þriðjudagur, júlí 27, 2004

Loksins gómuðu þeir Bobby Fischer!

Það berast gleðifréttir frá Japan þar sem geðsjúklingurinn og brjálæðingurinn Bobby Fischer var loksins gómaður, en eins og menn vita hefur hann um árabil verið eftirlýstur vegna brota á viðskiptabanninu við Júgóslavíu (1992 minnir mig), þegar hann tefldi við Spasskij á júgóslavneskri grundu. Hugsið ykkur, hann TEFLDI VIÐ SPASSSKÍJ!!

Þegar mesta fögnuðinum lýkur geta menn etv. einhent sér af krafti í að góma aðra tvo glæpamenn en félagarnir og stríðsglæpamennirnir Radovan Karadzic og Ratko Mladic ganga enn lausir. Þeir hafa verið ákærðir fyrir tilraun til þjóðarmorðs og glæpi gegn mannkyninu með starfrækslu útrýmingarbúða, pyntingum, skipulögðum nauðgunum og fjöldamorðum, m.a. fyrir að hafa fyrirskipað morð á 6.000 múslimum í Srebrenica.

Er það ekki fullkomin hræsni að handtaka og ákæra Bobby Fischer í ljósi þess að bæði þessi mannskrímsli geta um frjálst höfuð strokið?

mánudagur, júlí 26, 2004

Hárið afgreitt

Hárið hefur fengið fjölmarga slæma dóma síðan það var frumsýnt um daginn. Þetta er ekki einn af þeim. Við áttum ágæta kvöldstund, sérstaklega framan af.

Auðvelda leiðin til að nálgast þetta er að bera sýninguna saman við Hárið fyrir 10 árum, þegar Baltasar Kormákur sló í gegn sem leikstjóri. Það er samanburður sem er Rúnari Frey ekki hagstæður. Að vísu má virða honum til vorkunnar að Austurbær er ekki eins meðfærilegt leikrými og Óperan en samt verður að segja að mér finnst sumir þættir í uppfærslunni vera heldur hugmyndasnauðir og er þá fyrst að nefna sviðsmyndina sem er mjög daufleg og ýmsar lausnir tengdar henni fannst mér frekar klúðurslegar, t.d. atriði í lokin þegar hópur dansar fremst á sviðinu en aftar á því eru hermenn eitthvað að dandalast fyrir aftan og ofan tröppur sem eru þungamiðja leiksviðsins. Fyrir ofan þetta allt sjáum tónlistarmennina athafna sig hver í sínum glugga.

Tónlistin er reyndar að mínu mati sterki punkturinn í þessari sýningu. Ég mundi segja að ég þekki þessi lög frekar vel og oft á tíðum hríslaðist gæsahúðin fram, sérstaklega í upphafslaginu (Að eilífu) sem Sverrir Bergmann söng og lögin sem Selma söng (að frátöldu laginu Blikandi stjörnur sem mér fannst ekki ganga upp). Einnig var gaman að heyra Regínu Ósk þenja sig. Mér fannst hins vegar ungu strákarnir tveir Þorvaldur Davíð og Idol strákurinn ekki góðir - og báðir frekar dauflegir út alla sýninguna. En hljómsveitin var góð og tónlistin rokkuð og flott. Etv. hefði þó verið gaman að fá aðeins meiri fjölbreytni, t.d. einhver blásturshljóðfæri og strengi, en allt slíkt er sparað til að rýma fyrir rokkinu.

Sparnaður er reyndar hugtak sem á við fleiri þætti. Það á þó ekki við leikgleðina, því krakkarnir höfðu öll mjög gaman af þessari sýningu. Það er gaman að sjá ný andlit koma fram á sjónarsviðið og í mínu starfi þarf maður að hafa augun opin fyrir nýjum talentum. Ég hef reyndar unnið með Birni Thors, Unni Ösp, Ilmi og Hilmi og hef af þeim ekkert nema gott að segja.

Björn Thors: Upprennandi stjarna, ekki bara hæfileikaríkur heldur einnig duglegur.
Guðjón Davíð: Mjög hress og skemmtilegur, með fínar tímasetningar í gríni
Jóhannes Haukur: Mér fannst hann dauflegur til að byrja með svo vann hann sig upp i að vera einn sá besti og sá eini sem mér fannst ná einhverri dramatík í lokin (meira um það síðar)
Selma: Ágæt sem Sheila, brilljant sem sýrutrippisleg mamma Claude, afburða söngkona.
Unnur Ösp: La la. Veit hún getur meira.
Ilmur Kristjánsdóttir: Náttúrutalent í gríni.
Hilmir Snær: Skör ofar en aðrir leikarar, ósanngjarnt að bera nýju andlitin saman við Hilmi reyndar. Túlkunin á Hud minnti mig reyndar á Gary Oldman í True Romance, en sú leið er líklega val leikstjórans.

Minni spámenn voru minni spámenn. Prófessjónal dansararnir stóðu þó vel fyrir sínu.

í heildina litið er Hárið ágæt skemmtun. Mér leiddist ekkert fyrr en á síðasta hálftímanum og komum við þar að brotalöm verksins. Það er sett upp sem hress sumarsöngleikur með mörgum mögnuðum lögum, þótt samhengið sé brotakennt þá er ákveðin dramatík og saga sem verkið snýst um og verður að halda til haga til að það virki sem leiksýning. Mín persónulega upplifun var að ekki hefðir verið almennilega á hreinu hvað ætti að gera við dramatíkina, þegar Berger er dreginn í herinn og ahrifin sem það hafði á Claude, Sheilu (samband þeirra Bergers var fullkomlega óskýrt og óunnið) og hina krakkana. Það var í stil við þann afgreiðslu-brag sem mér fannst vera á sýningunni, eins og leikhópurinn gæti ekki beðið eftir þvi að syngja "Lifi ljósið". Fyrir vikið fannst mér Hárið vera, eins og gervitattúið á leikurunum, flott fyrst en varð æ óskýrara og dauflegra eftir því sem á leið sýninguna.

ps. Margumrætt nektaratriði er greinilega aðeins hugsað til að kveikja athygli á sýningunni enda þjónar það litlum sem engum tilgangi í verkinu að mínu mati og bætir engu við. Það fær mann til að hugsa: Hverjir eru framleiðendur að þessu verki? Venjulegast er það tekið fram, en ég finn hvergi neitt um það. Hver hirðir gróðann af þessum sumarsmelli eða situr uppi með tapið ef svo ber undir?

föstudagur, júlí 23, 2004

html og hárið

Var eitthvað að reyna að fikta í html dótinu á þessari síðu til að setja inn linka og eitthvað en sýnist það hafa klúðrast. Nenni ekki að skrifa mikið í dag en lofa leiklistargagnrýni um Hárið eftir helgi! Hehe.

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Hannes Hólmsteinn, meðan hann meinti eitthvað með þessu

„Sú skoðun er einnig hæpin, svo að ekki sé meira sagt, að frelsi til útvarpssendinga sé ekkert annað en "frelsi fjármagnsins". Hugsunin er líklega sú, að þær útvarpsstöðvar, sem ráði yfir miklu fjármagni, eigi auðveldara uppdráttar á markaðnum en aðrar, þar eð þær geti boðið betri þjónustu. En mönnum sést hér yfir tvennt. Annað er það, að stofn- og reksturskostnaður útvarpsstöðva er miklu minni en dagblaða. Hitt er, að útvarpsstöðvar ráða yfir miklu fjármagni, af því að þær bjóða góða þjónustu, en bjóða ekki góða þjónustu, af því að þær ráða yfir miklu fjármagni. Ekki má gleyma því, að einkaútvarpsstöðvar græða ekki fé á sölu auglýsinga, nema þær sendi út efni, sem almenningur hlustar á. Samkeppni á markaðnum knýr þær til þess að þjóna hlustendum. Ég held, að ekkert tryggi betur sæmilega þjónustu en ótti við að missa viðskiptavini.“

tilv. Hannes H. Gissurarson, árið 1986

Við Ásta vorum bara alveg hissa yfir öllu því sem við sáum í Róm


IMG_0113
Originally uploaded by Adler.



Þessi mynd minnir okkur á að myndir úr ítalíuferðinni eru fáanlegar á www.gottfolk.is/ornogasta

Hemmi Gunn snillingur

Ég horfði á fyrri hálfleik í leik Brasilíu og Úrúgvæ í nótt og langar að halda til haga 4 gullkornum frá Hemma Gunn. Til skýringar get ég þess að á 5. mínútu klúðraði Úrúgvæi nokkur, Dario Silva, alveg ótrúlegu færi. Aleinn, beint fyrir framan opið markið. Gefum Hemma orðið:

1. Þessi leikur hefur upp á allt að bjóða: Hornspyrnur og besta marktækifæri síðustu ára, síðustu áratuga, jafnvel síðustu alda.

2. Dario Silva, honum tókst ekki að skora úr þrjátíu og sex sentímetra færi, hvað gerir hann nú?

3. Dómarinn er ekkert mikið að veifa spjöldum, þá gæti nú soðið upp úr. Þessir leikmenn geta allir breyst í goshveri á augabragði.

4.(síðar í leiknum) Við munum eftir færinu sem hann fékk áðan, þegar hann gerði þessi stórkostlegu mistök, svona gera bara snillingar.

Ég horfði reyndar bara á fyrri hálfleik og var ekki með blað og blýant þannig að þessi gullkorn hafa örugglega verið miklu fleiri. Síðasti leikurinn, drauma-úrslitaleikur Brasilíu og Argentínu, er á sunnudaginn.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Ríkisstjórnin og Séð og heyrt.

Ríkisstjórnin beið ósigur á tvennum vígstöðvum í gær. Fjölmiðlafrumvarpið virðist komið í skynsamlegri farveg í bili og svo tapaði Ríkisstjórnin stórt fyrir Real Bessastöðum, sem eru slæmar fréttir fyrir fjölmarga aðdáendur Ríkisstjórnararinn, heima og heiman. Aðeins voru sex leikmenn inná í einu, vegna dræmrar mætingar hjá Óla og félögum í Bessastaðabeljunum og var beitt nýrri tækni, svokallaðri "Brellu", sem fólst í því að sóknarmaður Bessastaða beið bak við mark Ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin, önnum kafin við málefnalegan fótbolta, láðist að líta eftir þessum manni tvisvar og voru þá hæg heimatökin að ráðast á Ríkisstjórnina með því að gefa boltann langt fram, langt aftur fyrir vörnina og kom þá þessi faldi maður, sofandi bókstafur, aðvífandi, það sér það hver maður að þetta gengur ekki, þetta er svo vitlaust að það tekur engu tali. Víst er að lögfræðingar munu lengi deila um þessa aðferð Ólafs til að knýja fram sigur á Ríkisstjórninni og mun margt vitlaust lögfræðiálitið eflaust líta dagsins ljós. En við vinnum næst. Það er klárt.

Hún vakti athygli mína forsíðan á Séðu og heyrðu. Þar eru fjórar myndir og fjórar fyrirsagnir

1.
Jón Ólafsson skilinn: Kyntröll á lausu
Mynd af Jóni Ólafssyni (góða) og konu hans
2.
Sigfús Sigurðsson: Nældi sér í þýska blómarós
Mynd af Sigfúsi og þýskri blómarós
3.
Hamingja í handboltanum: Einar Örn gengur í hnapphelduna
Mynd af Einari Erni og konu hans (held hún heiti Birna)
4.
Benedikt Erlingsson leikari: Giftur og gæfusamur
Mynd af Benna og Charlotte, konu hans

Skilur blaðið virkilega alla þessa fjóra atburði þannig að karlinn sé gerandinn í þeim og konan eins konar viðfang. Konurnar eru nógu fínar til að vera með á myndinni en hafa annars ekkert um málið að segja. Var konan hans Jóns ekki að skilja líka? Er útilokað að þýska blómarósin hafi náð í Sigfús en ekki öfugt? Er konan hans Benna þá ekki gift og gæfusöm?

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Lögmenn Skipholti

Út um gluggann hjá mér sé ég að meðal þeirra fyrirtækja sem eru í Bolholti 6 er Lögmannastofan Skipholti.

Tilraun með myndablogg


IMG_1705
Originally uploaded by Adler.

Þessa mynd tók ég af Ástu um helgina þegar við vorum að þvælast um Vesturland laugardaginn 17. júlí.

Spider-Man þanki

Sá um daginn hina frábæru mynd Spider-Man 2. Tók eftir því að einn af handritshöfundunum er Michael Chabon sem skrifaði hina stórkostlegu skáldsögu The Amazing Adventures of Kavalier and Clay sem allir enskuskiljandi menn ættu að lesa og einhver að þýða handa hinum. Mér fannst gaman að fylgjast með Kóngulóarmanninum sveifla sér yfir strætum New York, en um leið velti ég fyrir mér: Hvað ef hann hefði verið búsettur í Garðabænum? Aðeins tilþrifaminni tæknibrellur?

mánudagur, júlí 19, 2004

Helgin og bækur

Ég man nú ekki aðra eins veðurblíðu og núna um helgina. Frábært þegar þetta tvennt dettur inn á sama tíma; Gott veður og helgi. Við Ásta vorum mætt upp á svalir með Corona og reyfara eftir Dan Brown. Ásta er (svo heppin að vera að) lesa Da Vinci Code, meðan ég hakkaði í mig Digital Fortress og mæli í kjölfarið með því að aðrir láti þá bók í friði. (meiri bókagagnrýni neðar)

Þegar sólar naut ekki lengur var grillað og svo fórum við í bæinn um kvöldið og hittum æskuvin minn Starkað og konu hans Noemi en þau búa í Madrid.

Í veðurblíðu laugardagsins fórum við í bíltúr sem endaði í bústaðnum hjá Gussa Steingrímssyni og þangað komu síðan Stjáni og Dagfinnur. Þar var mál manna að ríkisstjórnin hlyti að springa, fyrr en síðar. Grillað um kvöldið og margt spjallað og m.a. hlýtt á plötu sem er í vinnslu og lofar góðu.

Í vikunni sem leið lauk ég einnig við fyrsta bindið í franskri skáld-ævisögu Napóleons eftir Max Gallo. Maður hefði nú haldið að jafn merkilegur stubbur og Napóleon ætti betri höfund skilinn. Sagan fylgir Napóleoni þéttingsfast eftir og lýsir honum sem snjöllum en einþykkum metnaðarfauta sem á til að byrja með í þjóð-ímyndarkrísu milli Korsíku og Frakklands. Bókin er stútfull af lýsingum á borð við þessa: Napóleon skellir aftur hurðinni og stormar inn í herbergið. Stikaðar um gólf og kreistir hnúana saman. Aftur er hann einn og gnístir tönnum. Hann er tuttugu og þriggja ára gamall.

Hitt heldur manni við efnið, hversu lítið maður veit um þennan magnaða mann og hvernig hann kemst til valda, þannig að maður þrælar sér gegnum einhæfan stíl og algjör áhugaleysi á öðru fólki sem "kemur við sögu", eins og Jósefínu, Junot, Barras og fleirum. Allt er séð með augum hins slæga megalómaníaks sem sér annað fólk aðeins sem annað tveggja: Hindranir eða hjálpartæki á leið til valda. Ágæt raunsæ túlkun á manninum en þreytandi lesning.

Nú er komið að því að velja næstu lesningu, þar kemur ýmislegt til greina. T.d. að hafa sig í það klára Stalíngrad, eftir Anthony Beevor. Einnig eru á biðlista bækur á borð við The English Passengers, The Cloud Atlas og spennandi bókabálkur sem kallast The Baroque Cycle en ég á fyrstu tvær bækurnar í þessum bókaflokki og er hvor þeirra 1.000 bls. Það þarf hugrekki til að ráðast í það.

Ef einhver er að leita að skemmtilegri bók til að lesa vil ég mæla með The Courious Incident of the Dog in the Night Time eftir Mark Haddon (ef ég man rétt) og svo Q eftir Luther Blisset.

föstudagur, júlí 16, 2004

Soundsticks

Enn ein snilldin frá Apple komin í hús: Soundsticks. Reyndar framleidd af harman/kardon. Keypt á garage sale hjá Dabba Magg sem er að flytja til Kanada, sem er eitt af fáum löndum sem eru fyrir ofan Ísland á lífsgæðalista SÞ. Það hlýtur að lækka Ísland á listanum að svona græjur kosta næstum 40 þúsund kall hérna en tveimur þriðju minna annars staðar.

Forseti Brandararíkjanna

Var að velta fyrir mér af hverju við Íslendingar ættum ekki að fá að taka þátt í kjósa forseta Bandaríkjanna. Hann ræður nú því sem hann vill ráða hérna hjá okkur, er það ekki? Teymir þjóðina í stríð eftir stríð og ég veit ekki hvað. Forsetakosningar í Brandararíkjunum eru nú reyndar hlægilegar fyrir og afskræming á lýðræðinu, t.d. þegar meðlimir hæstiréttar USA fengu að ráða því að sonur besta vinar þeirra ætti að verða forseti.

Svo fer trúðurinn, sem gegnir nafninu forstráðhra, á fund þessa vitleysings til að betla það að hér verði áfram einhverjar fjórar F-14 þotur en er sendur til baka til að safna frekari upplýsingum, því auðvitað hefur hann ekki getað rökstutt það með neinum hætti hver ógnin er og hvers vegna þessar þotur eru svona hentugar til að verjast henni. Auk þess hef ég fyrir satt að þoturnar fjórar hafi verið vopnlausar undanfarin ár og hafi því einungis verið á svæðinu til málamynda og til að halda uppi atvinnu á Suðurnesjum (sem er auðvitað mikilvægt málefni, en hvar eru hugmyndir ríkisstjórnarinnar um atvinnuþróun á svæðinu þegar, ekki ef, herinn fer?)

Er ekki alveg eins hægt að hafa bara risastór módel af orrustuþotum til að fæla fól frá landinu? Þurfa F-14 orrustuþoturnar eitthvað að geta flogið ef þær geta ekki skotið á óvini? (Annað: Voru ekki F 14 þotur í snilldarmyndinni Top Gun.)

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Beckham og boltinn

Á Ebay stendur yfir uppboð í boltann sem Beckham þrumaði nánast á sporbaug um jörðu úr vítinu gegn Portúgal. Stjarnfræðileg upphæð er boðin í boltann og er ég viss um að það er Victoria sem stendur á bak við það. Tilvalin tækifærisgjöf handa kallinum?

Skin og skúrir í Laugardalnum í gær

Þegar við Ásta mættum á Laugardalsvöllinn í gær, bjóst ég satt að segja ekki við miklu. Tíðindalítill fyrri hálfleikur kom mér samt ágætlega á óvart, þar sem KR-ingarnir voru betri en írsku atvinnumennirnir og virkuðu ágætlega skarpir á köflum. Í hálfleik hitti ég Auðunn Atlason og við vorum sammála um að þetta væri steindautt núll-núll jafntefli. Svo byrjaði seinni hálfleikur með látum og Arnar Jón Sigurgeirsson skoraði fyrir KR og stuttu síðar bætti Sigurvin Ólafsson við marki eftir fínt fríspark frá Arnari Gunnlaugs. Allt var gott í KR-landi allt þar til 6 mínútur voru eftir þegar menn misstu allt í einu kúkinn í brækurnar og fengu á sig 2 mörk upp úr litlu. Shelbourne fékk eitt færi en skoraði 2 mörk.

Enn og aftur leit íslenski fótboltastuðningsmaðurinn illa út í alþjóðlegum samanburði. KR-ingar voru líklega fimmtíu sinnum fleiri á vellinum en samt heyrðist miklu meira í áhangendum Shelbourne. Við: KÁ-ERR, búmm búmm búmm, KÁ-ERR, klapp klappp klapp; en þeir pökkuðu okkur saman í fjölbreyttum fagnaðarsöngvum, sem stráðu svo salti í sárin eftir að þeir jöfnuðu, fíflin.

Ljósi punkturinn gæti verið þessi: KR skellir gómum um skjaldarrendur og heldur áfram að spila jafn vel og í gær og þannig rúlla þeir upp þessari apakattarlegu deild hér heima.

miðvikudagur, júlí 14, 2004

"Snjallyrði" Hannesar

Hún er átakanleg, en um leið sérstaklega hlægileg, grein dr. Hannesar Í Morgunblaðinu í morgun og fyrir hinn stóra, og sístækkandi, hóp sem sér ekki ástæðu til að lesa Mogga að staðaldri, eða hafa hann í áskrift, rek ég hana hér.

í grein sinni vil Hannes botna það samtal er hann átti við Ólaf Hannibalsson á Þjóðarbókhlöðunni (þar sem annar var að skrifa sögu SH fyrir 30 milljónir, en hinn 2. bindi ævisögu Halldórs Laxness fyrir prófessorslaun). Hannes fer þá að tala um að Íslendingar hafi nú aldrei viljað hafa neina höfðingja gegnum tíðina, flúið Harald hárfagra og allt það og þess vegna væri nú Ólafur Ragnar alveg ómögulegur. Kom þá Ólafur með það drepfyndna tilsvar að: „En ef engir höfðingjar eiga að vera til, hvað á þá að verða um þig Hannes Hólmsteinn? Því að þá verða engar höfðingjasleikjur heldur til!“

Þessa snjalla tilsvars var vitnað til í DV um daginn og hló margur. Hannes sagði, og er tilgangur greinar hans að tilsvar hans við fyndni Ólafs sé einnig uppi á borðinu: „Ólafur minn! Þú getur ekki haldið því fram að ég sé nein höfðingjasleikja. Þá sæti ég nú annars staðar en hér hjá þér.“

Nú kviknar spurningin: Hvers vegna í ósköpunum dettur Hannesi í hug að láta svona greinarkúk fara frá sér. Hvert meðalgreint fjögurra ára barn sér að þetta er ekki fyndið. Hvernig stendur á því að maður, með doktorsgráðu, sem hefur um langt árabil að safnað snjallyrðum á kostnað Háskóla Íslands, telur þetta svar, þetta hallærislega klór í bakkann, vera snjallt eða fyndið? Þetta er ekki fyndið, þetta er hlægilegt. Vísa Hannesi á Orðabók Háskólans fyrir muninn á þessu tvennu.

Fahrenheit 9/11

Sá þessa ágætu blöndu af heimildar- og áróðursmynd í gær. Ætla ekki að fjalla um hana í smáatriðum, en ég vona heitt og innilega að sem flestir Ameríkanar sjái hana og sjái hvers konar apakött og asnahala þeir hafa kosið yfir sig og hugsi betur um atkvæðið sitt svo svona lagað gerist ekki aftur.

GWB:
"There's an old saying in Tennessee - I know it's in Texas, probably in Tennessee - that says, fool me once......shame on.......shame on .......you......Fool me, you can't get fooled again."

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Enski boltinn á ensku.

Since Screen One has revealed that the english ball will be in english next season, here we offer the latest transfer situation for the winning team next season.

In
Alan Smith, below (striker, £7m, Leeds), Gabriel Heinze (defender, £6.9m, Paris St-Germain), Liam Miller (midfielder, free, Celtic), Gérard Pique (defender, undisclosed, Paris St-Germain), Giuseppe Rossi (striker, undisclosed, Parma).

Out
Danny Pugh (midfielder, swap, Leeds), Ben Williams (goalkeeper, free, Crewe).

Possible arrivals
Wayne Rooney (striker, £35m, Everton), Fernando Torres (striker, £10m, Atlético Madrid).

Possible departures
Nicky Butt (midfielder, £4m, Newcastle), Diego Forlán (striker, £2m, Manchester City), Michael Stewart (midfielder, nominal, Rangers), Ricardo (goalkeeper, free).

Personally I would of course like to see Wayne Rooney wear red next season, but I have also been impressed by the spanish Torres. Rooney may prove to be to expensive, as he is still not a 100% guranteed product, even though he's shown occasional flashes of brilliance, most recently at the EM on RÚV, as we call it in Iceland. I am also looking forward to see how Liam Miller, arriving from Glasgow Celtic will perform. I will have to ask my Celtic liason McMaggi about him. Well, more later.

mánudagur, júlí 12, 2004

Fínni helgi lokið

Fórum upp í bústað strax eftir vinnu á föstudaginn þar sem ég sló flötina með miklum erfiðismunum, enda hefur ekki verið slegið þarna síðan í fyrra. Ég þóttist nokkuð góður að sleppa með tvö smámeiðsl og dulítinn bakverk.

Á laugardeginum fórum við yfir á Þingvelli þangað sem Dagfinnur hafði boðið til samsætis í Kusukoti. Dagfinnur tók á móti gestum með glæsilegu hlaðborði og fjöri. Nýfæddu börnin voru á svæðinu Stúlka Örnudóttir Dagsdóttir og Edda Liv Guðmundsdóttir Ellingsen. Gaman að fylgjast með þessum furðuverkum þroskast og dafna. Arna tilkynnti að Ónefnd hefði tekið tvo stóra þroskakippi í liðinni viku. Annars vegar hefði hún byrjað að reyna að tala og hins vegar prumpað með lykt. Harðar deilur spruttu í kjölfarið um hvort væri merkilegra. Að deilum og grilli loknu var áfengi haft um hönd.

Komum í bæinn seinni partinn í gær, sunnudag, og var undirritaður heldur dasaður eftir allt saman. Við tók maraþongláp á sjónvarpið. Fréttir, Auglýsingahlé, Cold Case, 24 og loks stórmyndin Enemy at the Gates. Ég man ekki eftir að hafa áður horft jafnlengi samfleytt á sjónvarp. Það er gott að vera laus við 24 sem hefur bundið hendur okkar töluvert á sunnudagskvöldum undanfarnar (24) vikur. En ætli það komi ekki bara eitthvað annað skemmtilegt í staðinn.

föstudagur, júlí 09, 2004

Allir út á land um helgina

Þetta gæti orðið skemmtileg helgi. Dagfinnur býður góðum gestum í sumarbústað foreldra sinna við Þingvallavatn. Ég hef notið þess heiðurs nokkrum sinnum að fara í þennan frábæra bústað og það eru alltaf mjög skemmtilegar ferðir. Það væri hægt að segja ýmislegt en auðvitað virði ég trúnað. Ein sagan er til dæmis svona

Einu sinni var þarna hópur af skemmtilegu fólki og ******* var að ******** ****, en á sama tíma voru ****** og ****** eitthvað að *******. ********* gerði sér lítið fyrir og fór í ******* af ****** og ******** og gerði stormandi lukku. ******* tók myndir af öllu saman sem vonandi eru í öruggri geymslu.

Góða helgi.

Guðni rektor

Nú hafa borist þær fréttir að minn gamli rektor úr MR, Guðni Guðmundsson, aka Guðni kjaftur, sé farinn yfir móðuna miklu. Ég átti nú ekki mikil samskipti við Guðna, en ég man vel eftir honum. Þegar ég var í þriðja bekk skammaði hann mig og Indriða félaga minn fyrir að borða á göngum skólans og rak okkur út með þéringum. Ætli þéringar hverfi ekki alveg endanlega úr málinu með fráfalli Guðna. Hann var algjörlega hinn eini sinnar tegundar.

Ég átti einu sinni fund með Guðna þegar árangur í ákveðnu stærðfræðiprófi um jól var úr takti við aðrar einkunnir og fyrri árangur í stærðfræði. Maður var auðvitað hálf skjálfandi á beinunum við að útskýra allt saman, en ég reyndi nú samt að vera bara kátur og bjartsýnn. Það fór líka bara vel á með okkur og ég gat útskýrt mitt mál. Hann lauk fundinum með þeim orðum að hann hefði nú alltaf minni áhyggjur af þeim sem væru glaðbeittir: „...líkt og þér“. Ef ég man rétt vorum við sem útskrifuðumst 1993 svo í síðasta árganginum sem hann brautskráði áður en hann settist í helgan stein. Það eru margir sem hafa skemmtilegri sögur að segja af þessum litríka rektor en mér fannst rétt að halda þessu til haga.

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Skúbb

Það var fjöldi manns á mótmælunum gegn vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar, eða skorti á þeim öllu heldur. Mér fannst nokkuð magnað að vera þarna, enda langt síðan maður mótmælti síðast. Sérstaklega var gaman þegar fólkið hrópaði í kór "VIÐ VILJUM KJÓSA! VIÐ VILJUM KJÓSA!". Ekki hélt ég að Íslendingar gætu mótmælt svona. Venjulega standa allir sem maður sér mótmæla frekar hnípnir og þegja meðan einhver einn þusar í gjallarhorn þannig að bergmálar um allt. Kannski er ástæðan fyrir dauflegum mótmælum sú að árið 1949 þegar mótmælt var af krafti á Austurvelli þá leyndist vopnað varðlið inni í þinghúsinu sem réðst síðan á mótmælendur. Getur verið að í undirmeðvitund okkar sé þessi mynd ennþá innprentuð og við þorum ekki að láta í okkur heyra af ótta við að vera látin kenna á því? Vonandi er þetta að breytast. VIÐ VILJUM KJÓSA!

almennt röfl

Jörðin er kringlótt eins og fótbolti og hún hringsólar um geiminn eins og vítaspyrnur Beckhams. Nú er EM þeirra Suður- og Mið-Ameríkumanna hafið og er herlegheitunum varpað gegnum Sýn og inn í sjónvarpið mitt. Þetta er ágætur fótbolti. Það er hins vegar áhugavert að velta fyrir sér þeim blæbrigðamun sem er á þessari keppni og EM. Það er svolítið eins og það sé verið að sýna 10-15 ára gamla leiki. Liturinn í útsendingunni er miklu muskulegri, Það er hlaupabraut í kringum vellina, mjög fáar en stórar auglýsingar og til að kóróna þetta sat þjálfari Uruguay á varamannabekknum og reykti.

Í dag eru boðuð mótmæli á Austurvelli, ég man ekki hvenær ég mótmælti þar síðast, sjálfsagt var það þegar Dagur Eggertsson inspector scholae og fleiri skipulögðu mótmæli gegn skólagjöldum fyrir sirka 10 árum síðan. Ef ég fer og mótmæli þessum apakattarlegu vinnubrögðum við Norðurljósalögin verð ég samt örugglega bara stimplaður sem einn af þessum sem er alltaf að mótmæla og skrifar undir hvað sem er og þess vegna er ekkert að marka. Ekki vill maður vera öfgamaður. Og þó....

"Í Sjálfstæðisflokknum er fólkið, sem vill grilla mat úti í garði á kvöldin með fjölskyldu og vinum í stað þess að sækja baráttufundi æsingalýðs,"

Tilvitnun í heimasíðu Hannesar Hólmsteins (http://www.hi.is/~hannesgi/vidhorf/medmaeli.html): (Best að hafa gæsalappirnar í lagi....)

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Fjölmiðlagagnrýni 1

Röflið hefur undir höndum nýtt og ákaflega skemmtilegt Bændablað. Óhætt er að segja að þar sé skúbbað ýmsu sem ratar ekki á síður Morgunblaðsins eða Baugsmiðlanna.

Aðalfyrirsögnin er: GRASMAÐKUR HERJAR Á LANDBROTSAFRÉTT
Tilvitnun "Grasmaðkur hefur eytt gróðri um mestalla Landbrotsafrétt í Skaftárhreppi langt fram á heiðar. Landið er allt hvítt yfir að líta nema örfáir mýrarflákar en þar þrífst grasmaðkur ekki. Allt vallendi er gersamlega gróðurlaust."

Einnig:

MIKILL SKORTUR Á NAUTAKJÖTI
"Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir...."Við gætum selt alla nautavöðva sem nú eru í boði tvisvar til þrisvar sinnum"".

Vonandi kemur ekki til þess. Einnig fannst mér athyglisvert að sjá eftirfarandi:

SNEIDDUR OSTUR FRAMTÍÐIN
"Við trúum því að sneiddur ostur sé framtíðin eins og annað álegg" segir Þorsteinn Karlsson framkvæmdastjóri [Osta og smjösölunnar]. Framtíðin er greinilega áhugaverð í Osta og smjörsölunni.

Víst er að margir munu vilja fylgja ráðleggingum blaðsins

HAGSTÆTT AÐ FLÝTA SUMARSLÁTRUN
"Í ár voraði óvenju snemma og gróður var mun fyrr á ferðinni en í meðalári. Svipað gerðist í fyrra en þó mun þetta vor hafa vinninginn. Þegar svo snemma vorar er hætt við að grös sölni snemma, það sýnir reynslan. Próteininnihald fer að falla snemma, jafnvel á miðju sumri." Snilld.

Bændablaðið fær 3 stjörnur af 5

ábending

Þeim sem eru búnir að gleyma af hverju gamla DV fór á hausinn í fyrra er bent á fjölmiðlapistla Ólafs Teits Guðnasonar í Viðskiptablaðinu á föstudögum.

Góð úrslit

Ríkisstjórnin gersigraði Real Bessastaði 5-2 í gær í Laugardal. Davíð, fyrirliði Ríkisstjórnarinnar, var án efa maður leiksins enda skoraði hann 3 mörk á stuttum kafla sem gerði nánast út um leikinn. Mig minnir að Ólafur, fyrirliði Bessstaða, hafi skorað eitt mark fyrir sitt lið og var að vonum ekki sáttur í leikslok. Deilt er um hvort Ólafur geti neitað að staðfesta úrslit leiksins og vísað þeim þar með til þjóðarinnar.

Ég fór með KR-ingunum Kristjáni og Janusi í Kaplakrikann í gærkveldi. Við misstum af fyrstu 20 mínútunum sem við heyrðum í útvarpinu eftir leik að hefðu verið einhverjar bestu 20 mínúturnar í knattspyrnusögu Íslendinga. Hins vegar lentu KR marki undir rétt áður en við komum og afleiðingin varð sú að það sem við sáum af fyrri hálfleik var bara þetta venjulega asnaspark sem maður sér í íslenskum fótbolta. KR kom grimmt inn í seinni hálfleik sem var ágæt skemmtun. Þeir jöfnuðu með flottu marki en annars var lítið um færi. Fullt af nýjum leikmönnum á vellinum sem ég hafði aldrei séð áður, nýir guttar úr Vesturbænum, Ágúst Gylfason á miðjunni og þrusugóður Tékki í vinstri bakverðinum. Stefni á að mæta örar á völlinn það sem eftir lifir sumars.

þriðjudagur, júlí 06, 2004

Er hægt að óverdósa á fótbolta? Ég er ennþá að jafna mig eftir EM í Portúgal. Nenni ekki að tala um hana. Spurning hvort maður drullar sér í Kaplakrikann til að horfa á KR - fh í kvöld kl. 20.

Kannski veltur það allt á úrslitunum í X-cup í kvöld. X-cup er merkileg fótboltakeppni milli tveggja liða (http://www.ecweb.is/xcup/) sem heita Ríkisstjórnin og Real Bessastaðir. Ríkisstjórnin er betra liðið af þessum tveimur en hefur samt tapað síðustu nokkrum leikjunum í X-cup. Það breytist í kvöld.

Varðandi KR þá er ég einfaldlega ekki búinn að fyrirgefa þeim 7-0 tapið í Krikanum í fyrra, eftir að stórveldið var búið að tryggja sér titilinn. Mikill skandall. Ég hef ekki ennþá mætt á KR leik í sumar. Ég mætti á fullt af leikjum í fyrra en aðeins einn þeirra var skemmtilegur, þegar valtað var yfir Fylki í Frostaskjólinu, þá kom Ásta reyndar með, sem reyndist gjörsamlega happa. Ég var búinn að spá frændum mínum Skagamönnum titilinum í sumar en þetta verður jafnt og aldrei að vita nema Vesturbæjarveldið hrökkvi almennilega í gang og klári þetta. Það væri nú snilld.

Áhugi á fótbolta á sér fleiri hliðar. Nú er t.d. gaman að fylgjast með leikmannamarkaðnum fyrir enska boltann. Þar skiptir auðvitað mestu máli hvað Man. Utd. gerir. Mér líst ágætlega á að fá baráttuhundinn Alan Smith sem valkost í framlínuna. Mér finnst vanta meiri baráttu í liðið í fyrra. Hvernig væri að fá Edgar Davids? Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu....

Barnaafmæli i Washington

Hinn viðkunnalegi forseti Bandaríkjanna George Bush á afmæli í dag, er 58 ára gamall. Það verður mikið um dýrðir í Hvíta húsinu og meðal annars fengin sérstakur trúður sem skemmtiatriði eins og tíðkast afmælum hjá börnum og óvitum í Brandararíkjunum.

Skemmtiatriðin hjá Bush jr. verða reyndar af lakara taginu í dag. Trúðurinn er ekki fyndnari en svo að næst lélegasta grínmynd í heimi, skv. imdb.com, var gerð eftir smásögu hans. Hann hefur þó helst náð að geta sér orð fyrir skemmtilegar hundakúnstir og sprenghlægilega útúrsnúninga á alþingi Íslendinga. Gaman verður að sjá hvað trúðurinn fær borgað fyrir uppistandið.

Bjössi og brellurnar

"Ég sé, að vísu, að Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor, sem helst hefur lagt sig fram um að lýsa yfir persónulegu valdi forseta til að skjóta málum til þjóðarinnar, lætur nú eins og alþingi geti bara breytt lögunum og þannig komist hjá því, að þjóðin segi álit sitt á þeim. Ef slíkum brellum yrði beitt, er ég hræddur um, að einvers staðar mundi heyrast hljóð úr horni."

Er það furða að innan við 3% telji Björn Bjarnason hæfa sem framtíðarleiðtogi Sjálfstæðismanna?

mánudagur, júlí 05, 2004

Helgin

Meðan við Ásta nutum lífsins í sumarbústaðnum á Laugarvatni var ríkisstjórnin (les. Davíð og Halldór) að slást við að hanna þjóðaratkvæðagreiðslu um Norðurljósalögin. Þessum stjórnarherrum (sem kosnir voru af minnihluta kosningabærra manna skv. eigin reiknilist) tókst ekki betur til en svo að ofan á varð að að taka lögin til baka - til að vinna þau betur í þinginu.

Það fannst mér sæmilega skynsamlegt við fyrstu sýn. Hvað ef Davíð hefði látið samþykkja vond lög um þjóðaratkvæði - og Ólafur Ragnar hefði synjað þeim og vísað þeim til þjóðarinnar?

Ég varð hins vegar ekki sérstaklega hissa þegar í ljós kom að Davíð og Halldór voru þegar búnir að ákveða hvernig þingið ætti að afgreiða lögin (svokallað þingræði felst greinilega í því að þeir eiga að ráða yfir þinginu). Það á sem sagt ekki að gefa málinu betri tíma og vinna að breiðri sátt um löggjöf um fjölmiðla, heldur þvinga málið í gegn með smávægilegum breytingum til mildunar.

Það breytir því þó ekki að hér ennþá um að ræða aðför gegn einu fyrirtæki (sem ríkið er reyndar í samkeppnisrekstri við, en látum það liggja milli hluta).

Sem fyrr er engin viðleitni til að skapa almenna umgjörð um fjölmiðla- og fréttastofurekstur í landinu og ekkert unnið að því að styrkja sjálfstæði ritstjórna, t.d. gagnvart eigendum, augýsendum, stjórnmálaflokkum o.s.frv. Í staðinn eru alþingismenn aftur komnir í þá vandræðalegu stöðu að þurfa að samþykkja lítillega útlitsbreytt Norðurljósalög eftir höfði Davíðs og Halldórs eins og strengjabrúður.

Ég vorkenni alþingismönnum. Þetta hlýtur að vera sárt.

ps
Ég er í vafa um viðbrögð stjórnarandstöðunnar. Það er hálf kindarlegt að mæta á þing með voða flott frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu sem enginn nennir að ræða. Kemur í ljós hvernig það þróast. Það er hins vegar skandall að alþingi hafi ekki fyrir löngu sett slík lög.

Testing

Þetta er prufa

Ég áskil mér rétt til að meina ekkert með þessu