Hárið hefur fengið fjölmarga slæma dóma síðan það var frumsýnt um daginn. Þetta er ekki einn af þeim. Við áttum ágæta kvöldstund, sérstaklega framan af.
Auðvelda leiðin til að nálgast þetta er að bera sýninguna saman við Hárið fyrir 10 árum, þegar Baltasar Kormákur sló í gegn sem leikstjóri. Það er samanburður sem er Rúnari Frey ekki hagstæður. Að vísu má virða honum til vorkunnar að Austurbær er ekki eins meðfærilegt leikrými og Óperan en samt verður að segja að mér finnst sumir þættir í uppfærslunni vera heldur hugmyndasnauðir og er þá fyrst að nefna sviðsmyndina sem er mjög daufleg og ýmsar lausnir tengdar henni fannst mér frekar klúðurslegar, t.d. atriði í lokin þegar hópur dansar fremst á sviðinu en aftar á því eru hermenn eitthvað að dandalast fyrir aftan og ofan tröppur sem eru þungamiðja leiksviðsins. Fyrir ofan þetta allt sjáum tónlistarmennina athafna sig hver í sínum glugga.
Tónlistin er reyndar að mínu mati sterki punkturinn í þessari sýningu. Ég mundi segja að ég þekki þessi lög frekar vel og oft á tíðum hríslaðist gæsahúðin fram, sérstaklega í upphafslaginu (Að eilífu) sem Sverrir Bergmann söng og lögin sem Selma söng (að frátöldu laginu Blikandi stjörnur sem mér fannst ekki ganga upp). Einnig var gaman að heyra Regínu Ósk þenja sig. Mér fannst hins vegar ungu strákarnir tveir Þorvaldur Davíð og Idol strákurinn ekki góðir - og báðir frekar dauflegir út alla sýninguna. En hljómsveitin var góð og tónlistin rokkuð og flott. Etv. hefði þó verið gaman að fá aðeins meiri fjölbreytni, t.d. einhver blásturshljóðfæri og strengi, en allt slíkt er sparað til að rýma fyrir rokkinu.
Sparnaður er reyndar hugtak sem á við fleiri þætti. Það á þó ekki við leikgleðina, því krakkarnir höfðu öll mjög gaman af þessari sýningu. Það er gaman að sjá ný andlit koma fram á sjónarsviðið og í mínu starfi þarf maður að hafa augun opin fyrir nýjum talentum. Ég hef reyndar unnið með Birni Thors, Unni Ösp, Ilmi og Hilmi og hef af þeim ekkert nema gott að segja.
Björn Thors: Upprennandi stjarna, ekki bara hæfileikaríkur heldur einnig duglegur.
Guðjón Davíð: Mjög hress og skemmtilegur, með fínar tímasetningar í gríni
Jóhannes Haukur: Mér fannst hann dauflegur til að byrja með svo vann hann sig upp i að vera einn sá besti og sá eini sem mér fannst ná einhverri dramatík í lokin (meira um það síðar)
Selma: Ágæt sem Sheila, brilljant sem sýrutrippisleg mamma Claude, afburða söngkona.
Unnur Ösp: La la. Veit hún getur meira.
Ilmur Kristjánsdóttir: Náttúrutalent í gríni.
Hilmir Snær: Skör ofar en aðrir leikarar, ósanngjarnt að bera nýju andlitin saman við Hilmi reyndar. Túlkunin á Hud minnti mig reyndar á Gary Oldman í True Romance, en sú leið er líklega val leikstjórans.
Minni spámenn voru minni spámenn. Prófessjónal dansararnir stóðu þó vel fyrir sínu.
í heildina litið er Hárið ágæt skemmtun. Mér leiddist ekkert fyrr en á síðasta hálftímanum og komum við þar að brotalöm verksins. Það er sett upp sem hress sumarsöngleikur með mörgum mögnuðum lögum, þótt samhengið sé brotakennt þá er ákveðin dramatík og saga sem verkið snýst um og verður að halda til haga til að það virki sem leiksýning. Mín persónulega upplifun var að ekki hefðir verið almennilega á hreinu hvað ætti að gera við dramatíkina, þegar Berger er dreginn í herinn og ahrifin sem það hafði á Claude, Sheilu (samband þeirra Bergers var fullkomlega óskýrt og óunnið) og hina krakkana. Það var í stil við þann afgreiðslu-brag sem mér fannst vera á sýningunni, eins og leikhópurinn gæti ekki beðið eftir þvi að syngja "Lifi ljósið". Fyrir vikið fannst mér Hárið vera, eins og gervitattúið á leikurunum, flott fyrst en varð æ óskýrara og dauflegra eftir því sem á leið sýninguna.
ps. Margumrætt nektaratriði er greinilega aðeins hugsað til að kveikja athygli á sýningunni enda þjónar það litlum sem engum tilgangi í verkinu að mínu mati og bætir engu við. Það fær mann til að hugsa: Hverjir eru framleiðendur að þessu verki? Venjulegast er það tekið fram, en ég finn hvergi neitt um það. Hver hirðir gróðann af þessum sumarsmelli eða situr uppi með tapið ef svo ber undir?