fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Punktur um peninga

Rætt hefur verið um myndarlegan stuðning Björgólfs við framleiðslu á leiknu sjónvarpsefni fyrir RÚV. Vonandi skilar þetta sér í flóðbylgju af góðu efni og við Íslendingar erum svo sannarlega ekki á flæðiskeri staddir þegar kemur að sögum sem sjónvarpsmenn hafa úr að moða. Í ár koma út næstum 800 bækur! Úr einhverju af því ætti að vera hægt að gera gott sjónvarp - við þetta bætist svo bókmenntaarfurinn! En þótt peningurinn sé kominn í hús þá finnst mér ennþá vanta skýra stefnu um það hvers konar efni Ríkisútvarpið á að framleiða. Verður þetta svona fyrstur kemur, fyrstur fær? Fá ákveðnir leikstjórar og framleiðendur forgang og aðrir látnir bíða af því þeir voru í fyrra og svo framvegis? Fyllist núna allt af krimmum - af því Örninn gekk vel?Það vantar skýrari sýn. Hvað með leikið barnaefni? Jóladagatal RÚV í desember, Jól á leið til jarðar, hefur verið sýnt tvisvar, ef ekki þrisvar áður (það er út af fyrir sig allt í lagi að halda vel gerðu efni að nýrri kynslóð).

Svo finnst mér líka skringilegur hljómur í því að RÚV skuli yfirbjóða Jón Ásgeir og 365 til að tryggja sér sýningarrétt á EM í fótbolta - en þurfi svo að ganga með betlistaf til Björgólfs svo það geti sinnt þeirri skyldu að framleiða leikið íslenskt sjónvarpsefni. Hvað næst? Kaupa enska boltann á uppsprengdu verði og láta Ólaf í Samskipum borga helminginn af kostnaði við fréttastofuna í staðinn?

Leg

Sá Leg í gær. Verkið sjálft er hressileg dystópíupæling um samfélagið á Íslandi eftir nokkra áratugi þegar efnishyggjan hefur sigrað endanlega. Skemmtilega uppsett og leikið. Athyglisvert að sjá svona nýstárlegt stykki eftir að hafa séð Heddu Gabler í síðustu viku þar sem algjör virðing fyrir mögnuðu viðfangsefninu var í fyrirrúmi í snoturri uppfærslu.

Íslendingaslóðir

Merkilegt viðtal við Harald Bessason í Kiljunni í gær og minnir mann á hversu merkilegt samfélag Íslendinga í vesturheimi var og, ja, er. Manni finnst eiginlega að þarna ætti maður að drepa niður fæti einhvern tímann. Hitta menn á borð við Jack Bodvarsson, Sally Gudmundsson og MC Tordarson.

Ef Íslendingar hefðu flutt unnvörpum til Flórída í stað Winnepeg þá væri þetta ekki spurning. Maður væri bara þar. Öz Severson kannski.

Tilnefning til auglýsingaverðlaunanna

Heilsíða í viðskiptablaði Moggans í dag: Þú verður ekki eins og freðin ýsa með því að nota sittu - stattu skrifborðin frá InnX

mánudagur, nóvember 26, 2007

Úr Öskunni

Óhugnalegasta bókafrétta ársins var: Ösku Yrsu Sigurðardóttur dreift í verslanir. Nú er ég búinn að lesa þessa bók. Um hana er þetta að segja: Ágætlega hugvitssamlegt glæpaplot, sem er þó ekki alveg nógu grípandi. Fínir sprettir í vinnu með karaktera, t.d. Þóru, en samt hefði ég viljað sjá aðeins meira 'engagement' af hálfu aðalpersónunnar. Hún hættir engu til í bókinni og er voðalega mikið í vinnunni bara. Ekkert heimadrama þar á ferð, var kannski óverdósað á því síðast, þegar hún varð amma? Ritarinn Bella er hins vegar mjög skemmtileg persóna og verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni. Ágætis reyfari já.

föstudagur, nóvember 23, 2007

Klassík í Tjarnarbíói

Var að koma af sýningunni Hedda Gabler í Tjarnarbíói. Verkið er löngu orðið klassískt en það snýst um stórmerkilega aðalpersónuna - sem er líklega ein mesta ráðgáta leikbókmenntanna. Af hverju gerir hún það sem hún gerir? Það verður hver áhorfandi að dæma um fyrir sig. Leikhópurinn Fjalakötturinn nálgast verkið af virðingu og býr því glæsilegan búning í anda þess tíma er verkið var skrifað. Stórmerkilegt framtak, alvöru drama og að flestu leyti vel gert og ég þakka fyrir ánægjulega kvöldstund.

miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Leikurinn á eftir

Fyrir hundruðum ára hugði danskur kóngur á innrás í Ísland. Sendi hann njósnara á vettvang í líki hvals en honum leist ekki á blikuna þegar fyrir urðu bergrisi, örn, dreki og griðungur. Kóngur meðtók þessa njósn og féll frá frekari áformum um innrás.
Á eftir mætir íslenska landsliðið Dönum á Parken. Ekki ætla ég að vera ásakaður um ófaglega umfjöllun um landsliðið, en bendi á að þetta er sama landsliðið og fékk á sig þrjú mörk í Lichtenstein. Þjálfarinn er nýr. Hefur hann fundið bergrisann? Leiðir hann griðunginn fram á Parken? Munu örninn og drekinn sveima yfir baunaborginni? Eða verðum við einfaldlega sömu dvergarnir, kálfarnir og lóuþrælarnir og verið hefur að undanförnu?

UPDATE:
Kálfurinn stangaði boltann beint á frían Dana. Lóuþrælarnir feyktust í burt í öðru markinu og í því þriðja voru dvergarnir með of stutta fætur til að ná í boltann. Annars var reyndar ekki spilaður fótbolti í þessum leik, þetta var eitthvað annað. Nema einn leikmaður í íslenska liðinu hélt að hann væri að spila fyrir Brasilíu, Veigar Páll. Flottir taktar en árangurslitlir. Teodór Elmar var ágætur. Áfram KR.

Harðskafi og Öll trixin í bókinni

Las Öll trixin í bókinni í gær. Þar er farið yfir feril Einars Bárðarsonar sem umboðsmanns. Einar er manna skemmtilegastur og því skilar bókin vel. Í henni kemur skýrt fram að tónleikahald er ekki öruggur gróðabransi en gaman að fá að skyggnast aðeins baksviðs með Einari. Fróðlegt að sjá hversu markvisst hann hefur byggt sig upp sem 'Umboðsmaður Íslands', til dæmis með því að sækjast fast eftir dómarasæti í Idol. Þessi bók er eflaust hluti af sömu strategíu.

Harðskafa las ég um daginn. Fínlega ofinn reyfari en um leið haldið áfram að kafa ofan í persónu Erlendar og forsögu hans. Skrifað ofan i akveðinn hóp - og öll trixin í bókinni!

Örstutt skilaboð

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

The original



Hér er hið upphaflega tónlistarmyndband í öllum skilningi þess orðs.

Mínar uppáhaldslínur:
Get sick, get well
Hang around a ink well
Ring bell, hard to tell
If anything is goin' to sell
Try hard, get barred
Get back, write braille
Get jailed, jump bail
Join the army, if you fail

og:
Look out kid
They keep it all hid
Better jump down a manhole
Light yourself a candle
Don't wear sandals
Try to avoid the scandals
Don't wanna be a bum
You better chew gum
The pump don't work
'Cause the vandals took the handles

mánudagur, nóvember 19, 2007

Pub-Quiz á degi íslenskrar tungu

Keppnin á föstudag gekk vel og náðu margir að sanka að sér stigum. Sigurvegarar, eftir bráðabana voru Eiríkur og Kjartan og fengu bjórkassann frá Heineken, ævisögu Jónasar frá Forlaginu og Hold er mold frá Senu. Steinþór og Hilmar börðust hetjulega í bráðabana en urðu að gera sér Jónasarplakatið frá MS og Hvíta húsinu að góðu.

Hér eru spurningarnar, Googlið ei!

Á degi íslenskrar tungu:

1.
Tungan er flókinn vöðvi, sem við notum til að tala sem er vel, en einnig eru í tungunni bragðlaukar, sem, því miður segja okkur ekki hvenær við erum tala fagurt mál, betur ef svo væri. Bragðlaukarnir sitja á yfirborði tungunnar. Hver
bragðlaukur er gerður úr 50 til 75 frumum sem raða sér saman í knyppi. Bragðlaukarnir eru hins vegar sérhæfðir og mismunadi staðsettir eftir því hvers konar bragð þeir greina. Þegar fæða kemst í snertir bragðlaukana berst boð með taugum til heila um hvernig bragðið eigi að vera. Hvar á tungunni eru þeir bragðlaukar sem greina súrt bragð? Þeir sem vita þetta ekki þeir þekkja náttúrlega ekki íslenska tungu nógu vel

2.
Íslensk tunga er laus við mállýskur því menn skilja hver annan hvaðan sem þeir eru af landinu. Þó getur verið smávægilegur munur á framburði eftir landshlutum en hann fer þó minnkandi. En...Hvaðan af landinu er líklegast að maður sem er með hv-framburð sé?


3
Næsta spurning er ákveðin þraut sem reynir á innsæið: Hvað eiga setningarnar tvær sem hér á eftir koma, sameiginlegt?

“Hyldýpi þjóðfélagsins vex úr kærkomnu böli í ást”
“Þá heyrði Pési djöflasöng óma úr uxakví og bæ Týs”


4
Íslensk tunga er afkastameiri nú en nokkru sinni fyrr samkvæmt Bókatíðindum í það minnsta. Þar eru skráðar allar nýjar bækur ársins, öll útgefin ritverk sem fá ISBN númer þ.e. Bókatíðindin eru að þessu sinni 288 síður, þykkari en IKEA bæklingurinn. En hvað eru margar bækur skráðar í Bókatíðindi 2007?


5
Íslenskan er svo auðugt tungumál að það má oft finna mörg orð yfir sama hlutinn, svokölluð samheiti. Hvað er annað orð yfir samheiti? Djók. Hvert er algengasta samheiti eftirfarandi orða skrumba, rekja og slúð?

6
Í íslenskum vísnagátum er oftast spurt um eitt ákveðið orð. Eins er það í þeirri sem hér fer á eftir. Hver lína í gátunni gefur ákveðna vísbendingu um þetta eina ákveðna orð. Gátan er eftir Sigurkarl Stefánsson.

Við mig kennd er kynjahöll.
Kapplið mitt sér haslar völl.
Aðrir fuglar óttast mig.
Ofurhugar féllu í mig.

7
Hvað var síðasta lag sem sungið var á íslenskri tungu á sviði í lokakeppni Eurovision? Sem vísbendingu má segja að lagið lenti í 20. sæti af 25 keppendum.

8
Hljómsveitin Nýdönsk kom fram með Megasi á tónleikunum Drög að Upprisu. Sveitin hefur eininig auðgað íslenska tungu með sínum eigin textum gegnum árin. Stundum hefur það þó aðeins farið fyrir ofan garð og neðan

Eins og þegar fólk söng:
"Alelda ... sólbrenndur bjáni“
og
“Komdu Hilmar! Komdu Hilmar”

Þessi lög komu út á sínum tíma á sitt hvorri plötunni með Nýdönsk
Nefnið aðra þeirra (safnplötur teljast ekki með)

9
Hvert er síðasta orðið í íslensku orðabókinni. (Vísbending, það er samsett úr tveimur orðum og byrjar á Ö)

10
Hvaða orð getur þýtt þetta þrennt: Hluti af texta, smáskammtur af efni og veiðarfæri

11

Það er ekki ætlunin að spyrja bara út í fortíðina, heldur einnig framtíðina.
Metsölubókin Harðskafi, sem verður mest selda bókin jólin 2007, er eftir Arnald Indriðason. Nafnið hefur vakið athygli, reyndar gæti bókin heitið hvað sem er, samt myndi hún seljast eins og heitar lummur, ef hún væri eftir Arnald. Hún gæti þess vegna heitið Harðlífi, Marðarafi eða Skafmiði og færi samt í alla jólapakkana. En hún heitir Harðskafi og hvað er það? Hvað er Harðskafi í bók Arnaldar?

12
Einu sinni þótti það góð latína að íslenska titla þeirra kvikmynda sem sýndar voru í borginni. Ég ætla að spyrja um ákveðna kvikmynd sem var frumsýnd árið 1987 og hún var sýnd hér á landi undir titlinum Tveir á toppnum. Þetta gæti reyndar verið vafasöm spurning því ég man eftir því að einu sinni voru tvær myndir í bíó á sama tíma og hétu báðar Á bláþræði. Undir hvaða heiti er kvikmyndin Tveir á toppnum betur þekkt?

13.
Eitt ástsælasta ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Ferðalok, hefst svo Ástarstjörnu yfir Hraundranga skýla næturský.Hraundrangi var lengi talinn ókleifur og lífseig þjóðsaga um að kistu af gulli væri að finna á toppnum var ekki afsönnuð fyrr en árið 1956. Áberandi og metnaðarfullt fyrirtæki hafði um árabil mynd af Hraundranga í merki sínu. Samkvæmt fyrirtækjaskrá er þetta fyrirtæki ennþá til og starfar frá Hjarðarhaga 54 þar sem annar forsvarsmanna þess býr. Ef fyrirtækið lætur eitthvað á sér kræla enn í dag hefur það farið fram hjá mér, en þó má enn rekast á vörur frá fyrirtækinu í verslunum og á söfnum víða um land.


14
Höldum aðeins áfram með Ferðalok, Í ljóðbók sem heitir Ljóðmæli og kom út árið 1998 er að finna þetta:

Diskóljósum
Dansgólfi yfir
Skýla reykjarský
Blikkuðu á balli
Nú birta háir
Manni á miðju gólfi

Í sömu bók er þetta að finna:

Fyrir þrettán þornuðum árum
Ég þáði hér vindil og egg
Nú er salurinn gulur með gárum
Og Gestur Einar á vegg.

Og líka þetta:

Hvar er hún sem ég kyssti í gær
Með kalda nefið sitt
Þetta er einhver annar bær
Og engin þú hér. Shit.

Og að lokum þetta hér um Kiljukvendi nokkurt:
Brún ég heiti Bergþórsdóttir
Bætist Kol þar saman við
Til mín verða seinna sóttir
Í sögu kaflar um það lið
Sem hangir nú á hundrað börum
Og hengir mynd á hvítan vegg
En seinna verður spurð úr spjörum
Í sjónvarpsþætti sítt með skegg.

Hvert er skáldið?

15
Spurt er um ártal
Dagur Íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur þetta ár
Hálf öld liðin frá því að Sjálfstætt fólk var bók mánaðarins í stærsta bókaklúbbi Bandaríkjanna. Hálf milljón eintaka seldist á aðeins tveimur vikum
Árið var sérstaklega helgað útrýmingu fátæktar hjá alþjóðastofnunum og gekk svona ljómandi vel
Af því tilefni er það væntanlega sem Karl og Díana skilja formlega
Og Tupac er skotinn eftir að hafa horft á Mike Tyson
Böðvar Guðmundsson sendi sér Lífsins tré og fékk Bókmenntaverðlaun Islands fyrir vikið.

16
Í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis þetta fyrir þetta ár hlotnuðust íslensku bókmenntaverðlaunin höfundi bókarinnar Að hugsa á íslensku. Hver var það?

17

Þessi spurning er í styttra lagi:

Nú er það svart mar
Hann er ekki eftir Bjartmar

Nei hann er ekki eftir Bjartmar heldur hvern?

18
Fallegasta kvæði sem ort var um Jónas Hallgrímsson hljómar svo:

Dregnar eru litmjúkar
dauðarósir
á hrungjörn lauf
í haustskógi.
Svo voru þínir dagar
sjúkir en fagrir,
þú óskabarn
ógæfunnar.

Höfundurinn er Jóhann Sigurjónsson. Þó svo að Jóhann sé fyrst og fremst þekktur sem skáld þá hafði hann einnig áhuga á ýmsu öðru. Eitt helsta áhugamál hans utan skáldskaparins var að reyna að finna upp nýja hluti. Gekk hann jafnvel svo langt að láta reyna á þessa hluti í framleiðslu eins og ryklokið fræga sem hann hannaði fyrir ölkrúsir og áttu að varna því að óhreinindi og flugur kæmust í bjórinn . Fékk hann einkaleyfi fyrir framleiðslu þeirra árið 1917 og voru framleidd 10 þúsund slík ryklok, en þrátt fyrir góðan ásetning var heimurinn ekki tilbúinn fyrir þessa nýjung.

Annars staðar í heiminum leystu menn þetta vandamál með rykið og flugurnar með því að setja brauðsneiðar ofan á glösin sín og þróaðist upp úr því sérstök tegund matar sem á okkar tímum er orðinn mjög fjölbreytt flóra. Hvers konar matur er þetta?


19
Grímur Thomsen bjó til hugtakið listaskáldið góða í kvæði sínu um Jónas Hallgrímsson. Í sama ljóði kemur reyndar þessi magnaða lína um Jónas: Þeir sem íslenskt mæla mál, munu þig allir gráta. Í janúar 1976 var haldin fræg uppákoma í Háskólabíói þar sem hópur skálda og listamanna fluttu verk sín og kölluðu sig Listaskáldin vondu „Þetta var hópur sem var mikið á móti því að vera hópur,“ segir Sigurður Pálsson sem var í hópnum. „Þessi samkoma var ótrúleg lífsreynsla - maður vissi ekki hvað var að ske,“ segir Sigurður en í bíóið komu 1.400 manns. Samt segir Sigurður að kynningartrixin hafi bara verið tvö: Að muna eftir gamla fólkinu og að muna eftir börnunum. „Um þetta leyti var talað mikið um það í fjölmiðlum hve illa væri komið fram við gamla fólkið svo við auglýstum ókeypis inn fyrir ellilífeyrisþega. Margir notfærðu sér það. Svo auglýstum við barnagæslu á staðnum sem var fáheyrt í þá daga!“ Hver segir að ljóðskáld kunni ekki að selja sig? En hver eftirtalinna var ekki í hópnum listaskáldin vondu?

Guðbergur Bergsson, Hrafn Gunnlaugsson, Megas, Steinunn Sigurðardóttir, Bubbi Morthens, Pétur Gunnarsson eða Þórarinn Eldjárn

20
Að tungum þungum. Stærstu tungur sem finnast í dýraríkinu eru í reyðarhvölum. Tunga reyðarhvala er um 160 til 180 cm á lengd og vegur tunga steypireyðarinnar allt að 4 tonn, en það skagar upp í þyngd asíufíls. En hvaða núlifandi landdýr hefur lengstu tunguna?

21
Ásdís Bergþórsdóttir, systir hins ástsæla bókagagnrýnda og menningarblaðamanns Kolbrúnar, fékk á dögunum verðlaun fyrir málnotkun í fjölmiðlum en hún er umsjónarmaður hinnar ástsælu krossgátu sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudögum. (Líta yfir salinn – hversu margir hér hafa glímt við þessar gátur?) Ef það þarf að útskýra hugmyndafræðina á bak við krossgátuna þá felst hún í því að Ásdís setur fram setningu sem er algjörlega merkingarlaus í sjálfu sér en með því að velta fyrir sér merkingu einstakra orða í henni og hvernig þau tengjast saman finnst lausnarorðið.

Í takt við gátur Ásdísar þá varpa ég fram þessari spurningu:
Hvaða orð er átt við hér:
Vesturbæingar fá Skagamenn í heimsókn í fugli.

22
Hver skrifaði þetta í dagbók sína árið 2000?

Dagur íslenskrar tungu. Um hádegisbilið fór ég í Heiðaskóla í Reykjanesbæ og hlýddi á skemmtilega dagskrá nemenda þar í tilefni dagsins auk þess sem ég fékk tækifæri til að skoða þennan einstaklega glæsilega skóla. Klukkan 17.00 bauð ég til athafnar í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem ég afhenti Magnúsi Þór Jónssyni, Megasi, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Klukkan 20. 00 var hátíðarsýning í Íslensku óperunni á Stúlkunni í vitanum eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Böðvar Guðmundsson, en sagan er eftir Jónas Hallgrímsson.


23
Hallgrímur Pétursson orti og Björgólfur Guðmundsson nam:

Frómleika, dáð og dygðir með
Dýrara halt en gull og féð
Þá heimsins auðlegð horfin er
Hvert sinn gott mannorð fylgir þér

Gef ölmusu ef áttu auð
Og aumka þann sem líður nauð
Guð, í hvers höndum heill þín er,
Hann mun líkt aftur gjalda þér.

Björgólfur Guðmundsson aumkaði sig á dögunum yfir þurfalingana í Ríkisútvarpinu sem keyra á Audi bílunum miklu. Það má því búast við því að það takist að skrapa saman nægt fé til að búa til nýja seríu af Kallakaffi. Hvaða leikstjóri bar ábyrgð á því á sínum tíma að Kallakaffi var varpað út í sjónvörp saklausra landsmanna?


24
Orðin eru byggingareiningar tungumálsins. Tólf eldri borgarar gengu á fund Páls Magnússonar útvarpsstjóra í október með yfir þúsund undirskriftir á lista þar sem óskað var eftir því að dagskrárliðurinn Orð kvöldsins yrði aftur á dagskrá Rásar 1.
„Það er okkur mikið hjartans mál að fá þessar fáu mínútur á kvöldin," segir Valgerður Gísladóttir, sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni og kom á fundinum með útvarpsstjóra fyrir hönd aðdáenda þáttarins. „Þessi þáttur er eldra fólki óhemju mikils virði. Hún segist ekki vita hvers vegna þátturinn var tekinn af dagskrá, en í kjölfarið hafi síminn hringt látlaust hjá henni. „Fólkið er í svo góðu sambandi við mig að ef eitthvað þarf að gera þá heldur það að ég geti það bara, sagði Valgerður.
„Við hlustum á þá sem hlusta á okkur og við ætlum að skoða þetta mál," segir Páll Magnússon útvarpsstjóri. Hann kveður viðbrögðin hafa komið sér á óvart. „Ég hugsa að við förum yfir þetta strax eftir helgi og tökum ákvörðun í kjölfarið."
Hvernig þáttur var Orð kvöldsins?

25
Spurt er um íslenska skáldsögu. Í henni hefur alþjóðlegt fyrirtæki komið Íslandi á heimskortið – markaðssett dauðann, komið skipulagi á ástina og reist stórfenglegasta skemmtigarð sögunnar í Öxnadal og stemmningsdeildin hefur stórfenglegar áætlanir um hvernig megi fullkomna veldið. Indriði og Sigríður eru handfrjálsir einstaklingar í þessu hátæknivædda samfélagi og telja sig hafa fundið ástina upp á eigin spýtur þegar allt í einu kemur í ljós að tölvan hefur reiknað að þau henti betur öðrum.

26
Haft er eftir Jónatan Garðarssyni poppfræðingi að það reyndust ákveðin tímamót fyrir Megas að koma fram á fullveldishátíð stúdenta í Háskólabíói fyrsta desember 1974, með þekktri íslenskri hljómsveit. Þrátt fyrir taugaveiklun og sviðsskrekk ákvað Megas að halda áfram á sömu braut og vorið eftir fór hann að leggja drög að útgáfu næstu plötu.
Skv rokkfræðibók Dr. Gunna spilaði þessi hljómsveit sem þarna studdi Megas erlent graðhestarokk við stofnun hennar árið 1973 en frumsömdu lögunum fjölgaði jafnt og þétt. Í mars 1974 fór hljómsveitin til Ameríku og tók upp plötuna Uppteknir. Eftir tónleikaför í Bandaríkjunum var birt viðtal við sveitina í þar sem kom fram að sveitin hefði fengið mörg girnileg tilboð í Bandaríkjunum. „Það var sama hvar við komum sagði umboðsmaðurinn, alls staðar voru alls konar menn ólmir í að gera við okkur samninga um alls konar aðstoð. Því þeir virðast hafa trú á hljómsveitinni. Sumir eru þó bara að hugsa um eigin gróða eins og einn fyrrverandi trésmiður sem nú er bóndi. Hann bauð okkur sjö ára samning....

Hljómsveitin var endurreist 1993 með það að markmiði að fara sveitaballarúntinn um sumarið. Hljómsveitin fékk ágæta athygli og spilun á útvarpsstöðvunum, með Sálarmanninn Guðmund Jónsson innanborðs.
Hvaða hljómsveit var þetta sem vann íslenskri tungu það gagn að styðja Megas á sviði í desember 1974?

27
“Ég var soltinn og klæðlaus og orti í Alþýðublaðið. og allur heimurinn fyrirleit blaðið og mig” orti Steinn Steinarr. Þann 26. maí 1995 var Alþýðublaðið með merkilegu sniði, það var algjörlega helgað Jónasi Hallgrímssyni en lét aðrar fréttir og pólitískt argaþras lönd og leið af því tilefni að þann dag voru 150 ár liðin frá dauða listaskáldsins góða. Meðal efnisþátta blaðsins var spurning dagsins, en þennan dag voru fjórir menn, sem allir hétu Jónas Hallgrímsson spurðir hvað þeim þætti eiginlega um Jónas Hallgrímsson.

Hvaða ritstjóri Alþýðublaðsins stóð svona myndarlegan vörð um minningu Jónasar árið 1995? Sá hinn sami gefur út nú fyrir jólin bókina Þar sem vegurinn endar.

28
Í hvaða tvo hluta skiptist íslenska orðabókin? Það er, á hvaða staf endar fyrra bindið og á hvaða staf byrjar það síðara.

29
Þá er loksins komið að íþróttaspurningunni en Jónas Hallgrímsson hefur fyrst og fremst verið þekktur sem skáld og náttúrufræðingur en ekki eins vel sem íþróttamaður. Árið 1799 stofnaði Franz Nachtegall fyrsta íþróttaskóla í Danmörku og er almennt talið að sá skóli sé fyrsti íþróttaskóli í Evrópu. Fjölnismenn sýndu þessu framtaki áhuga, Jónas Hallgrímsson þýddi og endursamdi kennslurit Nachtegalls um iðkun ákveðinnar íþróttar og gáfu Fjölnismenn það út í Kaupmannahöfn 1836. Ákveðið var að ágóði af bókinni rynni til Fjallvegafélags Bjarna Thorarensen! Þetta var fyrsta kennslubókin í íþróttum sem gefin var út á íslensku. Íþróttina sem um ræðir er aðeins hægt að stunda að uppfylltum ákveðnum aðstæðum eins og Fjöru-lalli fékk að reyna í samnefndri bók. (Vísbending: Ragnheiður Ragnarsdóttir og Sigrún Brá Sveinsdóttir eru meðal okkar helstu afrekskvenna á þessu sviði.)

30
Skáldsagan Fýkur yfir hæðir kom út á íslensku um miðbik 20. aldar. Sigurlaug Björnsdóttir sótti þennan titil á þýðingu sinni á Wuthering Heights eftir Emily Bronte í kvæðið Móðurást eftir Jónas Hallgrímsson. Í fyrra kom út ný þýðing á verkinu þar sem m.a. titlinum var breytt enda hafði Emily Bronte lítið með Jónas að gera og Wuthering Heights er staðarnafn í Jórvíkurskíri. En hver er þýðandi þessarar nýju útgáfu Wuthering Heights?

Bráðabani:

1
Jón Þórarinsson tónskáld varð níræður á árinu. Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti viðamesta verk Jóns, Völuspá, á tónleikum sínum í tilefni þess. Hvaða þekkti athafnamaður er sonur tónskáldsins?



2
Hvað eiga knattspyrnuliðin Wrexham, Cardiff City og Swansea sameiginlegt í ensku knattspyrnunni?

Koma öll frá Wales

3
Hvar búa þær Holly Madison, Bridget Marquardt og Kendra Wilkinson

4
Hvaða orð getur þýtt þetta þrennt:
efnablanda, óreiða og myndgæði

5
Það sem af er ári hafa jafnmargir Range Rover bílar verið fluttir inn og seldir á Íslandi og samtals í Danmörku og Svíþjóð. Íslendingar hafa keypt 64 Range Rover bíla fyrstu 10 mánuði ársins að því er Andrés Jónsson, upplýsingafulltrúi B&L, staðfesti í samtali við Eyjuna. Á sama tíma hafa 44 Range Rover nýir bílar verið seldir til Danmerkur og 20 til Svíþjóðar. Hvað kostar Range Rover? Ef svarið er á réttu verðbili fæst stig.

föstudagur, nóvember 16, 2007

Pub-Quiz

Ef Jónas væri á lífi þá mundi hann bara mæta á einn viðburð í dag: Pub-Quiz á Grand Rokk kl. 18.

Hitt er húmbúkk
og hananú

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

PubQuiz á Grand Rokk á degi íslenskrar tungu


Today I am writing the questions for the Pub Quiz to be held on the day of the Icelandic tounge tomorrow at Grand rokk. In Iceland we care so much about our language that we have one special day for it, Nov 16th.

The reason is that on that particular day, in the year 1807, Jonas Hallgrimsson was born. Mr. Hallgrimsson was a poet and if you know one of his poems you can become a member of Iceland's cultural elite! How cool is that!!

Tomorrow's Pub Quiz will be all about Jonas Hallgrimsson and the fun one can have while playing with the Icelandic tounge. Extra prizes because of the tounge-day: Books, CD's and stuff. Ta ta!

mánudagur, nóvember 12, 2007

Bjartsýnisverðlaun

Guðný Halldórsdóttir fékk í dag bjartsýnisverðlaun Alcan. Sem er gott, því hún hefur örugglega verið mjög bjartsýn á að Veðramót myndu landa nokkrum Eddum í gær, með 11 tilnefningar undir belti. Þó skilaði sér aðeins ein.

Edda kvöldsins frá mínum bæjardyrum var að sjálfsögðu fyrir Gettu betur en eins og Simmi sagði í ræðunni, þá átti tengdó hana svo sannarlega skilið og fékk hún samstundis nafnið Edda Andrésdóttir.

Það kæmi mér ekki á óvart þótt Andrés fengi bráðum aðra Eddu og þá úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar. Til hamingju Andrés!

Matvælaverð

Nú styttist í að það verði opnuð heimasíða þar sem maður getur keypt sér í matinn á netinu erlendis frá .... þótt ég þurfi að stofna hana sjálfur! Ja, af hverju ekki? Maður gæti alveg eins keypt dósamat, þurrvöru, snyrtivörur og margt fleira og fengið sent (til dæmis fastan skammt einu sinni í mánuði eða eitthvað).

Matvælaverð er steikt, man einhver eftir vsk lækkuninni? Ekki þeir sem verðmerkja í Melabúðinni eða 1011.

M.a.o.: Hefur einhver athugað hvort vsk lækkunin á bókum hefur skilað sér?

Fyrstu jólabækurnar

Hnífur Abrahams: Áróðri gegn Bandaríkjunum og fyrirlestri um uppruna gyðingdóms, kristni og íslam steypt í hefðbundið form reyfara. Mikill hluti textans er nánast á fyrirlestrarformi þar sem aðalsöguhetjan hefur orðið um þessi efni. Snyrtilega útfærðar afhjúpanir og vendingar í sögunni lyfta henni þó upp á ágætt plan.

UPPFÆRT:
Ég gleymdi að minnast á það að bókin er öll teygð, beitt brögðum í lay-outi til að gera bókina veglegri. Stuttir kaflar, svo autt svæði á síðunni á eftir hverjum kafla og næsti kafli byrjar á fyrir miðju á næstu siðu og svo tíu auðar síður i bókarlok til að fita gripinn. Klént.

Eineygði kötturinn Kisi og leyndarmálið: Hugleikur Dagsson er einn á sinni grein bókmenntatrésins. Hakkar í sig The Secret með aðstoð Árna Johnsen, Magna og eldfjallaguðsins Gong-Pa sem lætur Kisa reyndar finna til tevatnsins á óþægilega eftirminnilegan hátt. Geymist þar sem börn ná ekki til (að venju!)

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Upplegg í glæpasögu

Mér fannst ég vera staddur í bók eftir Ævar Örn eða Þráin Bertelsson þegar ég sá frétt um tvo glæpamenn, fíkniefnasala og fyrrum óvini sem höfðu sameinast í trúnni á Krist og stofnað kirkju í húsnæði þar sem áður var hóruhús. Svona er Ísland í dag.

Rannsóknarskipið Árni

Rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar, Árni Friðriksson, lagði af stað í loðnu- og sjórannsóknaleiðangur í gærkvöldi.Ef einhvern tímann verður sjósett rokkrannsóknaskip þá ætti það að heita Árni Matthíasson.

miðvikudagur, nóvember 07, 2007

Að troða helveg

Að troða helveg er eitt af þessum fallegu íslensku orðalögum yfir það að drepast. Ætli Thomas Helveg viti af þessu? Er hann enn í danska landsliðinu? Treður íslenska landliðið Helveg eða helveg á Parken 21. nóv? Lumar þú á skáldlegu orðalagi yfir það að drepast? Smelltu í því í kommentakerfið.

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Svo mælir Páll postuli, hvað kirkjan athugi

"Hinum ógiftu og ekkjunum segi ég að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég. En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd."

Á þetta ekki eins við um hommana? Er ekki betra að þeir gangi í hjónaband heldur en að þeir brenni af girnd?

Selaveisla

Já, alltaf lumar Bændablaðið á skemmtilegum fréttum og tilkynningum (og á ég þá ekki bara við spjall þeirra Guðmundar Marteinssonar í Bónus og Haraldar Benediktssonar formanns Bændasamtakanna, í bændablaðinu gefst færi á að vera fluga á vegg í mjög áhugaverðu spjalli þessara tveggja forkólfa matvælasölu í landinu.) Nei það sem ég ætlaði að vekja athygli ykkar á, kæru lesendur, er að Selaveisla ársins 2007 fer fram nú á laugardaginn og fer hver að verða síðastur til að krækja sér í miða hjá Hallbirni Bergmann (sími 865 2510) Veislan fer fram að Ásvöllum í Hafnarfirði og veislustjóri er enginn annar en Tryggvi Gunnarsson frá Krákuvör. Matseðill er sem hér segir:
Grillað selkjöt
Saltaður selur, soðinn
Reyktur selur
Siginn fiskur með selspiki og hnoðmör
Súrsuð selshreyfasulta
og fleira
Takið með ykkur gesti og leyfið sem flestum að kynnast þessum frábæra mat. Í fyrra komust færri að en vildu.

Er Rabbi á landinu?

mánudagur, nóvember 05, 2007

Auglýsingabransinn

Einu sinni vann ég í (ekki lottói) í auglýsingabransanum. Þá var einn af árlegum hápunktum svokölluð SÍA árshátíð og grínið sem þar var gert að auglýsingum ársins. Flinkir auglýsingamenn tóku þá áberandi tv-auglýsingar og sneru út úr þeim með astoð fagfólks í kvikmyndaiðnaðinum. Oft var þetta heldur nastí og voru frumrit grínsins látin hverfa jafnharðan svo ekki er hægt að hafa upp á þessu snilldarefni nú. Mér er sérstaklega minnistætt þegar við á Góðu fólki sáum um þetta einu sinni og gerðum m.a. auglýsingu fyrir Kolkrabbann (það eru aðeins tvær leiðir til að flytja fólk og vörur til landsins....við eigum báðar) og sTal (þegar Tal var gagnrýnt fyrir að stela atriði úr Notting Hill.

En af einhverjum ástæðum er hægt að finna nýjasta auglýsinagrínið, frá hinni fínu auglýsingastofu Jónsson&Le'Macks á netinu. Checkit! Linkur: http://www.jl.is/media/sia.html

UPPFÆRT: Linkurinn virkar ekki. Gat verið!

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Auglýsingar virka...en hvernig?

Árið 2005 lagðist VR í mikla herferð til að hverja stjórnendur og aðra landsmenn til að láta af fordómum um kynin tvö. Ekki fer miklum sögum af því að launamun hafi verið útrýmt en skoðum aðrar afleiðingar auglýsinganna:


Þegar þessi auglýsing birtist var Samfylkingin Ingibjargar í ákveðinni eyðimerkurgöngu. Nú hefur Ingibjörgu tekist að gera Samfylkinguna að valdamesta stjórnmálaflokki landsins.


















Þorgerður Katrín er orðin varaformaður Sjálfstæðisflokksins eftir að þessi auglýsing birtist og af mörgum talin líklegust til að taka við formennsku af Geir.



















Þegar þessi auglýsing birtist hafði Gísli Marteinn öll tromp á hendi: Vinsæll sjónvarpsmaður og ætlaði sér stóra hluti í pólitík. Síðan auglýsingin birtist hefur leiðin legið niður á við: Tapaði fyrir gamla góða Villa og hefur Gísli einkum gefið sig að ýmsum grænum og mjúkum málum eftir það, fært Reykvíkingum nýjar ruslatunnur og gefið strætóstoppistöðvum nöfn.









En hvað með þessa kellingu hér?



Ja, það má segja að hinn skeleggi stjórnmálaskýrandi hafi mýkst töluvert eftir að þessi auglýsing birtist. Honum leiðist ekki að blogga um uppeldishlutverk sitt og hnyttnar samræður við son sinn, hann fjallar um bókmenntir í sérstökum þætti og flissar með Kollu Bergþórs. Síðast en ekki síst þá er hann orðinn ríkisstarfsmaður en sem er einmitt stærsti vinnuveitandi kvenna á Íslandi!