði og fögnuð hvar sem hann drýpur niður fæti. Sérkennileg tilviljun er að sá er alnafni miskunnarlausa byltingarforingjans Ernesto Che Guevara. Góð byrjun á kvikmyndahátíð og vonandi get ég gefið mér tíma til að sjá sem flestar myndir.

Skrifuðum undir kaupsamning í morgun. Sérkennilegt tilfinning að nota debetkortið til að kaupa sér íbúð. Hefði maður kannski frekar átt að setja þetta á Visa rað?

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Kæra afmæli, til hamingju með Megas

Á sunnudögum þegar kristur tárum tefur
tillögu frá guði um þungaskatt
á gúmmívöru þá hefur María í myrkrinu
mök við grímuklætt útfrymi með pípuhatt
en guð býr í gasbindinu amma
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

Á föstudögum þegar kristur kinkar
kolli og tautar: Það er fullkomnað
og þú ert það fífl að fatta ekki djókinn
fyllir geyminn og ekur af stað
en guð býr í gaddavírnum amma
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Mjök erum tregt fingur at blogga

Lítið að segja svo sem. Tók leigubíl í vinnuna vegna veðurs og slæms hnés. Fékk far heim eftir tíðindalítinn dag en fékk góða gesti til að horfa á fótbolta, drekka smá bjór og borða pizzu. Leiðinlegt hvað liðin sem eftir eru í Meistaradeildinni eru leiðinleg. Liverpool átti þó skáan dag, allavega skárri en á móti Bolton um helgina. Jafntefli hjá Lyon sem ég spáði fyrir nokkru að mundi vinna keppnina. Æ, hverjum er ekki sama. Páfinn er dauður og mér er illt í hnénu.

mánudagur, apríl 04, 2005

Hvað á páfinn að heita?

Já, nú velta menn fyrir sér næsta páfa, öllum virðist sama um hvaða kall verður fyrir valinu, en nafnið veldur umræðum. Besta tillagan sem ég hef heyrt þessi: Síðasti páfi hét Jóhannes Páll annar, þess vegna ætti næsta páfi að heita Georg Hringur fyrsti, gæti alveg starfað undir kjörorðinu: Allt sem þú þarft er ást....Kannski er þetta fyndnara á ensku...

Áttum ágætis helgi. Drukkum aðeins upp úr bjórkassanum sem við unnum á spurningakeppni drykkjurútanna á Grand Rokk. Kjartansgatan var svo líka þrifin í hólf og gólf. Hólf og gólf? Í morgun vaknaði ég í tandurhreinu svefnhólfi og fékk mér skyr í eldhúshólfinu....Skilur þetta einhver? Bendi á prýðisgrein hjá Agli Helgasyni á Vísi um muninn á anti-semítisma og gyðingahatri.

Óðinn Jónsson orðinn fréttastjóri, eins og ég mælti með um daginn. Mér fannst eins og annað hvort Óðinn eða Friðrik Páll hefðu átt að fá starfið. Er þá ekki allir sáttir og málið dautt? Er búið að taka til baka öll þessi vantraust sem dembt var yfir Markús Örn? Ja, maður spyr sig. Hvað gerist næst?

laugardagur, apríl 02, 2005

Franz Ferdinand i hendi

Miðar komnir upp í skáp. Byrjaður að hlakka til. Take me out 27. maí. Kveðja Michael.

föstudagur, apríl 01, 2005

Að skjóta sig í fótinn

Ekki byrjaði hann gæfulega, nýi fréttastjórinn á Fréttastofu Útvarpsins. Það þarf stórt egó vafið mikilli vanþekkingu sem hnýtt er við handónýtt stöðumat, til að reyna þá tilburði sem Auðun Georg Ólafsson var með í viðtalinu við Ingimar Karl Helgason í dag. Ingimar er ekki mesti reynsluhundurinn á Fréttastofunni, en greinilega samt hörkutól. Í stuttu máli þá ákvað AUGÓ að byrja á því að ljúga að undirmanni sínum og reyna að snúa á hann með blöndu af no-comment og minnisskorti. Hvorugt er einkenni á góðum fréttahauki og er þá ætlunin að þetta einkenni Fréttastofu Útvarpsins í framtíðinni? Að segja ekki neitt og að muna ekki neitt? Er þetta stefnan sem Framsókn vill að ráði ríkjum, ég segi allavega nei takk, pent, fyrir mig.

Þvílíkur farsi. Þarna fannst mér AUGÓ vera í dauðafæri til að koma fram sem mjög sympatískur náungi og vinna menn (áheyrendur amk.) á sitt band, en í stað þess að skjóta á markið þá skaut hann sig í fótinn og kemur út, með fullri virðingu, eins og algjör hálfviti. Hvet ykkur til að hlusta á þetta viðtal á www.ruv.is og mynda ykkur ykkar eigin skoðun á þessum fýr.