miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Fear and Looting in New Orleans



Gummi Jóh birtir þessa ágætu mynd sem hann fann á reki í fjölmiðla-fárviðrið Katrínu.
Ég held ég sé kominn með nett skammdegis-þunglyndi. Er með böggum Hildar yfir skyndivetrinum 2005. Eitt af ljósunum í myrkrinu er Franz Ferdinand á föstudaginn. Nýja lagið þeirra er klikkað. Best að hlusta á það í Sony MDR-V700 heddfónunum mínum. Jú einmitt, það eru sömu heddfóninn og diskóhomminn í Queer Eye notar. Þar sem fagmennirnir versla og allt það...

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Leðrið klukkan 18


Leðurstofa Íslands stendur undir nafni á Reynimelnum. Sófarnir komnir í hús og stofan nálgast óðum sitt endanlega útlit. Enn bólar ekkert á Billy bókaskápunum í IKEA. Vill einhver losna við Billy skápa, helst úr leðri?

Vesturbæjarlaugin er staðurinn til að vera á klukkan 9 á kvöldin. Það er svo stutt að fara að það liggur við að maður fari þetta á sloppnum.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Hinn mjúki ég

...eldaði tvíréttað fyrir Kára og Krissu og Orra sem sóttu okkur heim, ef okkar hálfkláruðu híbýli verðskulda þann titil.

Eftirfarandi var á borðum:

Forréttur: Smjörbakaður hvítur aspas með grillaðri lambalund "a la Skerjaver"
Aðalréttur: Nýveiddur parmesanhjúpaður Apavatnsurriði steiktur í smjör með blaðlauk og fennel.
Með: Nýupptekinna kartöflugratín með fersku spergilkáli og blómkáli, fetaosti og rjóma.

Lexia dagsins: Það klikkar ekki að kaupa allt það ferskasta sem hægt er að finna og matreiða það með smjöri.

Annars er uppskriftin að gratíninu svona:

Rauðlaukur mýktur vel upp í olífuolíu í stórum potti sem má fara inn í ofn. Tvö vatnsglös sett út í og þegar farið er að rjúka þá er sett ein matskeið af kjúklingakrafti (secret ingredient). Nýjar kartöflur og nýtt spergil og blómkál sett út í og látið krauma vel þangað til vatnið hefur minnkað um helming. Þá er kurluðum fetaosti hent útí og slettu af rjóma, ásamt salti og pipar og hrært og svo gratínostur settur yfir. Gratínerað í ofninum í 35 mínútur við 180 gráður eða þar til allt er mjúkt.

Hinn harði ég kláraði Pöbbkvissið í fjórða skipti, að þessu sinni með Kára klára. Á laugardaginn fórum við upp í bústað þar sem Hanna hagamús komst í feitt og fékk grillaða nautasteik. Veður var fínt.

Er hálfnaður með The Historian, á köflum er hún fjandi góð en stundum dettur hún niður í fáranlegar klisjur og apaheit.

föstudagur, ágúst 26, 2005

Blogglausi dagurinn

Er ekki í miklu stuði í dag. Maður er hættur að þola eitthvað partístand á virkum dögum en í gær fór ég í tvö. Tvíteiti eins og það kallast.

Er þetta þá ekki draumastarfið:
Sé Jón Baldvin líka fyrir mér í þessu djobbi. Vodkasendiherra.

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Að skulda eða ekki?

Síminn var að ljóstra því upp að hann hefði breytt skuld Skjás eins við sig í hlutafé. Hmmm, var ekki talað um það að Síminn væri ekki í lánastarfsemi? Gátu þeir ekki breytt skuld Skjásdrengjanna líka í hlutafé og sleppt þeim við að fara í fangelsi? Ætli lífeyrissjóður verslunarmanna væri ekki til í að breyta húsnæðisláninu, nja, nú teygði ég lopann aðeins of langt.....

Össur fer með himinskautum á blogginu sínu. Nú plaffar fyrrverandi formaðurinn á Gísla Martein vegna kjarkleysis og hrósar Árna Mathiesen fyrir að koma loksins upp úr kafi en sjávarútvegsráðherra telur sitt helsta gagn nú vera að berjast gegn grimmdarlegu drápi á kengúrum í Ástralíu.

Leiðindaveður í borginni og ekkert útlit fyrir sumarlokahitabylgjuna sem ég var að vonast eftir.

Byrjaði í gær á The Historian eftir Elisabeth Kustova, hún fer vel af stað. Verður næsta metsölubók a la Da Vinci lykillinn. Hver ætli nái að tryggja sér útgáfuréttinn á Íslandi? Hún er þó betur skrifuð en Da Vinci lykillinn og það gæti háð henni í Bandaríkjunum.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Sá skáldsögu í gær


Anthony Hopkins, Gary Sinese og Nicole Kidman léku í henni. Þetta er bara ein besta skáldsaga sem ég hef séð síðan ég man ekki.

Ég hef undanfarna daga reynt að auka hina takmörkuðu niðurrennslugetu baðvasksins, en með grátlega litlum árangri. Hvorki drullusokkur né stíflueyðir hefur virkað. Vatnið seytlar alltaf niður í jafn miklum rólegheitum. Á maður að þora að skrúfa bölvaðar leiðslurnar í sundur, eða er maður þá að bjóða hættunni heim? Er það ekki áhættuatriði sem framkvæma ber undir eftirliti atvinnumanna?

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Myndin ég



Ja, hérna þetta kemur ánægjulega á óvart. Ég var hræddur um að ég væri Andalúsíuhundurinn.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Menningarnótt hápunktar

Tókum þetta af töluverðum krafti á laugardaginn.

Gömul íslensk málverk á Þjóðminjasafninu. Vel geymt leyndarmál.
Manntafl Franks Hall og Lúðrasveitanna á útitaflinu, besta hugmynd dagsins.
Safn við Laugaveg, hafði aldrei komið þangað áður. Langar aftur og vill fá leiðsögn.
Skartgripabúðin við hliðina þar sem búið var að tyrfa allt inni.
Raflistaverkin hjá Ragnari Helga og félögum í Nýlistasafninu. Spennandi rafmagnsspegill þar sem maður sér sjálfan sig og fólk sem var áður á staðnum.
FIskisúpa á Óðinsgötunni í frábærum hópi.
Jagúar hjá Landsbankanum (sjá mynd). Missti því miður af Gulla Briem og Nelson Mandela.
Flugeldasýning Orkuveitunnar þar sem rafmagnsreikningarnir fuðruðu upp yfir höfninni.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Bastían bæjarfógeti

Hvernig líst mönnum á Skarphéðinsson sem borgarstjóraefni Samfylkingarinnar? Það býður upp á skemmtilega leikfléttu fyrir flokkinn. Alla vega mundi embættiskeðjan fara vel á kappanum. Össur á líka pistil dagsins: Celebrity spotting í World Class.



Menningarnóttin blasir við. Fullt af hlutum að gerast og maður kemst líklega hvergi að. Gulli Briem verður við Landsbankann ásamt hljómsveitinni sinni Earth Affair og er ekki útilokað að Nelson Mandela mæti á svæðið. Draugasýningin í Morgunblaðshöllinni er líka áhugaverð, heyrst hefur að aðalstjarna sýningarinnar verði kaldastríðsdraugur Morgunblaðsins. Svo ætti maður kannski að reyna að taka þátt í maraþoni skrifstofumannsins við Hellusund klukkan 2? Ef myndin prentast vel má sjá menningu vinstra megin.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Um Reykjavíkurtjörn

Tveggja turna slagur í Reykjavík er ekkert nýtt og skilar jafn litlum árangri og áður:

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir:

Reykjavíkurtjörn er sagt að hafi verið til forna full af veiði, silungi, laxi og sjóbirtingi, og varð það þeim sem lönd áttu að henni að góðu gagni. En sumir segja að það hafi verið tveir bræður og hafi annar búið í Hlíðarhúsum, en hinn í Skálholtskoti. Þeir deildu um veiðina í tjörninni því báðir þóktust eiga hana alla, en gátu ekki komið sér saman um að nota hana í bróðerni.

Er þá sagt að af heitingum þeirra og ofstæki hafi svo farið að veiðin hafi horfið úr tjörninni, en hún orðið full af pöddum og hornsílum, og aldrei hefir nein veiði verið í henni síðan, en þó hafa stundum fengizt þar álar.

Eftir þessu hefðu þá heitingar átt að haldast við fram á næstliðna öld, og þess vegna segja aðrir - sem líklega hefir þótt það ótrúlega og hitt ekki síður að karlmenn skyldu hafa heitazt - svo frá að það hafi verið tvær kerlingar sem hafi búið sín hvorumegin við Reykjavíkurtjörn.

En svo hafi staðið á að þær voru að skola hvor um sig úr sokkunum sínum sín hvorumegin tjarnarinnar, fóru svo að rífast út úr veiðinni í henni sem báðar vildu eiga og heituðust af öllu saman, og hafi þá farið eins og áður segir að fyrir álögum þeirra eða heitingum hafi silungurinn orðið að pöddnm og hornsílum.

Alveg sé ég Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Björk Vilhelmsdóttur í hlutverki þessara kellinga. Eða var það öfugt?

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Suburban birds


Rétt eins og við mennirnir mæta mávarnir í vinnuna í miðborginni á morgnana. Síðdegis svífa þeir eftir sínum breiðu mislægu götum inn í úthverfin með útvarpið í eyrunum. Hvort ætli mávarnir vilji Gísla Martein eða Villa kollu sem borgarstjóraefni sitt?

Hvaða dularfulli kassi er þetta sem er úti í hólmanum á Tjörninni? Er þetta sprengja? Á að sprengja hólmann á menningarnótt?

Hvað er menningarnótt? 101 verður krökkt af fólki í leit að menningu en finnur ekkert nema hvert annað, alls ekki það sem það er að leita að. Á svona dögum hittir maður alla en um leið næstum engan. Svo horfir mannhafið á flugeldasýningu við hafnarbakkann. Svo kemur haust og fólk hvílir sig í frystikistunum í kjöllurum fram að Þorláksmessu.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

VG úr Reykjavíkurlistanum

Vinstri grænir ætla ekki að bjóða fram með Reykjavíkurlistanum aftur. Þar með aukast möguleikarnir á íhaldi í borginni til dæmis ef íhaldsflokkarnir tveir starfa saman, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-grænir.

Ég vona að atburðir undanfarandi vikna verði til góðs og hristi upp í málefnum borgarinnar. Stólaslagnum er vonandi lokið og hægt að byrja að takast á um fólk og hugmyndir. Í haust er útlit fyrir nokkur spennandi prófkjör á öllum vígstöðvum þar sem ákveðin endurnýjun verður vonandi í boði. Spennandi verður að sjá hvað Samfylkingin gerir, en hugsanlegur möguleiki gæti verið einhvers konar framboð með framsóknarmönnum og óháðum.

VG eru greinilega ánægðir að losna úr Reykjavíkurlistanum og nýta vonandi tímann vel til hugmyndavinnu og málefnaundirbúnings. Þeir ættu alveg tækifæri til að verða smá spútnikkflokkur í borginni ef þeir halda vel á spilunum.

Staða Framsóknarflokksins er hins vegar tvísýn. Þeir hafa þó einkennilegt lag á því að standa sig betur í kosningum en könnunum. Gætu verið til alls líklegir ef þeir fórna Alfreð og bjóða upp á eitthvað nýtt og lofa öllu fögru.

Það fyndna er að líklega er Samfylkingin óskrifaðasta blaðið fyrir næstu kosningar enn sem komið er. Þeir ættu þó að hafa sjálfstraust til að spila sig stóra, halda opið prófkjör og vera með mikil læti. Þá kemur í ljós hvort Samfylkingin er risi á brauðfótum.

Læt ég lokið yfirferð minni yfir hið pólitíska landslag á miðjunni og vinstri væng borgarmálanna.

Hitler vitl- er -aus

Sammála Ármanni um að Hitlersmyndin hafi verið flöt og fyrirsjáanleg. Styrkur hennar fólst hins vegar í upprifjun þessara atburða - í hvaða röð sölsaði Hitler undir sig völdin, en minna velt fyrir sér hvers vegna svona hlutir geta gerst.

Fór í bolta í gær og varð fyrir miklum vonbrigðum. Léleg mæting og lélegt form. Gekk í vinnuna í dag með iPod í gráblautu haustveðrinu. Desolation Row kom upp á random. Lagið entist alla leiðina og var mér enginn sérstakur hlátur í hug þegar á leiðarenda var komið eins og þessi færsla ber kannski með sér.

föstudagur, ágúst 12, 2005

I am your.....



Þetta vekur einmitt spurninguna: Af hverju spurðu Logi og Leia aldrei neitt um mömmu sína í Star Wars IV-VI? Allt dramað snerist um að þessi væri pabbi hins, en mamman var alveg látin liggja milli hluta. Kannski hefur maður bara áhuga á pabba sínum þegar maður býr úti í geimnum.

Stríðsskaði

Er ekki kominn tími til að leiðrétta þessi mistök? Myndin er tekin 1942.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Pólitísk ELO stig

Ég kynni til leiks hugtakið pólitísk ELO stig. Þeir sem skilja það ekki og vilja fletta því upp í orðabókinni munu ekki finna mynd af viðræðunefnd R listans þar við. Eru menn ekki að bjóða öllum þessum vandræðagangi heim með því að skipa svona núllognixara í mikilvæga nefnd?

Nýtt orð 2

Tölvumúsarindill. Þetta orð kom fyrir í frábærri sjónvarpsfrétt Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar um skort á heybaggaböndum í landinu í gær. Orðið skýrir sig sjálft og er alveg stórkostlegt. Stöð 2 átti slöppustu frétt dagsins í gær þegar þeir greindu frá 50 ára afmæli Kermits. Ekki það að Kermit sjálfur sé lélegur, þvert á móti. Hins vegar saknaði maður þess að ekki var átt viðtal við kappann. Svo er líka hvimleitt þetta slúður að hann og Miss Piggy séu saman. Óþolandi þessi slúðurpressa á Íslandi.

Gúrkutíð? Maður spyr sig.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Nýja orð dagsins

Bingóvængir. Spikið sem hristist á handleggjum kellinganna þegar þær kalla BINGÓ! Orðið Bingóvængir hefur ekkert með Björn Inga Hrafnsson að gera.

Mogginn fyrstur með Su Doku?

Su Doku þrautirnar fara eins og eldur í sinu um útgáfuheiminn. Ég kynntist þessum þrautum fyrst í lista og menningarritinu The Sun en þrautin gengur út á að setja ákveðnar tölur í ákveðna reiti eftir ákveðnum reglum. Bæði Blaðið og Viðskiptablaðið hafa boðið lesendum sínum að spreyta sig á Su Doku undanfarnar vikur. Morgunblaðið lifir hins vegar í eigin heimi og finnur reglulega upp hjólið. Segist nú munu kæta Íslendinga með því að birta stórsniðugar Su Doku reglulega. Ekki fyrstur, ekki annar, heldur þriðji fjölmiðillinn á Íslandi.

Trixið við að leysa Su Doku þrautir felst að vera lipur í útilokunaraðferðinni. Maður þarf ekki að kunna að telja.

The Flúðir Express

Að lokinni vinnu í dag verður haldið á Flúðir í tvöfalt afmæli í miklum sumarbústað. Hins vegar er verkefni dagsins þess eðlis að það gæti dregist eitthvað fram eftir degi. Vonandi klárast það þó í tæka tíð. Gekk í Vesturbæjarlaugina í fyrsta skipti í gær. Svo fórum við út að borða til að fagna ákveðnum áfanga. Nautasteikin á Rossopomodoro er alveg af fínustu sort og kostar bara mjög lítið miðað við aðra staði og miðað við gæði.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Leðurstofa Íslands

Leðrið klukkan átján. Höfum fest kaup á tveimur leðursófum í stofuna. Ikeagarmurinn verður í Athvarfinu, eins og sjónvarpsherbergið er kallað. Þar mun ég sitja með bjór og horfa á fótbolta meðan Ásta er með saumaklúbba. Og öfugt. Ehemm. Þvottavél er líka komin í gang. Málaði baðkarið ljóta með glansandi og baneitruðu epoxylakki. Hugmyndavinna vegna eldhússins stendur enn yfir en nú eru á lofti skemmtilegar pælingar sem fela það m.a. í sér að ísskápur reki afturendann inn í svefnherbergið. Athyglisvert ha? Nú? Er. Er.

mánudagur, ágúst 08, 2005

Vandað efni

Fyndið að þulurnar á RÚV skuli þurfa að taka það sérstaklega fram í dagskrárkynningum að um vandað efni sé að ræða. Í gær var kynnt: „Vönduð kanadísk heimildamynd um uppgang Adolf Hitler“. Er þá allt annað efni algjör rusl? Reyndar er flest efni í sjónvarpinu algjört rusl. Woody Allen: „Í Hollywood fara menn ekki út með ruslið, þeir setja það í sjónvarpið“.

Ekki þar fyrir utan, myndin um Hitler var ágæt og Robert Carlyle var fínn, það er samt alltaf svo asnalegt að sjá Þjóðverja leikna á ensku.

Á þetta að verða munstrið á sunnudagskvöldum á RÚV? Nýbúin „vönduð“ þáttaröð um Napóleon, nú Hitler. Hvað verður næst?

föstudagur, ágúst 05, 2005

The "Greek" Island

Sá í gær bandarísku kvikmyndina The Island sem gerð er eftir sögu gríska verðlaunheimspekingsins Platós. Sæmilegur bílahasar og flottir skór frá Puma ber hæst. En bókin er betri.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

2110

Hvannadalshnjúkur er 2110 metra hár. Eða 2109,6m ef menn vilja vera nákvæmir. Ég vann getraunina sem sagt.
Halldór Ásgrímsson tilkynnti fjölmiðlamönnum um að hnjúkurinn væri lægri en áður var talið. Einn þeirra spurði: Hyggstu grípa til einhverra aðgerða?

Stóra Billy svindlið


Allir þekkja hina praktísku Billy bókaskápa. Maður hefði haldið að það hvíldi lagaskylda á IKEA að hafa ávallt til reiðu nægt úrval af þessum skápum. En svo er ekki. Nú er þriggja vikna bið!!! Hvusslags? Er verið að segja mér að hafa bækurnar í kössum í þrjár vikur í viðbót? IKEA fær 3 mínusstig fyrir þetta.

DV greinir frá því í dag að BJörgólfur Thor á ekki fyrir ís. Er hrunið hafið? Er spilaborgin að hrynja? Munu menn nú sjá hversu innantómt þetta viðskiptalíf er? Peningarnir eru ekki til!!!! Aaaargh.

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Hvannadals-hvað II


Á morgun verður tilkynnt um hæð hæsta tinds landsins. Lesendur eru hvattir til að mæta við Stjórnarráðið klukkan 4 og heyra með eigin eyrum þá tölu sem forsætisráðherra tilkynnir. Vá hvað það verður gaman. Meðfylgjandi mynd tók ég af Öræfajökli í gær.

Innlit Útlit

Til að svala forvitni lesenda sem enn hafa ekki litið í heimsókn:


Annars er allt með felldu og það tínist allt upp úr kössunum nema það sem er týnt og tröllum sýnt. Sjónvarpsherbergi er svo gott sem klárt (Top priority) og borðstofuborði var komið upp í gær. Næsta skref er að kaupa bókaskápa og hlaða þá merkum litteratúr. Reyfararnir verða víst geymdir uppi á lofti skilst mér.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Flutt

Það var heljarinnar átak að flytja en það hafðist og nú búum við innan um skrilljón pappakassa, búið að tengja sjónvarpið, skrúfur í borðstofuborðið finnast ekki og bla bla bla. Breytingarnar á eldhúsinu breyta íbúðinni algjörlega og opna hana vel. Miklar þakkir til allra sem komu að málum: Gerður, Andrés, Ester, Kristján, Unnur, Dagur, Dagfinnur, Flóki, Arna og Stebbi frændi með ísskápinn.