miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Frábær krummafundur

Stórgóður krummafundur var haldinn í gær. Við byrjuðum á því að hitta Braga Ólafssson og fengum að gægjast inn í hugarfylgsni hans. Ég keypti af honum bókina Sendiherrann og hlakka mikið til að lesa hana. Svo beitti einn félagsmaður áhrifum sínum og við fórum á Litla ljóta andarungann og hittum Halldór Baldursson skopmyndateiknara. Bókin 2006 í grófum dráttum seldist afar vel þetta kvöld og fer nú hver að verða síðastur að næla sér í eintak. Aukaupplag á leiðinni í Bókabúð Máls og menningar að því ógleymdu að Eymundsson Austurstræti var að biðja um 80 eintök í viðbót. Salan er semsagt hafin. Líka á netinu.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Fleiri betri bókabúðir

Hvað eiga eftirtaldar bókabúðir sameiginlegt?

Eymundsson Austurstræti
Bókabúð Máls og menningar
Hagkaup Eiðistorgi
Hagkaup Smáralind
Hagkaup Kringlunni
Griffill Skeifunni
Eymundsson Kringlunni
Penninn Kringlunni
Penninn Hallarmúla
Eymundsson Hafnarfirði
Penninn - Bókhlaðan Ísafirði
Penninn Bókval Akureyri
Eymundsson Mjódd
Bóksala stúdenta
og
Eymundsson.is

Vísbending: Svarið tengist þessari síðu

mánudagur, nóvember 27, 2006

Ríkisstjórnin eykur misskiptingu

Það þarf engan prófessor Stefán Ólafsson til að útskýra fyrir mér nýjustu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að auka misskiptingu í þjóðfélaginu. Með breytingum á áfengisgjaldi er því nefnilega þannig komið fyrir að ódýrt áfengi (sé það til) hækkar en dýra áfengið lækkar.

Það þýðir að Chateau Petrus og fleiri stórvín sem forstjórar einir kaupa, þau lækka, en venjulegt Sunrise sem við hin verðum að gera okkur að góðu, það hækkar. Sanngjarnt? Þetta er í takti við aðrar þær velgjörðir sem færðar hafa verið þeim tekjuhæstu á undanförnum árum og er mál að linni.

Mér finnst uppgjör formanns Framsóknarflokksins við Íraksstríðið byrja ágætlega, en því er hreint ekki lokið. Hann á að biðja alþingi afsökunar og sýna iðrun í verki. Ef þetta voru rangar upplýsingar þá þarf að spyrja hvernig það gat gerst og gefa þeim orð í eyra sem laug.

Hitt er líka fyndið að uppgjörið við Írak hefst eftir að flokkurinn er búinn að gera upp við Kristinn H. sem var eini þingmaðurinn sem benti á það allan tímann að ákvörðunin um að styðja Íraksstríðið var 'röng eða mistök'.

Góðar stundir.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Bruðl Orkuveitunnar

Um daginn var hringt í mig frá Gallup Capacanetencenc eða hvað sem það ágæta fyrirtæki heitir. Efni símtalsins var könnun um málefni Okruveitu Reykjavíkur.

Venjulega er látið duga að spyrja svona tíu til fimmtán spurninga, enda gefur það ágæta mynd af áliti fólks og kostnaðurinn viðráðanlegur, enda kostar hver spurning drjúgan skilding. Skemmst er frá því að segja að Okruveitan spurði eins og vindurinn. Meðal spurninganna var: "Á skalanum einn til tíu: Hversu nálægt því er Orkuveitan, að vera hin fullkomna orkuveita" og "Við hversu marga hefur þú talað um málefni Orkuveitu Reykjavíkur síðustu 12 mánuði." Þetta er án efa dýrasta og ómarkvissasta skoðanakönnun sem nokkurn tímann hefur verið gerð á Íslandi. Ég var sleginn út af laginu og hætti að telja spurningarnar þegar ég var kominn upp í 35.

Bruðl, bruðl, bruðl.

Verða Englendingar þá næstu heimsmeistarar?

Frétt af mbl.is:

Norðmenn urðu hlutskarpastir í heimsbikarkeppninni í matreiðslu, sem lauk í Lúxemborg í dag. Svíar urðu í öðru sæti og keppendur frá Singapúr í því þriðja. Íslensku keppendurnir á mótinu fengu bronspening fyrir kalt borð og silfurpening fyrir heitan mat.

Norðmenn???

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Betri bókabúðir

Hvað eiga
Eymundsson Austurstræti
Hagkaup EIðistorgi
Hagkaup Kringlunni
Hagkaup Skeifunni
Griffill Skeifunni
Eymundsson Kringlunni
Penninn Kringlunni
og (eftir smá stund) Bókaverslun Máls og menningar

sameiginlegt?

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Á leið í verslanir: 2006 í grófum dráttum

Lestu meira um bókina.

Tæknileg mistök?

Frétt á mbl.is:

Hvalbeini stolið í Eyjum
Tveir þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglunnar í Vestmannaeyjum í síðustu viku. Í öðru tilvikinu var um að ræða þjófnað á garðskrauti við Faxastíg 33 en þaðan var m.a. stolið hvalabeini og akkeri. Ekki er vitað hver eða hverjir þarna voru að verki.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Traustur vinur leggur Sleggju

Hef ekkert um málið að segja. Mig langaði bara að skrifa þessa fyrirsögn.

Get svo sem ítrekað það að Sufjan Stevens og James Bond gerðu liðna helgi svo frábæra að ég fór ekki úr náttfötunum allan sunnudaginn.

Í morgun fékk bókaútgáfan Spott ehf úthlutað langþráðri kennitölu. Í kjölfarið var strax sótt um vsk númer, sem tekur einhvern tíma. Um leið var óskað eftir því að stofnaður væri reikningur í nafni félagsins í mínum viðskiptabanka. Það tefst vegna laga um peningaþvætti.

Já, það er ekki átakalaust að gefa út bók.

Ljósi punktur dagsins var að samið var við Hagkaup um sölu á bókinni. Vonandi kemst hún í búðir fyrr en varir.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Sufjan

Næsta stórstjarna alternativar tónlistar heitir Sufjan Stevens. Það er nokkuð ljóst eftir magnaða tónleika í Fríkirkjunni á föstudag. Við vorum svo heppin (les útsmogin) að fá sæti á fremsta bekk og nutum þessara tónleika alveg í botn. Sufjan sjálfur virkar feiminn, en um snilligáfuna þarf enginn að efast. Lögin eru frábær og leiðin liggur upp á við hjá kauða. Langt upp á við.

Bond, nýr Bond

Já sveimér þá. Þetta gengur upp hjá þeim með nýja Bond leikarann. Myndin er fantagóð og á leið út úr bíóinu áttar maður sig á því hvaða karikatúr hefur verið í gangi í undanförnum myndum. Nú er Bond ferskur, flottur og hættulegur...jafnvel masókískur, eins og Fleming vildi hafa hann.

Casino Royale fær gæðastimpil Röflsins.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Dagur íslenskrar tungu

Engar fokking slettur í dag!

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Blóðbankinn: Bráðvantar blóðgjafa

Nú er krísa í blóðugasta bankanum og vantar nokkra lítra af nýju blóði. Það væri líklega einfaldast að fletta Glúmi Baldvinssyni upp í símaskránni. Hann var með töluvert framboð af nýju blóði fyrir helgina.

Castro's Info

„We will call you with Castro's info. Ship. Semester@sea. Promise!

Þessi orð standa á samanbrotnum miða sem ég var að finna í veskinu mínu. Það er merkileg saga á bak við þetta sem mér finnst ég verði að rekja í örstuttu máli. Þannig var að þegar vinir mínir Stjáni og Birna voru einn vetur í Costa Rica, þá fór ég í heimsókn til þeirra í nokkrar vikur i janúar. Við Stjáni brugðum okkur til Kúbu, sem við héldum að væri ansi hlýr staður í karabíska hafinu. Raunin varð önnur, þannig að við vorum við það að krókna í stuttermaskyrtunum okkar jakkalausir.

Castro's info vísar til þess að eitt kvöldið vorum við staddir á bar, sem mig minnir að heiti Dos Hermanas í miðborg Havana. Þar fórum við mikinn í rommdrykkju og slátruðum nokkrum staupum af 15 ára gömlu rommi og borguðum útlendingaverð fyrir. Reyndar hefur Hrafn Gunnlaugsson sagt mér að á Kúbu sé aldrei til eldra romm en hálfsmánaðar, restin sé bara spurning um matarlit. Og dollara. Litlu munaði að illa færi reyndar þegar aðkomumaður kúbanskur hugðist aðstoða okkur við að tendra vindilsdrjóla, í óþökk 170 kg dyravarðar og mátti litlu muna að við yrðum í milli í þeim áflogum. Verðir laganna mættu hins vegar í skyndingu og stilltu til friðar. Hugsanlega hafði þessi uppákoma einhver áhrif til hækkunar á reikningi okkar félaganna, en sá var drýgri en við áttum von á.

Þetta kvöld hittum við nokkra amríkana, já, sem voru á einhverju bévítans skólaskipi, sem voru að djamma í miðbænum en áttu daginn eftir stefnumót við Castro. Okkur var gefinn ádráttur um að við fengjum að slást í för með hópnum og hitta kappann og voru svarnir þess eiðar og skrifaðir aftan á áðurnefndan miða (framan á miðanum stendur reyndar 'BOÐSMIÐI', en hann gildir fyrir einn á eina af sýningum Bíófélagsins 101 og bíð ég þess í ofvæni að geta notað hann)

Því miður varð reyndin sú að brandararíkjamenn reyndust ekki traustsins verðir fremur en fyrri daginn og aldrei vorum við látnir vita af stefnumótinu við Castro. Þannig að ef þið í áhöfn amerískra skólaskipsins eruð að lesa þetta, þá hafið skömm fyrir!!!

Tæknilegu mistökin

Í dag er mikið rætt um tæknileg mistök, sem nota bene enginn tapaði á og enginn annar var sakfelldur fyrir. Því skal hér rifja upp dóma Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem þingmaður var dæmdur í tveggja ára fangelsi og annar maður í 3 mánaða fangelsi fyrir að greiða honum mútur.

Í dómsorði Hæstaréttar segir:

Fjárdráttur. Umboðssvik. Mútur. Rangar skýrslur. Brot í opinberu starfi. Tilraun. Hlutdeild.
Á var ákærður í 27 töluliðum fyrir fjárdrátt, rangar skýrslur til yfirvalda, mútuþægni og umboðssvik í opinberu starfi. Þá voru B og GH sakaðir um mútur og GH, SA og T um hlutdeild í umboðssvikum Á. Á játaði brot sín í 12 af fyrrnefndum töluliðum en dró til baka játningu sína í tveimur þeirra fyrir Hæstarétti. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um þessa töluliði enda ekkert komið fram sem sýndi að játning hans fyrir héraðsdómi hefði verið gerð fyrir mistök eða leiddi til þess að hún yrði dregin í efa að öðru leyti. Þá var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu Á fyrir brot samkvæmt 4 ákæruliðum sem hann hafði ekki játað staðfest en Á undi niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt 2 liðum þar fyrir utan. Enn fremur var Á sakfelldur fyrir brot samkvæmt 4 ákæruliðum til viðbótar en niðurstaða héraðsdóms um sýknu Á af 5 liðum staðfest. Með vísan til þess að Á var sakfelldur fyrir fleiri brot en í héraðsdómi, hafði látið af starfi alþingismanns vegna málsins og gengist greiðlega við hluta þeirra sakargifta sem hann var borinn, var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár en fallist á það með héraðsdómi að hvorki væri unnt að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti né að hluta. Þá var GH sakfelldur fyrir þau brot sem hann var ákærður fyrir og gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu B, SA og T var staðfest.

Niðurstaða héraðsdóms (sem var mildari en Hæstiréttar!!) var svona: Ákærði Árni brást trausti sem honum var sýnt er hann var skipaður til að sinna þeim opinberu störfum sem lýst er í ákærunni. Brotin framdi hann í opinberu starfi, sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga, og er það virt til refsiþyngingar eins og lýst er í því lagaákvæði. Brot ákærða eru mörg og alvarleg.

Talandi um tæknileg mistök.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Reynimelur vs Mururimi

Það er kósí og sjarmerandi að búa í gömlu húsi eins og við gerum á Reynimelnum, ekki síst eftir að hafa náð merkum áfanga í innréttingu eldhússins, en um helgina voru settar höldur á eldhúsinnréttinguna og sett upp eldhús-barborð. Nú þarf ekki lengur að bogra og beygja sig niður til að opna neðstu skúffuna, til að opna þá í miðjunni til að geta opnað þá efstu til að ná í eina teskeið. Furðulegt að við skulum hafa vanið okkur á svona rugl og orðið samdauna vitleysunni.

En varðandi gamla húsið þá vil ég benda á þetta: hilda.atgangur.net/reynimelur

mánudagur, nóvember 13, 2006

GSM rúlletta

Hræðilegur leikur sem ég lék með ákveðnum fyrirtækja-presti um helgina: GSM rúlletta.

Gengur út á það skiptast á símum og velja eitt númer úr skránni og hringja í það.

Ég lét prestinn hringja í GPétur.

Presturin lét mig hringja í Dóru Takefusa.

Ég tapaði.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Gaman að halda þessu til haga

Sjá hvernig Íslendingum skjöplast á skötu:

Það er ekki hundur í hettunni
Það er ljóst hver ríður rækjum hér
Þetta er ekki upp í kött á nesi
Mér er nú ekkert að landbúnaði...
Allt fór afsíðis sem gat farið afsíðis...
Þessi peysa er mjög lauslát...
Þau eiga þvílíka myllu, lifa eins og greifingjar og leika á alls eggi...
Hann sló tvær flugur í sama höfuðið...
Þarna hefði ég sko viljað vera dauð fluga á vegg...
Ég sá svo sætan strák að ég fór alveg fram hjá mér...
Ég var svo þreyttur að ég henti mér undir rúm...
Hann sat bara eftir með súrt eplið...
Og, nú, góðir farþegar, er einmitt fengitími melóna...
Ég hreinlega vissi ekki í hvorn fótinn ég átti að setjast...
Þar stóð hundurinn í kúnni
Maður fer í bæinn til að sjá sig og sýna aðra...
Svo handflettir maður rjúpurnar...
Já, fólk núorðið er svo loðið á milli lappanna...
Hún nagaði sig í handakrikann
Mestu handfarir sem riðið hafa yfir Vestmannaeyjar
Flísarnar eru miklu varanlegri en allt annað
Falla á mann tvær grímur
Hellti upp á eina Pizzu
Fauk saman við yfirmann sinn
Má ég millileggja þetta á reikninginn ykkar
Erfitt fyrir fólk með skammtímaþunglyndi
Ég var svo horuð að ég leit út eins og Sóríasissjúklingur
Það væri nú til að kóróna alveg mælinn
Eins og að skvetta eldi
Það gengur alltaf allt á afturendanum á henni
Sumir taka alltaf allan rjómann
Getum ekki horft hvort á aðra
Kannski þykknar í mér pundið
Þetta var svona orðatækifæri
Hún á náttúrulega að fá greitt fyrir afturgengið orlof
Skírður eftir höfuðið á honum
Flokkast undir kynferðislegt álag
Það er enginn millivegur á þér
Við verðum að leggja okkur í spor barnanna okkar
Fór í klippingu og lét rótfylla á sér hárið
Hjartað hamaðist í höfðinu á henni
Sérðu snjóhryllingana
Kemur seint eftir dúk og disk
Augun voru alveg risastór við hliðina á höfðinu
VIð verðum að reka okkur vel á
Ég skal sko troða því niðrí hann
Reisa sér hurðarás yfir öxlina
Vissi ekki í hvort skrefið ég ætti að stíga
Vissi í hvora löppina ég átti að fara
Málið með vexti
Vitum aldrei okkar ævi fyrirfram
Stilla fólki uppfyrir vegg

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Innblásið Inni og Úti

Stórt kreditprik til Baggalúts fyrir INNI og ÚTI dagsins.

INNI: Útlendingar
ÚTI: Innflytjendur

Kaffihús bókaormsins og miðbæjarrottunnar

Gamall draumur er að rætast. Hér beint á móti, í Eymundsson Austurstræti, er verið að leggja lokahönd á kaffihús og bætt við heilli hæð fyrir erlendar bækur. Það hefur verið full langt fyrir mig að rölta á Súfistann í hádeginu. Geri ráð fyrir að vera tíðari gestur í Austurstrætinu. Snilld - og gott fyrir miðbæinn.

Talandi um miðbæinn: Á að opna lækinn eða ekki? Tja. Er ekki um að gera? Kýla á það?

Jú.

En hvenær verður þetta hreinsunarátak sem nýi meirihlutinn ætlaði að drífa í? Athafnastjórnmál?

Mál í máls stað?

Getur verið að innflytjendamál verði mál málanna og allt þetta umhverfismálaæði sé bara water under the bridge? Water behind the dam? Maður spyr sig.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Nú er gaman

Eða er það ekki? Styttist í stysta VISA tímabil ársins. Lognið á undan storminum. Fékk góða bók í hendurnar í gær, Undir himninum, eftir Eirík Guðmundsson. Stórskemmtilegur Krumma fundur í skrifstofum Bjarts. Athyglisverðar umræður um kosningarnar í BNA, að fornu, nýju og í framtíðinni. Athyglisverðar uppljóstranir um prófkjör Sjálfstæðisflokkinn (sem allir vlija nú sópa undir teppið með því að tala illa um Samfylkinguna). Skemmtileg flækja í gangi milli Skúla Helga og sme reyndar. Kveikjan að færslu sme var reyndar bloggið hans Gumma um undarlegar fréttaáherslur Blaðsins, sem fjallar um gamlar skoðanakannanir í stað þess að nefna að um það bil 12000 manns kusu í prófkjörum Samfylkingarinnar um helgina. Top that.

Gaman gaman. Skítkalt.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Næsti forseti

Barack Obama:

mánudagur, nóvember 06, 2006

Frjálslyndir íhaldssamir

Magnús Þór Hafsteinsson sagði í Silfinu í gær að Frjálslyndir vildu íhaldssemi í innflytjendamálum. Verða þessir menn, sem tala svona mikið um 'þetta fólk' ekki að fara nefna einhver atriði sem þeir vilja hafa meira frjálslyndi í? Bara svona nafnsins vegna...

Ég fagna því að tekin sé upp umræða um innflytjendamál. Er það satt að við séum að flytja inn vinnuafl sem hagstjórnartæki, til að halda aftur af launaskriði? Er þetta ein hliðin á stóriðjustefnunni? Hátækni út, lágtækni inn? Hvernig atlæti fær það fólk sem flyst til landsins? Hvaða kröfur eigum við að gera? Hvaða metnað eigum við að hafa? Eiga þær fjölskyldur sem flytja til landsins að vera annars, jafnvel þriðja flokks þegnar?

Þetta er löngu tímabær umræða.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Fótboltinn er skrýtinn

Jahérna. Ég var fjúríus á þriðjudaginn þegar cHELLsea jafnaði gegn Barca. ÞEgar United tapaði fyrir Danskinum í gær var mér eiginlega alveg sama. Reyndar virtist United líka vera alveg saman en....Jæja.

Lauk í gær við bókina Ghostwritten eftir David Mitchell. Maður er séní. Frábær skáldsaga sem þræðir sig gegnum mismunandi sögupersónur og tímabil sem tengjast á sérstakan, og flottan, hátt.

Næst er ég að hugsa um eitthvað léttmeti. Á til dæmis tvær Rankin bækur uppi í erminni; þá nýju og svo Black and Blue sem ég fékk í hendurnar um daginn, en hún hefur beðið mín í fórum Óttars Proppé frá því hann fékk Rankin til að árita hana fyrir mig í vor. Á maður nokkuð að vera að lesa hana, setja hana beint á Ebay? (Eflóa?)

Á morgun fer merkileg bók í prentun. Lesendur þessarar síðu (báðir) muni fá tækifæri til að eignast áritað eintak!