föstudagur, júlí 29, 2005

Erlendur fjárfestir kaupir Símann

Hvað er Samfylkingin að baula? Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista ehf, segir að þeir fjárfestarnir séu mjög ánægðir með kaupin á Símanum. „Við skoðuðum fyrirtækið mjög gaumgæfilega“ sagði Erlendur. Fjárfestir.

Þið fyrirgefið en ég stóðst ekki mátið.

Össi sleggja strikes again

Annar steypti skápurinn í eldhúsinu er kominn í plastpoka út í garð. Hinn fer sömu leið á eftir og opnast þá gangurinn í íbúðinni beint inn í eldhúsið - rykuga eldhúsið - í stað 50 sm hurðarops sem nú er.

Er eitthvað hægt að gagnrýna sölu Símans, ef það átti að selja hann á annað borð? Getur verið að þessi kaupendahópur hafi vitað eitthvað sem aðrir vissu ekki? Forstjóri Símans tengist Skipti. Ætli það sé ekki það eina? Svo geta menn deilt um hvort það hafi átt að selja hann á annað borð. Eru ekki allir sammála um að það hafi verið glapræði hjá Davíð að ætla að selja hann fyrir 40 milljarða árið 2001?

fimmtudagur, júlí 28, 2005

66 milljarðar

Hæsti símreikningur í sögu þjóðarinnar. Sit hér og hlusta á Talstöðina. Íslendingar eru orðnir svo miklir kapítalistar að það er bein útsending frá einkavæðingu Símans. Íslenska landsliðið í fjármálum er að brillera. Tryggingamiðstöðin og Atorka og Byko lutu í lægra haldi fyrir Bakkbræðrum, KB banka og lífeyrissjóðum og allt í beinni á Sýn. Eða Talstöðinni. Fréttamenn 365 á staðnum hamast við að pumpa upp stemmninguna þótt ég hefði viljað fá nánari lýsingar eins og t.d. :„Bjarni Ármanns er órólegur, strýkur gegnum hárið og gjóar augunum á Sigurð Einarsson sem er að skrifa eitthvað á blað. Hann réttir Óskari Magnússyni blaðið og og og og jú Óskar glottir. Hann glottir. Glæsilega gert hjá Óskari. Hann réttir blaðið áfram á Margeir Pétursson, glæsilega gert....". Það verður örugglega svona lýsing þegar Spítalarnir verða einkavæddir. Hlýtur að styttast í það.

Össi sleggja

Í kvöld á að fara með sleggjuna á hlaðinn vegg í nýja eldhúsinu og massa hann niður. Eini gallinn er að mig vantar sleggju. Kallinn er sleggjulaus. Reikna með því að kaupa eitt stykki sleggju í BYKO. Ekki fer maður að leigja sleggju. Annað hvort á maður sleggju eða ekki. Líklega er betra að eiga. Lúðalegt að leigja sleggju, ég mundi ekki einu sinni þora að spyrja að því - allra síst þar sem fagmennirnir versla.

Þetta er allt að gerast. Stefnt er að flutningum á laugardag, en gæti þó frestast fram á sunnudag, til að koma meiru í verk á nýja staðnum áður en draslið kemur á staðinn.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Hvannadals-hvað?

Rétt er að fram komi í umræðum um nýjar mælingar Landmælinga á hæsta tind Íslands að nafn tindsins er Hvannadalshnjúkur, með joði. Að sögn Svavars Sigmundssonar, forstöðumanns Örnefnastofnunar Íslands, mælir stofnunin með því að joð sé notað enda sé það í samræmi við málvenjur heimamanna á svæðinu. Rithátturinn -hnúkur tíðkast einkum á suðvestanvert landið en -hnjúkur á Norður-, Austur- og Suðurlandi. Að sögn Svavars þá tala bræðurnir á Kvískerjum um Hvannadalshnjúk, með joði, þegar hæsta tind Íslands ber á góma og er því vandséð að ræða þurfi málið frekar.

Stofnun vikunnar

Hef ákveðið að taka upp fastan lið hér á röflinu og kynna hinar ýmsu stofnanir, nefndir og ráð sem finna má í landinu og gera lífið bærilegra fyrir okkur sem hírumst hér á þessu skrítna skeri.

Sú fyrsta sem verður fyrir valinu er Örnefnastofnun Íslands. Á heimasíðu stofnunarinnar kemur fram að hlutverk hennar er meðal annars að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi í örnefnafræðum eftir því sem föng eru á. Þar er einnig hægt að sjá örnefni mánaðarins og ýmislegan fróðleik. Einnig gefur stofnunin út vefrit og fjallar nýjasta greinin þar um tölur í örnefnum. Ég hvet alla til að kynna sér vel hvernig Örnefnastofnun getur komið að gagni í daglegu amstri.

Fríksjó í Kastljósinu

Jim Rose tröllreið fjölmiðlum í gær með viðundrum sínum og var sérstaklega fyndið að sjá hann í Kvöldþættinum hjá Gumma. Gummi sagði að það væri hálfgert freakshow í þættinum: Jim Rose og Gísli Marteinn. Ekki er ég viss um að Gísla hafi þótt það fyndið, en hann var annars fínn í þættinum. Það sem mér fannst samt einkennilegast við framboðið á Jim Rose efni í gær var að Kastljósið skyldi taka þetta inn. Var ekki verið að ræða það í Kastljósinu um daginn að Strákarnir hefðu svo slæm áhif á krakka því þeir væru sýndir svo snemma á kvöldin. Í því ljósi finnst mér það fullkomið dómgreindarleysi hjá þeim í Kastljósinu að hafa mann í þættinum sem gleypir rakvélablöð. Ef krakkar eru svona mikið að apa upp eftir sjónvarpinu eins og sumir halda fram þá er alla vega skárra að þau pissi í sig heldur en að gleypa rakvélablöð.

Alþjóðleg ljóðahátíð verður í Reykjavík um helgina. Gaman að sjá hvað krakkarnir í Nýhil eru að hleypa miklum krafti í umræðuna um ljóðlist, reyndar er stutt í gorgeirinn og besservissið hjá sumum en hvað um það. Hroki er hraustleikamerki. Flutt verða inn ýmis ljóðskáld sem verða vonandi plögguð til stjarnanna. Það vantar ljóðaleiðtoga á Íslandi, held ég. Áberandi og góð ljóðskáld. Fjalla kannski meira um þetta síðar.

Þegar maður ferðast erlendis er ekki ósjaldan sem fiskur er dýrari en kjöt á veitingastöðum. Þetta vekur athygli Íslendinga sem hafa í gegnum tíðina átt nóg af fiski en stundað heimilis-heimskautarækt á kjöti. Ég held að þetta sé að breytast, alla vega finnst mér fiskur orðinn fáránlega dýr og kjötið alltaf að verða ódýrara.

Þessu skylt: Nóatún auglýsti um daginn verðlækkun á helstu neysluvörum heimilisins. Eitt af því sem lækkaði var verð á ungnautalundum. Sem eru jú á borðum flestra reglulega, er það ekki? Ég keypti eitt stykki. Það var smátt, litlaust og bragðdauft, nánast eins og kálfakjöt. Hmmmm. Gæti það verið?

Stórfréttin sem bíður þeirra sem nenntu að lesa rausið hér að ofan er þessi: Í hádeginu í dag fæ ég afhenta lyklana að nýju íbúðinni, tveimur dögum á undan áætlun. Nú fer allt á fullt. Ó mæ godd. Innipúkinn hvað?

þriðjudagur, júlí 26, 2005

2119 eða hvað?

Mikill titringur er nú í jöklamönnum og áhugafólki um útivist og náttúru vegna þess að Hvannadalshnúkurinn verður mældur á næstu dögum með nákvæmari hætti en áður. Eins og við lærðum öll í grunnskóla þá er opinber hæð hnúksins 2119 metrar yfir sjávarmáli. Sú tala byggir á rúmlega 100 ára gömlum þríhyrningamælingum og er nær örugglega ekki rétt. Árið 1955 mældist hnúksi 2123 metrar og í júni í fyrra 2111 metrar með gps tæki og verður spennandi að sjá niðurstöðuna frá Landmælingum í byrjun næstu viku.

Hér væri ekki óvitlaust að hafa smá getraun:: Hversu hár er Hvannadalshnúkur? Niðurstaðan liggur fyrir í næstu viku. Verðlaun fara eftir þátttöku.

mánudagur, júlí 25, 2005

Agngrýni: Harry Potter og hálf-blóðugur prins - contains spoiler.

Eins og áður hefur komið fram er loftið lævi blandið í nýjustu skáldsögu J.K. Rawling, Harry Potter and the Half-Blood Prince. Ég hef í gegnum tíðina haft gaman af ævintýrum galdradrengsins og verður fróðlegt að sjá hvernig það verður leitt til lykta en J.K. hefur gefið það út að bækurnar verði aðeins 7. Þegar ég lauk við lesturinn á þessari 6. bók þá stóð upp úr tilfinning um að hún væri eins konar biðleikur, ákveðin hrókering, fyrir lokaátökin í síðustu bókinni. Í grunninn séð er bókin ekki um Harry heldur um annars vegar svipmynd af Voldemort og hins vegar nauðsynlegan dauða Dumbledores.

Dumbledore (Dummybore?) er einkennileg persóna, sem þjónar frásagnarlegu hlutverki í bókaflokknum sem eins konar guide fyrir Harry, svarar öllum spurningum hans sposkur á svip og virðist vera by far öflugasti galdrakarlinn. Hann kemur þó litlu í verk í sögunum, helst að maður finni fyrir því að hann sé í endalausu eftirlitshlutverki og skriffinnsku, kannski ekki ósvipað Reykjavíkurlistanum? Í þessari bók lýkur hann hlutverki sínu með því að sýna Harry Potter veginn áfram og afturábak og undirbýr þannig jarðveginn fyrir lokaátökin eins og áður sagði.

Í reglulegum einkatímum hjá Dumbledore kafa þeir Harry ofan í minningar fólks sem hafa átt samskipti við Voldemort gegnum árin og kynnumst við þannig þeim sem ekki má nefna loksins aðeins betur. Með þessu móti finna þeir helsta styrkleika Voldemorts, sem er jafnframt lykillinn að því hvernig hægt er að sigra þann forna fjanda. Það er augljóst að því loknu er ekkert hlutverk fyrir Dumbledore. Hann hlýtur því að deyja.

Bókin er reyndar frekar laus í forminu og ekki eins skýr tilfinning fyrir því hvernig skólaárinu vindur fram eins og í fyrri bókunum. Hluti af formgerðinni er spurninginn um hver sé hinn dularfulli Half Blood Prince - svo fyrirsjáanlegt að það er í besta falli athyglisverð þraut fyrir þýðendur bókarinnar, hint hint.

Ég hafði þó þrátt fyrir allt gaman að þessari bók, helst að manni leiddist þegar unglingaveikinni slær niður í sögupersónurnar, en það er skemmtilegt dæmi um raunsæi í fantasíunni. Og ætli það sé ekki einn lykillinn að velgengni Harrys Potter og félaga.

Og líka það, eins og áður sagði, þá endurspeglar bókin að vissu leyti þann ótta sem gegnsýrir Vesturlönd. Allir hræddir við dularfullan mann sem fer huldu höfði og ber enga virðingu fyrir mannslífum og sendir fólk hingað og þangað til að vekja ógn og skelfingu. Allar öryggisráðstafanir hafa verið auknar en það dugar ekki til. Hið illa finnur sér alltaf leið. Hvernig endar þetta allt saman?

Plögg kort

Nú geta menn búið til sín eigin greiðslukort í Landsbankanum, sett myndir af sjálfum sér eða börnunum á debet- eða kreditkortið svo lengi sem myndirnar eru decent og standast lög um höfundarrétt. Íslandsbanki býður svipaða þjónustu, sem er reyndar bara fyrir 12-14 ára. Birgitta Haukdal fékk samt fyrsta kortið. Aha - eða ullabjakk??

Tapað áróðursstríð

Strætó hefur verið gersigraður í áróðursstríði um nýja leiðakerfið. Kannski gerðu menn sér ekki grein fyrir því hvaða árásum þeir voru að bjóða heim með því að gerbreyta systeminu sínu svona - en það er ljóst að allir hata nýja kerfið. Það er staðreynd. En hefði þetta þurft að vera svona? Alls ekki. Ef Strætó hefði unnið heimavinnuna sína þá hefðu þeir byrjað að undirbúa kynningu á kerfinu löngu fyrr til að geta skapað einhverja stemmningu fyrir því. Á jákvæðan hátt. Í staðinn þá ráða sjálfstæðismenn og fúlir á móti umræðunni og fjölmiðlar eru fullir af kommentum um hversu mikil afturför nýja kerfið er.

Að hleypa umræðunni svona frá sér er vítavert, nánast glæpsamlegt kæruleysi, af hálfu Strætó. Afleiðingin er sú að fullt af fólki er hrætt við nýja kerfið og væntanlega mun farþegum fækka, þótt það sé ekki nýja kerfinu að kenna, heldur gallaðri kynningu á viðkvæmu efni í fjandsamlegu umhverfi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ræðst á allt og alla. Menn geta nú reyndar rétt ímyndað sér hvernig almenningssamgöngur væru ef Kjartan Magnússon, Guðlaugur Þór og Júlíus Vífill fengju að ráða þeim.

Ég tek ekki strætó en ég skoðaði kerfið um daginn og mér sýnist það að mörgu leyti skynsamlegt. Það er blanda af hverfisleiðum og hraðleiðum sem tengja hverfin saman. Svo eru mjög fínar leiðbeiningar að finna á netinu þar sem fólk getur fundið heppilegustu leiðina milli tveggja punkta. Þetta er á bus.is en auðvitað hefur Strætó ekki haft fyrir því að segja fólki frá þessu heldur.

föstudagur, júlí 22, 2005

Fá sér rúma 3,14 bjóra?

Í dag halda allir sannir stærðfræðingar ekki upp á boðunardag Pí (π-approximation day), 22/7 þú skilur. Nánari dagskrá er að finna á:

http://en.wikipedia.org/wiki/Pi_day#Pi_Day

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Þoka í Reykjavík

Nú hefur mannanafnanefnd (hvað eru mörg enn í því?) heimilað fólki að gefa dóttur sinni nafnið Þoka. Af því tilefni birti ég þessa mynd af fyrirbærinu sem tekin var ofan úr Hallgrímskirkjuturni í síðustu viku.

Páll Magnússon

Ja, það væri nú ekki það versta sem gæti gerst að sá gaur yrði útvarpsstjóri. Hef reyndar ekki séð neina stórkostlega snilldartakta á Stöð 2 en batteríið hefur rúllað ágætlega í plebbakonseptinu. Umdeilanlegt hvort útvarpsstjórinn á sjálfur að standa í einhverjum tilþrifum, fyrst og fremst leggja skýrar línur og laða fram það besta í fólki og leyfa því síðan að vinna vinnuna sína. Fullt af góðu fólki á RÚV. En hver verður sjónvarpsstjóri á Stöð 2? Árni Þór? Og hver verður formaður Blaðamannafélgsins? Eiríkur Jónsson?

Terroristar á eftir Potter?

Er kominn aðeins áfram í Harry Potter. Mér finnst athyglisvert að meðal sögupersóna ríkir andrúmsloft mikils ótta vegna óvinar sem er í felum. Menn eru á tánum og öll löggæsla og allar öryggisráðstafanir hafa verið auknar gríðarlega. Minnir dálítið á alla umræðuna um terrorismann. Svo varð mér ekki um sel þegar ég áttaði mig á því að Harry Potter fer í skólann frá Kings Cross brautarstöðinni sem er ákveðinn miðdepill árásanna í London um daginn.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Kostulegt

Að sjá Hannes Hólmstein í gær að tala við Stefán Pálsson um stríðið gegn hryðjuverkum, beinlínis hlægilegt: „Ef þú kemur að þar sem tveir menn eru að berja konu á götuhorni, ferðu þá í samningaviðræður?“ Þessa „líkingu" mætti alveg eins nota til að réttlæta hryðjuverk. Ætli það sé einhver íraskur Hryðjuverka-Hannes einmitt núna að hvetja ungt fólk til að sprengja sig í loft úpp í Fallujah eða Tikrit því ekki sé hægt að semja við menn sem eru berja konuna á götuhorninu.

Hannes er reyndar lúmskur í svona þáttum, hann nær einhvern veginn að hrista stjórnendur þáttanna af sér, svarar aldrei spurningum beint og gjammar í aðra viðmælendur meðan þeir eru að byggja upp sitt mál að einhverjum punkti. Samræðuterroristi. En þykist samt vera voðalega kurteis. Segist vera sammála ýmsu sem hinn aðilinn var augljóslega alls ekki að meina.....

Auðvitað er það rétt hjá Stefáni Pálssyni að það er algjörlega búið að gerbreyta merkingu orðsins hryðjuverkamenn. Hryðjuverkamaður þýðir nú orðið hver sá sem berst gegn því að Bush/Blair og stórfyrirtækin geti ráðskast með aðrar þjóðir eins og þeim sýnist. Var ekki hinn hægri-græni Ólafur F. Magnússon kallaður terroristi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins?

Athyglisverður punktur sem kom fram í viðtali í Mbl við Íslending sem starfar í teymi hjá SÞ sem ætlað er að berjast gegn Al Kaída. Hann sagði að það gæfi besta raun til að koma vitinu fyrir unga íslamska fanatíkera að láta þá spjalla við íslamska klerka sem gætu sagt þeim að Kóraninn bannar bæði sjálfsvíg og árásir gegn konum og börnum. Þessum punktum væri til dæmis hægt að koma betur á framfæri með aukinni samræðu milli menningarheimanna. Í staðinn er alið á fordómum og byggðir múrar. Íslam er ekki vandamálið og kristið siðgæði er ekki lausnin. Hvernig væri að eyða broti af þeim fjármunum sem fara í að leita að hryðjuverkamönnunum frekar í að leita að „orsök" hryðjuverkamannanna?

Æ, hvað er ég að þykjast hafa vit á þessu...

helgi og veikindi i punktaformi

Farið á Laugarvatn á gráviðri á föstudag. Lúrt og lesið fram eftir blautum laugardeginum. Um kvöldið matarboð hjá þáttastjórnanda þar sem fágæt innsýn fékkst í daglegt líf Azera. Matarboðið dróst á langinn. Vöknuðum allt of seint fyrir skírnina sem við áttum að mæta í fyrir sunnan. Frestaðist um 15 mínútur en gekk samt vel og fékk snáðinn nafnið Sævar Snær og svaf allan tímann. Eins gott fyrir hann að þetta hafi verið tekið upp á vídeó, ef hann vill rifja þetta upp síðar.

Um kvöldið fór ég á Snoop Dogg með tveimur vinnufélögum. Sátum í svokallaðri VIP stúku og hlustuðum á upphitunarhljómsveitirnar og vonuðum að hljóðkerfið mundi detta í lag áður en hundstirnið mætti á svið. Það var ekki. Honum var vel tekið í áhorfendaskaranum en mér sýndist VIP stúkan taka þessu fálega. (Var ekki nýi mexíkóski Íslandsvinurinn með íslenska dömu upp á arminn?). Hljómurinn var svo fáránlegur í húsinu að maður skildi bara 3 orð frá Snoop "gin and juice". Á þessum tímapunkti var ég kominn með hausverk og hálsverk og hélt að það væri út af hávaðablöndunni en annað kom í ljós.

Mánudag vaknaði ég með rúmlega 39 stiga hita, hausverk og svita og var heima og í gær líka þegar ég hóstaði upp úr mér slímköggli af bíblíulegri stærð. Ég hélt að ég hefði óvart hóstað upp úr mér einu af litlu líffærunum, milta eða brisi.

Nú er ég mættur til vinnu og mikið hefur mávinum fjölgað í miðborginni...

föstudagur, júlí 15, 2005

Biðröð byrjuð að myndast fyrir Potter


Fyrstu krakkarnir eru komnir í röð fyrir utan Eymundsson og Mál og menningu við Laugaveg að bíða eftir Harry Potter og Fursta hins þynnta blóðs. Menn eru búnir að klæða sig upp í búninga og læti. Það var nú ekki svona þegar Frank og Jóa bækurnar komu út á sínum tíma, eða Ævintýrabækurnar. Hér er eitthvað annað og meira á ferðinni.

Að fara eða ekki fara

Helgin er eitthvað að teiknast upp. Mig langar upp í sumarbústað í kvöld.

DV-klíkan heldur áfram að leggja Þorvald Davíð í einelti í slúðurdálkum á útsíðum. Er þetta ekki orðið nóg um þennan ágæta pilt? Er ekki eitthvað fleira fólk?

Fer í skírn á sunnudag og svo beint á Snoop Dogg. Hvernig passar það saman?

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Erlendis í eina sekúndu

Þegar ég sat sólarmegin við Thorvaldsen í hádeginu og fann bragðið af fyrsta sopanum af bjórnum sem ég pantaði með matnum. Einn af þeim sem naut matarins með mér ætlar að hlaupa Laugavegshlaupið og vonast til að komast alla leið á innan við 7 klukkustundum. Eins og dyggir lesendur vita fórum við Ásta þetta á fjórum dögum fyrr í sumar.

Ég held að Laugavegshlaupið sé slæm hugmynd í sjálfu sér og tákn um firringu nútímamannsins. Þegar menn geta ekki notið náttúrunnar nema að snúa því upp í einhverja brjálaða keppni. Af hverju ekki að njóta náttúrunnar? Af hverju að hlaupa og svitna þegar það hægt að ganga og upplifa? Mér finnst að það eigi að skylda keppendurna til að labba til baka þegar þeir koma í mark í Þórsmörk. Niður með firringuna!

Fimmtudagur í dag. Á miðnætti á morgun kemur Harry Potter í búðir á Laugaveginum, í Austurstræti og á Akureyri. Likurnar á því að ég verði búinn með Queen of the South eru engar.

Vil líka taka það fram að nýuppteknu kartöflurnar eru snilld. Ég ofnsteikti kryddlegna keilu (ha ha) og prófaði bæði soðnar og steiktar nýuppteknar premier kartöflur með og það var æði-snæði. Mæli með að þið prófið. Sendingin úr Þykkvabænum frá því í morgun er komin í Hagkaup.

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Korktöflur

Dagurinn í gær og í dag hafa farið í að plögga íslensku kartöfluna. Virðist það vera mjög þakklátt verkefni, allir til í að segja frá frumuppskeru þeirra í Þykkvabænum. Nú lítur út fyrir að þessar nýju kartöflur séu uppseldar í búðunum, þannig að þetta er eitthvað að virka. Samkvæmt þessu. er eftir einhverju að slægjast líka! Fylgist með kartöflunum, það verða fleiri teknar upp í fyrramálið og koma í búðir á morgun, og hinn og hinn og hinn og svo framvegis eitthvað fram í ágúst. Njótið.

Vonast til að komast í fótbolta í kvöld þótt ökklinn sé enn nokkuð bólginn, ekki síst eftir maraþonstöðu á tónleikunum með Tona og tittlingunum á mánudagskvöldið.

Tókst að afreka það að gleyma bílnum í vinnunni í gær. Fjalla ekki um það nánar. Harry Potter kemur í búðir á miðnætti á föstudag. Ætti maður að fara í röð? Þyrfti þó að klára Queen of the South fyrst, en hún er með agnarsmáu letri og fer rólega af stað þótt fyrsta síðan hafi verið dýnmít.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Toni og tittlingarnir

Ekki hefði ég viljað missa af tónleikum Antony and the Johnsons á Nasa í gær. Þvílíkur söngvari sem þessi maður er. Ef hann er maður. Toni er listamaður sem hefur komið sér fyrir á gráa svæðinu milli þess að vera karlmaður og kona, ekki aðeins útlitslega, heldur einnig með fullkomlega einstæðri og heillandi söngrödd. Hann var dálítið seinn í gang í gær en sprakk út eftir nokkur lög og pakkaði salnum saman með hæfilegri blöndu af dramatískum ballöðum og grallaraskap. Fyrir utan eigin lög þá tók hann lög eftir Nico, Leonard Cohen, Moondog, David Tibet og Lou Reed (Candy Say's var uppklappslagið hans).

Það verður þó að segjast að þótt Antony hafi leikið á als oddi þá er hljómsveitin hans, bassi, harmonikka, fiðla, selló og gítar, líklega sú brosnískasta sem ég hef séð á tónleikum. Það var helst að glitti í tennurnar á þeim þegar Antony brilleraði í sögunni um sjálfan sig sem eiginkonu hellisbúa í fyrra lífi sem hann söng síðan lag um.

Hljómsveitin Hudson Wayne hitaði upp en heillaði mig ekki.

Þangað til???

Kvót dagsins: "Við vorum betra liðið á vellinum þangað til þeir skoruðu þriðja markið".

mánudagur, júlí 11, 2005

Hunda-Mogginn?

Detti mér allar dauðar...Ég sem hélt að Morgunblaðrið hefði einkarétt á minningargreinum á Íslandi. En það er ekki svo. Besti vinur mannsins hlýtur að eiga skilið að fá sín minningarorð alla vega skv. þessu. Alla vega fékk hann Oliver fallega kveðju:

"Elsku Oliver okkar. Nú ertu í fanginu hjá honum afa uppi í himnaríki. Við vitum að hann á eftir að passa þig vel. Þann fyrsta júlí átti sér stað sá hræðilegi atburður að þú hljópst beint fyrir bíl. Við trúðum því ekki og vorum lömuð af sorg. Litli sólargeislinn okkar sem alltaf var svo kátur, hlýðinn og góður. Þú komst að öllum með dillandi skotti og kærleika í augum. Þú varst alltaf þétt upp að okkur og eltir okkur hvert sem við fórum. Þú varst með svo sterkan persónuleika, þó þú sagðir ekki neitt.

Nú hvílir litli líkami þinn í dýrakirkjugarðinum við rætur Ingólfsfjalls, en sálin er farin yfir regnbogabrúnna þar sem þú getur hlaupið laus með öðrum hundum og kúrt hjá afa á næturnar. Þú býrð í hjörtum okkar þangað til við hittumst að nýju. Við munum alltaf sakna þín litli vinur."

Svo hjálpi mér hunda-guð.

Spurt, spurt og svarað

Spurningakeppnin fór vel fram á föstudaginn, sigurinn var afgerandi þannig að ákveðið vafaatriði skipti ekki sköpum þegar upp var staðið. Einhverjir voru búnir að biðja um að spurningarnar yrðu póstaðar hér og ég get svo sem hent þeim inn. Það er svo sem auðvelt að svara þessu á netinu örugglega, en það er auðvitað ekki eins gaman. Hér er keppnin eins og hún var fluttá föstudaginn:

1.
101 Reykjavík nýtur þeirrar sérstöðu að þar fer næturlíf höfuðborgarbúa og nærsveitunga fram. Í kvöld og annað kvöld munu þúsundir streyma í 101 til að fá sér í glas. Og annað. Menn ráfa um dauðadrukknir og ráða ekki allir sínum næturstað. Flestir komast heilir heim en sumir fá gistingu, þeir óheppnu hjá lögreglunni, en aðrir leggjast til svefns eða beinlínis drepast á afviknum stöðum í miðbænum ekki síst á sumrin. Vinsæll staður til að drepast á er Alþingisgarðurinn en nú er spurt: Hver hefur legið lengst allra dauður í Alþingisgarðinum og liggur þar enn? Hver er grafinn í alþingisgarðinum?

2.
Við rönkum semsagt við okkur í Alþingisgarðinum og virðum fyrir okkur umhverfið. Þá sjáum við að alþingishúsið er ekkert sérstaklega ljótt enda teiknað af dönskum arkítekt. Húsið er reist í byrjun 9. áratugs 19 aldar úr grjóti sem höggvið var í Skólavörðuholtinu ef ég man rétt, en þá fer maður að velta fyrir sér steintegundinni sem húsið er úr. Hver er hún?

3.
Við ætlum ekki að dvelja lengur í við alþingishúsið, og þó. Við göngum út úr alþingisgarðinum (Þetta er að breytast í svona guided tour....er Birna Þórðar nokkuð að keppa?). Við göngum úr alþingisgarðinum í átt að dómkirkjunni og virðum hana fyrir okkur. En hvað heitir gatan sem við stöndum á? Hvaða gata liggur milli dómkirkjunnar og alþingishússins?.
4.
Þegar komið er yfir á Austurvöll kemur upp í hugann að forsetaferill Halldórs Blöndals á alþingi hefur oft verið stormasamur og síðast gustaði um hann þegar hann lagðist gegn sýningu myndverka sem nú stendur yfir á Austurvelli. Ekki hefur þó tekist að sanna að Blöndalinn beri ábyrgð á þeim skemmdarverkum sem voru unnin á sýningunni sem var þarna í fyrra, en nú er spurt: hver tekur við embætti forseta alþingis í haust þegar Halldór Blöndal lætur af því?

5.
Stöldrum við á Austurvelli og förum að reikna. Þessi spurningin hljómar örugglega erfið við fyrstu hlustun en með smá skynsemi ættu allir með 85+ meðalgreind að komast nálægt svarinu. Talan 101 er prímtala. Ekki er hægt að deila henni með neinni annarri tölu og fá út heila tölu, nema einum. Ef prímtölunum er raðað í röð eftir stærð, t.d. 2, 3, 5, 7, 11 og svo koll af kolli þá er 101 sú 26. í röðinni. Það skemmtilega er að ef fimm samliggjandi tölur í röðinni eru lagðar saman þá fæst útkoman 101. Hvaða tölur eru það? Spurt er um fimm samliggjandi prímtölur en summa þeirra er 101.

6.
Leiðin okkar liggur yfir Austurvöll og á skemmtistaðinn sem ber nafn bandarísku geimvísindastofunarinnar Nasa. og vissulega hafa margir verið svolítið speisaðir þar en hvað heitir eini Íslendingurinn sem raunverulega hefur farið út í geiminn (svo vitað sé).

7.
Nýtt hótel hefur verið opnað í gamla Eimskipafélagshúsinu og hvað heitir það nú? Jú 1919 hótel, væntanlega í höfuðið á vinsælum sjónvarpsþætti á Stöð 2. Í tilefni af nýju hlutverki hússins var ákveðið að hylja merki þeirrar starfsemi sem áður fór fram í húsinu með sérstökum skildi þar sem á er letrað 1919, reyndar með leturgerð sem var teiknuð árið 1938 ef mér skjátlast ekki. En mörgum finnst án ef léttir að vera lausir við hakakrossinn af húsinu, oft hefur maður séð erlenda ferðamenn taka myndir af þessu merki, þótt það sé í smáatriðum frábrugðið merki nasista en nú er það eins og áður sagði falið undir fölskum skildi. Gamli hakakrossinn í merki Eimskipafélagsins á sér fyrirmynd í rún sem hefur sérstakt nafn eða heiti í íslensku máli, : Hvaða nafn er það?.

8.
Nasistum leiðist kannski að geta ekki lengur séð tákn sitt á glæsilegu húsi en þeir geta þó enn fengið sínar SS pylsur á Bæjarins bestu. Sláturfélag Suðurlands var stofnað við Þjórsárbrú 28. janúar 1907 og notar skammstöfunina SS á Íslandi en á alþjóðavettvangi er annað Slátur-Félag þekktara undir þessum einkennisstöfum. Nú er spurt: Fyrir hvað stóð skamstöfunin SS í Þýskalandi Hitlers. Spurt er um þýska orðið eða þýðingu þess á íslensku.

9.
Einn er sá maður sem setti svip á 101 Reykjavík um árabil. Minna hefur farið fyrir honum eftir að hann flutti rekstur sinn úr 101 en þó beindist að honum kastljós fjölmiðlanna um daginn þegar honum þótti á sér brotið. Um hann og rekstur hans var ort kvæði sem margir þekkja. Nafn mannsins og rekstrar hans vita þeir sem geta botnað þennan fyrripart:

Lífið allt fær annan stíl,
örvast kraftur stuðsins...


10.
Örfáir Íslendingar eru svo heppnir að eiga einhverjar krónur inni á bók í banka. Er þeim hér með óskað til hamingju. Landsbanki Íslands er elsti banki landsins og í aðalbanka hans í 101 Austurstræti hefur í áranna rás safnast gott safn af myndverkum sem gleðja augað meðan reikningarnir eru jafnaðir. Í aðal-afgreiðslusal bankans á fyrstu hæð má sjá veglega veggmynd, eða fresku, eftir einn merkasta myndlistarmann þjóðarinnar, sem minnir okkur vesæla borgarbúana á mikilvægi landbúnaðarins. Eftir hvern er þetta verk?

11.
Þeir eru margir ógreiddir reikningarnir sem leiddir eru til lykta í 101. Kannski hefur einhver hér salnum þurft að taka út pening í Landsbankanum og rölta sér svo yfir til tollstjóra til að gera upp vangoldna skatta eða ógreidd meðlög. Eftir hvern er litskrúðuga veggmyndin utan á húsi Tollstjórans í Tryggvagötu?

12.
Hvaða orð þýðir bæði spil, sérstakt farartæki og tuska?

13.
Þegar staðið er við hið geysifagra hús á Lækjartorgi sem sinnir hlutverki biðskýlis fyrir strætó og horft beint framan á Stjórnarráðið þá sjáum við styttur þeirra Kristjáns 9 og Hannesar Hafsteins: Hvor þeirra er hægra megin þegar horft er framan á húsið?.

14.
Á sama stað sést skemmtilegt listaverk sem er hluti af hótel 101 - en hótelið er hannað af eigandanum Ingibjörgu Pálmadóttur. Verkið, sem um ræðir er bæði inni á veitingastað hótelsins og veggnum fyrir ofan og samanstendur af eins konar bungum og líkist því að veggurinn sé að klekja út afkvæmum. Eftir hvern er þetta verk?

15.
Við síðustu alþingiskosningar kusu Reykvíkingar í tveimur kjördæmum: Reykjavík Norður og Reykjavík Suður og eru skil kjördæmanna m.a. miðuð við Hringbraut enda augljóst að íbúar við Skaftahlíð eiga meiri samleið með íbúum á Mururima, en Barmahlíðar. Hvað um það. Hringbrautin sker semsagt póstnúmerið 101 í tvo parta og eru miklum mun fleiri íbúar í nyrðri hlutanum. En hvor hlutinn er stærri að flatarmáli, 101 norðan eða sunnan Gömlu Hringbrautar?

16.
Skáldsagan 101 Reykjavík var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 en kom út árið 1996. Höfundur hennar er myndlistamaður sem vakti þó fyrst athygli sem pistlahöfundur í útvarpi. Fyrsta bókin hans Hella kom út árið 1994 en hvað heitir síðasta bókin sem Hallgrímur Helgason setti á flot í hinu árlega jólabókaflóði?

17.
Nútímavæðingin hefur haldið innreið sína í 101. Það hefur t.d. komist í tísku að hafa 101 í nafni fyrirtækja meðal annars 101 Leikskólar. Ég les nú nöfn fimm fyrirtækja úr símaskránni en eitt þeirra var svo heppið að tryggja sér lénið 101.is. Heimasíða hvaða fyrirtækis kemur upp þegar slegið er inn www.101.is
101 tannlæknar
101 Reykjavík fasteignasala
Sólbaðsstofan Sól 101
101 hotel
101 arkítektar
Hvert þessara fyrirtækja er með heimasíðuna 101.is.

18.
Í fáum póstnúmerum öðrum en 101 er að finna útigangsfólk. Helsta félagsheimili þeirra og þeirra fáu vina er Kaffi Austurstræti, einnig kallað Kaffi skítur, og tók við af Keisaranum sáluga. Þeir sem vita nákvæmlega svarið við þessari spurningu ættu ef til vill að hugsa sinn gang: Hvað kostar stór bjór á Kaffi Austurstræti? Skekkjumörkin er 50 krónur.

19.
Um daginn sat hópur manna um hótel 101 í von um að berja knattspyrnugoðið David Beckham augum. Hann var þó fjarri góðu gamni kappinn sá en hann leikur eins og kunnugt er með konunglega knattspyrnufélaginu í Madríd. Sterkur orðrómur er um að liðið sé í þann veginn að klófesta einn efnilegasta knattspyrnumann veraldar. Hann vegur 60 kíló og hefur vakið gríðarlega athygli bæði með einu þekktasta félagsliði Suður Ameríku. Hvað heitir þessi efnispiltur?

20.
101 er eina póstnúmerið í Reykjavík sem hefur sinn eigin flugvöll. Hér um árið fóru fram kosningar um hvað yrði um þennan blessaða flugvöll eftir árið 2016. Sem kunnugt er vildi meirihluti þeirra sem atkvæði greiddu að flugvöllurinn færi og taldi þáverandi borgarstjóri niðurstöðuna þó ekki bindandi, heldur siðferðilega bindandi, sem er nýtt lýðræðishugtak umræðustjórnmálanna. Flugmálastjóri og félagar sem vildu hafa flugvöllinn áfram töpuðu semsagt kosningunum, alla vega siðferðilega, en hvað hét þrýstihópurinn sem barðist á þessum tíma fyrir því að flugvöllurinn færi og fagnaði siðferðilegum sigri í áðurnefndum kosningum?

21.
Í kvikmyndinni 101 Reykjavík eftir Baltasar Kormák lék Victora Abril flamengókennarann Lólu sem sefur hjá Hlyni Birni, aðalsöguhetjunni, ef hetju skyldi kalla, sem Hilmir Snær Guðnason lék. Lóla á einnig í ástarsambandi við móður Hlyns Bjarnar, Berglindi. En hver lék hana? Þ.e. Berglindi

22.
Nóg um Hlyn Björn, en ungur íslenskur leikari, Björn Hlynur Haraldsson hefur getið sér gott orð hér á landi og nú erlendis en hann leikur nú í Lundúnum í verki sem skartar einnig hinu suður ameríska sjarmatrölli Gael Garcia Bernal. Hvaða verk er þetta?

23.
Póstnúmerin íslensku eru ekki öll landfræðilegs eðlis. Einhverjum hefur þótt póstnúmerin vera of alþýðleg fyrirbæri og því ekki gjaldgeng fyrir helstu embættismenn þjóðarinnar og því var sett upp sérstakt, jafnvel nokkuð huglægt póstnúmer, sem að mörgu leyti er umlukið af hinu landfræðilega póstnúmeri 101: Póstnúmerið er notað til að senda alþingi, forsetaembættinu, stjórnarráðinu og fleiri meginstólpum lýðveldisins Íslands bréf. Hvaða póstnúmer er þetta ?
24.
Eins og menn vita liggur lækur undir Lækjargötu. Ekki er mjög líklegt að sama lögmál gildi um Þjórsárgötu, en þessi lítt þekkta gata er í Reykjavík. En er Þjórsárgata í 101?

25.
Fátt er um stórbrotin náttúruundur í 101, en þó er þar að finna einn goshver, hann er reyndar manngerður og er við Perluna í Öskjuhlíð. Hvað heitir þessi hver?

26.
Ég ætla að lesa brot úr þekktu kvæði sem líklega gerist í 101, þótt ég hafi ekki ennþá fundið staðinn nákvæmlega:
Elegans,
glaum og dans,
videó,
almennilegt sjó.
Glas og rör,
stanslaust fjör,
síðan heim,
geim handa tveim,
Fyrirtaks veitingar...

Hver er næsta lína í þessum kveðskap?

27
í hvaða skáldsögu kemur hið alræmda Room 101 fyrir, herbergi sem menn fékk menn til að kjafta frá ýmsu?

28.
Í sögunni um 101 dalmatíuhund freistar Grimmhildur (Cruella de Vil) þess að sníða sér pels úr feldum þessara fallegu hunda. Hundakynið, sem börnin elska, en á í raunveruleikanum ekkert sérstaklega gott með að eiga samskipti við börn, er nefnt eftir Dalmatíu sem er svipmikið og fallegt landsvæði í Evrópulandi sem hefur ekki farið varhluta af grimmd í áranna rás. Í hvaða landi er héraðið Dalmatía?

29.
Textavarpið er einn vanmetnasti fjölmiðill landsins. Þar geta menn til dæmis gáð að ýmsum úrslitum í fjölda íþróttagreina, og séð komu og brottfarartíma flugvéla, þróun launavísitölu og lánskjaravísitölu 3 ár aftur í tímann, farið á kvótamarkað og, sem ég reyndar vona að enginn hér inni geri reglulega, tekið þátt í spjalli og sent öðrum áhorfendum textavarpsins kveðjur. En nú er spurt hvað er að finna á blaðsíðu 101 í textavarpinu?

30.
Við nálgumst nú endalok þessarar ágætu keppni og í lokaspurningunni er ekki leitað langt yfir skammt. Grannabar Grand Rokk heitir The Celtic Cross. Hinn keltneski kross. En hvernig lítur keltneskur kross út?

föstudagur, júlí 08, 2005

Spurningakeppni aldarinnar

Eða alla vega dagsins er á Grand Rokk síðdegis kl. 17:30. Tryggara er að mæta aðeins fyrr til að fá góð sæti og geta virt ritstjórn Röflsins betur fyrir sér þar sem hann þylur hverja snilldarspurninguna á fætur annarri. Þema dagsins er 101. Allir að mæta.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

7/7

Í gær var Tony Blair með pálmann í höndunum. Í dag? Það er erfitt að setja sig í spor Lundúnabúa sem í gær voru í skýjunum með valið Ólympíuborginni en þurfa nú að horfast í augu við þaulskipulagt hryðjuverk. Dagsetningin er engin tilviljun.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Tja...

Reyndar er Séð og heyrt ekkert skárra en Séð og heirt. Maður sér ekki betur á forsíðu S&H í dag að verið sé að ráðist inn í einkalíf óopinberra persóna. Framhjáhald er bannorð hjá okkur, sagði ritstjórinn í vandlætingartón um daginn. Fyrirsögnin "Eiginkona Jóns Geralds. Reyndi Jón Ásgeir að sænga hjá henni?" Fer hún ekki býsna langt með að afsanna bannorðið mikla? Maður spyr sig.

Þar og þá

Alveg er ég hissa á því að auglýsingastofan Hér og nú sé ekki löngu búin að kæra margnefnt hjólhýsavikurit fyrir að nota sama nafn. Þeir létu loksins verða af því í dag. Það er reyndar alveg í anda þessa "blaðs" að nota annarra manna nafn. Og hvað með Hér og nú innréttingar?
Eigum við ekki að hjálpa þeim? Ég auglýsi hér með eftir nýju nafni:

Fyrstu tillögur.

Slúðrið
Ruslapokinn
Hjólhýsatíðindi
Bubbafréttir
Frægrafokk
Séð og Heirt

Já, svei mér þá ef nafnið Séð og heirt lýsa þessu blaði mjög vel, alveg eins og Séð og heyrt, nema aðeins vitlausara.....

Annars er ég bara rólegur. Fyndið hvernig matar og kímnigáfa Chiracs klúðraði Ólympíuleikunum fyrir Frökkum. Menn segja mér að nú standi Blair með pálmann í höndunum sem aldrei fyrr. Honum skyldi þó ekki takast að hætta toppnum? Sei, sei, sei.

Anonymous sjálfur var með lausnina á getrauninni hér fyrir neðan: Reykjavíkurnætur. Hvernig er það, er ekki hægt að kaupa þá þætti á DVD?

Rolast einn i bænum?

Já hver vill ekki rolast í bænum um Verslunarmannahelgina. Það verður ekki leiðinlegt. Tækifæri bjóðast til að hjálpa til við lauflétta flutninga í frábærustu íbúð Norður Evrópu og fá sér svo bjór og annan til og fara á Innipúkann á eftir þar sem verður frábær dagskrá: Ekki bara Blonde Redhead og Cat Power heldur líka: Raveonettes (DK), Jonathan Richman (US), Hjálmar, Trabant, Mugison, Apparat, Hudson Wayne, Dr. Gunni, Skátar, Reykjavík!, Rass, Dr. Spock, Brim, Singapore Sling, Bob Justman, Vonbrigði, Lake Trout (US), Ampop, Helgi Valur, Lára, Úlpa, Tonic, Donna Mess, Dýrðin, Norton, Bacon, Hellvar, Kimano, Þórir, NineElevens, KGB og Bibbi og svo mætti lengi telja.

Getraun dagsins er: Úr hvaða lagi er fyrirsögnin þessa bloggs?

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Myndavélar í símum...

hafa haft sín áhrif á nútímaljósmyndun. Svona myndum hefur til dæmis fjölgað mjög mikið.



Mynd037
Originally uploaded by Adler.

Chirac borðar ekki enskan mat?

Mogginn alltaf fyrstur með fréttirnar: Frakki gerir grín að breskum mat!?! En ekki hvað?

Mig langar til útlanda en vegabréfið mitt er runnið úr gildi. Af hverju þarf ég að fara á Útlendingastofnun til að fá vegabréf? Ætti maður ekki að fara á Íslendingastofnun? Reyndar væri eðlilegast að hætta að láta Bandaríkjamenn ráða því hvernig vegabréfin okkar eru. Ef við þyrðum því þá gætum við til dæmis látið Árnastofnun gefa út íslensku vegabéfin. Þau væru þá upprúllað kálfsskinn letrað með hrafnagalli og krækiberjalyngsbleki með teiknaðri mynd af viðkomandi manni. Þetta gæti verið gríðarlega athyglisverð landkynning, ekki síst til landamæravarða veraldarinnar, sem mundu svo bera fagnaðarerindið um Ísland áfram.

Nei ég er ekki að fara til útlanda. Í staðinn flyt ég á Reynimel.

mánudagur, júlí 04, 2005

Á nýjum stað

Nú hefur vinnustaðurinn minn flutt búferlum. Við erum að flytja úr 45 fermetrum í Garðastrætinu yfir í 220 fermetra í Austurstrætinu, á efstu hæðinni fyrir ofan 10/11. Þetta húsnæði var áður þekkt sem æfingasalur World Class og hér glataði maður ófáum fituprósentunum á sínum tíma. Nú er ég kominn til baka og fituprósenturnar reyndar líka.

Fyrir utan gott rými er útsýni aðalprýði nýju höfuðstöðvanna og sést Esjan vel og líka Reykjanesfjallgarður og ýmislegt þar á milli

sunnudagur, júlí 03, 2005

PubQuiz

Sigur í Pubkvissinu - að þessu sinni með Kristjáni Guy, fyrrverandi fréttastjóra. Það verður nú að viðurkennast að hann vissi fleiri rétt svör en ég, t.d. nafn helsta aðstoðarmanns Taggarts. Þemað var Skotland. Einnig var spurt um Proclaimers, Hibernian, Ben Nevis og fleira skemmtilegt.

Þá var einnig staðfest að undirritaður (yfirritaður? alltumritaður?) verður spyrill í næstu keppni og eru lesendur hvattir til að fjölmenna. Ég hef ákveðið að þema keppninnar verði 101. Nú er bara að byrja að undirbúa sig. Þegar þessi orð eru rituð þá hafa fyrstu 18 spurningarnar verið samdar, ætti ég ekki að lofa léttri bjórspurningu svo sem flestir mæti?

Brilljant brúðkaup hjá Tobba og Evu í gær. Veislan var í sal Rafveitunnar í Elliðaárdalnum og var dagurinn allur frábær. Í dag er þynnri dagur en í gær. Kjúklingur er að marínerast og tvær nýjar bækur í poka: Blood Eagle eftir Craig Russel og The Queen of the South eftir Arturo Pérez-Reverte, sem er óðum að festa sig í sessi sem einn af mínum uppáhaldsrithöfundum.

föstudagur, júlí 01, 2005

Re-Union of the Snake, Duran Duran Úttekt Úttekt

Gær var gaman. Duran Duran Upphitun Upphitun á Kjartansgötu Kjartansgötu. Svo tókum við þá áhættu að fara með taxa í Egilshöll. Brilljant móment þegar DD stigu á svið og þeir stilltu sér upp í ljósashowinu. Böðuðu sig í töffaraskap, píkuskrækjum og tilbeiðslu eins og árið væri 1984.

Lögin komu ekkert sérstaklega á óvart, sándið var eitthvað trufla þá í byrjun en svo hrökk allt í fullan gang með ómældri gleði. Mér finnst LE Bon hafa farið töluvert fram í söng, en hann fékk líka góðan stuðning frá þokkafullu úunni og Nick Rhodes, þegar hann gaf sér hlé frá ljósmyndatökum. Muna: tékka betur á hvort það sé hægt að finna myndirnar hans einhvers staðar.

Flóki hafði á réttu að standa þegar hann sagði að John spilaði á bassann bara fyrir stelpurnar, gaurinn er frummynd töffarans að mínu mati, leðurbuxur og hermannajakki. Ég saknaði þess þó að sjá hann taka svokallað John Taylor hlaup. JT hlaup er þegar bassaleikari byrjar aftasta á sviðinu, hallar hausnum aftur, reigir sig og brokkar svo alveg fram á sviðsbrún og hneigir sig yfir bassann. Þetta var ekki gert í gær og er það miður.

Andy Taylor er útlitslega séð rokkarinn í hljómsveitinni, sítt hár, sólgleraugu, sígaretta. Þrátt fyrir frábært Duran krád þá glumdi nú mest í Egilshöll þegar hann tók gítarriff frá AC/DC. Þannig var nú það.

Fattaði í gær að Roger Taylor, mitt gamla goð, er tvífari Steingríms Eyfjörð myndlistarmanns. Báðir líka þetta pollrólegir. Roger var sá Duran maður sem var mest etís í útliti að mínu mati. Í hvítum hermannabuxum og leðurvesti.

Simon Le Bon var ágætur. Honum lá ekkert sérstaklega mikið á hjarta. Hann er í flottu formi og með skemmtilega eitís dansmúv. Svo gaf hann áhorfendum val milli þess að taka lagið Make Me Smile (Come Up and See Me) (Gömul B hlið, Coverlag) og Reflex. Salurinn var ekki í vafa. Fle fle flex.

Eitt af því sem fór mest í taugarnar á mér við Lou Reed tónleikana mína var hversu rosalega mikið hann breytti þekktustu lögunum sínum (gott og vel, skapandi listamaður og allt það), en Duranið fór ekki þangað. Þeir voru miklu meira að hugsa um showið. Sem er lika gott. En auðvitað hefði maður alveg getað haft gaman af því ef þeir hefðu eitthvað reynt að prjóna við, endurskapa, enduruppgötva. En kvöldið snerist ekki um það. Showið var flott.

Að tónleikunum loknum átti að halda í eitthvað after show partí uppi í Egilshöll en þegar við sáum að fleira fólk var á leið upp heldur en út. Stöldruðum því við á barnum í staðinn og hittum fólk og fórum svo út í von um leigubíl. Nei ó nei. Traffíkin var ennþá geðveik. Ég var við það að missa vonina þegar ég sá útundan mér stóru gulu limmósínuna 114 og án frekari refja þá brunuðum við framhjá öllu veseninu, niður í Ártún og þaðan beint niður á Hlemm miklu hraðar en allir aðrir og fyrir brot af kostnaði annarra. Horfði svo á kvöldþáttinn endursýndan og grét úr hlátri yfir Sigurjóni Bjarnasyni fréttamanni þegar hann ætlaði að tékka á Duran Duran stemmningunni í Laugardalshöll og greip í tómt.

Lagalisti kvöldsins var annars sem hér segir:

SUNRISE
HUNGRY LIKE THE WOLF
PLANET EARTH
UNION OF THE SNAKE
WHAT HAPPENS TOMORROW
COME UNDONE
CHAINS
SOUND OF THUNDER
TIGER TIGER
CHAUFFEUR
VIEW TO A KILL
ORDINARY WORLD
SAVE A PRAYER
TASTE THE SUMMER
NOTORIOUS
NICE
CARELESS MEMORIES
WILD BOYS

THE REFLEX
GIRLS ON FILM
RIO