föstudagur, september 30, 2005
Saga þingræðis?
Þorsteinn Pálsson á að skrifa sögu þingræðis á Íslandi. Það er nefnilega það. Hann verður eflaust eldsnöggur að þessu, þetta verður varla meira en bæklingur enda hefur alþingi engin völd þannig. Það væri frekar að skrifa bækur um ráðherraræði - nú eða ráðherraæði á Íslandi. Lítinn bókaflokk.
Lagt hald á gögn?
"Lagði sýslumannsembættið hald á þau gögn, sem fréttastjóri blaðsins hafði undir höndum." Nazi Germany anyone? Þetta er að breytast í hryllingssirkus.
fimmtudagur, september 29, 2005
Tölvupóstar og blöggsíður
Það er skemmtilegt til þess að vita að Davíð Oddsson skilar af sér embætti og skilur eftir 7.000 óopnaða tölvupósta. Að vísu eru flestir þessara pósta örugglega um penis enlargement, viagra og ódýrar háskólagráður en eflaust eru þarna á milli skemmtilegir póstar t.d. frá umboðsmanni alþingis, mæðrastyrksnefnd, Þjóðhagsstofnun og fleirum sem hafa átt erindi við manninn. Eru ekki einhver lög um að svara þurfi öllum erindum? Kemst maðurinn upp með að opna ekki umslögin sem honum berast? Af hverju þá ekki tölvupóst?
Mér fannst líka fyndið þegar Davíð sagði: „Ég veit ekkert hvað er skrifað um mig í tölvupóstum, það eru alls konar hlutir skrifaðir um mig í tölvupóstum - já og blöggsíðum.“
Svo er verið að tala um að kallinn hafi verið frekar naskur á samtíma sinn? Það finnst nú höfundi þessarar blöggsíðu ekki alls kostar rétt.
Besta lagið
Þótt mamma þín sé eins og þrumuský,
er óþarfi að gera mál úr því
að pabbi þurfi að vinna í nótt.
Hann þarf að hitta mennina
Hann þarf að hitta mennina
og fara aðeins með þeim niðrí bæ
Pabbi þarf að vinna í nótt.
miðvikudagur, september 28, 2005
RÚV og Stöð 2 skiptast á mönnum
Þetta er orðið eins og í boltanum, fjölmiðlarnir skiptast á mönnum. Logi í Krókhálsinn og Þórhallur á RÚV. Hvernig líst mönnum á þau skipti?
Síðan sting ég upp á að Freyr Eyjólfsson verði spyrill í Gettu betur.
þriðjudagur, september 27, 2005
Logi Bergmann á Stöð 2?
Það er góð fjárfesting hjá Stöð 2 segi ég. Hver á að lesa fréttirnar almennilega á RÚV? Hver verður þá spyrill í Gettu betur? Á Gísli Marteinn að vera einn í Eurovision?
Nokkrir góðir dagar hjá Davíð
Ætlaði að gera tímalínu um feril Davíðs en nennti ekki gera meira en þetta. Gjörið svo vel: Best of Davíð
10. mars 1991 Davíð Oddsson kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins.
29. maí 2002 sendir Styrmir Jónínu svohljóðandi tölvupóst: "Jón Gerald hringdi í Jón Steinar seint í gærkvöldi að íslenzkum tíma. Jón Steinar bað hann um að hringja á skrifstofuna í dag þar sem hann átti ekki gott með að tala við hann og á von á því að hann hringi eftir hádegið."
13.-16. júní 2002 Jiang Zemin forseti Kína kemur í heimsókn og eru Falun Gong menn og ýmsir aðrir af austrænu bergi brotnir settir í kennslustofufangelsi í Njarðvíkurskóla og á kerfisbundinn hátt er komið í veg fyrir að þeir lendi í sjónlínu við gestinn góða.
1. júlí 2002 segir Styrmir: "Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af þessu með Jón Steinar. Hann er algjörlega pottþéttur maður. Þegar ég talaði um þetta mál við Jón Steinar hafði ég Kjartan með. Þetta er eins innmúrað og innvígt eins og nokkur hlutur getur verið. Ég þekki hins vegar ekki samband Jóns Steinars og Tryggva og mun kanna það. En það er alveg sama hvaða menn Jón Steinar þekkir. Tryggð hans við ónefndan mann er innmúruð og ófrávíkjanleg og þess vegna þurfið þið Jón Gerald ekki að hafa nokkrar áhyggjur"
lok ágúst 2002 - Hreinn Loftsson og Davíð Oddsson hittast á fundi í London, Hreinn segir Davíð frá því að líklega þurfi að gera eins og Kári Stefánsson, láta Davíð fá 300 milljónir til að Davíð láti af andstöðu sinni við Baug.
Davíð upplýsir Hrein um að aðgerðir af hálfu opinberra yfirvalda liggi í loftinu. Hreinn segir Davíð hafa minnst á Jón Gerhard Sullenberger sem hafi gögn um slæma viðskiptahætti Baugs. Davíð segir það vera þvætting, hann hafi ekkert vitað um Sullenberger, eða hvað sem hann heiti sá ágæti maður.
apríl 2003: Húsleit í Baugi.
20. des. 2003: Samþykkt lög um stóraukin eftirlaun ráðherra.
apríl 2004: Steingrímur J. kallar Davíð gungu og druslu
maí 2004: Lög um fjölmiðla samþykkt á alþingi
maí 2004: Forseti neitar að staðfesta lög um fjölmiðla
Mars 2003: Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson setja Ísland á lista staðfastra þjóða með innrásinni í Írak.
29. nóv 2004: Davíð Oddsson kallar Samfylkinguna afturhaldskommatittsflokk.
ágúst 2005: Ákærur þingfestar fyrir héraðsdómi
september 2005: Ákærum vísað frá héraðsdómi
september 2005: Davíð Oddsson hættir í stjórnmálum.
Davíð hættur
Góðu fréttirnar eru þær að Davíð Oddsson er hættur. Vondu fréttirnar eru þær að Geir Haarde kom í staðinn. Þær eru ekki margar kosningarnar sem Davíð Oddsson tapaði en þó var hann aðeins farinn að fölna undir lokin, ekki lengur 1. þingmaður Reykvíkinga og svo framvegis. Ég óska Davíð Oddssyni góðs gengis í baráttunni við verðbólguna í Seðlabankanum.
Í gær bárust þær gleðifréttir að fjölgað hafði í genginu á Óðinsgötunni. Eru þeim og þeirra fólki hér með færðar bestu hamingjuóskir í heimi. Búist er við að Heiða stórasystir sendi frá sér yfirlýsingu um málið í Morgunblaðinu á morgun.
Mun ekki horfa á íslenska piparsveininn á Skjá einum. Átti reyndar ekki von á því svona fyrirfram en sá brot úr þessum óbjóði áðan. En svona er raunveruleikinn.
Mér finnst reyndar gæta mikils misskilnings hjá gagnrýnendum raunveruleikasjónvarps. Þar eru yfirleitt hámenntaðir sérfræðingar á ferðinni sem þykjast þekkja raunveruleikann betur en svo að þeir þekki hann þegar hann birtist á skjánum í raunveruleikaþáttum. Það er út af fyrir sig rétt að raunveruleikinn sést ekki í sjónvarpinu, vegna þess að raunveruleikinn (eða raunveruleikurinn) er ekki einn, heldur ótal margir. Það sem er slæmt við raunveruleikaþættina svokölluðu er að í þeim er verið að velta sér upp úr öllu því lægsta og ómerkilegasta sem mannskepnan hefur upp á að bjóða. Hræsni, hroki og heimska í úrvali, sjá nánar á dagskrársíðum sjónvarpsstöðvanna.
mánudagur, september 26, 2005
Sá sem ekki má nefna
Ónefndi maðurinn er Voldemort íslenskra stjórnmála. Hmmm. En hver er þá Harry Potter?
Athyglisverð helgi
Þetta hefur verið athyglisverð helgi að mörgu leyti og maður les blöðin með óbragð í munninum. Nóg um það.
Sáum Kalla og sælgætisgerðina á föstudag, þvílík skemmtun - algjör nammidagur í bíó.
Fórum í heimsókn í bústað í Borgarfirðinum og grilluðum nautalund, þó ekki úr Guttormi, of lítil til þess. Skrabblað og Fimbulfambað fram á nótt.
Sjálf fengum við svo fullt af góðum gestum og allt í gangi. Lauk svo Njálu á sunnudagskvöld eftir að sjá Kallakaffi sem ég var ekki hundóánægður með þótt íslenskur dósahlátur hljómi hálfbjánalega.
Í dag er mánudagur og spáð ofsaveðri um land allt, ekki aðeins á síðum dagblaðanna.
föstudagur, september 23, 2005
Kysstur af vændiskonu
Já, segiði svo að maður lifi bragðdaufu lífi. Fórum á Edit Piaf í Þjóðleikhúsinu í gær og í upphafi sýningarinnar streyma vændiskonur um salinn og heilsa upp á fyrrum viðskiptavini sem sitja í salnum. Ég sat út á enda og var svo heppinn að fá eina í fangið og smellti hún einum á röflarann. Þar var á ferðinni hin frábæra leikkona og mín fyrrum skólasystir Sólveig Arnarsdóttir sem ég hef lengi spáð miklum frama á fjölum og filmu.
Þessi óvænta byrjun gaf tóninn fyrir frábæra sýningu, en líklega eru allir leiðir á góðum dómum um Edit Piaf sem hefur gengið lengur en elstu leikhúsmelir muna. Því segi ég bara, drífið ykkur að sjá þetta, örfáar sýningar eftir --- og reynið jafnvel að fá sæti úti í kanti.
Annars er frekar dauflegt um að litast í kollinum á mér. Hvernig er stemmningin þarna úti?
Eitthvað á þessa leið? Eitt af mínum uppáhalds:
Lengir nóttu, lúta höfðum blóm,
laufið titrar fölt á háum reinum,
vindur hvíslar ömurlegum óm
illri fregn að kvíðnum skógargreinum,
greinar segja fugli og fuglinn þagnar.
fimmtudagur, september 22, 2005
Þraut
Man ekki hvort ég var búinn að blogga þessa skemmtilegu þraut.
Látið mig vita hvernig ykkur gengur, you clever you.
PR stríðið heldur áfram
Mér fannst Arnar Jensson vera með fínt PR fyrir Ríkislögreglustjóraembættið í þáttunum í gær. Kom vel fyrir, átti sviðið einn og hljómaði skynsamlega þar sem hann útskýrði hitt og þetta. Hann vann inn nokkur stig fyrir ákæruvaldið með þessari framgöngu.
Baugur er hins vegar ennþá yfir í stríðinu, ekki síst eftir harðorða yfirlýsingu Jóns Ásgeirs núna áðan þar sem hann hakkar Arnar og félaga í sig og bendir aftur á allt klúðrið - sem er í fullkomnu samræmi við allt það sem Baugsmenn hafa haldið fram frá byrjun.
Stay tuned.
Njála
Er að lesa Njálu, þá stórfyndnu bók. Í gær lá ég í krampa yfir þessum kafla þegar Ólafur Pá gefur Gunnari hundinn Sám.
En að skilnaði mælti Ólafur til Gunnars: "Eg vil gefa þér þrjá gripi, gullhring og skikkju er átt hefir Mýrkjartan Írakonungur og hund er mér var gefinn á Írlandi. Hann er mikill og eigi verri til fylgdar en röskur maður. Það fylgir og að hann hefir mannsvit. Hann mun og geyja að hverjum manni þeim er hann veit að óvinur þinn er en aldrei að vinum þínum því að hann sér á hverjum manni hvort til þín er vel eða illa. Hann mun og líf á leggja að vera þér trúr. Þessi hundur heitir Sámur."
Síðan mælti hann við hundinn: „Nú skalt þú Gunnari fylgja og vera honum slíkur sem þú mátt“
Það er ekkert verið að siga hundinum eða neitt, bara ávarpaður eins og öldungarnir í sveitinni.
Einnig var ég að velta fyrir mér kaflanum þegar Kári kemur Njálssonum til bjargar, er þetta einstakt dæmi í hinum klassísku Íslendingasögum þar sem maður siglir inn í söguna ókynntur, ekkert "Kári hét maður og var Sölmundarson, var hann mann best vígr...." etc.
Er Kári ekki einhvers konar endurholdgun Gunnars? Hann notar amk. svipuð trix í bardögum....
Tilboð
Hmmm, útsala á nautakjöti í Nóatúni. Hmmmm. Einhverjir verið að róta í gæludýragarðinum í Kjósinni? Drottinn veit þeim látnu ró, en hinum líkn er lifa.
Ég er ánægður með tónlistarhúsið. Mjög ánægður. Þeir hafa líka unnið vinnuna sína vel, sigurliðið, hvernig gætu þeir tapað fyrst þeir geta límt límmiða með nöfnum Elíassonar og Askhenazy á tillöguna sína?
þriðjudagur, september 20, 2005
Tröllaukinn flokkur?
"Öryggisráðið er peð í valdatafli Framsóknar" er fyrirsögn á pistli hjá Össuri vini mínum. Ef þetta er ekki öfugmælavísa vikunnar....
Baugsmáli vísað frá!
Þarf þá ekki að vísa fleirum frá? Þurfa ekki einhverjir að fjúka? Hvar eigum við heima?
mánudagur, september 19, 2005
UN-interested?
Ég held að andstæðingar þess að Íslendingar sitji í Öryggisráðinu hafi unnið mikinn sigur í vikunni. Það hlýtur að vera nær ógerlegt að þjappa þjóðinni á bak við öflugt framboð hér eftir og er það fyrst og fremst vegna þess að málið er illa unnið - eða ættum við frekar að kalla það óunnið?
Enginn veit hver markmiðin eru, hvað þá að liggi fyrir áætlun um hvernig því markmiði skuli náð. Gefið hefur verið í skyn að það sé verið að kasta heilum milljarði í kokkteilboð og silkihúfusamsæti með því að sækjast eftir þessu sæti. Ég er ekki viss um að það sé rétt.
Ég er viss um að allir Íslendingar væru á móti því að setja einn milljarð í framboð til Öryggisráðsins, en ef spurningunni væri snúið við og spurt: Ertu til í að Íslendingar, ein auðugasta þjóð veraldar, auki framlög sín til þróunarmála um einn milljarð, þá væru menn eflaust ekkert afhuga því.
Þá þyrftu menn kannski líka að spyrja sig: Viltu að Íslendingar hafi stefnu í utanríkismálum eða ekki? Ég held því fram að ríkisstjórnin sé algjörlega stefnulaus, nema menn vilja vera með lágmarks viðveru í friðargæslunni. Íslenska friðargæslan er eins konar fjarvistarsönnun, svona rétt til að komast á blað. Íslendingar hafa margt að segja og mikið fram að færa.
Saga íslensks uppgangs er ekki löng. Það má til dæmis færa rök fyrir því að ég sé af annarri, jafnvel fyrstu, kynslóð Íslendinga sem ekki hefur búið í þróunarlandi. Við ættum að geta miðlað af þeirri reynslu og árangri okkar og sýnt að það er hægt að öðlast frelsi og komast í álnir á skjótan en samt friðsælan hátt.
Getur utanríkisstefna Íslendinga ekki haft þá sérstöðu að deila þessari reynslu og segja þessa sögu?
Maoríar á Blönduósi
Þau eru kannski full dýr bleikjuflökin sem verða pönnusteikt á Reynimelnum í kvöld - en veiðimennirnir sjá þó ekki eftir neinu.
Farið var á tveimur bílum norður á laugardagsmorgni og netin lögð. Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður í Esso skálanum á Blönduósi og bjór hafður um hönd á gistiheimilinu sem stendur við hinn raunverulega Blönduós, ekki langt frá Brauðgerðinni Krútt. Svo var haldið á réttardansleik þar sem danshljómsveitin Úlrik lék fyrir dansi. Sveitin kom á óvart og náði upp miklu stuði.
Réttara nafn fyrir ballið væri kannski sláturdansleikur, því þarna ægði saman allra þjóða kvikindum sem voru flutt inn til að ganga af íslensku sauðfé dauðu. Átti ég ágætt tal við böðla ýmissa þjóða, jafn pólska sem sænska en athyglisverðastir voru tveir sláturfélagar sem fluttir voru langan veg að. Tel ég ljóst að forsvarsmenn sláturiðnaðarins hafi metið stöðuna þannig að þörf væri á maórískum stríðsmönnum til að fást við viðskotaversta sauðfé og létu þeir félagar vel af launakjörum. Ég sagði þeim að þótt þeir væru að fá helmingi meira en þeir fengju í Nýja Sjálandi þá fengju þeir samt helmingi minna en Íslendingar fengju í laun. Létu þeir sér fátt um finnast enda gaman að koma hingað yfir hálfan hnöttinn til að murka líftóruna úr besta kjöti í heimi.
Auðkúluheiðin skartar sínum fegurstu haustlitum og var Mjóavatnið bærilega gjöfult þannig að aflatekjur sluppu fyrir horn og ætti að duga í eina máltíð fyrir tvo and then some.
föstudagur, september 16, 2005
fimmtudagur, september 15, 2005
Andlausi dagurinn
var haldinn hátíðlegur í dag. Ég kenni því um að hafa horft á tvo leiðinlega fótboltaleiki í athvarfinu í gær. Meistaradeildin veldur mér vonbrigðum, sem er kannski eðlilegt í ljósi þess að hún er að skríða af stað og menn fara sér varlega. Leitt að Rooney hafi verið rekinn út af fyrir að klappa dómaranum lof í lófa. Eru ekki til einhver meðferðarúrræði fyrir pilt? Hefur kerfið brugðist honum?
Mæli með krabbasalatinu í Fylgifiskum. Vá hvað það er gott!
Hafa menn tekið eftir dularfullu auglýsingunum með andlitinum í blöðunum? DV uppýsti í dag að eitt þeirra væri Þorgerður Katrín í karlmannsgervi. Á morgun verður upplýst hvað hér er á ferðinni og verður spennandi að sjá, ha.
Íbúðin á móti, sem staðið hefur auð síðan að, og ef til vill vegna þess, fluttum inn, hefur verið seld, það þýðir að ég þarf bráðum að hætta að spranga um nakinn. Þarf að finna þennan bölvaða náttslopp.
miðvikudagur, september 14, 2005
mánudagur, september 12, 2005
Verra veður?
Er ég einn um það, eða hefur ekki verið almennt verra veður hérna eftir að Davíð tilkynnti að hann mundi hætta? Er náttúran jafn skekin og við, ef okkur skyldi kalla? Hafa lögmálin verið tekin úr sambandi eins og smásögunni hans Andra Snæs? Er, með öðrum orðum, kannski allt á leiðinni til helvítis? Það skyldi þó ekki vera. Alla vega skilst manni að Ísland hafi nú verið hálfgert helvíti á jörð áður en Davíð tók við stjórnartaumunum af alkunnri náð sinni. Heill þér öldungur, heill þér meistari. Gefðu okkur góða veðrið aftur.
Varð svo heppinn að sjá, að ég held, heimsfrumflutning á nýju lagi eftir Nick Cave um helgina í flutningi Ólafs Darra í Tjarnarbíói. Minntist þess þá þegar ég sá þann hinn sama á sama stað eiga stórleik í Sweeney Todd fyrir margt löngu. Margt hefur breyst. Þá var Darri bara í skólaleikriti, en nú var hann að frumflytja lag sem ber meistara sínum fagurt vitni. Mikið er mannanna bröltið, segjum við goðin.
Strákarnir ykkar
Var ekki nógu sáttur við myndina Strákarnir okkar. Fullt af lúmskt fyndnum atriðum og í heildina litið ekki leiðinlegt, en það var eins og myndin vissi ekki hvert hún væri að fara. Frekar eins og lagt hefði verið upp með sögu um homma, en síðan ákveðið á seinni stigum að nota frekar öll fyndnustu klippin og vona það besta. Þess vegna varð sagan sjálf bara flöt og asnaleg og aðalpersónan náði aldrei neinu momentum eða almennilegu drama. Unglingurinn var góður og mamma hans líka og Jón Atli flottur.
Mér hafði verið sagt að gallað eintak hafi verið frumsýnt og nýtt ætti að vera komið í bíóhús, en kommonn. Hljóðið var ónýtt á köflum og litaleiðrétting ekki skárri. Þetta gengur ekki strákar.
Helgin annars góð, enn ein frægðarför á Pöbbkvissið, nú mæta manni bölbænir á Grandaranum því ég hef ekki tapað síðustu skipti sem ég hef mætt. Hvað er til ráða?
Róleg helgi sem vonandi markar mikla framför í endurhönnun R-39. Kominn tími til að dangla í klárinn á þeim bænum.
Reyndar eru uppi spennandi hugmyndir um óvæntan sumarauka, en meira um það síðar.
föstudagur, september 09, 2005
Auglýsingaiðnaðurinn kvaddur
Verðið skiptir máli. Ég læt ekki bjóða mér okur auglýsingastofanna lengur. Hér eftir beini ég öllum mínum viðskiptum til Mánahönnunar .
Áhugafólki um labb er bent á gönguna í fyrramálið þar sem gamla leiðin á Þingvelli verður farin til minningar um Þorstein Gylfason. Þetta er sama leiðin og Ludvig Wittgenstein fór (reyndar á hestbaki) þann 14. sept 1912. Lagt af stað frá Grænuhlíð 19 kl. 7:00 í fyrramálið og farið með bílum upp að Rauðavatni og gengið þaðan. Verða þátttakendur svo fluttir til baka með rútu seinni part dags.
Skrifstofurými Inntaks er að taka á sig mynd og gengur hraðar en framkvæmdir á Reynimel. Hmmm.
fimmtudagur, september 08, 2005
miðvikudagur, september 07, 2005
Hádegisverðurinn er aldrei vondur
Þá er komið að því að birta niðurstöður mínar af hálfs árs rannsóknum á hádegisverðum miðborgarinnar.
Ég deili með ykkur, kæru lesendur, því sem er mér finnst best í belginn á nokkrum sviðum, og enda á því að tilnefna besta matinn -allt á viðráðanlegu verði innan fimm mínútna göngu frá Austurstræti.
Besti skyndibitinn: Bæjarins bestu.
Besti oriental maturinn: Kínahúsið
Besti thai maturinn: Krua Thai
Besta kaffið: Segafredo
Sérkennilegasti staðurinn: Sægreifinn, Verbúð 8.
Bestu frönsku kartöflurnar: B5
Besti hamborgarinn; 101
Oftast farið á: Hressó
Og besti maturinn: Ostabúðin, Skólavörðustíg. Dásamlegir fiskréttir á 940 kall.
Þar hafið þið það. Einhverjar spurningar?
Veggjald
Heyrði ég rétt í Halldóri Ásgrímssyni að það ætti að taka veggjald á Sundabrautinni þegar hún loksins verður lögð fyrir Símapeninginn? Það á greinilega ekki að vera ódýrt fyrir íbúa Höfuðborgarsvæðisins að stytta sér leið.
þriðjudagur, september 06, 2005
Óskablogg: Fagmennska í auglýsingamennsku
Í þessu fyrsta óskabloggi var ég beðinn um að fjalla um fagmennsku í auglýsingamennsku. Í fljótu bragði má segja að þetta tvennt fari alls ekki saman, en kannski er það full ódýr lausn á þessu. Mér finnst athyglisvert að beiðandi bloggsins notar orðið auglýsingamennska sem er vinsælasta blótsyrði vinstri-grænna. Sá stjórnmálaflokkur grætur enn að hafa klúðrað kosningabaráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar en þá skemmdu slappar auglýsingar fyrir þeim meðan snjallar auglýsingar hjálpuðu Framsókn. Í stað málalenginga kom Framsóknarflokkurinn fram með 2-3 einföld mál sem voru gerð skil í sjónvarpsauglýsingum sem byggðust á einföldum og smellnum hugmyndum. Miklu auðveldara að styðja slík einföld mál heldur en almennt orðað þvaður um að auka áherslu á samráð um ráðstöfun ákveðinna svæða landsins bla bla bla.
Hér er því komið dæmi um fagmennsku í auglýsingamennsku, og er orðið auglýsingamennska þá skilin á jákvæðan hátt. Auglýsingamennska sem slík er þó lítils virði ef -mennska hlutinn er tekinn frá, þ.e. ef ekki er innistæða fyrir auglýsingunni. Þá er betur heima setið, en af stað farið. Hið sama gildir um fagmennskuna. Ef fagið sjálft ræður öllu án tillits til mannlega þáttarins þá er betra að bíða heima. Fagmennskan snýst því ekki eingöngu um tæknilegar hliðar, heldur einnig að geta talað til fólks um eitthvað sem skiptir það máli, alla vega þegar auglýsingar og boðskipti (kemur það ljóta orð) eru annars vegar.
Þegar horft er á íslenskar auglýsingar gefur fátt að líta sem bendir til þess að fagmennskan nái alla leið. Börkur Arnarson á Íslensku auglýsingastofunni talar um að íslenskar auglýsingar séu „þar sem skást er best“. Semsagt: Ekkert æðislegt.
Hvað finnst ykkur? Getið þið nefnt einhverjar frábærar íslenskar auglýsingar?
Endasleppt blogg? Nja....
mánudagur, september 05, 2005
Hommar í fótbolta
Ég var fyrir miklum vonbrigðum með myndina þar sem hommarnir voru í fótbolta. Og sjónvarpið með þetta á besta tíma milli 6 og 8 á laugardaginn.
Ég ætla hins vegar að sjá myndina Strákarnir okkar eftir að fullkláraða eintakið af myndinni kemur til landsins á morgun eða hinn.
Óskablogg um auglýsingamennsku og fagmennsku er í smíðum.
Farvel Franz
Stórkostlegir tónleikar á föstudaginn í krika Kaplans. Gaman að heyra svona mikið af nýjum lögum í bland við þessu "gömlu" góðu. Take me out var reyndar kynnt sem gamall standard. Stuðið var gott. Ef myndin prentast vel má sjá hálfgríska guðinn Alexander Paul Kaprano standa ofan á bassatrommunni.
Borðuðum á tælenska staðnum SÍAM fyrir tónleikana sem var hlaðinn stórstjörnum og fór mitt gamla goð Jón Kr. Gíslason, fyrrum landsliðsfyrirliði í körfuknattleik, þar fremstur í flokki. Eftir tónleikana var Kaffibarinn sóttur heim, enda gleymast gömlu kynnin ei. Menn eru þó hættir að dansa þar uppi í borðum held ég. Við Gummi tókum þó smá syrpu og helltum niður bjór og eitthvað.
Daginn eftir ætlaði ég að fara aðeins rólegar í hlutina og fórum við í rólegt þrítugsafmæli. Kom heim klukkan sex um morguninn eftir nátthúfu í híbýlum aðalsprautu hljómsveitarinnar Delicia Mini.
Í gær var fyrsti fótboltatíminn í KR heimilinu. Stutta að fara. Lífið í Vesturbænum er sweeeeeeeet.
föstudagur, september 02, 2005
Óskabloggið
Hefst nú liðurinn óskablogg. Hann felst í því að lesendur mega leggja inn beiðni um blogg um ákveðin málefni og verður orðið við því.
Þetta verður spennandi að sjá enda er allt vaðandi í kommentum á þessari síðu...
Hátæknisjúkrahús?
Getur einhver sagt mér hvað það er?
Franz Ferdinand leikur fyrir dansi í Kaplakrikanum í kvöld og verður gríðarleg stemmning á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Stefnt er að kvöldverði þar í grennd og gott væri að fá ábendingar um góð veitingahús í borginni. A Hansen? Tilveran? Síam? Eru fleiri?
Á morgun þarf ég að fara upp í sumarbústað og gera klárt fyrir veturinn svo það frjósi ekki vatn í leiðslum og allt skemmist. Það væri nú verra. Reyndar er bústaðurinn tryggður fyrir margfalt söluandvirði....Hmmm hugmynd.
Ef einhver hefur gaman af því að setja saman Billy bókaskápa þá er sá hinn sami velkominn í heimsókn um helgina.
fimmtudagur, september 01, 2005
Útlendingar sendir í sláturhúsin
Nú vill enginn Íslendingur með Íslendingum vinna í sláturhúsi, ekki frekar en á leikskólum eða hjúkrunarheimilum eða í fiski, höfuðatvinnuvegum láglaunaþjóðarinnar. Er þetta ekki Kárahnjúkavandinn í hnotskurn, ruðningsáhrif virkjanaframkvæmdanna eins og það er kallað. Þensla. Umframeftirspurn eftir vinnuafli. Til hvers að slátra kind þegar þú færð meiri pening fyrir að steikja hamborgara. Til hvers að passa barn þegar þú færð meiri pening fyrir að passa upp á að gólf séu hrein. Erfiðar spurningar? Tja.
Sumir mundu segja að trixið væri að hækka launin í leikskólunum, foreldrarnir væru sáttir við það, en mundu þá ekki Samtök atvinnulífsins rísa upp á afturlappirnar og segja að hið opinbera væri að skapa óeðlilegt launaskrið og svo framvegis og verðbólgan væri að æða af stað bla bla bla.
Það er vandlifað.
Skilst að Billy sé mættur á svæðið. Það eru gleðifréttir.