miðvikudagur, desember 29, 2004

bloggskortur?

Ég hef ekki verið duglegur að blogga og hafa lesendur því engar fregnir fengið af mér og mínum jólum. Í stuttu máli var það einhvern veginn svona

Aðfangadagskvöld í Keflavík - önd
Jóladagur í Kópavogi - hangikjöt
Jóladagskvöld, heima - gæs
Annar í jólum í Hveragerði - kökur
Annað kvöld jóla, heima - hlaðborð
Þriðja kvöld jóla, heima, allir foreldrar í mat - villigæsasúpa, innbakað nautafillet, og bláberjadessert

Nú er hamast í vinnu. Á morgun ætla félagarnir í Lárusi Rist að hittast og verða án efa fagnaðarfundir. Gamlárskvöld verður með fjölskyldusniði, með viðkomu á þremur stöðum í það minnsta. Nýárskvöld er tabula rasa, carte blanche og óskrifað blað. Hugmyndir þegnar. Bless í bili

ps.
bækur:
Halldór Laxness
Samkvæmisleikir

þriðjudagur, desember 28, 2004

Samstaða

Nú liggur mikið á að sýna samstöðu með fórnarlömbum Indlandshafs-skjálftans. Söfnunarsíminn er 907 2020 til að styrkja um skitinn þúsundkall.

Allt um skjálftann á Wikipedia

fimmtudagur, desember 23, 2004

Gleðileg jól kæru vinir

Ein viðvörun, þið sem haldið að það sé eitthvað sérstaklega mikið úrval af rauðvínum í Heiðrúnu, rétt hjá Litlu kaffistofunni, þá er það ekki alveg rétt. Fór þangað í gær og ætlaði að finna mér góð frönsk vín á verðbilinu 1800-3000 en það var ekki til ein einasta flaska. Bara botnfallið sem er alls staðar og svo eitthvað sturl á 4-5 þúsund kall. Endaði í Áströlum. Mentor frá Peter Lehmann með gæsinni og Lindemans Shyraz með öndinni.

Óska ykkur sem nennið að lesa Röflið gleðilegri jóla en nokkru sinni fyrr. Þótt þau séu stutt þessi jól, þá verða þau bara þeim mun skemmtilegri!

miðvikudagur, desember 22, 2004

Að horfa upp eða niður

Ég er ekki gólf maður. Ég hef meira gaman af loftum. Kannski er það þess vegna sem skipuleg þrif á gólfum hafa setið á hakanum á mínu heimili. Maður sópar kannski einn daginn. Skúrar svefnherbergið mánuði seinna. Moppar stofuna að vori og ganginn að hausti. Hefur kveikt á fremur fáum ljósum kannski. Þetta er eitthvað system. Því ég er loft-maður. Þar sem aðrir horfa niður, þar horfi ég upp. Til stjarnanna. Jafnvel til Guðs. Og hann niður til mín.

Með þessum formála ert þú lesandi góður undir það búinn að fá þær fréttir að í gær voru öll gólfin á Kjartansgötu 10 gersamlega tekin í gegn. Auðvitað var maður lengi að koma sér að verki (ég var meira að segja lengi að koma mér að verki að skrifa um þetta). En í dag getur Guð, María, Jósep og Jesúbarnið litið niður á gólfin mín og séð sína eigin spegilmynd í glansandi bóninu.

Nei, fáviti, auðvitað gerði ég þetta ekki einn. Ásta gerði helminginn. Og nú er bannað að fara inn á skónum á Kjartansgötu 10 næstu sex mánuði.

Eru leiðinlegri verkefni til? Ja, maður spyr sig. Ásta spurði hvort mér þætti þetta leiðinlegra en að bíða eftir strætó. Hah. Mér finnst þetta leiðinlegra en að liggja í polli og bíða eftir strætó. Seriously, next time I'll leave this shit to the professionals.

mánudagur, desember 20, 2004

Topp 10 - Botninn.

Hér eru þær 10 bækur sem mig langar mest í þessi jól

Topp 10 (Ekki í neinni sérstakri röð)

Samkvæmisleikir, Bragi Ólafsson
Sólskinsbörn, Steinar Bragi
Vélar tímans, Pétur Gunnarsson
Svartur á leik, Stefán Máni
9 þjófalyklar, Hermann Stefánsson
Bátur með segli og allt, Gerður Kristný
Andræði, Sigfús Bjartmarsson
Ævisaga Héðins Valdimarssonar, Matthías Viðar Sæmundsson
The Plot Against America, Philip Roth
Halldór Laxness, Halldór Guðmundsson

Bækur sem ég á nú þegar:
Múrinn í Kína, Huldar Breiðfjörð
Niðurfall, Haukur Ingvarsson
Truflanir í vetrarbrautinni, Óskar Árni Óskarsson
Best of Grim, Hallgrímur Helgason

Bækur sem ég á og er búinn að lesa
Niðurfall, flott ljóðabók, stemmingar sem minna jafnvel stundum á David Lynch.
Belladonna skjalið, þunglesin og fyrirsjáanleg háskólastílæfing.
Englar og Djöflar, fyrir þá sem vilja lesa uppkastið að Da Vinci lyklinum.
Danteklúbburinn, líklega sú fróðlegasta af sögulegu tryllunum þetta árið.
Kleifarvatn, búinn að lesa hana, la la góð
Dauðans óvissi tími, búinn að lesa hana, sæmileg.
Furðulegt háttalag hunds um nótt, ein af bestu bókum ársins

Botninn (Látið ekki sjá ykkur nálægt mér með þetta lesefni)
Hugsjónadruslan, heyrði upplestur og var ekki spenntur.
Bítlaávarpið, æi




Túrkmenistan

Morgunblaðið heldur áfram að gera góðlátlegt grín að Túrkmenistan. Á baksíðu blaðsins í dag er gantast með það að atkvæði fólks hafi verið sótt inn á heimili þess, þ.e. að ruðst hafi verið inn heima hjá fólki á kjörskrá til að neyða það til að kjósa eina flokkinn sem má bjóða sig fram. Fréttir Morgunblaðsins af Túrkemnbashi og taglhnýtinum hans eru iðulega í léttum dúr þótt ástandið í landinu sé á engan hátt skemmtilegt. Mannréttindabrot verða ekki að brandara þótt sá sem fremur þau sé skemmtilega furðulegur.

Inni og útilisti í mannréttindamálum:

Úti
Úkraínumaður, giftur íslenskri konu sendur úr landi fyrir að vera ekki orðinn 24. ára.

Inni
Bobby Fishcer

Úti
Mannréttindaskrifstofa Íslands (sparnaður 8 milljónir)

Inni
Sigmund skrípateikningar (kostnaður 18 milljónir)

Gjafir og klúður

Jæja, fyrstu jólagjafirnar komnar í hús, maður er byrjaður að brýna kreditkortið í helstu verslunum borgarinnar. Orri litli verður án efa ánægður með rosalega flott xxxxxxxxxxx sem við fundum handa honum. Eins á xxxxxxxxx sem við keyptum í xxxxxxxxx handa xxxxxxx eftir að slá í gegn, enda með þremur stillingum og alles.

Ostakörfurnar eru byrjaðar að streyma hingað í vinnuna. Af hverju dettur öllum það sama í hug. Ostakarfa? Hvað eigum við að senda Góðu fólki? Hey, ég veit. Verum svoldið villtir. Sendum þeim körfu, fulla af alls konar ostum.

Séð og heyrt útgáfa Morgunblaðsins var svo smekklegt að gera prentvillu í nafninu mínu í Hverjirvoruhvarinu sínu. Einkennileg staða. Er maður selebrití eða ekki þegar það þykir "fréttnæmt" að ég hafi verið einhvers staðar, en að vita samt ekki hvað ég heiti? Niðurstaðan er auðvitað sú að ég er bara plebbi......eins og þú.

föstudagur, desember 17, 2004

Erfitt

Pöbbkviss á eftir. Spurning hvort maður endurtekur leikinn og ver titilinn? Kemur í ljós. Eitt er víst. Þynnkan frá því á laugardaginn verður ekki endurtekin.

Soðinn

Fór illa að ráði mínu í gær. Fór í pottinn í Sundhöllinni með bumbuboltastrákunum og var aðeins, jafnvel allt of, of lengi. Þegar við loksins rákum okkur sjálfa upp úr þá var eins og ég væri í rauðum buxum og klæjaði ógurlega. Það var eins og versti sólbruni og í heild sinni fullkomlega fáránleg upplifun. Ákaflega lúðalegt allt saman.

Í dag er haldið upp á að tveir frábærir hlutir fóru í loftið: Flugvél Wright bræðra 1903 og Simpson þættirnir 1989. Því ber að fagna.

fimmtudagur, desember 16, 2004

Stúfur


Nú er bara spurning hvað maður gefur þessum jólasveini í jólagjöf?

Free Bobby Fischer 2

Hef áður skrifað um Bobby Fischer. Mér finnst margt athyglisvert við dvalarleyfi hans hér, svona við fyrstu sýn. Þau tímamót virðast hafa orðið í íslenskum utanríkismálum að við tökum ákvörðun um að gera eitthvað stórt, gegn vilja Brandararíkjanna. Þar er Fischer eftirlýstur fyrir þann einkennilega glæp að hafa teflt nokkrar skákir í Júgóslavíu, landi sem er ekki lengur til. Maður veltir samt fyrir sér hvort Bandaríkin nenni nokkuð að vera að eltast við þennan sjúkling og það sé því löngu búið að gefa "go" á það vestra að kallinn komi hingað. Ætli það sé ekki ágætis lausn fyrir alla.

Hins vegar finnst mér vera svolítil hræsni í þessu máli. Við erum að taka hinn "high profile" landleysingja meðan hundruðum manna, kvenna og barna, sem ríkar ástæður hafa til að vera á flótta, er synjað um dvalarleyfi hér án þess að menn setji sig almennilega inn í þeirra aðstæður. Við erum mjög ódugleg að leysa vanda fólks sem á ekki afturkvæmt til síns heimalands. Getur verið að Fischer sé fyrsti flóttamaður 21. aldarinnar á Íslandi?

miðvikudagur, desember 15, 2004

Egill, Hannes og Kiljan

Nú er Egill Helgason farinn að tala vel um ævisöguskrif Hannesar Hólmsteins. Við útkomu síðustu bóka Hannesar skrifaði Egill grein til verndar rétti prófessorsins til þess að skrifa vondar bækur. Nú hefur Hannesi greinilega tekist betur upp að mati Egils. Sumir segja að það sé vegna þess að Egill sjálfur sé að gera upp við sínar eigin gömlu skoðanir, en svo gæti líka vel verið að Kiljan sé ágætlega heppnuð bók, alla vega finnst mér athyglisvert að miðað við hvað Halldór Laxness var mikill spjátrungur þá hafi hannn klætt sig í lúna larfa þegar flytja átti ræðu á fundi fyrir sósíalista. Þetta kom Hannes með.

Eru samt ekki allir bara búnir að fá nóg af Halldóri Laxness í bili? Reyndar má greina frá því hér að sú ævisaga sem ég hef heyrt best talað um fyrir þessi jól er ævisaga Héðins Valdimarssonar eftir Matthías Viðar Sæmundsson. Þar er eitthvað nýtt á ferðinni.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Nýtt BogB

Ég fékk í hendurnar nýjasta tölublað BogB í gær. Mæli þar sérstaklega með úttekt Stefáns Pálssonar, aka blogglistamanninn #, þar sem hann fjallar um jólageðveikina og heldur því fram að það sé algjör vitleysa að vera að æsa sig á jólunum. Við eigum frekar að gera eins og öll skynsömu dýrin og leggjast í híði. Jólasveinatrú barna elur líka upp aðdáun á smáglæpamönnum sem brjótast inn hús, stela matvöru og liggja á gægjum og þar fram eftir götunum. Must read fyrir jólin. Í blaðinu er einnig að finna ágætt viðtal við Stefán Mána og smá úttekt á ferð okkar strákanna upp á Kjöl til að ná í jólabjórinn. Verð þó að segja að mér finnst Björundur enn ekki hafa fundið almennilega taktinn með blaðinu, sérstaklega fer subbulegt og handahófskennt umbrotið á blaðinu í taugarnar á mér. Svalara og meira sophisticated layout væri góð og greiðfær leið til að gefa blaðinu klassa. Og ekki vantar sætu stelpurnar hér á landi, það vantar bara ljósmyndara til að færa okkur almennilegar myndir af þeim.

Borðstofustólar komnir í hús, spáð er hrinu matarboða á næstunni.

mánudagur, desember 13, 2004

Hannes snýr aftur

Það skildi þó ekki vera að Hannes Hólmsteinn komi öllum á óvart og sé bara með fína bók um Halldór Laxness. Það væri auðvitað bara hið besta mál. Ég tók eftir því í Eymundsson að Kiljan kostaði jafn mikið og Halldór Laxness (e. Halldór Guðm.). Er nokkuð ólöglegt samráð á Laxnessmarkaðnum? Og hver borgar rúmlega 6 þús. f. Kilju?

Útkall á Anfield + sigur

Tíðindalaus vika fannst ykkur ekki? Ein helsta fréttin var að löggan var kölluð að íbúð við Barónstíg en þaðan bárust mikil læti og var talið að um ofbeldisverk væri að ræða. Rétt að vissu leyti því þar voru 3 menn að fagna því að Liverpool hefði komist áfram í Meistaradeildinni. Lögreglunni urðu hins vegar á þau mistök að sleppa mönnunum og ganga þeir því enn lausir. Forsíða DV anyone?

Gleðifréttir vikunnar voru þær að loksins tókst okkur Kristjáni Val að kreista fram sigur í PubQuiz. Meðal spurninganna sem réðu úrslitum voru: skírnarnafn Ingjaldsfíflsins, barnastjörnuhlutverk Davíðs Þórs Jónssonar, fyrsta konan í trúboðastellingunni í íslenskri bíómynd, í hvaða landi er eyðimerkukletturinn Urulu, hvort var Árni Þorvaldsson eða Jón Teitsson kaþólskur biskup og svo mætti lengi telja, eða samtals upp í 19. Þó voru 2 spurningar nánast gefins, heimsmeistarar í knattspyrnu og þáttastjórnandi á RÚV sem hafði ekki efni á því að fara í brúðkaupsferð á dögunum.

föstudagur, desember 10, 2004

Mugison í kvöld kl 21:30, Grand Rokk

Skilaboðin frá Mugison varðandi kvöldið hljóma vel:

500kr inn en 1500 kr og þá færðu disk af eigin vali og inn á tónleika...ég ætla að taka kósí sett í 30 mín og svo ætla ég að taka electró-metal sett í aðrar 30 mín.. endilega ef þú getur, komdu .. þó það væri ekki nema fá ódýran disk.... þarf nefnilega að borga síðustu greiðslu af íbúðinni á mánudag..

Föstudagsfiðringur

Grandrokk gæti verið málið í kvöld. Fyrst er það PubQuiz sem byrjar 17:30 (3 Budweiser á krana takk). Svo er friðar og aðventumáltíð Spessa kannski maturinn í kvöld, á Næstu grösum, nema mann segi bara fokkitt og fái sér frekar blóðuga steik. Og svo kannski aftur á Grandrokk þar sem eru eru Huldar Brei og Bragi Óla að lesa upp úr bókum í sínum ásamt Mugison sem slúttar kvöldinu eins og hans er vísa og von. Ég er þegar kominn með eintak af Múrnum í Kína, einu bókinni sem sést utan úr geimnum, og auðvitað líka Mugimama plötunni, þannig að það er spurning hvort maður kaupir sér hreinlega Braga í kvöld líka og málið dautt.

Morgundagurinn er mjallhvítt óskrifað blað, en á sunnudeginum er Arsenal-Chelsea (eða öfugt?) og ætli maður drulli sér þá ekki í ræktina og horfi á leikinn af þrekhjólinu á lágmarkshraða.

Jólin eru mál málanna og lítur ekki út fyrir mikla afslöppun ef maður heimsækir alla sem mann langar að heimsækja um hátíðarnar. Vona að ég fái frí á mánudeginum 3. í jólum til að geta átt einn dag í náttfötum.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Bob Dylan fyrir byrjendur

Var beðinn um að nefna 3 lög sem gætu komið mönnum á bragðið með Dylan. Það var erfitt val að velja slíka þrennu en hér koma lögin í stafrófsröð:


I Threw It All Away
Shelter From the Storm
Love Minus Zero/No Limit
Tangled up in Blue
One More Cup of Coffee
Subterranian Homesick Blues
Girl of The North Country
Buckets of Rain
Like A Rolling Stone
Lay Lady Lay
Tonight I’ll be Staying Here With You
I Shall Be Released
Positively Fourth Street

Athyglisbrestur 1

Það lýsir orðinu jólabókaflóð vel að sumar bækur fljóta ofan á og allir eru að tala um. Þetta eru ekki endilega bestu bækurnar. Athygli mín hefur t.d. verið vakin á bók sem litla athygli hafa fengið en þykir þó fantagóð. Þetta er bókin Flóttinn eftir Sindra Freysson. Ég man eftir Sindra frá því að ég var að byrja í MR. Hann var þá í 6. bekk og mikið skáld í útliti. Skáldsagan Flóttinn gerist á stríðsárunum, fjallar um Þjóðverja á flótta undan hernámsliðinu og er komin á listann yfir bækur sem gaman væri að lesa. Kannski vek ég athygli á fleiri bókum síðar? Checkit.

miðvikudagur, desember 08, 2004

Bob Dylan Blues

Til er lag með Syd Barret, fyrrum liðsmanni Pink Floyd sem heitir Bob Dylan Blues. Þar kemur fyrir þessi textabútur:

Make a whole lot of dough but i deserve it though
I got soul and a good heart of gold
So I'll sing about war and the cold

Well the guy that digs me
Should try hard to see
That he buys all my discs in a hat.
And when I'm in town go see that.

Cause I'm a poet, doncha know it
And the wind you can blow it
Cause I'm Mr. Dylan the king
And I'm free as a bird on the wing

Af hverju er þessi ádeilutexti á goðið birtur hér? Jú, vegna þess að ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að 60 minutes þátturinn sem ég var búinn að hlakka til að sjá með viðtalinu við Dylan verði ekki sýndur á Stöð 2, amk. verði viðtalið klippt út. Ástæðan? Jú, flækjur í flutningi höfundarréttarmála tónlistarmanna milli landa. Við Íslendingar gjöldum þess.



Tvær bækur

Lestrarklúbburinn Krummi kom saman í fyrsta sinn í gær og voru tvær bækur kynntar. Halldór Laxness, ævisaga eftir Halldór Guðmundsson og Múrinn í Kína eftir Huldar Breiðfjörð. Í annarri er farið yfir stærsta rithöfund Íslands, en í hinni yfir stærsta mannvirki í veraldar.

Það var gaman að heyra af glímu Halldórs við ævi skáldsins og hljómaði margt kunnuglega frá því að ég skrifaði gagnmerka BA ritgerð um Halldór Laxness og Kristnihaldið á sínum tíma. Það er svo mikið til um Laxness, t.d. uppköst að sögum, bréf og fleira að það af svo mörgu að taka. Það er erfiðast að takmarka sig og finna formið. Svo þarf auðvitað að passa sig á tilvísununum.....Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær ég eignast þessa bók.

Bók Huldars um ferð hans um Kína er mun áhugaverðari en ég taldi í fyrstu og hlakka ég til að fá mitt eintak í hendurnar. Kína er ótrúlegur draugur í samfélagi þjóðanna - fornaldarsamfélag sem er í miðju hoppi inn í nútímann. T.d. er enginn með heimasíma, en allir með gemsa. Ég skaut að honum auglýsingahugmynd: Múrinn í Kína, eina bókin sem sést utan úr geimnum.

International John Lennon Memorial Day


International John Lennon Memorial Day
Originally uploaded by Adler.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Herra Röfl?

chatterbox
Congratulations! You're Mr. Chatterbox!


Which of the Mr. Men characters are you?
brought to you by Quizilla

mánudagur, desember 06, 2004

Tilnefningar

Það er auðvitað erfitt að tjá sig um tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna vegna þess að enginn hefur lesið allar bækurnar sem í boði eru. Spurning hvort dómnefndin hefur meira að segja gert það. Aldrei átti ég von á að sjá Bítlaávarpið tilnefnt, eftir þá döpru dóma sem sú bók hefur fengið. Um helgina las ég Kleifarvatn og finnst það ekki vera verðlaunabók, og ósanngjarnt gagnvart lesendum að gefa hana út með hörðum spjöldum, þótt hún sé vissulega alveg ágætur krimmi. Guðrún Helgadóttir? Verðlaun fyrir vel unnin störf? Svo er ein ljóðabók og ein skáldsaga eftir ungan höfund. Þetta er eins PC og hugsast getur. Ég vona að Sigfús (Andræði) eða Auður Jóns (Fólkið í kjallaranum) taki þetta. Ég hefði samt viljað sjá þau keppa við Steinar Braga, Stefán Mána og Braga Ólafs. Þessar skoðanir byggja á dómum um bækurnar, samtölum við vini og flettingum í bókabúðum. Þennan lista má einnig skilja sem óskalista fyrir jólin!

Um fræðibækurnar þýðir líklega lítið að tjá sig. Dóri&Dóri taka þetta með glans. Ég hefði þó viljað sjá Vísindabyltinguna eftir Andra Steinþór Björnsson á listanum, en það er ein áhugaverðasta fræðibókin í flóðinu í ár.

Letihelgi

Helgin sem átti að verða veikindahelgi breyttist í letihelgi. Í staðinn fyrir að hangsa og líða illa þá hangsaðist ég og leið bara ágætlega. Ef það væri til afletunarnámskeið fyrir mestu letihauga landsins þá mundi ég ekki nenna að fara á það.

sunnudagur, desember 05, 2004

Haugstofan

Oft hefur mann grunað að dagar Spaugstofunnar væru taldir en þó aldrei sem nú. Maður hefur nú stundum horft á þetta verandi heimavið á laugardagskvöldum en aldrei slökkt jafnsnemma og í gærkvöld. Hvers eiga áhorfendur að gjalda að þurfa að horfa upp á lummulega suðu upp úr ókeypis sólarlandaferð meðlima stofunnar sem kennd er við Spaug. Þetta hlýtur að vera orðið gott og tími til kominn að leiðir þjóðarinnar og stofunnar skilji.
ÆÆÆ hefur maður ekki sagt þetta svo oft áður. Það er reyndar orðið þannig að það er bara eitt lúðalegra en Spaugstofan, það er að gagnrýna Spaugstofuna.

föstudagur, desember 03, 2004

Tveir gimsteinar

Rakst á sjaldgæfan gimstein á TCM stöðinni á Digital Ísland í gærkvöld. Þar var á ferðinni kvikmyndin Pat Garret & Billy the Kid. Svalur og rólegur vestri þar sem James Coburn eltist við Kris Kristofferson. Fyrir suma er hápunktur myndarinnar þegar Coburn/Pat Garret er í rúminu með fjórum konum í einu, en það sem mér fannst mest um vert er að Bod Dylan fer með stórt hlutverk í myndinni, leikur hnífakastarann Elías, grannur, flottur með pípuhatt og leðurhanska. Einnig sér Dylan um tónlistina í myndinni og er frægasta lagið auðvitað "Knocking on Heaven's Door". Snilldarræma.

Annað um Dylan. Fyrir stuttu var "Like a Rolling Stone" valið besta rokklag allra tíma. Auðvitað. Það sem færri vissu að það munaði engu að lagið kæmi bara ekkert út. Frá þessu er greint í Nýja Jórvíkurtímanum í dag. Eru allir markaðsmenn svona vitlausir?



fimmtudagur, desember 02, 2004

Og sigurvegarinn er.....

Í Úkraínu bítast tveir menn um völdin, Viktor Jústsénko og Viktor Janúkóvitsj. Umdeildar kosningar fóru fram. Báðir segjast vera sigurvegarar. Og báðir hafa rétt fyrir sér því nafnið Viktor þýðir sigurvegari.

Hitt er svo annað mál að Kristján Jóhannson var eins og fæðingarhálfviti í Kastljósinu í gær. Kristján, ef þú ert að lesa þetta, nú er þú sá klassíski listamaður sem náð hefur hvað lengst af mörgum góðum íslenskum. Finnst þér því ekkert skrýtið við það að það þurfi að borga þér 700 þúsund, hvað þá 1,7 milljónir, fyrir að hjálpa krabbameinssjúkum börnum? Þú átt þakkir skildar fyrir þitt framlag, svo langt sem það náði, en það breytir því ekki að þú ert dóni.