fimmtudagur, september 30, 2004

Setning dagsins

Þú þarft ekki að hlæja. Ég veit að ég er fyndinn.

Setning dagsins

Þú þarft ekki að hlæja. Ég veit ég er fyndinn.

Afmæli

Pabbi minn á afmæli í dag. Mamma mín á afmæli á sunnudaginn. Samt á ég sjálfur ekki afmæli fyrr en í febrúar, á gamlársdegi Rómverja.

miðvikudagur, september 29, 2004

Störf i boði

Nú þegar Jón Steinar tekur við starfi Hæstaréttardómara, þá hlýtur bráðum að verða auglýst í lausa stöðu sérstakt lögfræðilegs talsmanns Sjálfstæðisflokksins en starfið felur í sér að skrifa ómálefnalegar og orðljótar greinar, í viðhafnarramma, um andstæðinga Flokksins, t.d. uppnefna menn Illhuga og annað slíkt.. Einnig vantar verjanda fyrir Hannes Hólmstein, bankaráðsmann í Seðlabankanum, í öllum hans ritstuldi.

Hvernig er hægt að rökræða við Bush?

Skemmtileg grein eftir Al Gore í New York Times. Gore klúðraði sínum debatti við Bush á sínum tíma, þ.e. Bush var af flestum talinn hafa komið betur út, vegna þess að Gore var svo hyper-málefnalegur og dæsti og stundi undan vitleysunni í Bush.

How to debate Bush

Rooney

Rooney. Segir allt sem segja þarf. Rooney. Rooney!

þriðjudagur, september 28, 2004

927 síður að baki!

Lauk í nótt við sannkallað bókmenntastórvirki, Quicksilver eftir Neal Stephenson. Bókin sú er 927 síðna heimspeki-reyfari sem gerist á 17. öld, aðallega á Englandi en teygir einnig anga sína til Tyrkjaræningja og Massachussets. Flókin bók en gríðarlega skemmtileg og ekki síður fróðleg. Spilltur aðall með sífilis og gallsteina tekst á við skapstygga heimspekinga sem eru að hugsa heiminn upp á nýtt flæktir í alkemíu og njósnastarfsemi. "Slæmu" fréttirnar eru þær að þetta er bara fyrsta bindið af nokkrum. Það eru a.m.k. 2x1.000 blaðsíður eftir!

mánudagur, september 27, 2004

Á léttari nótum: JFK tekur lagið!

Hér geta menn skemmt sér við að hlusta á John F. Kennedy syngja snilldarlag, reyndar með aðstoð nútíma-tækni.
 

Besta lag í heimi

JFK & co "The Trumpet"

Tyranny! Poverty! Tyranny! Poverty!

Kennaraverkfall, hverjum er um að kenna?

Nú eru allir fréttatímar fullir af kennaraverkfallinu. Það er því eðlilegt að röfla aðeins um það. Úff.

Nú er það óumdeilt að sveitarfélögin hafa, lögum samkvæmt, ákveðnar skyldur við okkur borgarana. Til þess að standa undir því borgum við útsvar. Mörgum barnlausum, ehemm, þykir þeir fá heldur lítið fyrir útsvarið, en nóg um það. Fyrir greiðslu þessa útsvars til sveitarfélaganna eiga börnin manns að fá menntun við hæfi, meðan þau eru á grunnskólaaldri. Ef barnið manns er fatlað þá nýtur það sömu réttinda, þ.e. að fá menntun við hæfi. Fyrir þetta borga menn skatt sem kallast útsvar.

Samt er allur fréttaflutningur, og þar með upplifun almennings, á þá leið að nú séu kennarar, enn og aftur(!), til vandræða og það sé á þeirra ábyrgð að kennsla stöðvast. Það gleymist alltaf að það eru sveitarfélögin sem hafa lagalega skyldu til að veita þessa sjálfsögðu þjónustu. Þau ráða síðan kennara. Ef þau ákveða hins vegar að ráða ekki kennara, eða missa þá úr vinnu, eins og nú, hvað þá. Hvern skammar þú ef ég lofa að skipta um parkett heima hjá þér en geri það ekki, af því ég fann engan sem vildi gera það fyrir smáaura?

Auðvitað þurfa kennarar líka að sýna sáttahug en sannleikurinn er sá að síðasti samningur við kennara rann út fyrir meira en hálfu ári síðan. Miðlungsmenn í enska boltanum fara nú að líta í kringum sig þegar 1-2 ár eru EFTIR af samningnum þeirra.

Á sama tíma og vælt um neyðarástand á heimilum vegna verkfalls sem hefur staðið í viku, þá neita menn að semja um 160 þúsund króna byrjunarlaun til að leysa það. Hvað er í gangi?

Fróðleikur dagsins - Yesterday

Margt skemmtilegt lærir maður af því að lesa Wikipedia. Ég hélt að ég vissi allt um Bítlana en samt kom forsíðan í morgun mér á óvart:

Yesterday is the name of a song written by Paul McCartney, originally recorded by The Beatles for their album Help! in 1965. "Yesterday" was the first official recording by the group which relied upon a performance by a single member of the band, although the background accompaniment of a string quartet was added a few days later during the editing stage. It is a ballad about unrequited love, and differed greatly from other works by the Beatles, leading the other three members of the band to veto the song's release as a single in the United Kingdom. Although solely written by McCartney, due to his contract with the Beatles the song was credited to both him and John Lennon as "Lennon/McCartney". According to the Guinness Book of Records, "Yesterday" has the most cover versions (over three thousand) of any song yet produced. BMI asserts that it was performed over seven million times during the 20th century alone.

Í boði wikipedia: Frjálsa alfræðiorðabókin

föstudagur, september 24, 2004

Hvernig var Damien Rice?

Jú, þetta voru þrusutónleikar. En þar sem ekki er liðið ár, varla nema rúmlega hálft ár, síðan hann hélt síðast tónleika hér, í Nasa eins og nú, þá markast upplifun manns mikið af því. Í stuttu máli sagt þá held ég að tónleikarnir núna hafi verið "betri" en síðast....en....hins vegar þá var upplifunin af síðustu tónleikum miklu sterkari. Þá kom sviðsframkoma írska dvergsins manni gersamlega í opna skjöldu ásamt með öllum þeim göldrum sem hann framdi með gítarinn og effektana. Nú var með honum söngkona sem var góð og samleikur þeirra var mikilvæg viðbót frá síðustu tónleikum.

Hápunktur tónleikanna: coverlagamix þar sem m.a. komu fram Portishead, Prince og Led Zeppelin.

fimmtudagur, september 23, 2004

Nýja uppáhaldshljómsveitin mín

Þeim sem halda að ég hlusti bara á Bob Dylan, Damien Rice og Bob Dylan er bent á nýju uppáhaldshljómsveitina mína: The Go! Team. Hér getið þið fundið tvö lög með þessum nýja hljóðfærasamsöfnuði sem minnir á tölvuleikjatónlist sem hrist er saman við seventies teiknimyndaþáttafönk. Hækkið í hátölurunum og smellið á þetta:

go go gadget go! team
"Huddle Formation" og "Junior Kickstart" með The Go! Team.

Hvers konar rugl er þetta orðið?

Þessi frétt var á Vísi í morgun:

Flugvél á leið frá Lundúnum til Washington var snúið til Bangor í Maine-ríki í gær þar sem nafn á farþegalista vélarinnar þótti grunsamlegt. Farþeginn hét Yusuf Islam, og var áður þekktur sem Cat Stevens, poppari og höfundur laganna "Moonshadow" og "Wild World" á áttunda áratugnum. Eftir margra klukkustunda bið hélt vélin áfram til Washington án Yusufs Islam, sem yfirvöld ætla að senda heim til Lundúna með fyrstu vél í morgunsárið.

Ekki nóg með það að vélin sé gránduð þegar á miðri leið kemur í ljós grunsamlegt nafns eins farþega. Ekki nóg með það heldur á að senda snillinginn með grunsamlega nafnið beinustu leið til baka. Alla leið yfir Atlantshafið. Þetta er argasti nafnafasismi. Eins konar mannanafnanefnd frá helvíti.

þriðjudagur, september 21, 2004

Wikipedia

Þetta er nýja upphafssíðan mín. Skemmtilegur fróðleikur úr í einhvers konar óritstýrðu en þó skipulegu samansafni hvaðanæva úr heiminum. Tékkið á þessu.

Frjálsa alfræðiorðabókin

Einnig til á íslensku:

Frjálsa alfræðiorðabókin á íslensku

Tannkrem

Manchester United tannkremið mitt bragðaðist einstaklega vel í morgun.

mánudagur, september 20, 2004

Örþreyttur eftir veiðiferð

Jú, veiðiferðin varð að veruleika. Lögðum upp fimm á tveimur bílum á laugardagsmorgni og stefndum að félagsheimilinu í Dalsmynni í Svínadal við rætur Auðkúluheiðar. Hestarétt sveitarinnar stóð sem hæst þegar okkur bar að garði. Hápunktar:

Fulli kallinn sem datt af hestinum í hestaréttinni við Dalsmynni
Fulli ungi gaurinn að sunnan sem ætlaði að keyra heim úr hestaréttinni en kom ekki bílnum í gang. Tengdamóðir hans: Við búumst nú ekkert við að hann komi aftur hingað norður."

Lögðum netin en síðan var haldið á ball á Blönduósi þar sem hljómsveitin Sixties lék fyrir dansi. Höfum sem fæst orð um hljómsveitina, en gaman var á ballinu og líklega mest gaman af því að tala við fólkið í sveitinni. Eftirminnilegastur er Jónmundur bóndi í Kambaseli en hann er einn af þeim fáu bændum sem halda geitur. Á ég inni hjá honum vilyrði fyrir geitakjöti hvenær sem er. (Man ekki alveg hvað ég var að hugsa, því geitakjöt er neðarlega á óskalistanum akkúrat núna...)

Veiðin í Mjóavatni gekk vel og var aflinn of góður. Of góður? Já, afleiðing slíks mokfiskerís er að enginn veit hvað á að gera við allan þennan fisk. Nokkrir vænustu fiskarnir (sem voru allt að 3,5 pundum) verða væntanlega sendir í reyk, miðstærðin var flökuð á staðnum en restinni hent. Alltaf fúlt að henda mat, en í þetta sinn varð ekki á annað kosið. Nóg um það. Ég steikti hluta af flökunum sem komu í minn hlut við heimkomuna seint í gær en á fullt eftir.

Í lokin er óhætt að mæla með því gegn þynnku að fara undir bert loft og slægja slatta af bleikju.

föstudagur, september 17, 2004

Vel í veiði

Mjóavatn á Auðkúluheiði hefur ekki verið mikið í fréttum síðustu vikur. Auðkúluheiðin sjálf var reyndar mikið í fréttum fyrir fjöldamörgum árum vegna uppblásturs og argaþrass um lausagöngu búfjár. Menn mega hins vegar búast við því að Mjóavatni skjóti upp á stjörnuhiminn fréttanna eftir helgina þegar spyrst út hvílíkum metafla menn ætla að landa úr vatninu á morgun og hinn. Það verður vaskur hópur drengja undir stjórn Kristjáns Vals Jónssonar sem mun moka silungnum á land í tonnatali millli þess sem dreypt verður á írsku viskíi og skosku.

Vek ennfremur athygli á afbragðsgóðum hádegisveitingastað í miðborginni, en menn geta fengið afbragðs fiskrétti og fleira í kjallara Ostabúðarinnar við Skólavörðustíg á fínu verði.

Svo er bara að vinna Fylki á sunnudaginn og Liverpool á mánudaginn. Annars rólegt.

fimmtudagur, september 16, 2004

Hver elskar ekki repúblíkana?

Nú eru þeir að tala um opinbera rannsókn á skjölunum sem styðja þá kenningu sem lengi hefur verði á lofti um að Bush forseti hafi (eðlilega) veigrað sér við herþjónustu í Víetnam og fengið pabba sinn til að hjálpa sér í feluleiknum. Skv. skjölunum mætti Bush aðeins nokkrum sinnum í Þjóðvarðlið Texas og óhlýðnaðist skipunum um regllubundna læknisskoðun.

Þessir repúblíkanar vilja láta rannsaka skjölin sem slík ofan í kjölinn, en auðvitað ekki upplýsingarnar sem þau innihalda. Ekki frekar en þeir treysta sér í opinbera rannsókn á því af hverju engin gereyðingarvopn finnast í Írak, pyntingunum í Abu Ghraid - eða ásökununum um lygar Kerry's um hetjudáðir í Víetnam.

miðvikudagur, september 15, 2004

Var 15. september frestað?

Vinur minn sagði mér í upphafi árs að hann bindi miklar vonir við 15. september. Þá mundi nú mikið breytast. Þá væri aflétt umsáturs-hræðslu-ástandi sem Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra (mmmm...feels good) hefði komið upp í þjóðfélaginu. Fólk mundi vonandi eiga auðveldara með að tjá sig um erfið og auðveld málefni án þess að beita sig sjálfsritskoðun af ótta við ímyndaða yfirvofandi reiði kallsins í brúnni.

Ég þekki líka mann sem sagðist í sumar ætla að mæta með köku í vinnuna til að fagna þessum langþráðu tímamótum.

Á þessum tíma gerði enginn ráð fyrir því að stólaskiptin yrðu með þessum hætti. Ég ímynda mér að veikindi Davíðs hafi á þversagnakenndan hátt styrkt hann pólítískt, amk. til skemmri tíma, og varla fara álitsgjafarnir að tala illa um kallinn þessa dagana. Skiptin verða því öll á rólegu nótunum og menn missa af þessu tækifæri til að hnýta í kallinn.

Gullvagn seldur

Gullvagninn minn, Renault Clio, skrnr. RE 758, hefur staðið sig afburðavel gegnum tíðina. Helsta afrek hans var að fara suður vestari veginn meðfram Jökulsá á Fjöllum sem aðeins var ætlaður fjórhjóladrifnum bifreiðum. Uppskar nokkrar roðnanir hjá ökumönnum risavaxinna jeppa sem Gullvagninn veik fyrir á leiðinni svo jeppgreyin kæmust leiðar sinnar. Hann hefur líka farið hringinn kringum landið, í Landmannalaugar, á Ísafjörð og hefur aldrei fest sig í snjó. En nú skiljast leiðir.

Gullvagninn verður væntanlega seldur í dag með 50% afslætti. Kostaði 1.200.000 íkr. um jólin 1999 en selst haustið 2004 á 600.000 íkr. Gott eða slæmt? Tja. Erfitt alla vega.

Seinheppið Morgunblaðið

Röflinu hefur borist boðskort í innflutningspartý (!!!) í nýju prentsmiðju Morgunblaðsins að Hádegismóum 2 við Rauðavatn. Það fyrsta sem sló mig var að þetta er líklega eitt verst prentaða boðskort sem ég hef nokkru sinni séð. Einnig rifjast upp það að við borgarstjórnarkosningarnar 1982 barði Morgunblaðið hatrammlega á þáverandi vinstri-meirihluta, sérstaklega vegna áætlana um íbúðabyggð við Rauðavatn, því þetta væri stórhættulegt sprungusvæði. Mogginn, sem finnst fátt merkilegra en að vitna í sjálfan sig, ætti nú etv. að rifja þetta mál upp. Meirihlutinn féll í þessum kosningum og Davíð Oddsson komst til valda. The rest is his story.

Áætlanir um Danmörku virðast ætla að ganga upp, þrátt fyrir ákveðin set-bökk. Farið út 5. okt, heim 10. Orri Kárason tekur vel á móti sínu fólki.

þriðjudagur, september 14, 2004

Skafðu til vinnings

Það kemur sá dagur á hverju ári - dagurinn sem þú þarft að skafa af bílnum þínum í fyrsta skipti. Það þýðir að sumarið er að láta undan síga, en eins og menn vita þá eru árstíðaskipti afleiðing af möndulhalla jarðar. Nú erum við á leiðinni inn í skuggann.

Síðasti dagur Davíðs

Spurning um að baka í kvöld og mæta með köku í vinnuna á morgun, 15. september.

Boltinn með Guðna Bergs.

Mér finnst þetta góður þáttur. Í gær var Hemmi Gunn í heimsókn, en honum hefur áður verið hrósað í þessum skrifum. Vonandi fær hann að birtast reglulega á skjánum, þ.e. Sýn, í vetur. Það eina sem ég velti fyrir mér er hvort þetta sé hugsanlega of langur þáttur, ca 90 mínútur í gær. En þó mundi ég varla vilja sleppa neinu, líklega er lausnin sú að taka þáttinn upp og horfa á hann í tveimur bútum - nú eða þremur. (Takið eftir því að hér er ritað „tveimur“, ekki „tveim“ eða „tvemur“ eins og sumir hafa orðið uppvísir að. Þetta kenndi mér Ragnheiður Briem, sem kenndi mér íslensku í 3. bekk MR en er nú látin)

Þá má geta þess að veiðiferð er í pípunum fyrir næstu helgi. Þá má segja að maður hafi sett sig vel inn í tvær höfuðgreinar íslensks atvinnulífs til forna; réttir síðustu helgi, fiskveiði næstu helgi. Hvað næst? Kárahnjúkar? Kringlan? Vinna á Domino's?

mánudagur, september 13, 2004

Grennum Örninn - aftur

Móður, nýkominn úr sturtu, ennþá hálf-svitnandi, með boozt í hönd. Líður eins og nýsteiktum hamborgara. Já góðir hlustendur, átakið Grennum Örninn er hafið, aftur.

Átti skemmtilega stund með hálfri þjóðinni í World Class í hádeginu og bar tvennt hæst:

a)
Hitti sjónvarpsstjóra Skjás Eins í búningsklefanum og fór svo upp á cross-trainerinn (er til íslenskt orð?) og æfði þar með fyrrverandi sjónvarpsstjóra Skjás Eins og horfði með honum á Skjá Einn þegar maður í Síma-bol gekk framhjá. Úff, lítil þjóð.

b)
Sá frábært tónlistarmyndband við lagið "Bærinn minn Grindavík" með Sigurbirni Dagbjartssyni, þar sem helstu synir og dætur Grindavíkur sameinast í lofsöng um þetta undraverða pláss. Þarna voru Dagbjartur Einarsson útgerðarmaður, Bergur Ingólfsson leikari, risastóri körfuboltamaðurinn og að sjálfsögðu Kalli Bjarni, óskabarn Grindavíkur. Ég saknaði hins vegar eina alvöru snillingsins úr Grindavík: Guðbergs Bergssonar.

föstudagur, september 10, 2004

It's in the Net!

Það er margt skemmtilegt um fótbolta á netinu, það sem ég skoða helst er

SunSunSun
Sun.


sublime football
sublime football.


tribalfootball
Tribalfootball.



En uppáhalds fótboltasíðan mín er the Guardian.

Guardian
Guardian.



Þar var áður pistlahöfundur Ron Atkinsson sem var sagt upp vegna vafasams orðbrúks. Í staðinn fengu þeir rithöfundinn Gordon Strachan, sem í dag birtir áhugaverðan pistil sem veitir sjaldgæfa innsýn í hugarheim Svens og hinna landsliðsþjálfaranna og hvernig staða þeirra hefur breyst undanfarin ár. Hér er smá bútur:

"Then there's motivation. If I'm at a club paying somebody £50,000 a week, I can use any motivational tactic I want, whether it be rough, smooth or downright hellish, I can get them to play. But you can't do that at international level, because they're not there for the money. They will get more in an afternoon with their club than in the whole year for England.

If I'm an international manager, I can't be as rough with players: they're there because they want to be. People want managers to criticise players for a mistake but you cannot do that. You want to put these players back with their clubs feeling as good about themselves as they can. They don't need an international manager slaughtering them.

When I was playing for Scotland, I played in the days when you were paid £100 but the tax was £60. So I got £40 for playing in front of 50 or 60,000 people. One time I had guests coming; I had to pay for 10 tickets. It came to £220 for those. I got a bill for £180 when I was still in my dirty gear after getting beaten by the Republic of Ireland."

fimmtudagur, september 09, 2004

Ísland - Ungverjaland - ofn - kindur

Þegar Íslendingar jöfnuðu, strax eftir að Ungverjar komust yfir, sagði ég við Ástu glaður í bragði: "Sjáðu til, lið sem eru frekar léleg fá oft á sig mark fljótlega eftir að þau skora." Þetta rættist svo tveimur mínútum síðar.

Málaði ofninn í svefnherberginu í gær með málningarsprautu sem var knúin af gamalli ryksugu. Já, það er satt, í gamla daga voru ryksugur nefnilega líka með blásturselementi. Til hvers veit ég ekki.

Stefnan er sett á réttir í Borgarfirði um helgina. Langt síðan maður hefur fundið lykt af sauðfé. Hmm. Af hverju fór ég að hugsa um blautan vettling....


Heimasíða dagsins
Dagur.

miðvikudagur, september 08, 2004

Enski boltinn í Símanum?

Nú eru fylgismenn fjölmiðlafrumvarpsins sáluga glaðhlakkalegir og segja: "Við sögðum ykkur þetta. Þið vilduð þetta. Þið vilduð hafa þetta eins og hjá Berlusconi." Nú eru þessi gífuryrði að rætast.

Fjármálaráðherra mætir í drottningarviðtal í Kastljósið til að fjalla um Enska boltann - og gerir hann um leið að einhverju ofmetnasta sjónvarspefni allra tíma.

Mér sýnist reyndar Skjár einn vera á góðri leið með að sökkva þeim áhuga sem þó var á Enska boltanum fyrir. Lítið fer fyrir fréttum úr boltanum, litlar kynningar og almennt lítill spenningur. Þetta er þó sagt með þeim fyrirvara að deildin er rétt að fara af stað og etv. reynir maður svo líka að sjá eins og einn leik þegar ristin á Rooney kemst í lag.

Þeir á SÝN geta reyndar verið sáttir við sitt, fjöldi áskrifenda hefur svo gott sem staðið í stað, enda er bjóða þeir upp á dagskrá sem er vel kynnt (!!!) og spennandi (Meistaradeildin, boltinn með Guðna Bergs, Spænski boltinn og svo er fullt af fólki sem hefur áhuga á golfi). Skjár einn hefur örugglega ekki úr miklu markaðsfé að spila, því þeir borguðu þvílíkt okurfé fyrir útsendingarréttinn einan, og við það bætist kostnaður við starfsmannahald, efnisflutninga frá útlöndum o.fl.

Kjaftasagan segir að um miðja síðustu viku hafi starfsfólki Skjás eins verið ráðlagt að leita sér að nýrri vinnu. Ég fagna því reyndar að stöðin hafi náð að bjarga sér fyrir horn. Sjáum hvernig þetta þróast.

þriðjudagur, september 07, 2004

Elli smellir

Ég er orðinn spenntur fyrir þremur plötum sem koma út á næstunni

Dear Heather
~ Leonard Cohen
Væntanleg: 26. október 2004

Real Gone
~ Tom Waits
Væntanleg: 5. október 2004

Abattoir Blues / Lyre of Orpheus
~ Nick Cave
Væntanleg: 26. október 2004

(er kominn með tóndæmi undir hendurnar og líst rosalega vel á þennan nýja Nick Cave disk)

Það er augljóst af öllu að ég er í markhópi Einars Bárðarsonar og tónleikafyrirtækisins Concert. Ætli það séu þeir sem standa fyrir endurkomu og tónleikum Damiens Rice 23. sept? Nei, það hlýtur að vera Bjössi og Kári, þeir fluttu hann inn síðast og þá voru tónleikarnir frábærir. Rice er nú enginn ellismellur þótt hann leiti í smiðju Dylans, Neil Youngs ofl. og bætir við og gerir það vel.

mánudagur, september 06, 2004

Áhrif sem tónlist hefur 2

Muna lesendur eftir kvikmyndinni Rocky 4. Ég ætla mér að sjá þá mynd aftur eftir að hafa hlustað á James Brown flytja lagið "Livin in America". Það var, minnir mig, æðislegt atriði í myndinni þegar fyrrum heimsmeistarinn Apollo Creed ætlaði að valta yfir rússneska meistarann Ivan Drago. Drago mætti á svæðið og stóð í hringnum, frekar hógvær í bragði, en þá birtist Apollo og allt ætlaði um koll að keyra með James Brown á svæðinu og þvílíkt show í gangi til dýrðar blessuðum Bandaríkjunum...

"Yeah, uh! Get up, now! Ow! Knock out this!"

Svo er Appollo drepinn í hringnum.

Þetta atriði er magnað rothögg fyrir Glameríku og ætti frekar að vera sýnt á flokksþingsleikritum þessara elskulegu Repúblicrata þarna vestur frá heldur en Arnold Schwarzenegger eða hvað sem hann heitir sá ágæti maður.

Fótboltamót auglýsingastofanna - Dómaraskandall!

"Dómari! Það var víst hendi! Kanntu ekki að dæma!"

Þessir frasar og fleiri dugðu Góðu fólki ekki til sigurs í fótboltakeppni (lánsmanna) auglýsingastofanna. Fleiri lið voru greinilega búnir að fatta trikkið okkar í fyrra, að fá bara nógu góða lánsmenn, og má því segja að við höfum fallið á eigin bragði. Mín statístík er reyndar ágæt; skoraði helming markanna og lagði upp hinn helminginn (ef löng og föst sending (hreinsun) upp gegnum pakkann á miðjunni telst vera að leggja upp mark.) Ekki slæmt fyrir varnarmann. Mánudagsboltinn hefst í kvöld en hann er leikinn af valinkunnum heiðursmönnum í Valsheimilinu rétt fyrir miðnætti á mánudögum. Maður er að sofna upp undir kl. 3 á þriðjudagsmorgnum....

Nýja SKE lagið

Náið í lagið hjá Gumma Jóh!

On the way we loose it somehow



föstudagur, september 03, 2004

Fótboltahelgi ein mikil - og gleði

Fótboltamót auglýsingastofanna er á morgun. Við mætum með öflugt lið, þótt nokkur meiðsli hrjái lykilmenn - og mig. Gott fólk á titil að verja. Síðan er landsleikurinn gegn Búlgaríu og verður fróðlegt að sjá hvort árangurinn gegn Ítölum var bara blaðra. Síðan er partí um kvöldið þar sem leikin verður tónlist af iPod. Sunnudagurinn fer væntalega í að ná sér og svona.
Kvöldið í kvöld er hins vegar óskrifað blað, nema hvað varðar bjór eftir vinnu með góðum drengjum, hugsanlega PubQuiz á Grand Rokk.

fimmtudagur, september 02, 2004

Dís frumsýnd í kvöld

Þrjár stjörnur í Mogganum á morgun, eh, oh!?!

Ok, flott

According to the "Which Big Lebowski character are you?" quiz:




Why don't you check it out? Or we cut of your Johnson!

Hvernig tónlist getur virkað

September hafinn. Haustið komið. Tími til að losna við eitthvað af grillspiki sumarsins. Var búinn að ákveða með 4-5 vikna fyrirvara að mæta í ræktina af alefli í gær, 1. september. Það hafðist. Ég ákvað að beita sálfræðitrixi á sjálfan mig til að mótívera mig og bjó til frábæran playlista í iPodinn þar sem ég blandaði saman stefi og lögum úr Rocky myndunum við Quarashi og Mínus lög. Þessi blanda þrælvirkaði, mér leið eins og ég væri Balboa sjálfur að undirbúa mig fyrir bardaga við Apollo Creed, Mr T eða Ivan Drago. Maður þarf nú að fara að sjá þessar myndir aftur, sérstaklega Rocky 1, en hún fékk víst einhver Óskarsverðlaun, amk. tilnefningu - fyrir handritið held ég. En - alveg magnað - hvernig þessi tónlist drífur mann áfram. STICK'EM UP!

miðvikudagur, september 01, 2004

Áfram KR!

Nú þarf að taka til hendinni í Vesturbænum. Það lítur ekki út fyrir að Willum eigi eftir að stýra liðinu mikið lengur og raunar segir slúðrið að þegar hafi verið samið við Gauja Þórðar um að taka við liðinu. Það getur verið gott, og það getur verið slæmt. Ég held að Gunnlaugssynir hafi sungið sitt síðasta og nú þurfi að taka við uppbyggingartímabil með fáum, en vel völdum leikmannakaupum. Guðjón Þórðarson er líklega með dýrari þjálfurum og gerir örugglega kröfur um leikmannakaup, spurning hvort væri hægt að gera e.k. samstarfssamning við enskt félag í efstu deildum um að fá einn, tvo menn, eða eitthvað slíkt. Betra væri þó ef unnið væri af alúð og festu með efniviðinn í Vesturbænum í stað þess að kaupa, eyða og spenna. Áfram KR!

PS.
Athugið að hér er ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að KR falli, enda kemur slíkt ekki til greina. Í versta falli fáum við Björgólf Guðmundsson til að kaupa félagið upp um deild.