fimmtudagur, júní 30, 2005

Íslenska Kóperan

Mér líst vel á að íslenska óperan flytjist í Kópavog. Ég sé fyrir mér samlesnu auglýsingarnar:

Aida í kvöld, Aida í kvöld. Íslenska óperan, Kópavogi.

Tosca, Tosca, örfá sæti laus. Íslenska óperan, Kópavogi.

Rigoletto, síðustu sýningar. Íslenska kóperan, Ópavogi.

Duran Duran

Ég er feginn að Duran Duran kemur til Íslands með fullskipað lið, það hefði ekki orðið raunin hefðu þeir komið fyrir nokkrum árum síðan. Þeir eru tiltölulega nýbyrjaðir aftur. Ég skoðaði nýlega set-lista og lofa þeir góðu fyrir Egilshöllina í kvöld. Hlakka til. Að ákveðnu leyti er þetta líkt því og að fara á nýju StarWars myndirnar, maður þarf að fara aftur í tímann í huganum til að njóta þess. Komast í snertingu við sinn 12 ára innri mann.

Að mörgu leyti verður þetta eins og utanlandsferð í kvöld, ég hef aldrei farið á tónleika í Egils og hef ekki hugmynd um hvernig er best að komast þarna upp eftir. Fæ líka martraðir um umferðarhnúta þar sem ökumenn með grifflur og sítt að aftan liggja á flautunni meðan Duran brillerar á sviðinu.

Flottur leikur hjá Brössunum í gær. Furðulegt að sjá hvernig þeir fögnuðu. Glöggir lesendur muna eftir því hvernig trúarhiti leikmanna kom í gegn þegar þeir hömpuðu heimsmeistaratitlinum um árið. Nú gengu þeir enn lengra, hlupu um völlinn í bol með "Jesus loves you" áletrunum og krupu svo í hring og báðu saman. Reyndar var fótboltinn þeirra algjört kraftaverk og spurning hvort KR-ingar ættu að prófa þetta áður en það fýkur endanlega í öll Frostaskjól?

Á von á skemmtilegu brúðkaupi á laugardaginn og hlakka mikið til. Föstudagurinn er að mestu óskrifað blað, en....

miðvikudagur, júní 29, 2005

Laus staða á RÚV

Nú keppast menn væntanlega við að sækja um starf útvarpsstjóra á RÚV. Gerðar eru sömu hæfniskröfur til þess starfs og gilda hjá þeim sem sér um búninga, hár og förðun í Útvarpsleikhúsinu.

Houellebecq

Var að klára Áform (Platform) eftir Michel Houellebecq (Já, þurfti að googla nafnið, viðurkenni það....}. Alltaf gaman að lesa bækur sem storka og vekja mann til umhugsunar, bókin er eins konar stúdía á hvert tómhyggja og siðferðislega afstæðishyggja, hræsni og tvískinnungur Vesturlanda leiðir og hvernig trúarkerfi og kreddur munu aldrei geta liðið slíka þróun, enda hafi trúarbrögð (les. Islam) bæði ástæður og aðferðir til að berjast gegn slíku. Þessi spádómsþáttur í bókinni, sem kemur út um mitt ár 2001 er sérstaklega hrollvekjandi í ljósi atburðanna 11. september sama ár og ekki síður vegna þessa að bókin gerist að miklu leyti á stöðum í Tælandi þar sem flóðin urðu í fyrra.

Sá líka Batman: Alltaf gaman að sjá myndir um baráttu góðs og ills þar sem hið góða sigrar að lokum.

þriðjudagur, júní 28, 2005

Stolinn brandari

Ö: Á morgun ætla ég að horfa á Brasilíu og Argentínu spila úrslitaleik í Álfukeppninni.
Á: Fær sigurvegarinn þá Álfabikarinn?

Laugavegurinn

Hér eru myndir af frægðarförinni niður Laugaveginn. Því miður gleymdum við að safna áheitum eins og allir virðast gera þessa dagana sem leggja land undir fót, en þeim sem þess óska er bent á að styrkja KR, ekki veitir af....

Í stórum dráttum þá var ferðin þannig að við gistum eina nótt í Landmannalaugum og gengum síðan á fjórum dögum suður í Þórsmörk þar sem við gistum síðan á Jónsmessunóttina, laugardaginn síðasta. Við gistum í skálum Ferðafélags Íslands. Allan tímann viðraði vel til göngu og skakklöppuðumst við skakkafallalaust gegnum allt prógrammið og höfðum gaman af.

Fyrsta myndin er tekin þegar við erum komin upp fyrstu alvöru brekkuna, Laugahraunið er að baki. Takið eftir því hversu allt virðist lauflétt á myndinni, klæðnaður, skap og bakpokar, allt mjög létt. Ekki síst vegna þess að við fengum þyrlu til að fljúga með þyngsta partinn af farangrinum upp í Hrafntinnusker fyrir okkur, en það var áfangastaður okkar þennan daginn.

IMG_3678
Originally uploaded by Adler.


Þessi mynd er tekin á öðrum degi göngunnar, á leið frá Hrafntinnuskeri í Álftavatn. Þarna erum við að kveðja líparítlandslagið og ganga milli Kaldaklofsfjalla.

IMG_3749
Originally uploaded by Adler.


Og þá tekur við þetta leiðinlega útsýni til Álftavatns. Glittir aðeins í Tindfjöll lengst til hægri.

IMG_3754
Originally uploaded by Adler.


Hálendishetjan snýr aftur

IMG_3768
Originally uploaded by Adler.


Þessi hér er tekin síðar sama dag eftir lúmskt þreytandi langa göngu yfir sandana suður í Emstrur. En gríðarlega tilkomumikið landslag og dulúðugt. Maður átti hálfpartinn von á að einhver úrþvætti úr Lord of the Rings mundu koma ríðandi yfir hálsinn.

IMG_3771
Originally uploaded by Adler.


Lokaáfanganum náð í Skagfjörðsskála í Þórsmörk í úrhellisrigningu sem buldi á okkur síðustu 45 mínútur þessarar frábæru ferðar.

IMG_3787
Originally uploaded by Adler.

Dúkkulísurnar

Í gær sat ég og horfði í sjónvarpinu, dolfallinn, á hóp manna sem var að hittast í skipti og ákvað að spila saman fótbolta í svarthvítum búningum, ekki ósvipuðum KR búningunum. Ætli þetta hafi ekki verið eitthvað firmalið, alla vega skíttöpuðu þeir fyrir Val, spiluðu eins og Pappírs-Pésar og áttu ekki eitt færi allan leikinn. Ég flyt á Reynimelinn um þarnæstu mánaðamót, ætli kúkalyktin finnist þangað úr Frostaskjólinu?

mánudagur, júní 27, 2005

Sævar Birgisson

Þetta er nýi systursonur minn, sem fæddist á sumarsólstöðum meðan við vorum í ferðinni. Fáum að sjá hann augliti til auglitis í dag!


20050626164758_1
Originally uploaded by Adler.

mánudagur, júní 20, 2005

Laugavegur og Kringlan

Er á leið í Kringluna til að kaupa matinn sem við ætlum að borða á Laugaveginum. Nú þarf að vanda sig, því slæmt væri að enda matarlaus í Emstrum. Einnig væri slæmt að enda með 10 auka-kíló af mat í Þórsmörk, þannig að eitthvað þar á milli væri ideal. Spáin er ágæt og leggst ferðin almennt vel í kallinn. Bless.

Álkarlinn dansandi

Ég er sérlega óánægður með eitt. Það er að hafa misst af tækifærinu til að taka þátt í gjörningi á 17. júní sem fólst í því að sletta grænu skyri á mann sem var vafinn inn í álpappír og dansaði (nákvæmlega) eins og vitlaus maður fyrir utan Sirkus (barinn, ekki sjónvarpsstöðina, blaðið, símafyrirtækið og útvarpsstöðina og ég veit ekki hvað). Ég gerði hins vegar nóg af öðrum hlutum um helgina og er eitrið svona smátt og smátt að seytla úr líkamanum, þeim hinum sama og þarf í dag að hrista sex daga fjallaferð fram úr erminni.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Stjórnarþingmenn gagnrýna sparnað hjá forsetaembættinu

Maður hefði haldið að þingmenn í liði ríkisstjórnarinnar, sem reyndar þora ekki að koma fram undir nafni, mundu fagna þeim sparnaði sem felst í því að forsetafrúin fljúgi frítt milli landa í stað Sögu Bisnissklass. Í staðinn er reynt að setja þetta í samhengi við synjun fjölmiðlalaganna í fyrra. Ætli stjórnarþingmennirnir séu ekki bara mest fegnir ef þetta mál nær að draga hinn vanhæfa forsætisráðherra út úr kastljósi fjölmiðlanna.

Síðar í dag tekur við gríðarleg óvissa. Verður gaman? Ég er viss um það!

miðvikudagur, júní 15, 2005

The Final Solution

Lauk í gær við nýju skáldsöguna "The Final Solution" eftir Michael Chabon. Í grunninn er þetta einföld stutt glæpasaga sem gerist á Englandi árið 1944 og fjallar um morð og leit að páfagauk sem býr yfir leyndamáli sem verið lykillinn að miklum auðæfum og jafnvel sigri á nasistum. Ein aðalpersónan er Sherlock Holmes, þótt nafn hans komi ekki fram, 89 ára gamall býflugnabóndi sem áratugum áður var þekktur spæjari í London. Bókin er feikilega vel skrifuð og lýsir á dulúðlegan og átakafullan hátt hvernig sum mannanna verk eru handan alls skilnings, jafnvel færustu spekinga. Hér er lítill, en vel heppnaður, póstmódernískur demantur á ferðinni.

Enginn veit

Nú er komið að óvissuferð Lárusar Rist. Á morgun heldur hópur góðra drengja út í óvissuna með viljann einan að vopni. Enginn veit. Fyrr en reynir á. Óvissunefnd LR hefur að sögn unnið, þó ekki markvisst, að skipulagningu leiðangursins undanfarna mánuði til að ná fram sem mestri óvissu um ferðina. Gera má ráð fyrir að menn komi almennt mjög óvissir heim, ef þeir þá rata heim, og er óvíst um að menn verði til frásagnar um það sem gerist, eða gerist ekki, á þeim óvissutímum sem vofa yfir. Helgin lofar annars góðu...ef.....

þriðjudagur, júní 14, 2005

Gunnars-bæjones?

Gunnar bæjarstjóri Kópavogs
Gunnar bæjarstjóri Garðabæjar
Gunnar bæjarstjóri Álftaness

Tilviljun?

Getur verið The Gunnars hafi sameiningu í pípunum? Hvað mundi slíkt bæjarfélag heita? Gunnarsbyggð?

UPDATE: Gunnar er víst að hætta á Álftanesinu. Ef það er samsæri í gangi þá hlýtur það að koma í ljós á allra næstu dögum eða vikum. Stay Tuned!

1. apríl enn á ný

Alla vega segir á forsíðu Moggans að Michael Jackson sé saklaus og Halldór Ásgrímsson fullkomlega hæfur til að hagnast á sölu Búnaðarbankans.

Sjaldan fellur eplið langt frá Framsóknarflokknum

Ekki leitaði Framsóknarflokkurinn langt yfir skammt til að finna forstjóra nýja Samkeppniseftirlitsins. Ojæja. Þótt Pabbi Páls Gunnars Pálssonar Péturssonar frá Höllustöðum, fyrrum ráðherra, sitji í Lyfjaverðsnefnd og víðar fyrir flokkinn, þá má náttúrlega ekki láta strákinn gjalda fyrir það....

Skemmtilegur fótbolti í gær á grasi í Starhaganum í góðum hópi. Síðan horft á sjónvarpsleikritið Closer í gervi bíómyndar. Alltaf er það nú jafn gott lagið með Damien Rice.

Íslenska sumarið var í gær. Nú er farið að hausta. Bráðum falla laufin og ljóðskáldin draga fram svörtu frakkana sína.

mánudagur, júní 13, 2005

Suðupottur miðbæjarlífsins

Sólin er að steikja miðborgina og við strákarnir á Inntaki vorum svo heppnir að Tinna sæta og skemmtilega tók frá borð fyrir okkur. Þarna var maður grillaður yfir góðum mat og frábærum félagsskap. Þegar ég kom síðan upp í vinnu þá var ég grillaður í spurningakeppni DV og beið slík afhroð að það verður lengi í minnum haft.

mosaic

Frábær helgi að baki. Byrjaði með látum á poshi ársins í Skautahöllinni. Takið eftir hárinu á tilvonandi fyrrverandi fréttastjóranum.....


mosaic
Originally uploaded by Adler.



Úr glansgallanum seint um föstudagsnótt í ferðagallann snemma á laugardagsmorgun. Beint upp í bústað með viðkomu í Gallerí Kjöt. Frábært veður og legið á pallinum og aðeins hugað að garðrækt, flötin slegin. Fruntalega gott naut grilllað og snætt á pallinum og setið úti við rauðvínssötur langt fram á kvöld með aðstoð gasofnsins Gascoigne.

Sunnudagurinn tekinn í æfingagöngu til að hita upp fyrir Laugaveginn og gengið um ægifagurt gilið í sumarbústaðalandi Félags bókagerðarmanna. Þvílík forréttindi að hafa svona náttúrudýrð við þröskuldinn hjá sér. Á leiðinni heim var tekið test-drive á marg auglýstum "brjáluðum pizzum" á Café Kidda Rót í Hveragerði, sem einnig er þekktur fyrir "rómantíska hamborgara". Pizzurnar reyndust ekki alveg eins brjálaðar og vonast hafði verið eftir.

Síðan var horft á Napóleon, en þættirnir eru byggðir á skáldsagnabálki Max Gallo sem áður hefur verið bloggað um á þessari slóð, og 24 sem er óvenju spennandi einmitt núna.

Æi, er það?

föstudagur, júní 10, 2005

Góða helgi

Óska vinum og fjölskyldu góðrar helgar. Aðrir mega gera sér mat úr því sem úti frýs.

Góð helgi blasir við mér. Kampavínsmaríneraðir tískustraumar munu leika um mig í kvöld, vonandi að lokinni góðri máltíð í góðum hópi, og svo bústaður á morgun, þó ekki nema væri til að sækja gleraugun mín en skortur á þeim hefur valdið því að ég kem heim með logandi hausverk hvern einasta þessa dagana. Einn slíkur er að verki einmitt núna þannig að.

Kannski verð ég móðurbróðir um helgina. Ef áætlanir standast þá ætti lítið kríli að koma í heiminn suður með sjó á morgun. Allar góðar óskir þangað streymi.

Byggð i Engey

Eins og kemur fram í blogginu hér fyrir neðan þá hef ég verið að velta fyrir mér hvernig sjálfstæðismenn ætla að fara að því að búa til einbýlishúsahverfi fyrir Engeyjarættina úti í Engey. Lausnin kom í ljós þegar ég labbaði niður á höfn og sá Engey RE 1. Það er örugglega hægt að þétta byggðina töluvert með því að reisa nokkur einbýlishús á dekkinu á þessum risatogara.

getFile
Originally uploaded by Adler.



Svo er rétt að það komi fram að David Beckham er ekki í bænum. Það er bara kjaftasaga. Reyndar er David Beckham alls ekki til en það er önnur og aðeins flóknari saga.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Z

Las í gær gagnmerkt viðtal við Styrmi (Zyrmi?) Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðursins. Merkilegur kall sem segir að sínar Heimdallarhugsjónir hafi horfið eins og dögg fyrir sólu um leið og kom í ljós að konan hans átti við geðræn vandamál að stríða. Merkilegur punktur við kallinn er líka að notar ekki aðeins z í ritmáli heldur einnig talmáli, eins og sést á stafsetningu viðtalsins.

miðvikudagur, júní 08, 2005

Kjördæmapot

Hvað segja þingmenn í Reykjavíkurkjördæmi Suður um hugmyndir D-lista um stórfellda uppbyggingu í Reykjavík Norður? Reykjavík Norður á að fá Eyjabyggðina og svo Sundabraut líka. Er það vegna þess að forkólfar stjórnmálaflokkanna voru allir í framboði í R-North? Davíð, Össur/Ingibjörg, Halldór og Ögmundur. Þarf ekki R-South að fá eitthvað fyrir sinn snúð? Til dæmis jarðgöng milli Kringlunnar og Melabúðarinnar? Þrefalda Bústaðaveginn? Tvíbreiða brú yfir Fossvoginn etc. Hvernig læt ég, við erum með flugvöll!

Eyjabyggð eða ekki byggð?

Nú eru allir að tala um skipulagsmál. R listinn glímir við vandamál sem felst í því að hann boðar samráð og umræðustjórnmál en hefur þéttingu byggðar á stefnuskránni. Reynslan sýnir þó að allir eru fylgjandi þéttingu byggðar, nema íbúðar þeirrar byggðar sem á að þétta. Þetta viðhorf hefur verið kallað "Not in my backyard attitude". Allt samráð við slíkt fólk er erfitt, svo vægt sé til orða tekið, og hefur í för með sér mikla fjölmiðlaumfjöllun um viðkomandi valdhafa á neikvæðum nótum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur vit á því að koma með hugmyndir um byggð ofan á lundaholunum í Akurey. Ekki þarf að hafa neitt samráð við lundana sem hingað til hafa setið einir að byggð á þessu rokrassgati.

Mér þætti gaman að vita hvort Björn Bjarnason er hrifinn af hugmyndum D-listans en hann talaði um tvöfalt umhverfisslys kringum síðustu kosningar þegar grjót úr Geldinganesi væri flutt í landfyllingu við Örfirisey. Tvöfalt umhverfisslys hvorki meira né minna. D-listinn hefur reyndar ekkert sagt um það hvar hann ætlar að fá grjótið í Eyjabyggðina enda nóg af grjóti alls staðar. Kannski Árni Johnsen verði þeim innan handar og selji þeim grjótmulning úr göngunum til Eyja? Vonandi fylgja þessi svokölluðu listaverk hans með i kaupunum, besta notkunin á þeim væri einmitt í landfyllingu.

Vatnsmýrin er að sjálfsögðu stóra málið í þessu og löngu tímabært að menn komist að niðurstöðu í þeim efnum. Ég hef sjálfur töluverðar efasemdir um að halda risastóra hugmyndasamkeppni um málið Hvað verður í verðlaun? Lóð í Lambaseli?

Risastór exklúsív tískusýning yfirvofandi á föstudaginn í Skautahöllinni. Nú vandast málið. Í hverju á maður að fara á tískusýningu? Ætli hógværð sé ekki lykillinn. Ekki vill maður skyggja á tískuna á sýningunni.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Dagsetning

Leiðinlegt að blogga ekki meira á þessari flottu dagsetningu : 07/06/05

Keisaraveldið snýr aftur - aftur

Hélt uppteknum hætti í gær og fékk Bakslátt Keisaraveldisins sem fríspólu. Gaman að endur upplifa dæmið, sérstaklega á 12 ára gamalli VHS spólu þar sem ekkert var búið að eiga við myndina til að fela misfellur þeirra daga tæknibrellna. Svarthöfði var alveg í S inu sínu og maður fann vel hversu takmarkalaust grimmur hann er og hvernig hann leitar Loga miskunnarlaust uppi í þeim tilgangi að reyna að snúa honum á sitt (Sith?) band með það fyrir augum að steypa keisaranum og rúla galaxíinu.

Styttist í Laugaveginn. 21.-26. júní verður hann þrammaður svo eftir verður tekið.

mánudagur, júní 06, 2005

Mánudagur enn á ný

Á morgun er annar í mánudegi. Svo kemur annar i þriðjudegi. Hvað er ég að segja? Jú ég hef ekkert að segja - og er ekki feiminn við að segja það.

Sem sagt.

föstudagur, júní 03, 2005

Föstagur

Og gott veður, men! Hvað skal segja. Er einhver að lesa blogg, eru ekki allir úti að grilla sig og dýrin? Ég þarf að taka öfluga rispu um helgina ef ég ætla að ná að landa meiru af þessari myndlist sem er í boði í borginni.

Finnst mönnum ekkert cheap að afgreiða bankasöluumfjöllun Fréttablaðsins með því að segja að þetta sé uppsuða á skýrslu með kjaftasögum í bland? Davíð Oddsson er ekki meistari hinnar efnislegu svara. Hann er hins vegar snillingur í útúrsnúningum.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Barros?

Your Sexy Brazilian Name Is

Vinicius Barros

miðvikudagur, júní 01, 2005

Star Was?

Sá fjórðu (fyrstu) Star Wars myndina í gær, nokkrum dögum eftir að hafa séð númer III, þ.e. sjöttu myndina. Það var skemmtileg upplifun. Reyndar fengum við hana bara með sem fríspólu, en nóg um það. Það var frábært að sjá hinn geigvænlega mun á tæknivinnunni í myndunum en það kom í sjálfu sér ekki á óvart. Eitt fannst mér sérstaklega skemmtilegt, en það var skylmingaatriði Svarhöfða og Obi Wan Kenobi. Í nýju myndunum þá fara þessir bardagar fram með miklum kúnstum og kynjum, menn hoppa upp um veggi og ég veit ekki hvað. Sérstaklega flottar skylmingar í lokin á Revenge of the Sith þar sem þeir takast á. Svo hittast þeir nokkrum árum síðar og þá eru það eins og gamalmenni á Grund að ýtast á með hækjum. Og fór sem fór. Og maður verður aldrei 10 ára aftur.

Fullvaxta fólk

Ég hef ekki ennþá séð Voxne mennesker, en áðan sá ég leikstjórann Dag Kára á leiðinni í bankann með fangið stútfullt af reikningum. Það bendir til þess að myndin sé ekki sem verst.

Það er heitt hérna inni.